Ferill 290. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 449  —  290. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur um heimild til afhendingar upplýsinga úr málaskrá lögreglu vegna afgreiðslu umsókna um ríkisborgararétt.


     1.      Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga um íslenskan ríkisborgararétt skal Útlendingastofnun fá umsögn lögreglustjóra á dvalarstað umsækjanda áður en umsókn um ríkisborgararétt er afhent Alþingi til afgreiðslu skv. 1. mgr. ákvæðisins. Er framkvæmdin sú í dag að lögregla afhendir upplýsingar úr málaskrá þar sem viðkomandi umsækjandi hefur verið til rannsóknar, jafnvel þótt mál hafi verið fellt niður eða því lokið með öðrum hætti án sakfellingar eða viðurlaga. Telur ráðherra að lögregla hafi fullnægjandi lagaheimild fyrir slíkri miðlun persónuupplýsinga úr málaskrá lögreglu til Útlendingastofnunar, og að slík miðlun samrýmist meðalhófsreglu persónuverndarlaga? Ef svo er, hvaða takmörk telur ráðherra vera á þeirri lagaheimild, þ.e. til hvaða upplýsinga nær heimildin og hverra ekki?
    Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra er framkvæmdin, hvað varðar umsagnir lögreglu til Útlendingastofnunar á grundvelli 2. mgr. 6. gr. laga um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100/1952, almennt sú að með þeim eru veittar upplýsingar um opin mál í lögreglukerfinu og lokuð mál, með hliðsjón af útreikningi á biðtíma skv. 9. gr. a sömu laga. Einnig eru veittar upplýsingar um dóma og sektir og hvort þær hafa verið greiddar að fullu eða refsing fullnustuð með öðrum hætti. Ef veittar eru upplýsingar um mál sem er lokið með öðrum hætti er það gert með hliðsjón af skilyrðum laganna um að „aðrar upplýsingar um umsækjanda mæla ekki gegn því“.
    Miðlun persónuupplýsinga úr málaskrá lögreglu til Útlendingastofnunar þarf að byggjast á heimild í 9. gr. laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Koma þar helst til skoðunar 3. tölul. 9. gr., sem kveður á um að vinnsla persónuupplýsinga sé heimil ef hún er nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu sem hvílir á ábyrgðaraðila, og 5. tölul. sömu greinar, sem kveður á um að vinnsla persónuupplýsinga sé heimil ef hún er nauðsynleg vegna verks sem er unnið í þágu almannahagsmuna eða við beitingu opinbers valds sem ábyrgðaraðili fer með. Ef um viðkvæmar persónuupplýsingar er að ræða, eins og þær eru skilgreindar í 3. tölul. 3. gr. laganna, þarf miðlun þeirra einnig að styðjast við viðbótarskilyrði skv. 1. mgr. 11. gr. laganna. Kemur þar helst til skoðunar 7. tölul. sem kveður á um að vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga geti verið heimil ef hún er nauðsynleg af ástæðum sem varða verulega almannahagsmuni og fer fram á grundvelli laga. Loks mega stjórnvöld ekki miðla upplýsingum um refsiverða háttsemi nema að uppfylltum skilyrðum 2. mgr. 12. gr. laganna og kemur þá helst til skoðunar, í því sambandi sem hér um ræðir, að miðlunin sé nauðsynleg í þágu lögbundinna verkefna viðkomandi stjórnvalds eða til að unnt sé að taka stjórnvaldsákvörðun, sbr. 3. tölul. þeirrar málsgreinar.
    Þá skal öll vinnsla persónuupplýsinga ávallt vera í samræmi við allar meginreglur 1. mgr. 8. gr. laganna, sem kveða m.a. á um að persónuupplýsingar skulu unnar með lögmætum og sanngjörnum hætti gagnvart hinum skráða, að þær séu fengnar í skýrt tilgreindum, lögmætum og málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi og að þær séu nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgreindan tilgang vinnslunnar.
    Við mat á því hvort vinnsla persónuupplýsinga byggist á fullnægjandi heimild og sé í samræmi við meginreglur persónuverndarlaga þarf, eftir atvikum, einnig að líta til annarra laga sem um hana gilda, í þessu tilviki laga um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100/1952. Ef um er að ræða umsögn, sem Útlendingastofnun ber að afla frá lögreglustjóra skv. 2. mgr. 6. gr. laganna, þarf, við ákvörðun um hvað teljast nauðsynlegar og viðeigandi upplýsingar í umsögnina, að líta til tilgangs umsagnarinnar og þess að Útlendingastofnun getur, að henni fenginni, ákveðið að veita íslenskan ríkisborgararétt í samræmi við ákvæði 7.–9. gr. a sömu laga.
    Samkvæmt hinum íslensku persónuverndarlögum og ákvæðum reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679 er það ábyrgð ábyrgðaraðila að sjá til þess að persónuupplýsingar séu ávallt unnar í samræmi við fyrrgreindar meginreglur, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2018 og 2. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar. Mat ábyrgðaraðila þar að lútandi sætir svo eftirliti Persónuverndar sem er sjálfstætt eftirlitsyfirvald með framkvæmd laganna og reglugerðarinnar hér á landi, sbr. 2. mgr. 1. gr. og 1. mgr. 38. gr. laganna og ákvæði 52. gr. reglugerðarinnar.

     2.      Telur ráðherra að Útlendingastofnun hafi fullnægjandi lagaheimild til framsendingar slíkra upplýsinga úr málaskrá lögreglu til Alþingis, og að slík framsending samrýmist meðalhófsreglu persónuverndarlaga? Ef svo er, hvaða takmörk telur ráðherra vera á þeirri lagaheimild, þ.e. til hvaða upplýsinga nær heimildin og hverra ekki?
    Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun er umsögn lögreglu skrifuð orðrétt inn í umsögn stofnunarinnar til Alþingis.
    Af 2. mgr. 6. gr. laga um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100/1952, má ráða að Útlendingastofnun er ætlað að afla umsagnar lögreglustjóra um umsókn um ríkisborgararétt, til framlagningar á Alþingi. Á hinn bóginn er til þess að líta að Alþingi er ekki bundið af ákvæðum III. kafla laganna eða öðrum lögbundnum viðmiðunum við ákvörðun um að veita ríkisborgararétt. Óljóst má því telja hvaða persónuupplýsingum er nauðsynlegt að miðla til Alþingis, í formi fyrrgreindra umsagna, til þess að það geti tekið ákvörðun um íslenskan ríkisborgararétt.
    Að öðru leyti vísast til svars við 1. lið fyrirspurnarinnar.

     3.      Liggur fyrir mat á áhrifum á persónuvernd við miðlun persónuupplýsinga frá lögreglu til Útlendingastofnunar vegna umsókna um íslenskan ríkisborgararétt?
    Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra hefur ekki verið gert mat á áhrifum á persónuvernd vegna miðlunar persónuupplýsinga frá lögreglu til Útlendingastofnunar vegna umsókna um íslenskan ríkisborgararétt.