Ferill 361. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 535  —  361. mál.
Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Ingu Björk Margrétar Bjarnadóttur um fatlað fólk í fangelsum.


     1.      Eru til upplýsingar um hve hátt hlutfall fanga á Íslandi eru fatlaðir eða eru með greiningar sem gætu sett þá í hóp fatlaðs fólks?
    Fangelsismálastofnun heldur ekki utan um þær upplýsingar.

     2.      Hvernig er félagslegum stuðningi við fatlaða fanga háttað, m.a. með aðgengi að félagsráðgjöfum, þroskaþjálfum, hjálpartækjum og annars konar stuðningi?
    Félagsráðgjafar Fangelsismálastofnunar sinna öllum föngum óháð fötlun. Engir þroskaþjálfarar starfa á vegum stofnunarinnar og stofnunin á engin hjálpartæki sjálf. Í fangelsinu Hólmsheiði er sérstakur klefi sem er sérútbúinn fyrir hreyfihamlaða einstaklinga sem á honum þurfa að halda. Jafnframt útvegar Fangelsismálastofnun þeim föngum sem á þurfa að halda hjálpartæki og önnur frekari úrræði.

     3.      Hvernig er viðeigandi aðlögun, sem skilgreind er í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, beitt í fangelsum á Íslandi?
    Auk þess sem fangelsið Hólmsheiði hefur yfir að ráða sérútbúnum klefa fyrir hreyfihamlaða er unnt að tryggja hreyfihömluðum pláss í opna fangelsinu Sogni með litlum breytingum á húsnæðinu þar. Varðandi annars konar fatlanir er metið hverju sinni í samráði við alla viðeigandi aðila hvaða aðstoð og hjálpartæki viðkomandi fangi þarf á að halda. Þjónustuþörf hvers og eins er metin í hverju tilviki fyrir sig en þannig hefur stofnunin reynt að koma til móts við fanga með fötlun, t.d. við val á deild innan fangelsanna og við val á starfi innan fangelsanna. Fangar með fötlun eru meðal þeirra sem eru í forgangi hjá starfsmönnum meðferðarsviðs Fangelsismálastofnunar og félagsráðgjafar sjá um að fá inn réttindagæslumann fatlaðra þegar þörf er á.

     4.      Er tillit tekið til fötlunar fanga í hugmyndafræði um betrunarvist og náms-, atvinnu- og stuðningsúrræði aðlöguð?
    Ávallt er reynt að mæta hverjum fanga á þeim stað sem hann er og aðstoða hvern og einn eftir þörfum. Í fangelsum er tekið tillit til fötlunar og föngum með fötlun er boðin aðstoð við að njóta sambærilegra tækifæra og öðrum föngum til náms og atvinnu innan fangelsanna.