Ferill 406. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 585  —  406. mál.
Svar


háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rannveigu Sigurgeirsdóttur um uppbyggingu fjarskipta í dreifbýli.


     1.      Á hvaða svæðum hafa verið byggðir upp farsímasendar á grundvelli samnings um samstarf farnetsfyrirtækja og Neyðarlínunnar um gagnkvæmt reiki og samþykki fyrir samnýtingu tíðna við að tryggja gott farsímasamband á fáförnum og afskekktum stöðum á Íslandi?
    Hvorki háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið né fjarskiptasjóður f.h. ráðuneytisins eru aðilar að samningi um samstarf farnetsfyrirtækja og Neyðarlínunnar um gagnkvæmt reiki. Fjármála- og efnahagsráðherra fer með 100% eignarhlut ríkisins í Neyðarlínunni ohf. sem fer með 25% eignarhlut í Öryggisfjarskiptum ehf. á móti 75% eignarhlut ríkisins. Í ljósi þessa var óskað umsagnar Neyðarlínunnar um fyrirspurnina og er svar ráðherra byggt á upplýsingum frá Neyðarlínunni.
    Í umsögn Neyðarlínunnar kemur fram að tilefni þess að félagið beitti sér fyrir samstarfi við almennu fjarskiptafélögin um samnýtingu tíðni og búnaðar á tilteknum svæðum, þar sem fyrirsjáanleg nýting fjarskiptaþjónustu myndi ekki standa undir fjárfestingum og rekstri á viðskiptalegum forsendum, var tvíþætt. Annars vegar hafði félagið með ákvörðun Póst-og fjarskiptastofnunar nr. 9/2020 verið útnefnt sem alþjónustuveitandi fjarskiptatenginga fyrir síma- og internetþjónustu við lögheimili og vinnustaði með heilsársstarfsemi. Frá upphafi blasti við að víða væri hagkvæmast að leysa þetta viðfangsefni með því að setja upp fársímatengingu, sem þá jafnframt nýttist fyrir þá sem leið ættu um nálæg svæði. Hins vegar hafi óveðrið í desember 2019 dregið fram mikilvægi þess að efla öryggi og útbreiðslu farsímakerfisins til að tryggja sem best aðgengi almennings að neyðarsímsvörun 112-þjónustunnar. Hvort tveggja hafi gert kröfu um að ýtrustu hagkvæmni yrði leitað og þá þannig að einn sendir gæti tengst viðskiptavinum allra símafélaganna. Neyðarlínan hafi leitað til Póst-og fjarskiptastofnunar og óskað atbeina hennar til að tryggt væri að slíkt samstarf yrði heimilað og yrði ekki talið fara í bága við ákvæði samkeppnislaga. Fjarskiptastofa hafi brugðist við og birt í apríl 2021 afstöðu til erindisins þar sem það var heimilað með nánar tiltekinni afmörkun. Í framhaldi af þessu hefur komist á afar gott samstarf milli Neyðarlínunnar og farsímafélaganna þriggja, Símans, Nova og Vodafone, um tæknilega uppbyggingu sem tryggi framangreind markmið. Samstarfið miðist við að koma á fjarskiptasambandi við staði þar sem ekki er von um fjarskiptaumferð sem skilað geti tekjum sem standi undir kostnaði af þjónustunni. Neyðarlínan hafi því tekið að sér uppsetningu og tengingu viðkomandi fjarskiptastaðar en eitt af félögunum hefur tekið að sér uppsetningu búnaðar, með stuðningi Neyðarlínunnar, og rekstur þjónustunnar. Nokkrir fjarskiptastaðir, sem hafi fallið undir fyrrgreint alþjónustuverkefni, hafi verið kostaðir af opinberri fjárveitingu fyrir milligöngu Fjarskiptastofu. Aðra staði hafi Neyðarlínan náð að fjármagna og þá m.a. nýtt til þess fjárstuðning fjarskiptasjóðs til að efla fjarskiptaþjónustu. Á eftirfarandi stöðum hafi verið settir upp sendar, þeir endurbættir eða unnið er að uppsetningu sem stefnt er að því að ljúka á þessu ári. Þunginn af þessum stöðum hafi verið byggður upp með fjárstuðningi fjarskiptasjóðs:

Staður Svæði Sveitarfélag Landshluti
Dalatangi Seyðisfjarðar- og Njarðarflói Fjarðabyggð Austurland
Melar–Öxnhóll Hörgárdalur Hörgársveit Norðurland
Illavík Kjörvogshlíð Árneshreppur Vestfirðir
Gautsdalur Þröskuldar Reykhólahreppur Vestfirðir
Skarðseyri Skötufjörður Súðarvíkurhreppur Vestfirðir
Furubrekka Ölkelda Snæfellsbær Vesturland
Fellsendi/Gröf Miðdalir–Sökkólfsdalur Dalabyggð Vesturland
Gemlufallsheiði Gemlufallsheiði Ísafjarðarbær Vestfirðir
Hörgshlíð Mjóifjörður Súðarvíkurhreppur Vestfirðir
Laxárdalur Laxárdalur Skeiða- og Gnúpverjahreppur Suðurland
Miðmundarfjall Þverárleið og Laxárdalur Sveitarfélagið Skagafjörður Norðurland
Egilsstaðir Norðurdalur Fljótshreppur Austurland
Sturluflöt Suðurdalur Fljótshreppur Austurland
Melanes Rauðisandur Vesturbyggð Vestfirðir
Örlygshöfn Örlygshöfn Vesturbyggð Vestfirðir
Eggjar Tungusveit, Austur- og Vesturdalur Sveitarfélagið Skagafjörður Norðurland
Staður Þorskafjörður, Teigskógur Reykhólahreppur Vestfirðir
Orustuhóll Fnjóskadalur norðanverður Þingeyjarsveit Norðurland
Þverá Laxárdalur Þingeyjarsveit Norðurland
Tjörnesviti Tjörnes Tjörneshreppur Norðurland

     2.      Á hvaða svæðum er áætlað að byggja upp farsímasenda á grundvelli fyrrnefnds samnings?
    Í umsögn Neyðarlínunnar kemur fram að ekki hafi verið ákveðið að byggja upp farsímasenda á öðrum stöðum en fram komi í svari við 1. lið. Viðbúið sé hins vegar að Neyðarlínan þurfi að sjá fyrir fjarskiptatengingu á nokkrum stöðum samkvæmt alþjónustuskuldbindingunni sem áður er nefnd þegar síðustu hlutar PSTN-koparlínukerfisins verða aflagðir. Neyðarlínan hafi leitast við að greina þá staði í þjóðvegakerfinu og víðar þar sem fjarskiptasamband er lítið eða ekkert og raða þeim í mikilvægisröð út frá áhættugreiningu og umferðarþunga. Eftirfarandi listi sýni hluta af því verkefni, en stöðunum sé hér raðað í stafrófsröð. Að sögn Neyðarlínunnar hefur félagið hefur ekki fengið sérstakar fjárveitingar af opinberu fé til þessara viðfangsefna, en mun sinna þeim ef fjárhagur leyfir.


Staður Sveitarfélag Landshluti
Bjargtangar–Látrabjarg Vesturbyggð Vestfirðir
Bláfellsháls Bláskógabyggð Hálendi
Flugvöllur Vesturbyggð Vestfirðir
Hali Sveitarfélagið Hornafjörður Suðurland
Hamar Múlaþing Austurland
Hnausar/Sandhóll Skaftárhreppur Suðurland
Hófaskarð Norðurþing Norðurland
Hólmur Borgarbyggð Vesturland
Hvalnesskriður Norðurþing og Hornafjörður Austurland
Hærriöxl Vesturbyggð Vestfirðir
Kjarrdalsheiði Hornafjörður Suðurland
Kvígindisfell Tálknafjörður Vestfirðir
Laugafell Akrahreppur Norðurland
Leirhöfn Múlaþing Norðurland
Múlafjall Kjós Vesturland
Mýrar Borgarbyggð Vesturland
Mýri í Skriðdal Múlaþing Austurland
Narfastaðir Þingeyjarsveit Norðurland
Óákveðið Súðarvíkurhreppur Vestfirðir
Síðufjall Borgarbyggð Vesturland
Staðarhnjúkur Borgarbyggð Vesturland
Staður Staðardalur – Súgandafjörður Vestfirðir
Stuðlagil Múlaþing Austurland
Syðri-Kerlingahnjúkur Skaftárhreppur Suðurland
Tjörn (Þorgrímsstaður) Húnaþing vestra Norðurland
Þórisstaðir Sveitarfélagið Hornafjörður Austurland
Þverárhlíð Borgarbyggð Vesturland

     3.      Munu farsímafyrirtæki og Neyðarlínan einungis horfa til uppbyggingar á farsímasendum á svæðum sem eru afskekkt og fáfarin eða verður einnig horft til lögheimila sem ekki eru á afskekktum og fáförnum svæðum, en búa þó við lélegt eða ekkert símasamband?
    Að sögn Neyðarlínunnar hvílir alþjónustuskylda á félaginu til að sjá lögheimilum og heilsársvinnustöðum fyrir fjarskiptasambandi, ef fjarskiptafélögin gera það ekki. Í þessari skyldu felist ekki krafa um að við tenginguna sé beitt tilteknum tæknilausnum. Þannig sé ekki tryggt að á hverju byggðu bóli sé farsímasamband, þótt sú lausn sé víða hagfelldust til að tryggja fjarskiptasamband. Neyðarlínan reki Tetra-öryggisfjarskiptakerfið sem hafi mjög mikla útbreiðslu og á sendistöðum þess gefist almennum fjarskiptafélögunnm færi á að setja upp senda sem þau hafa nýtt í miklum mæli. Á mörgum þessara staða sé hins vegar mjög lítil viðskipti að sækja og blasi við að samkomulagið um samnýtingu senda og tíðni, þar sem ekki séu viðskiptalegar forsendur fyrir þjónustunni, verði í auknum mæli nýtt á þessum stöðum. Verði að ætla að það gefi fjarskiptafélögunum aukið svigrúm til að þjónusta fáfarin og dreifbýl svæði. Að sögn Neyðarlínunnar mun félagið greiða fyrir því, með það að markmiði að farsímasamband verði tryggt sem allra víðast fyrir viðskiptamenn allra fjarskiptafélaganna. Neyðarlínan vinni jafnframt með farsímafélögunum undir tilsjón Fjarskiptastofu að verkefni sem snýr að þéttingu þjónustu á stofnvegum. Það tengist fyrirhugaðri endurúthlutun tíðna á næstu misserum og áherslum stjórnvalda um að tryggja sem mesta samfellu í dreifikerfinu. Horft sé til þess hvernig nýta megi reynslu af samkomulagi um samnýtingu tíðna og senda til að bæta farsímasamband og fækka dauðum punktum á þjóðveginum en með viðráðanlegum tilkostnaði. Gangi áformin eftir sé þess vænst að úrbætur leiði til bættrar þjónustu á viðkomandi stofnvegum og á heimilum í nágrenni þeirra. Uppbygging sé þó m.a. háð fjárveitingum til verkefnisins og vilja farsímafélaganna til að setja upp sendibúnað á stöðum þar sem er afar lítil notkun. Í umsögn Neyðarlínunnar er áréttað að almenn uppbygging fjarskiptakerfa og fjarskiptaþjónustu í landinu sé á verksviði og ábyrgð markaðsaðila, þ.e. almennu fjarskiptafélaganna, og lúti reglum laga um fjarskipti, nr. 70/2022, og eftirlits Fjarskiptastofu. Eðli málsins samkvæmt séu áherslur í uppbyggingu og þjónustu félaganna á viðskiptalegum forsendum. Hlutverk Neyðarlínunnar sem rekstraraðila 112-neyðarsímsvörunar og Tetra-öryggisfjarskiptakerfisins í því að bæta fjarskiptaþjónustu miði því fyrst og fremst að því að tryggja aðgang almennings að fjarskiptum þegar neyð beri að höndum en ekki því að veita almenna fjarskiptaþjónustu. Neyðarlínan telji það hins vegar afar brýnt að almennu farsímakerfin hafi sem mesta útbreiðslu því þau eru farvegur beiðna um aðstoð þegar neyðaraðstæður skapast. Af þeim ástæðum telji félagið það eðlilegt verkefni að aðstoða almennu fjarskiptafélögin til að þau geti nýtt fjárfestingargetu sína sem best við að auka útbreiðslu farsímanetanna.