Ferill 333. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 491  —  333. mál.
Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rafneyju Magnúsdóttur um framtíð Breiðafjarðar.


     1.      Hvað líður vinnu að því er snertir framtíð Breiðafjarðar, sbr. skýrslu Breiðafjarðarnefndar frá fyrra ári sem ráðherra var afhent ásamt erindi með tillögum um framtíð verndarsvæðis Breiðafjarðar?
    Í janúar 2021 sendi Breiðafjarðarnefnd umhverfis- og auðlindaráðherra erindi með tillögum sínum um framtíð verndar, nýtingar og stjórnunar verndarsvæðis Breiðafjarðar. Markmið nefndarinnar með tillögunum var að varðveita skuli náttúru og menningu svæðisins samhliða því að styrkja enn frekar samfélögin umhverfis fjörðinn, þar á meðal atvinnulíf.
    Í tillögum sínum til ráðherra lagði Breiðafjarðarnefnd áherslu á að endurskoða þurfi lög um vernd Breiðafjarðar og það verði gert sem fyrst. Um leið verði horft sérstaklega til þess möguleika að stækka svæðið svo það nái frá Bjargtöngum að Öndverðarnesi. Nefndin lagði einnig til við ráðherra að hann beiti sér fyrir því að Breiðafjörður verði skráður á lista yfir Ramsar-svæði, en Ramsar-samningurinn er alþjóðlegur samningur um verndun votlendis, þar á meðal strandsvæða niður á sex metra dýpi. Nefndin óskaði að auki eftir því að ráðherra hæfi vinnu við að skoða og kynna á næstu misserum kosti og galla stofnunar þjóðgarðs á Breiðafirði, á hluta svæðisins eða í heild, og skráningar svæðisins á heimsminjaskrá UNESCO.
    Í kjölfar skýrslu Breiðafjarðarnefndar var ákveðið að vinna að nánari greiningu á tillögum nefndarinnar. Unnið var að mótun verkefnis í samvinnu við Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi og Fjórðungssamband Vestfirðinga. Samningur var svo undirritaður í október 2021 á milli umhverfis-, orku og loftslagsráðuneytis, Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, Fjórðungssambands Vestfirðinga og Náttúrustofu Vesturlands um forsendugreiningu fyrir verndun Breiðafjarðar og tengsl við byggðaþróun. Gert er ráð fyrir að tillögum um framtíð verndarsvæðis Breiðafjarðar verði skilað til ráðherra um mitt ár 2023.

     2.      Hyggst ráðherra endurskoða lög um vernd Breiðafjarðar eins og kallað er eftir í skýrslunni?
    Í ljósi þess að unnið er að nánari greiningu á tillögum Breiðafjarðarnefndar um framtíð Breiðafjarðar verður beðið átekta þangað til skýrslu um málið verður skilað. Í framhaldi af því verða tillögurnar rýndar og með hliðsjón af þeim verður tekin ákvörðun um þau skref sem heillavænleg teljast fyrir framtíð Breiðafjarðar.