Ferill 336. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 466  —  336. mál.




Svar


matvælaráðherra við fyrirspurn frá Ásmundi Friðrikssyni um eflingu kornræktar á Íslandi.


     1.      Hvað líður vinnu starfshóps, sem er skipaður starfsfólki Landbúnaðarháskóla Íslands, við aðgerðaáætlun um eflingu kornræktar á Íslandi?
    Sú vinna sem vísað er í hófst í ágúst sl. þegar matvælaráðherra fól Landbúnaðarháskóla Íslands að vinna drög að aðgerðaáætlun til eflingar kornræktar á Íslandi. Niðurstaðna hennar er að vænta í mars 2023 samkvæmt samningi um verkefnið.

     2.      Hvernig hyggst ráðherra hvetja til innlendrar framleiðslu á korni til manneldis og fyrir búfé í ljósi þess að framleiðsla á korni til manneldis hér á landi er aðeins um 1% af heildarneyslu þjóðarinnar?
    Líkt og fram hefur komið hefur ráðherra sett af stað vinnu við mótun aðgerðaáætlunar til eflingar kornræktar. Markmið verkefnisins sem teymi á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands mun sinna er að:
     1.      kanna fýsileika á rekstri kornsamlags hér á landi,
     2.      leggja fram aðgerðaáætlun til eflingar kornræktar á Íslandi,
     3.      skilgreina þarfir á lágmarksbirgðum kornvöru á landinu.
    Efling kornmarkaðarins verður stærsta viðfangsefni verkefnisins, en það mun einnig innifela tillögur að annarri nauðsynlegri innviðauppbyggingu og ábendingum um hagkvæmustu leiðir til þeirrar uppbyggingar, svo sem á sviði kynbóta, bútækni og aðlögun stuðningskerfis til að búa til frekari hvata til ræktunar á korni.
    Líkt og fram kemur í svari við 1. lið fyrirspurnarinnar er niðurstaðna að vænta í mars 2023.

     3.      Hverjar þeirra leiða sem lagðar eru til í Skýrslu um tryggingamál bænda, sem unnin var af starfshópi á vegum ráðherra og gefin út á dögunum, telur ráðherra raunhæfasta til að tryggja starfsskilyrði bænda enn betur?
    Ráðherra hefur falið stjórn Bjargráðasjóðs að taka til skoðunar sameiningu Bjargráðasjóðs og Náttúruhamfaratryggingar Íslands samhliða endurbótum á kerfinu og er sú vinna hafin. Þessi leið er síðari valkostur tillögu tvö í skýrslu um tryggingamál bænda sem fyrirspyrjandi vísar til. Í þessari vinnu verða kannaðir kostir og gallar sameiningar eða þess að gera sjóðinn að deild innan Náttúruhamfaratryggingar með sambærilegri iðgjaldainnheimtu. Það verður gert með samtölum stofnananna sín á milli, auk könnunarviðræðna við samtök bænda og vátryggingafélög. Útfæra þarf fyrirkomulagið vandlega, ekki síst ef komið verður á nýrri tryggingu sem bæti þá vernd sem bændur hafa í dag.


     4.      Sér ráðherra fyrir sér að kannaður verði fýsileiki þess að hið opinbera komi sér upp korngeymslum sem hægt væri að sækja í ef innflutningur á korni stöðvast?
    Nýverið kom út skýrsla starfshóps forsætisráðherra um nauðsynlegar birgðir til þess að tryggja lífsafkomu þjóðarinnar á hættutímum. Í skýrslunni eru tillögur að næstu skrefum og hefur matvælaráðuneytið hafið þá vinnu sem snýr að málefnasviði þess. Sú vinna snýr m.a. að því að leggja mat á hvaða matvæli og nauðsynleg aðföng til matvælaframleiðslu, þ.m.t. korni, teljist til neyðarbirgða. Einnig þarf að leggja mat á umfang og magn birgða og fyrirkomulag birgðahalds. Þessi vinna verður unnin í samvinnu við hagaðila.
    Líkt og áður hefur komið fram er hluti af vinnu Landbúnaðarháskólans að kanna hvernig hægt sé að efla kornmarkaðinn á Íslandi ásamt því að koma með tillögur að annarri nauðsynlegri innviðauppbyggingu og hvað leiðir séu hagkvæmar til þeirrar uppbyggingar.