Ferill 407. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 455  —  407. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um heilsugæslusel í Suðurnesjabæ.


Flm.: Jóhann Friðrik Friðriksson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Ásmundur Friðriksson, Oddný G. Harðardóttir, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson, Guðbrandur Einarsson, Birgir Þórarinsson, Gísli Rafn Ólafsson.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að hefja vinnu við að opna heilsugæslusel í Suðurnesjabæ í takt við stefnu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja 2020–2023. Fjárframlög til stofnunarinnar taki mið af því verkefni svo að þjónustan geti hafist sem fyrst.

Greinargerð.

    Aðgangur að heilbrigðisþjónustu í heimabyggð skiptir sköpum fyrir velferð íbúa um allt land. Mikil fólksfjölgun á Suðurnesjum hefur jákvæð áhrif á uppbyggingu en kallar á aukna þjónustu sveitarfélaga og ríkis á vaxtarsvæðum. Í Suðurnesjabæ hefur fólksfjölgun verið veruleg á undanförnum árum og gera má ráð fyrir að brátt fari íbúafjöldi yfir 4.000 manns.
Í Suðurnesjabæ er hvorki heilbrigðisþjónustu né hjúkrunarheimili. Ef mið er tekið af stærð er bæjarfélagið eina sveitarfélagið sem stendur í þeim sporum. Árið 2009 voru heilsugæslusel lögð niður í Garði og Sandgerði vegna niðurskurðar og þjónustu beint til heilsugæslunnar í Reykjanesbæ sem rekin er af Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS). Heilsugæslusel í Vogum hefur ekki verið starfrækt frá 2020 vegna húsnæðisvanda. Sú starfsemi, ólíkt Suðurnesjabæ, hefur verið inni í fjármögnunarlíkani HSS frá því að það var tekið upp. Sem fyrr segir hefur íbúum á Suðurnesjum fjölgað verulega frá þeim tíma og hafa bæjaryfirvöld á Suðurnesjum kallað eftir aukinni þjónustu ríkisins á svæðinu um langt skeið til þess að bregðast við íbúafjölgun.
    Samkvæmt viðmiðum um heilbrigðisþjónustu á höfuðborgarsvæðinu má gera ráð fyrir að heilsugæslur þjónusti á bilinu 8.000–12.000 manns. Heilsugæslusel sem sinna takmarkaðri þjónustu má finna víða um land og er starfseminni stýrt af heilbrigðisstofnunum á viðkomandi þjónustusvæði. Bæjaryfirvöld og íbúar í Suðurnesjabæ hafa lengi kallað eftir því að þjónustan verði endurvakin til að tyggja grunnþjónustu í vaxandi samfélagi sem er nú orðið næststærsta sveitarfélag Suðurnesja og hafa stjórnendur HSS tekið undir þau sjónarmið.
    Í stefnumótun HSS 2020–2023 kemur fram markmið um að opna heilsugæslusel í Suðurnesjabæ en til þess að svo megi verða þarf fjármagn fyrir starfseminni að fylgja auk þess sem tryggja þarf viðveru hjúkrunarfræðinga og læknis með takmarkaða viðveru. Suðurnesjabær hefur nú þegar boðið fram hentugt húsnæði undir starfsemina sem bæði er vel staðsett, með nægum bílastæðum og fyrsta flokks aðgengi á jarðhæð. Bæjaryfirvöld í Suðurnesjabæ hafa átt gott samstarf við HSS enda verkefnið til þess fallið að auka þjónustu við íbúa og um leið draga úr álagi á heilsugæslu HSS í Reykjanesbæ. Aukið álag má einkum rekja til gríðarlegrar fólksfjölgunar á Suðurnesjum auk álags vegna komu ferðamanna og flóttamanna sem njóta þjónustu ríkisins á svæðinu.
    Í ályktun Alþingis um heilbrigðisstefnu til ársins 2030 kemur fram að heilsugæsluþjónusta sé veitt öllum. Heilsugæslunni er ætlað stórt hlutverk í heilbrigðisþjónustu við landsmenn samkvæmt lögum. Hún á að vera fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðiskerfinu þar sem notendur eiga kost á almennum lækningum, hjúkrun, endurhæfingu, heilsuvernd og forvörnum. Jafnframt kemur fram að heilsugæsluþjónusta er veitt í öllum heilbrigðisumdæmum og skipulögð af heilbrigðisstofnun hvers heilbrigðisumdæmis. Starfsstöðvar heilsugæslu eru víða og aðgengi að jafnaði nokkuð gott á landsbyggðinni.
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um heilsugæslur á landsbyggðinni sem kom út 2018 kemur fram að 18 heilsugæslusel séu staðsett á landinu og eru þau rekin af heilbrigðisstofnunum hvers heilbrigðisumdæmis. Sem stendur er HSS eina heilbrigðisstofnunin á landsbyggðinni sem ekki starfrækir heilsugæslusel. Nauðsynlegt er að tryggja getu HSS til þess að opna á ný þjónustur heilsugæslusela á Suðurnesjum samfara auknum áherslum á aðgengi og fyrirbyggjandi þjónustu í heilbrigðiskerfinu.