Ferill 335. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 563  —  335. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Guðrúnu Hafsteinsdóttur um niðurgreiðslu Sjúkratrygginga Íslands á aðgerðum vegna skarðs í vör.


     1.      Hve háa upphæð hafa Sjúkratryggingar Íslands greitt vegna aðgerða á skarði í vör hjá börnum frá 1. janúar 2020?
    Aðgerðir vegna skarðs í vör hjá börnum eru framkvæmdar á sjúkrahúsum og eru því ekki greiddar af Sjúkratryggingum Íslands. Samkvæmt upplýsingum frá Landspítala hafa hafa alls 29 börn farið í 42 skurðaðgerðir vegna skarðs í vör frá 1. janúar 2020 til loka september 2022. Um er að ræða aðgerðir innan lýtalækninga. Hér er ekki um að ræða aðgerðir hjá kjálkaskurðlæknum sem tengjast tannviðgerðum/-réttingum. Hér í töflum má sjá heildarkostnað við innlögn og skurðaðgerð umræddra barna fyrir hvert ár á verðlagi hvers árs ásamt komum á göngudeild. Alls er kostnaðurinn um 58,5 milljónir kr. á verðlagi hvers árs.
    Kostnaður vegna skarðs í vör, legur og aðgerðir ásamt komum á göngudeild til undirbúnings og/eða eftirlits eftir aðgerð:

Innlögn á legudeild: Komur á göngudeild:
Tímabil: janúar 2020 – sept. 2022 Tímabil: janúar 2020 – sept. 2022
Ár útskriftar Fjöldi lega Kostnaður í heild Ár útskriftar Fjöldi lega Kostnaður í heild
2020 17 24.945.826 2020 22 397.160
2021 16 19.560.517 2021 32 383.866
2022 9 12.898.777 2022 15 270.591
Samtals 42 57.405.120 Samtals 69 1.051.617
Kostnaður úr kostnaðarkerfi Landspítala Kostnaður úr kostnaðarkerfi Landspítala
Kostnaður á verðlagi hvers árs Kostnaður á verðlagi hvers árs

     2.      Hafa Sjúkratryggingar Íslands hafnað niðurgreiðslu vegna einhverra aðgerða á skarði í vör hjá börnum frá 1. janúar 2020?
    Hér er um aðgerðir og meðferð á Landspítala að ræða og því kemur ekki til niðurgreiðslu af hálfu Sjúkratrygginga Íslands.

     3.      Hve mörg börn biðu 1. september 2022 eftir aðgerð vegna skarðs í vör?
     4.      Hve langur er meðalbiðtími barna eftir aðgerð vegna skarðs í vör?
    Hinn 1. september 2022 voru 4 börn á biðlista eftir aðgerð vegna skarðs í vör. Meðalbiðtími þeirra barna sem fóru í aðgerð á tímabilinu 1. jan 2022 – 31. ágúst 2022 var 105 dagar (miðgildið 114 dagar) eða 15 vikur (miðgildi 16,3 vikur).
    Það skal tekið fram að orðið biðlisti getur verið villandi í þessu tilviki og gæti gefið í skyn að viðkomandi barn sé á lista því það komist ekki að hjá spítalanum og verði að bíða eftir aðgerð. Barn sem sett er á biðlista er þar ekki síst til að halda því ferli sem lýst er hér á eftir, þar sem meðferðin er í áföngum, þ.e. röð aðgerða til lokunar skarðs sem hver um sig hefur sinn tímaramma, sbr. meðferðaráætlun.
    Til upplýsingar fylgir hér meðferðaráætlun Landspítala fyrir börn með skarð í vör.
    Meðferðaráætlun:
          Draga saman skarð með plástrum (Dynacleft) frá fæðingu eða aðgerð til bráðabirgðalokunar („Lip-adhesion“: 2–8 v aldur).
          Aðgerð til lokunar á vör og harða/fremri gómi: 3–6 mánaða aldur (líkamsþyngd 5 kg eða meira).
          Aðgerð til lokunar á mjúka gómi/aftari hluta góms: 6–18 mánaða aldur.
          Bein flutt frá mjöðm í skarð: u.þ.b. 8–10 ára (fullorðins framtennur komnar niður).
          13–16 ára: Útlitsgerðir/viðgerð á örum.
          16–20 ára: Kjálka- og/eða nefaðgerðir.
          Samhliða er margþætt meðferð tannlækna, talmeinafræðinga, HNE-lækna.