Ferill 354. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 493  —  354. mál.
Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Ingu Björk Margrétar Bjarnadóttur um skordýr.


     1.      Hefur staða skordýra í íslensku vistkerfi verið kortlögð?
    Smádýralíf landsins hefur verið kannað markvisst um nokkuð skeið og þar á meðal eru margir hópar skordýra. Vegna þess hve fræðimenn á þessu sviði hafa verið og eru fáir er enn langt í land með að afla viðunandi þekkingar og skilnings á þessum fjölbreytta og flókna heimi smádýranna. Hjá Náttúrufræðistofnun Íslands hefur verið lögð áhersla á það í grófum dráttum að kanna hvaða tegundir smádýra er að finna á landinu, útbreiðsla einstakra tegunda á landinu hefur verið kortlögð sem og búsvæðaval þeirra. Eins er unnið að því að byggja upp vísindasafn á þessu sviði með sýnum af þeim tegundum sem hér hafa fundist. Það er afar mikilvægt vegna tíðra breytinga og þróunar þekkingar í fræðigreininni sem kallar á endurskoðun tegunda.
    Á Íslandi eru fjölmargar gerðir vistkerfa þar sem þrífast mismunandi samfélög lífvera og samspil þeirra er margvíslegt og tekur breytingum. Skordýr og önnur smádýr eru lykilhópar í flestum vistkerfum, og skordýrin sérstaklega í þurrlendis- og ferskvatnsvistkerfum. Þar gegna þau mikilvægu hlutverki og eru oft undirstöðutegundir fyrir grósku og fjölbreytni, enda bæði mikilvæg fæða fyrir önnur dýr, neytendur á frumframleiðendum (plöntum og þörungum) og mikilvægir frjóberar. Eitt þekktasta dæmið hérlendis þar sem skordýr eru lykiltegundir eru mýflugnastofnar við Mývatn og Laxá. Þótt mörg vistkerfi hér á landi hafi verið rannsökuð og vöktuð vel, þ.m.t. skordýrin sem þar finnast og vistfræðileg hlutverk þeirra, þá er langt í land með að heildstæð þekking sé til staðar um stöðu skordýra í flestum þeim vistkerfum sem þau finnast í. Mikil þörf er á að efla rannsóknir á skordýrum og öðrum smádýrum hér á landi.

     2.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að bæta stöðu frjóvgandi skordýra í íslensku vistkerfi, t.d. með fjölgun plantna í almannarými, vernd óraskaðra svæða eða banni við notkun skordýraeiturs?
    Undanfarin ár hefur verið lögð áhersla á friðlýsingar svæða til verndar skordýrum og plöntum, m.a. á grundvelli samningsins um líffræðilega fjölbreytni. Í náttúruverndaráætlun 2009–2013 var lagt til að tvær tegundir skordýra yrðu friðlýstar, þ.e. tröllasmiður og tjarnarklukka auk brekkubobba sem er lindýr. Auk þess var lagt til að þrjú mikilvæg búsvæði þessara tegunda yrðu friðlýst. Búið er að friðlýsa tjarnarklukkuna og búsvæði hennar ofan Djúpavogs. Þá var lagt til að sex mikilvæg plöntusvæði yrðu friðlýst en það eru Snæfjallaströnd og Kaldalón, Eyjólfsstaðaskógur, Egilsstaðaskógur og Egilsstaðaklettar, Gerpissvæðið, skóglendi við Hoffell og Steinadalur í Suðursveit og að 24 tegundir háplantna og fjöldi tegunda mosa og fléttna yrðu friðlýstar. Nýlega var Gerpissvæðið friðlýst og skóglendi við Hoffell er innan Vatnajökulsþjóðgarðs og búið er að friðlýsa plönturnar.
    Í tengslum við nýja stefnumótun samningsins um líffræðilega fjölbreytni er unnið að endurnýjun stefnu Íslands fyrir verndun og sjálfbæra nýtingu líffræðilegrar fjölbreytni á Íslandi og innan efnahagslögsögunnar. Þar verður m.a. lögð sérstök áhersla á verndun tegunda sem eru í hættu og skipta mestu máli fyrir viðhald líffræðilegrar fjölbreytni, vistkerfin og þróun, virkni og þjónustu þeirra. Við mótun stefnu fyrir Ísland verður tekið mið af nýrri stefnu samningsins um líffræðilega fjölbreytni sem fyrirhugað er að samþykkja á fundi aðildarríkja samningsins í Montreal í Kanada í desember. Þar verður m.a. lögð áhersla á umfjöllun um og verndun líffræðilegrar fjölbreytni í skipulagsvinnu og áætlunum, endurheimt raskaðra vistkerfa, verndun tegunda, m.a. í neti verndarsvæða, og verndun óraskaðra svæða.