Ferill 235. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 492  —  235. mál.
Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um ferðakostnað og dagpeninga ráðherra.


     1.      Hver er frá og með árinu 2018 árlegur fjöldi utanlandsferða ráðherra, og þeirra sem fóru með málefnasvið hans, vegna starfa á vegum ráðuneytis?
     2.      Hve háar voru árlegar greiðslur dagpeninga vegna þessara ferða?

    Svör er að finna í eftirfarandi töflu:

Utanlandsferðir ráðherra árin 2018–2022
Ár Fjöldi ferða Dagpeningar Hótelgisting Annar ferðakostnaður
2018 6 789.435 272.412 6.544
2019 6 539.280 269.378 3.287
2020 0
2021 3 263.741 264.000 0
2022 4 199.555 348.997 0

     3.      Hversu oft á hverju ári fékk ráðherra 1/3 hluta dagpeninga og hve oft 2/3 hluta?
    Fjallað var um greiðslu ferðakostnaðar vegna ferðalaga á vegum ríkisins í reglum nr. 1/2009 sem tóku gildi í mars 2009. Í 9. gr. reglnanna kemur fram að ráðherrum skuli greiddir 2/ 3 hlutar dagpeninga, en 1/ 3 hluta dagpeninga ef um opinbera heimsókn var að ræða. Samkvæmt þeim reglum fengu ráðherrar sem ferðuðust á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytis (nú umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti) greidda 2/ 3 hluta dagpeninga á árunum 2018–2020. Um er að ræða tólf skipti alls eða í sex skipti árið 2018 og sex skipti árið 2019. Ráðherra fór engar ferðir erlendis árið 2020.
    Nýjar reglur um greiðslu ferðakostnaðar vegna ferðalaga á vegum ríkisins tóku gildi þann 1. október 2020. Samkvæmt þeim reglum hafa ráðherrar sem ferðast á vegum umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis frá þeim tíma fengið greidda 1/ 3 hluta dagpeninga en gistikostnaður er greiddur af ráðuneytinu auk fargjalda.

     4.      Hverjar voru árlegar fjárhæðir vegna hótelgistingar ráðherra annars vegar og hins vegar annars ferðakostnaðar?
    Sjá töflu í svari við 1.–2. tölul. fyrirspurnarinnar sem sýnir m.a. árlegar fjárhæðir vegna hótelgistingar og annars ferðakostnaðar fyrir árin 2018–2022.

     5.      Í hversu mörgum tilfellum hvert þessara ára var ráðherra ekið út á flugvöll í bifreiðum ráðuneytis og í hve mörgum tilfellum endurgreiddi ráðherra þann hluta dagpeninga sem ætlaður er til að standa undir þeim hluta ferðakostnaðarins?
    Í 8. gr. reglugerðar nr. 1281/2014, um bifreiðamál ríkisins, og síðar í 6. gr. reglna um greiðslu ferðakostnaðar og önnur starfskjör ráðherra frá ágúst 2021, segir að leggja skuli ráðherrum ríkisstjórnarinnar til bifreið til afnota vegna starfa sinna. Þar af leiðandi er ráðherra jafnan ekið til flugvallar í bifreið ráðuneytisins.

     6.      Hversu oft og hve háar voru árlegar endurgreiðslur ráðherra vegna styrkja og hvers konar hlunninda sem ráðherra naut erlendis og eiga samkvæmt reglum ferðakostnaðarnefndar að koma til frádráttar almennum dagpeningagreiðslum?
    Í 7. gr. reglna nr. 1/2009 og síðar í reglum um greiðslu ferðakostnaðar vegna ferðalaga á vegum ríkisins frá október 2020 segir að styrkir og hvers konar hlunnindi varðandi gistingu og fæði sem ríkisstarfsmenn njóta meðan á dvölinni stendur og dagpeningum sé ætlað að standa undir skuli koma til frádráttar almennum dagpeningagreiðslum eftir því sem við á og unnt er að meta hverju sinni. Á ferðalögum ráðherra ber við að gestgjafi eða sá aðili sem hýsir fund bjóði veitingar eða standi fyrir kurteisisviðburði sem hæfir tilefninu. Hefð hefur skapast fyrir því að leggja ekki sérstakt mat á umfangið þannig að það hafi leitt til frádráttar almennum dagpeningagreiðslum.

     7.      Ef við á, hvenær komst hefð á að leggja sérstakt mat á umfang hlunninda í ferðum ráðherra?
    Samkvæmt framansögðu hefur ekki komist á hefð hvað þetta varðar.

     8.      Ef við á, til hvaða aðgerða hefur verið gripið vegna ofgreiddra dagpeninga áður en farið var að leggja sérstakt mat á umfang hlunninda samkvæmt reglum um ferðakostnað og dagpeninga?
    Samkvæmt framansögðu hefur ekki verið gripið til sérstakra aðgerða hvað þetta varðar.