Ferill 301. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 534  —  301. mál.
Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Diljá Mist Einarsdóttur um vistráðningu (au pair).


     1.      Hyggst ráðherra skoða útvíkkun dvalarleyfis vegna vistráðningar (au pair) frá ríkjum utan EES-svæðisins þannig að heimilt verði að endurnýja leyfið eftir eitt ár?
    Dómsmálaráðherra hyggst leggja fram breytingar á lögum um útlendinga á næstkomandi vorþingi er varða breytingar á dvalarleyfisköflum laganna. Við þá vinnu verður þetta á meðal þeirra atriða sem tekið verður til skoðunar.

     2.      Telur ráðherra þörf á að betrumbæta eftirlit með vistráðningu hérlendis til að koma í veg fyrir misbeitingu kerfisins? Ef svo er, hvernig yrði slíku eftirliti háttað?
    Samkvæmt 8. mgr. 68. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, skal lögregla að beiðni Útlendingastofnunar fara á heimili hins vistráðna og kanna aðstæður hans. Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið aflaði frá Útlendingastofnun hefur stofnunin í nokkur skipti óskað eftir því að lögregla kanni aðstæður hjá vistfjölskyldu þegar vaknað hafa vaknað áhyggjur þess efnis að vistráðinn einstaklingur sé látinn vinna mun meira en samningur segir til um og búi jafnvel við verri aðstæður en gert er ráð fyrir. Í framkvæmd hefur nokkur bið verið á að slík könnun sé framkvæmd af hálfu lögreglu en það kemur til vegna forgangsröðunar verkefna. Að mati dómsmálaráðherra er nauðsynlegt að virkt eftirlit sé með vistráðningum til þess að koma í veg fyrir misnotkun. Til skoðunar er í ráðuneytinu að lögfesta sérstaka eftirlitsheimild í lögum um útlendinga varðandi úttekt á aðstæðum vistráðinna hér á landi til handa öðrum aðilum en lögreglu, t.d. óháðum millilið, en lög gera í dag ekki í ráð fyrir því að aðrir en lögregla sinni slíku eftirliti.