Ferill 363. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 564  —  363. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Ingu Björk Margrétar Bjarnadóttur um breytingar á reglugerð um blóðgjafir.


     1.      Hvernig miðar vinnu við breytingar á reglugerð nr. 441/2006 um söfnun, meðferð, varðveislu og dreifingu blóðs og viðauka IV við hana, í því skyni að afnema mismunun gagnvart karlmönnum sem stunda kynlíf með öðrum karlmönnum þegar kemur að blóðgjöf?
    Ráðherra ákvað í byrjun þessa árs að þessi mál yrðu skoðuð betur með hagsmuni bæði blóðþega og blóðgjafa að leiðarljósi með það fyrir augum að afnema frávísun karlmanna sem stunda kynlíf með öðrum karlmönnum frá blóðgjöf. Nú stendur yfir heildarstefnumótun á blóðgjafaþjónustu hér á landi með aðkomu Blóðbankans, Landspítalans, sóttvarnalæknis og ráðgjafanefnd um fagleg málefni blóðbankaþjónustu. Áætlað er að samráð verði við fleiri hagaðila í haust og að stefnumótun verði lokið um næstu áramót.

     2.      Hvenær er gert ráð fyrir að mismunun sem blóðgjafar hafa sætt á grundvelli kynhneigðar verði afnumin?
    Gert er ráð fyrir að taka upp NAT-skimun á öllum blóðhlutum hjá Blóðbankanum um áramótin 2022–2023. Kostnaðarmat við upptöku NAT-skimunar er í vinnslu hjá Landspítalanum en áætlað er að það liggi fyrir á næstu vikum.
    Stefnt er að einstaklingsbundinni áhættugreiningu. Með því er átt við að hæfi hvers og eins einstaklings til að gefa blóð er metið sérstaklega.