Ferill 386. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 494  —  386. mál.
Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Jóhanni Páli Jóhannssyni um samskipti við Björk Guðmundsdóttur og Gretu Thunberg.


     1.      Hvernig svaraði ráðherra erindi Bjarkar Guðmundsdóttur og Gretu Thunberg um yfirlýsingu um neyðarástand í loftslagsmálum haustið 2019?
    Í aðdraganda loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York 23. september 2019, þar sem forsætisráðherra átti að flytja ræðu, barst ráðherra erindi frá Björk Guðmundsdóttur. Erindið barst 6. september sama ár með smáskilaboðum (SMS) í síma forsætisráðherra. Ráðherra svaraði samdægurs með smáskilaboðum og síðan ræddust þær við í síma í framhaldi af því. Eftir símtalið sendi Björk forsætisráðherra nokkur smáskilaboð dagana 19., 22. og 23. september. Ráðherra sendi ein skilaboð 19. september. Í öllum tilfellum voru þessi samskipti við Björk Guðmundsdóttur og var forsætisráðherra aldrei í samskiptum við Gretu Thunberg. Í samskiptum ráðherra við Björk Guðmundsdóttur kom fram að Björk teldi mikilvægt að forsætisráðherra lýsti í ræðu sinni yfir neyðarástandi í loftslagsmálum af hálfu Íslands og Norðurlanda. Af hálfu ráðherra kom fram að hún myndi ræða málið við samráðherra sína en engin fyrirheit voru gefin um formlega yfirlýsingu.

     2.      Gaf ráðherra Björk og Gretu fyrirheit um að vænta mætti formlegrar yfirlýsingar frá ráðherra, ríkisstjórninni eða Alþingi um neyðarástand í loftslagsmálum?
    Í samskiptum forsætisráðherra við Björk Guðmundsdóttur voru engin fyrirheit gefin um formlega yfirlýsingu af hálfu ráðherra, ríkisstjórnar eða Alþingis um neyðarástand í loftslagsmálum. Í ræðu sinni á fyrrnefndu þingi Sameinuðu þjóðanna sagði forsætisráðherra m.a. að enginn velktist í vafa um það lengur að heimurinn stæði frammi fyrir neyðarástandi í loftslagsmálum. Eftir umræðu á vettvangi ríkisstjórnar um loftslagsmál var það niðurstaðan, eftir pólitískt samráð, að betur færi á því að láta verkin tala og leggja áherslu á að ná árangri með raunhæfum og nauðsynlegum aðgerðum í loftslagsmálum en að nálgast viðfangsefnið með yfirlýsingu af þessu tagi sem væri táknræn í eðli sínu og hefði ekki sjálfkrafa áhrif á aðgerðir gegn loftslagsvánni. Þá var málið rætt í óformlegum samtölum norrænna forsætisráðherra en loftslagsmál höfðu verið aðalefni fundar þeirra hér á landi í ágúst sama ár og hafði verið töluverð umræða allt árið 2019 um gagnsemi slíkra yfirlýsinga alls staðar á Norðurlöndum.

     3.      Hvatti ráðherra Björk og Gretu til að hætta við að halda blaðamannafund þar sem krafist yrði yfirlýsingar um neyðarástand í loftslagsmálum, sbr. frásögn Bjarkar Guðmundsdóttur í viðtali í Víðsjá á Rás 1?
    Í samskiptum forsætisráðherra við Björk Guðmundsdóttur kom fram að til stæði að skora opinberlega á forsætisráðherra Norðurlanda að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum. Forsætisráðherra hvatti ekki til þess að hætt yrði við slíkt en upplýsti um að þessi mál hefðu verið og væru til umræðu við ríkisstjórnarborðið.