Ferill 206. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 532  —  206. mál.
Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur um stöðu kvenna í fangelsum.


     1.      Til hvaða aðgerða hyggst ráðherra grípa til að bæta stöðu kvenna í fangelsum landsins í kjölfar nýrrar skýrslu umboðsmanns Alþingis þar sem fram kemur að eina opna úrræðið fyrir konur sé á Sogni?
    Ráðherra tekur undir það sem fram kemur í skýrslu umboðsmanns Alþingis um að tilefni sé til að skoða hvort halli á konur innan fangelsiskerfisins og þá með hvaða hætti. Til stendur að gera breytingar á lögum um fullnustu refsinga og verða þessi sjónarmið þá tekin til sérstakrar athugunar sem og aðrar athugasemdir frá umboðsmanni.

     2.      Tekur ráðherra undir það mat umboðsmanns Alþingis að það halli á konur innan fangelsismálakerfisins að þessu leyti?
    Í skýrslu umboðsmanns segir að tilefni sé til að skoða aðstæður kvenfanga í íslenskum fangelsum með heildstæðari hætti en hefur verið gert þar sem meiri hluti fanga sé karlkyns og fullnustukerfið því að miklu leyti mótað með það í huga. Innan fullnustukerfisins hefur verið reynt að koma til móts við aðstæður kvenna í fangelsum og þá staðreynd að konur hafi færri vistunarmöguleika en karlar í fangelsum. Það hefur til dæmis verið gert með því að konur hafa aðgang að stærra útivistarsvæði á Hólmsheiði en karlar og aukatómstundaherbergi þar og þá fá þær forgang í vinnu á Hólmsheiði. Sjálfboðaliðar hafa á tímabilum komið í fangelsin með jóga- og leikfimitíma fyrir konur.

     3.      Hversu margar konur voru í afplánun á því tímabili sem skoðun umboðsmanns tók til?
    Ellefu konur, þar af sex konur á Hólmsheiði, þrjár á Sogni og tvær utan fangelsa.

     4.      Hversu margar konur eru á biðlista eftir afplánun í fangelsi?
    38 konur voru á biðlista eftir afplánun í fangelsi í lok september 2022.

     5.      Hversu margir karlmenn eru á biðlista eftir afplánun í fangelsi?
    279 karlar voru á biðlista eftir afplánun í fangelsi í lok september 2022.