Ferill 404. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 451  —  404. mál.
Fyrirspurn


til matvælaráðherra um veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar.

Frá Eyjólfi Ármannssyni.


     1.      Hver er ástæðan fyrir því að mati Hafrannsóknastofnunar að þorskstofninn hafi minnkað gríðarlega á síðustu árum þrátt fyrir mun minni sókn með lækkuðu veiðihlutfalli á reiknaðri stofnstærð?
     2.      Telur ráðherra koma til greina að fela Hafrannsóknastofnun að kanna ástæður þess að nýliðun þorskstofnsins hefur verið lítil frá því snemma á tíunda áratug síðustu aldar eða frá því að dregið var mjög úr sókn?
     3.      Telur ráðherra að lítil nýliðun, sem hefur farið minnkandi á síðastliðnum tveimur árum, þrátt fyrir að hrygningarstofn þorsks hafi verið mjög stór frá árinu 2011 og aldrei mælst stærri en nú í vor, gefi tilefni til endurskoðunar á þeirri kenningu að stór hrygningarstofn sé forsenda mikillar nýliðunar?
     4.      Hvað segir það um nákvæmni mats Hafrannsóknastofnunar á náttúrulegri stofnstærðarsveiflu fiskstofna og ráðgjafar um veiðar að ufsastofninn sé metinn í niðursveiflu þrátt fyrir mun minni veiðar en samkvæmt ráðgjöf stofnunarinnar síðastliðinn áratug, ýsustofninn sé metinn í talsverðum vexti þrátt fyrir mun meiri veiðar frá árinu 2018 en samkvæmt ráðgjöf stofnunarinnar og þorskstofninn sé metinn í talsverðri niðursveiflu þrátt fyrir að ráðgjöf stofnunarinnar hafi verið fylgt með minni sókn frá því snemma á tíunda áratug síðustu aldar?
     5.      Hefur verið notast við einhverjar líffræðilegar kennitölur á borð við vöxt og viðgang einstaklinga í þorskstofninum við ákvörðun á ráðlögðum heildarafla? Ef svo er, hvernig var þeim beitt og ef ekki, hvers vegna?
     6.      Hafa verið gerðar athuganir á náttúrulegri dánartölu þorsks, hvort hún sé rétt, hvort hún sé breytileg milli ára, árganga og fisktegunda, og hvort hún sé tengd vellíðan og vaxtarskilyrðum fiska?
     7.      Hver tekur ákvarðanir um breytingar á forsendum í gæðum á stofnmati og kæmi til greina að kynna þær opinberlega?
     8.      Hvaða fleiri breytur á borð við ástand annarra stofna, átu, hitastig o.fl., sem ekki er tilkynnt um í ráðgjöf og tækniskýrslum Hafrannsóknastofnunar, eru teknar með í reikninginn við undirbúning fiskveiðiráðgjafar? Er hver fisktegund rannsökuð og metin í einangrun eða í samhengi við aðra stofna?


Skriflegt svar óskast.