Ferill 172. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 531  —  172. mál.
Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Ingibjörgu Isaksen um staðsetningu á þyrlu Landhelgisgæslunnar.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hefur ráðherra fyrirætlanir um að staðsetja eina þyrlu Landhelgisgæslunnar á Akureyri? Ef svo er, hvenær má vænta að til þess komi? Ef ekki, hvaða rök liggja að baki því að staðsetja ekki þyrlu á Akureyri?

    Að mati dómsmálaráðherra og Landhelgisgæslu Íslands væru kostir fólgnir í því að staðsetja þyrlu utan höfuðborgarsvæðisins og hefur þá m.a. verið horft til Norðausturlands, einkum Akureyrar eða Egilsstaða. Með því móti væri hægt að tryggja skemmri viðbragðstíma og auka þjónustu á Norður- og Austurlandi.
    Forsenda þess að unnt sé að staðsetja þyrlu úti á landi er að verkefnið sé fjármagnað á fullnægjandi hátt. Verulegur viðbótarkostnaður fylgir því að vera með þyrlur staðsettar á fleiri en einum stað, bæði hvað viðhaldsmál og aðstöðu varðar en ekki síst hvað áhafnir varðar. Núverandi rekstur flugdeildar Landhelgisgæslunnar miðast við að starfsemin sé á Reykjavíkurflugvelli. Þær sex þyrluáhafnir sem starfa hjá stofnuninni sinna bakvöktum í viku í senn, allan sólarhringinn. Innan þess tímabils fljúga áhafnir skipulögð eftirlits- og æfingaflug og bregðast við útköllum. Þess á milli er áskilið að áhafnarmeðlimir séu staðsettir á höfuðborgarsvæðinu, í að hámarki 15 mínútna fjarlægð frá Reykjavíkurflugvelli, tilbúnir að bregðast við ef þörf krefur. Ljóst er að slíkt fyrirkomulag gengur ekki upp ef áhöfn á að vera á viðbragði frá Akureyri. Til að tryggja viðbragðsgetu allan sólarhringinn þyrfti að minnsta kosti þrjár viðbótaráhafnir við þær sex sem eru starfandi í dag, með tilheyrandi launa- og þjálfunarkostnaði auk kostnaðar við viðbótarflugtíma til að uppfylla kröfur um þjálfun hvers áhafnarmeðlims. Kostnaður við slíka breytingu, án tillits til aðstöðu, viðhalds- og leyfismála og fleira þess háttar nemur yfir einum milljarði hið minnsta og fjárframlög til Landhelgisgæslunnar gera ekki ráð fyrir slíku fyrirkomulagi. Þá má nefna það að núverandi leigusamningar um þær þrjár þyrlur sem Landhelgisgæslan hefur yfir að ráða í dag renna út í lok febrúar 2025 vegna tveggja þeirra og leigusamningur þriðju þyrlunnar rennur út í lok apríl 2026. Stýrihópur um framtíðarlausn vegna björgunarþyrlna fyrir Landhelgisgæsluna er því að störfum núna og vinnur að lausn í þessum efnum.
    Að lokum má nefna að á vegum heilbrigðisráðherra er starfandi samráðshópur um sjúkraflug en hann er m.a. að skoða með hvaða hætti hægt er að auka sjúkraflutningsþjónustu með loftförum. Í þeirri vinnu er m.a. til skoðunar hvort staðsetja eigi þyrlu úti á landi en gert er ráð fyrir að hópurinn skili tillögum til heilbrigðisráðuneytisins í lok þessa árs.