Ferill 211. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 509  —  211. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúklingatryggingu, nr. 111/2000 (bótaréttur vegna bólusetninga).

Frá minni hluta velferðarnefndar.


    Minni hluti velferðarnefndar tekur undir sjónarmið í umsögnum sóttvarnalæknis og Sjúkratrygginga Íslands um að til að koma í veg fyrir misskilning á túlkun laganna og til frekari skýringa þurfi að gera frekari breytingar á lögunum. Ákvæði til bráðabirgða í 1. gr. frumvarpsins á einungis við um bólusetningu við apabólu en minni hlutinn tekur undir sjónarmið um að ástæða sé til að breyta lögunum þannig að réttindi sjúklinga séu útvíkkuð og að þau nái alltaf til bólusetninga á Íslandi með bóluefni sem íslensk heilbrigðisyfirvöld leggja til gegn smitsjúkdómum.
    Minni hlutinn telur að standi frumvarpið óbreytt sé svigrúm fyrir fleiri en eina túlkun á gildandi lögum um sjúklingatryggingu þegar kemur að bótaskyldu vegna afleiðinga bólusetninga, líkt og Sjúkratryggingar Íslands benda á.
    Minni hlutinn leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Í stað 1. gr. komi tvær nýjar greinar, svohljóðandi:
     a.      (1. gr.)
                  Á eftir orðinu „rannsókn“ í 1. málsl. 1. mgr. 1. gr. laganna kemur: bólusetningu sem heilbrigðisyfirvöld hvetja til.
     b.      (2. gr.)
                  Við 3. mgr. 3. gr. laganna bætist: eða bólusetningu sem heilbrigðisyfirvöld hvetja til.

    Guðbrandur Einarsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, lýsir sig samþykkan álitinu.

Alþingi, 9. nóvember 2022.

Oddný G. Harðardóttir,
frsm.
Guðmundur Ingi Kristinsson. Halldóra Mogensen.