Ferill 252. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 565  —  252. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um aðgerðir gegn kynsjúkdómum.


     1.      Hvernig hefur ráðuneytið fylgt eftir þeim tillögum um aðgerðir sem fram komu í greinargerð starfshóps velferðarráðuneytis um kynsjúkdóma á Íslandi, sem skilað var í janúar 2018?
    Í greinargerð starfshópsins kom fram sú tillaga að sóttvarnalæknir fylgist reglulega með faraldsfræði kynsjúkdóma og birti yfirlit yfir þróun þeirra. Heilbrigðisráðherra samþykkti þessa tillögu og fól sóttvarnalækni umsjón með framkvæmd hennar.
    Í greinargerð starfshópsins var lagt til að húð- og kynsjúkdómadeild Landspítala í samvinnu við smitsjúkdómadeild Landspítala útbúi verklagsreglur fyrir heilbrigðisstarfsmenn um greiningu og meðferð kynsjúkdóma, og að þeim verði dreift á allar heilbrigðisstofnanir landsins. Skv. 5. gr laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, getur landlæknir gefið heilbrigðisstofnunum og heilbrigðisstarfsmönnum almenn fagleg fyrirmæli um vinnulag, aðgerðir og viðbrögð af ýmsu tagi sem þeim er skylt að fylgja. Ráðuneytið telur gerð samræmdra verklagsreglna um greiningu og meðferð kynsjúkdóma fyrir allar heilbrigðisstofnanir landsins falla betur að hlutverki embættis landlæknis en einstakra heilbrigðisstofnana og var embætti landlæknis því falið að móta samræmt verklag á landsvísu um greiningu og meðferð kynsjúkdóma, í samráði við þá aðila sem mesta reynslu og þekkingu hafa af framkvæmdinni. Embætti landlæknis og sóttvarnalæknir gáfu út leiðbeiningar árið 2019 um greiningu og meðferð lekanda, klamydíu, sárasóttar og HIV fyrir heilbrigðisstarfsmenn sem leiddu m.a. til þess að skimanir fyrir kynsjúkdómum hófust í fangelsum á vegum heilsugæslunnar og fyrirbyggjandi meðferð gegn HIV hófst á smitsjúkdómadeild Landspítala. Einnig var nálaskiptiverkefni fyrir fíkla eflt með útgáfu sérstakra kassa sem útbúnir voru af Landspítala.
    Með vísan til 4. og 5. gr. laga um landlækni og lýðheilsu og 4. gr. sóttvarnalaga, nr. 19/1997, var embætti landlæknis falið, í samvinnu við fagaðila, að vinna fræðsluefni og leiðbeiningar til að tryggja samræmda fræðslu til almennings og til að tryggja að greining og meðferð verði samræmd á landsvísu. Í kjölfarið fór af stað verkefni á vegum embættis landlæknis um kynfræðslu og opnun smokkasjálfsala í mörgum framhaldsskólum á árinu 2018. Sóttvarnalæknir kom á framfæri við menntamálaráðuneytið mikilvægi þess að bæta kennslu í grunn- og framhaldsskólum um kynsjúkdóma og kynheilbrigði. Einnig getur almenningur nálgast ítarlegar upplýsingar og fræðslu um kynheilbrigði á vef heilsuveru.

     2.      Hvernig hefur nýgengi helstu kynsjúkdóma þróast frá því að starfshópurinn skilaði skýrslu sinni?
    Taflan sýnir fjölda nýrra greininga á 100.000 íbúa fyrir árin 2018–2021:

         Fjöldi á 100.000 íbúa
2018 2019 2020 2021
Klamydía 530 502 489 489
Lekandi 30 34 26 29
Sárasótt 6 11 8 13
HIV 11 9 8 6

     3.      Hvernig er aðgengi að hraðgreiningarprófum til að greina HIV háttað í nágrannalöndum Íslands? Hvaða áform hefur ráðuneytið um að auka aðgengi að slíkum prófum hér á landi?
    Sjá svar við 4. lið fyrirspurnarinnar.

     4.      Hvernig er aðgengi að heimaprófum til að greina aðra kynsjúkdóma háttað í nágrannalöndum Íslands? Hvaða áform hefur ráðuneytið um að auka aðgengi að slíkum prófum hér á landi?
    Heilbrigðisráðuneyti hefur ekki upplýsingar um hvernig aðgengi í nágrannalöndum Íslands er að hraðgreiningarprófum til að greina HIV né upplýsingar um heimapróf til að greina aðra kynsjúkdóma.
    Sóttvarnalæknir hefur víðtækt verksvið samkvæmt sóttvarnalögum, nr. 19/1997, þar á meðal að halda smitsjúkdómaskrá til að fylgjast með útbreiðslu smitsjúkdóma með öflun nákvæmra upplýsinga um greiningu þeirra frá rannsóknastofum, sjúkrahúsum og læknum. Ef stjórnvöld myndu auka aðgengi að heimaprófum til að greina tilkynningarskylda kynsjúkdóma hér á landi má gera ráð fyrir að sóttvarnalæknir stæði frammi fyrir áskorun að uppfylla lagalega skyldur sínar um að halda smitsjúkdómaskrá, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 5. gr. sóttvarnalaga, nr. 19/1997.