Ferill 170. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 571 —  170. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur um læknaskort.


     1.      Liggur fyrir sjálfstætt tölulegt mat af hálfu heilbrigðisráðuneytis um hver þörfin er hvað varðar fjölda starfandi lækna hér á landi nú, á næstu árum og áratugum?
    Landsráð um menntun og mönnun var stofnað í maí 2021. Hlutverk þess er að vera ráðgefandi fyrir undirbúning ákvarðana heilbrigðisráðherra á sviði mönnunar og menntunar í heilbrigðisþjónustu, auk þess að vera samráðsvettvangur á þessu sviði þvert á menntastofnanir, fagfélög, sjúklingasamtök og aðra hagsmunaaðila.
    Hingað til hefur ekki legið fyrir sjálfstætt tölulegt mat af hálfu ráðuneytisins um hver þörfin er á fjölda starfandi lækna í dag og til framtíðar.
    Í heilbrigðisráðuneytinu fer nú fram vinna við umfangsmikla mönnunargreiningu þvert á heilbrigðiskerfið sem mun hjálpa okkur við að kortleggja mönnunina í dag og þörfina til framtíðar. Mönnunarþörf lækna þarf að greina út frá fjölmörgum breytum. Taka þarf meðal annars tillit til breyttrar aldurssamsetningar samfélagsins, mannfjöldaþróunar, fjölda ferðamanna, fjármagns, verkefna hverrar stofnunar og skipulags vinnunnar.

     2.      Hyggst ráðherra fara í markvissar aðgerðir til að vinna að því að hér verði starfandi fjöldi lækna í samræmi við þörf? Hverjar eru þær aðgerðir sem ráðherra telur vænlegastar til að fjölga starfandi læknum hérlendis?
    Já, í fyrsta lagi er verið að styrkja enn frekar sérnám lækna hér á landi, í öðru lagi þarf fjölga læknanemum og í þriðja lagi að liðka eins og unnt er fyrir starfsleyfisveitingum lækna með erlenda menntun og/eða sérfræðimenntun. Síðan er viðvarandi verkefni að stuðla að bættu starfsumhverfi lækna og heilbrigðisstarfsfólks. Við viljum að þeir læknar sem halda utan til grunnnáms eða sérnáms komi aftur til Íslands og að læknar sjái almennt hag í því að starfa á Íslandi.
    Heilbrigðisráðuneytið vann ásamt háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu sameiginlegt minnisblað til ríkisstjórnarinnar í september sl. með tillögum sem meðal annars snúa að því að brautskrá fleiri úr ákveðnum heilbrigðisgreinum við HÍ en nú er gert, þar með talið læknisfræði. Beiðni heilbrigðisráðuneytisins um að fjölga læknanemum hefur verið komið á framfæri við Háskóla Íslands ásamt rökstuðningi og vinnan innan háskólans er hafin í samráði við Landspítala.
    Í minnisblaðinu er einnig fjallað um að efla sérnám í læknisfræði hér á landi og mikilvægi þess að ráðast í uppbyggingu á færni- og hermisetrum fyrir nemendur í heilbrigðisgreinum til að efla klíníska kennslu innan sem utan heilbrigðisstofnana. Einnig var lögð áhersla á að einfalda umsóknarferli heilbrigðisstarfsfólks frá ríkjum utan EES og Sviss um starfsleyfi hér á landi. Sú vinna er langt komin í heilbrigðisráðuneytinu.
    Gríðarleg uppbygging hefur orðið á sérnámi í læknisfræði hér á landi á undanförnum árum. Sérnám í læknisfræði hefur þróast hratt undanfarin ár í Evrópu. Ísland hefur lagt áherslu á umbætur og eflingu sérnáms innan lands ásamt því að efla samtal við löndin í kringum okkur. Styrking sérnáms í læknisfræði hér á landi hefur verið í brennidepli í heilbrigðisráðuneytinu undanfarin ár og innan skamms verður birt í samráðsgátt stjórnvalda ný reglugerð um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði fyrir almennu lækningaleyfi og sérfræðileyfi. Reglugerðin mun taka við af gildandi reglugerð, nr. 467/2015, og felast helstu breytingar á reglugerðinni í styrkingu á umgjörð utan um sérnám lækna hér á landi og skýrari reglum um það.
    Unnt er að ljúka 5 ára löngu sérnámi í fimm sérgreinum hér á Íslandi samkvæmt núverandi reglugerð. Ein þeirra er heimilislækningar og fer það sérnám fram á öllum heilsugæslustöðvum landsins og á Landspítala. Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu skipuleggur það sérnám. Landspítalinn, í samvinnu við Sjúkrahúsið á Akureyri, skipuleggur fullt sérnám í fjórum sérgreinum sem fer fram á sjúkrahúsunum báðum, heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni, Reykjalundi og víðar. Þetta eru almennar lyflækningar, bráðalækningar, geðlækningar og barna- og unglingageðlækningar. Þá geta læknar einnig lokið tveggja ára viðbótarsérgrein eða undirsérgrein hér á landi í öldrunarlækningum.
    Þá er hægt að hefja sérnám hér á landi í fleiri sérgreinum en að framan hefur verið getið og ljúka hér fyrstu 2-3 árunum. Til að ljúka sérnámi þarf sérnámslæknir síðan að fá sérnámsstöðu erlendis. Þessar sérgreinar eru níu talsins, þ.e. myndgreining, fæðinga- og kvensjúkdómalækningar, barnalækningar, meinafræði, endurhæfingarlækningar, svæfinga- og gjörgæslulækningar, bæklunarlækningar, réttarmeinalækningar og almennar skurðlækningar.
    Til stendur að skipuleggja fullt sérnám í þessum greinum og mögulega fleiri sérgreinum ef hægt er og fjölga þannig þeim sérgreinum sem unnt er að ljúka sérnámi í alfarið hér á landi. Innan skipulagsins rúmast margvíslegt fyrirkomulag sem getur falið í sér tíma erlendis, tíma í rannsóknum, umbótavinnu og fleiru.
    Í heilbrigðisráðuneytinu er hafin vinna við það að skilgreina og innleiða fjármögnunarmódel sérnáms í lækningum á landsvísu þannig að fjármögnunin verði miðlæg, vel skilgreind og fylgi einstaklingum en ekki starfsstöð. Í dag eru um 250 stöðugildi lækna með fullt lækningaleyfi á Landspítala og eru þeir lykilstarfsmenn. Um 170 af þessum stöðugildum eru sérnámslæknar í sérgreinum utan heimilislækninga. Í heimilislækningum eru alls um 95 sérnámslæknar en um 20 þeirra eru á Landspítala og 4 á SAk. Þá eru 4 sérnámslæknar starfandi á SAk í öðru sérnámi en heimilislækningum. Um 2 eru starfandi á Reykjalundi. Miðlægt fjármögnunarmódel getur opnað enn frekar á möguleika til sérnáms á fleiri stofnunum og starfsstöðvum.

     3.      Telur ráðherra að íslenskt heilbrigðiskerfi sé samkeppnishæft um vinnuaðstæður, álag og kjör að öðru leyti nú þegar vantar m.a. heimilislækna, barnalækna, geðlækna, skurðlækna, öldrunarlækna og augnlækna til starfa og íslenskir læknar sem stunda sérnám erlendis skila sér ekki nægilega vel til starfa á Íslandi að námi loknu, en um fjórðungur starfar erlendis? Hvernig hyggst ráðherra laða þetta starfsfólk til starfa á Íslandi?
    Íslenskt heilbrigðiskerfi á að vera samkeppnishæft um starfsfólk. Hér á landi eru boðleiðir stuttar og við eigum að geta þróað og eflt starfsemina, samtal og samvinnu á skilvirkan hátt. Laun eru almennt há hér á landi og það að bæta starfsumhverfi heilbrigðisstarfsfólks er viðvarandi verkefni. Inn í það kemur skipulag starfseminnar og vinnunnar, öryggi, traust, sjálfræði og fleiri þættir. Einnig þarf að efla vísindi og nýsköpun í heilbrigðisþjónustunni og gera læknum kleift að vera virkir þátttakendur og leiðandi í þeirri vinnu þar sem við á.
    Áform um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, og lögum um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, er varðar hlutlæga og „cumulativa“ refsiábyrgð heilbrigðisstofnana og rannsókn óvæntra atvika geta eflt öryggiskennd, aukið gegnsæi og hvatt til umbóta sem gagnast bæði starfsfólki og sjúklingum. Að sama skapi eru áform um breytingu á lögum nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn, varðandi hækkun hámarksaldurs heilbrigðisstarfsmanna ríkisins í 75 ár, hugsuð til þess að tryggja réttindi heilbrigðisstarfsfólks sem hefur getu og vilja til að starfa lengur til 70 ára aldurs.
    Sú uppbygging sem nú er í gangi við nýjan Landspítala er mikilvægur þáttur í því að uppfylla nútímakröfur til heilbrigðisþjónustu og gera það eftirsóknarvert að starfa við spítalann með tilliti til starfsaðstæðna.
    Það er staðreynd að við erum í samkeppni við aðrar þjóðir um heilbrigðisstarfsfólk sem og starfsfólk í öðrum greinum. Starfsaðstæður, menntun og mönnun allra heilbrigðisstétta skiptir því miklu máli í heildarsamhenginu. Samhliða er því verið að vinna að umbótum í menntun og mönnun allra heilbrigðisstétta sem geta haft bein jákvæð áhrif á starfsumhverfi lækna og annarra. Eitt af því sem mikilvægt er að skoða í því sambandi er samvinna og skipulag vinnu. Leggja þarf áherslu á aukna teymisvinnu milli mismunandi heilbrigðisstétta með formlegum hætti í bæði námi og starfi.

     4.      Telur ráðherra ástæðu til að fjölga nemendum í læknadeild Háskóla Íslands? Liggur fyrir mat um það hversu marga lækna ætti að útskrifa á ári hverju til að fullnægja þörfinni?
    Árlegur nemendafjöldi í læknadeild HÍ er 60 nemendur á ári. Til þess að halda í við fólksfjölgun í landinu verður nýliðun lækna að aukast í samræmi við mannfjöldaspá. Fjöldi nema er í læknisfræði erlendis og með eflingu sérnáms hér á landi aukast líkur á því að þeir nemar skili sér inn í íslenskt heilbrigðiskerfi til starfa.
    Eins og fram kemur í svari við 2. lið fyrirspurnarinnar vinna heilbrigðisráðuneytið og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið að sameiginlegum lausnum til að fjölga nemendum í heilbrigðisgreinum hér á landi, þar með nemendum í læknisfræði. Það er ekki þar með sagt að ekki þurfi að gera vandaða greiningu á því hversu marga lækna líkur standa til að muni þurfa í heilbrigðisþjónustu hér á landi á næstu árum. Hvað varðar vinnu í því sambandi er vísað til þeirrar greiningarvinnu sem er í gangi í heilbrigðisráðuneytinu og fjallað er um í svari við 1. lið fyrirspurnarinnar.

     5.      Hver er skoðun ráðherra á því hvernig gera má Landspítalanum kleift að taka á móti fleiri læknanemum í klínískan hluta læknanámsins en spítalinn hefur tök á við núverandi aðstæður?
    Uppbygging öflugra færni- og hermisetra er ein þeirra leiða sem mikilvæg er í verklegri þjálfun lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna til þess að létta á starfsnámi innan heilbrigðisstofnana og gera það markvissara. Samhliða þarf að þjálfa fleiri klíníska kennara. Uppbygging færnibúða til framtíðar er í skoðun í samstarfi heilbrigðisráðuneytisins og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins eins og komið var inn á í svari við 2. lið fyrirspurnarinnar.
    Auk Landspítalans gegna aðrar stofnanir og einingar mikilvægu hlutverki í þjálfun nema, bæði í læknisfræði og í öðrum greinum. Mikilvægt er að nýta alla kennslumöguleika sem hægt er, hvort sem það er á höfuðborgarsvæðinu, á sjúkrahúsi eða á heilsugæslu eða annarri heilbrigðisstofnun eða starfsstöð sem hefur burði til kennslu. Miðlæg fjármögnun mun styrkja þá vegferð eins og komið var inn á í svari við 2. lið fyrirspurnarinnar.

     6.      Hyggst ráðherra láta fara fram mat á því hvert sé ákjósanlegt starfsálag hjá læknum sem og um skilgreint hámarksálag í starfi, eins og þekkist t.d. í Svíþjóð þar sem skilgreindur er hámarksfjöldi sjúklinga fyrir hvern lækni?
    Vísað er til svars við 1. lið fyrirspurnarinnar varðandi þá greiningarvinnu sem er í gangi í heilbrigðisráðuneytinu. Í framhaldi af þeirri vinnu verður hægt að taka stefnumótandi ákvarðanir út frá tölum og greiningum, m.a. er varða hámarksfjölda sjúklinga á hvern lækni.