Ferill 477. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 560  —  477. mál.
Fyrirspurn


til forsætisráðherra um verðbólgu og peningamagn í umferð.

Frá Ásthildi Lóu Þórsdóttur.


     1.      Hvað hefur verið dregið mikið úr peningamagni í umferð frá því að ársverðbólga fór yfir efri vikmörk verðbólgumarkmiðs stjórnvalda og Seðlabanka Íslands í mars 2021 og hvernig? Ef ekki hefur verið dregið úr peningamagni, hvers vegna er það og hversu mikið hefur það þá aukist?
     2.      Hversu mikið nýtt peningamagn hefur orðið til af völdum verðtryggingar útlána innlánsstofnana frá mars 2021 og hvernig hefur peningamagn í umferð þróast að því frádregnu á sama tímabili?
     3.      Hvaða áhrif hafa lánveitingar lífeyrissjóða á peningamagn í umferð?
     4.      Hvaða áhrif hafa hækkanir vaxta þegar tekinna lána á peningamagn í umferð?
     5.      Hvaða áhrif hafa hækkanir vaxta lána sem hvíla á þegar keyptum fasteignum sem ekki stendur til að selja á framboð, eftirspurn og verðmyndun á húsnæðismarkaði?
     6.      Hvers vegna eru eingöngu vextir á verðtryggðum húsnæðislánum lagðir til grundvallar við útreikning á húsnæðislið vísitölu neysluverðs í ljósi þess að minni hluti húsnæðislána er verðtryggður og telur ráðherra þá aðferð geta leitt til útkomu sem endurspeglar raunverulegan húsnæðiskostnað heimilanna?
     7.      Hvaða áhrif hefði það haft á þróun vísitölu neysluverðs frá árinu 2011 ef vextir verðtryggðra og óverðtryggðra húsnæðislána í réttum hlutföllum miðað við raunverulega útbreiðslu hvors lánsforms um sig á hverjum tíma hefðu verið lagðir til grundvallar við útreikning húsnæðisliðar vísitölunnar á því tímabili?
     8.      Telur ráðherra koma til greina að taka upp markmið um stöðugt peningamagn í umferð í stað verðbólgumarkmiðs við stjórn peningamála?


Skriflegt svar óskast.