Ferill 424. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 481  —  424. mál.
Fyrirspurn


til dómsmálaráðherra um fatlaða umsækjendur um alþjóðlega vernd.

Frá Andrési Inga Jónssyni.


     1.      Hve margir fatlaðir einstaklingar hafa sótt um alþjóðlega vernd á undanförnum fimm árum? Sundurliðun óskast eftir ári umsóknar og því hvort mál hafi flokkast sem forgangsmál, Dyflinnarmál, verndarmál eða efnismeðferðarmál, sem og hvort umsókn var samþykkt eða synjað.
     2.      Í hversu mörgum tilfellum tók Útlendingastofnun eða kærunefnd útlendingamála fötlun umsækjenda ekki trúanlega? Í hversu mörgum tilvikum var ekki tekið tillit til fötlunar umsækjenda? Hvernig fór það mat fram?
     3.      Hve margir fatlaðir einstaklingar hafa fengið mál sitt tekið til efnismeðferðar á grundvelli „sérstakra ástæðna“ vegna fötlunar sinnar skv. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, á undanförnum fimm árum?
     4.      Hefur starfsfólk Útlendingastofnunar sem metur hvort umsækjandi um alþjóðlega vernd teljist vera í „sérstaklega viðkvæmri stöðu“ skv. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, hlotið sérstaka þjálfun eða menntun til að leggja mat á fötlun umsækjenda? Hefur það starfsfólk nauðsynlega sérstaka þekkingu á aðstæðum og þörfum fatlaðs fólks og á ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þannig að meðferð mála fatlaðra umsækjenda um alþjóðlega vernd og fatlaðs flóttafólks samræmist örugglega skyldum sem á íslenska ríkinu hvíla samkvæmt samningnum? Hefur verið haft samráð við Þroskahjálp, séfræðilækna eða aðra þar til bæra aðila við mat á fötlun umsækjenda um alþjóðlega vernd?
     5.      Í þeim tilvikum þegar umsókn fatlaðs einstaklings var hafnað undanfarin fimm ár, fór þá fram fullnægjandi rannsókn af starfsfólki Útlendingastofnunar með sérþekkingu á ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks á aðstæðum í viðtökuríki með tilliti til ákvæða samningsins?


Skriflegt svar óskast.