Ferill 157. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 490  —  157. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur um fund namibísks ráðherra í dómsmálaráðuneyti.


     1.      Hverjir sátu fund Netumbo Nandi-Ndaitwah, aðstoðarforsætisráðherra og utanríkisráðherra Namibíu, í dómsmálaráðuneyti 7. júní sl.?
    Á fundinum sátu, fyrir hönd ráðuneytisins:
    Brynjar Níelsson, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra.
    Bryndís Helgadóttir, skrifstofustjóri skrifstofu réttarfars og stjórnsýslu.
    Ragna Bjarnadóttir, skrifstofustjóri skrifstofu almanna- og réttaröryggis.
    Hinrika Sandra Ingimundardóttir, staðgengill skrifstofustjóra skrifstofu almanna- og réttaröryggis.

     2.      Hvert var tilefni fundarins og hvaða mál voru þar til umræðu?
    Tilefni fundarins var beiðni namibísku sendinefndarinnar um fund, sem fram kom á fundi með forsætisráðherra fyrr sama dag. Hvað varðar umræðuefni fundarins, þá verður ekki upplýst um það með vísan til 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, en samkvæmt því ákvæði er heimilt að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast, enda hafi þau að geyma upplýsingar um samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir. Hefur sú niðurstaða verið staðfest í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 2. nóvember sl. í máli nr. 1107/2022.

     3.      Hvenær var boðað til fundarins?
    Það var boðað til fundarins samdægurs þann 7. júní sl., en það var í kjölfar fundar namibísku sendinefndarinnar með forsætisráðherra.

     4.      Hver voru skilaboð íslenskra stjórnvalda til Netumbo Nandi-Ndaitwah á þessum fundi?
    Vísast aftur til 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga.

     5.      Á hvaða forsendum hefur aðstoðarmaður dómsmálaráðherra ekki viljað tjá sig um ástæður eða efni þess fundar sem hann sat fyrir hönd dómsmálaráðherra í dómsmálaráðuneyti? Með vísan til hvaða lagasjónarmiða hefur ekki verið upplýst af hálfu ráðuneytisins um tilefni og fundarefni?
    Vísast aftur til 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Af ákvæðinu leiðir að heimilt er að takmarka upplýsingarétt almennings þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast, enda hafi gögn að geyma upplýsingar um samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir. Gögnin sem um ræðir í þessu máli varða samskipti stjórnvalda við erlent ríki og umfjöllunarefnið er í eðli sínu viðkvæmt, ekki síst frá sjónarhóli hins erlenda stjórnvalds. Geti erlendir sendimenn ekki treyst því að trúnaður um samskiptin sé undantekningarlaust virtur, stefnir það nauðsynlegu trúnaðartrausti í hættu. Þar með gætu stjórnvöld ekki átt í árangursríkum samskiptum við erlend ríki til að sinna lögmætum hlutverkum sínum í þágu íslenska ríkisins með þeim afleiðingum að brýnir almannahagsmunir yrðu fyrir borð bornir. Eins og fram hefur komið hefur þessi niðurstaða verið staðfest í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 2. nóvember sl. í máli nr. 1107/2022.