Ferill 226. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 588  —  226. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019 (skipti eða slit tiltekinna skráningarskyldra aðila).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurbjörgu Stellu Guðmundsdóttur frá menningar- og viðskiptaráðuneyti og Margréti Arnheiði Jónsdóttur og Jónu Björk Guðnadóttur frá Samtökum fjármálafyrirtækja.
    Nefndinni barst sameiginleg umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja og Samtaka atvinnulífsins. Þá barst nefndinni minnisblað frá menningar- og viðskiptaráðuneyti.
    Með frumvarpinu er lagt til að tvö ný bráðabirgðaákvæði bætist við lög um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019. Lögð eru til sérstök úrræði til að koma fram skiptum eða slitum á lögaðilum sem er skylt að tilkynna um raunverulega eigendur sína til fyrirtækjaskrár samkvæmt lögunum en hafa ekki sinnt þeirri skyldu. Með frumvarpinu fær ríkisskattstjóri skilvirkari úrræði til að koma fram skiptum eða slitum á skráningarskyldum aðilum sem hafa vanrækt skráningarskyldu samkvæmt gildandi lögum.
    Frumvarpið er liður í því að ljúka nauðsynlegum aðgerðum sem alþjóðlegi fjármálaaðgerðahópurinn (e. Financial Action Task Force, FATF) lagði fyrir íslensk stjórnvöld að grípa til í því skyni að efla varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
    Um efni frumvarpsins og markmið frumvarpsins að öðru leyti vísast til greinargerðar með því.
    Í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja og Samtaka atvinnulífsins eru ekki gerðar efnislegar athugasemdir við efni frumvarpsins. Samtökin koma þó á framfæri við nefndina athugasemdum eða ábendingum við framkvæmd laga um skráningu raunverulegra eigenda. Í minnisblaði ráðuneytisins kemur fram að ábendingar samtakanna séu til skoðunar í ráðuneytinu og að reynt verði að hraða þeirri skoðun eins og kostur er.
    Meiri hlutinn leggur til tæknilega breytingu á 1. gr. frumvarpsins sem til er komin vegna breytinga sem urðu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Breytingunni er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif á frumvarpið.
    Guðbrandur Einarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið með heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Í stað tilvísunarinnar „1. tölul. 1. mgr. 1. gr. a“ í 5. mgr. a-liðar (II.) 1. gr. og í 1. og 2. tölul. 1. mgr. og 8. mgr. b-liðar (III.) 1. gr. komi: 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. b.

Alþingi, 22. nóvember 2022.


Guðrún Hafsteinsdóttir,
form., frsm.
Ágúst Bjarni Garðarsson. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir.
Guðbrandur Einarsson. Jóhann Páll Jóhannsson. René Biasone.