Ferill 158. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 478  —  158. mál.
Viðbótarsvar


matvælaráðherra við fyrirspurn frá Brynju Dan Gunnarsdóttur um laxeldi.


    Svar ráðherra frá 25. október sl. við 4. tölul. fyrirspurnarinnar, um erfðablöndun laxa, sbr. þskj. 403, var byggt á upplýsingum sem reyndust ekki nægilega tryggar. Fram kom í svarinu að erfðablöndun milli eldislaxa og laxa úr villtum stofnum hafi ekki verið staðfest. Það er rangt.
    Eftirfarandi er leiðrétt svar:

     4.      Telur ráðherra þörf á að bregðast frekar við með einhverjum hætti vegna vísbendinga um erfðablöndun milli eldislaxa sem sloppið hafa úr sjókvíum og villtra laxastofna?
    Hafrannsóknastofnun hefur rannsakað erfðablöndun milli villtra laxa og eldislaxa í íslenskum ám. Rannsóknirnar eru hluti af vöktun vegna áhættumats erfðablöndunar. Í skýrslu Hafrannsóknastofnunar um erfðablöndun eldislaxa af norskum uppruna við íslenska laxastofna frá árinu 2017 komu fram skýr merki um erfðablöndun í ám á Vestfjörðum. Við greiningar á sýnum, sem síðar hefur verið safnað, hefur fyrri greining verið staðfest, þ.e. erfðablöndun hefur átt sér stað. Frekari rannsóknir og greiningar standa yfir og eru endanlegar niðurstöður væntanlegar í samantekt innan tíðar.
    Rafræn vöktun laxveiðiáa hefur verið sett upp á ýmsum stöðum og í dag nær kerfið yfir Laugardalsá og Langadalsá í Ísafjarðardjúpi, Vesturdalsá í Vopnafirði og Krossá í Breiðafirði. Fáir fiskar úr fiskeldi hafa verið greindir frá því að kerfið var sett upp og fáir fiskar úr fiskeldi hafa veiðst í öðrum laxveiðiám. Áformað er að koma upp samsvarandi vöktun í Breiðdalsá í Breiðdal, Skjálfandafljóti, Blöndu, Víðidalsá, Laxá í Dölum, Langá, Úlfarsá og Elliðaám.
    Þrjú tilvik um strok úr kvíum teljast vera stór en flestir laxar úr eldi hafa veiðst í nánasta nágrenni við eldissvæðin, sbr. Mjólká í Arnarfirði.
    Ráðherra lítur strok eldislaxa úr kvíum mjög alvarlegum augum og hefur ákveðið að stofna starfshóp sem mun yfirfara þær reglur sem gilda hérlendis og þá ferla og framkvæmd sem er til staðar, en jafnframt afla gagna um reglur og framkvæmd þeirra í Noregi og Færeyjum. Hópurinn mun gera tillögur að endurskoðuðum reglum og verkferlum.