Ferill 367. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 598  —  367. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Ingu Björk Margrétar Bjarnadóttur um aðgengi fatlaðs fólks í neyðar- og hamfaraástandi.


     1.      Eru fjöldahjálparstöðvar sem almannavarnir hafa útlistað aðgengilegar öllu fötluðu fólki?
    Fjöldahjálp og fjöldahjálparstöðvar eru í umsjón Rauða krossins á Íslandi samkvæmt samkomulagi milli almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og Rauða krossins. Fjöldahjálparstöðvar eru í flestum tilfellum staðsettar í skólum. Um slíkar byggingar og aðkomu að þeim gilda kröfur um algilda hönnun, sbr. b-lið 6.1.3 gr. byggingarreglugerðar, nr. 112/2012, með síðari breytingum. Þegar um algilda hönnun er að ræða eru gerðar kröfur um að byggingar séu þannig úr garði gerðar að þær nýtist öllum, allir geti ferðast um þær og athafnað sig án sérstakrar aðstoðar, sbr. nánari kröfur áðurnefndrar reglugerðar.
    Það getur þurft að opna fjöldahjálparstöðvar í félagsheimilum, samkomuhúsum, hótelum eða íþróttahúsum ef aðstæður krefjast þess en þær tegundir mannvirkja falla almennt einnig undir kröfur um algilda hönnun, sbr. a-lið 6.1.3 gr. áðurnefndrar byggingarreglugerðar.
    Við mat á því hvort bygging geti nýst sem fjöldahjálparstöð er ætíð leitast við að velja byggingu sem getur nýst öllum.

     2.      Hafa viðbragðsaðilar upplýsingar um hvar fatlað fólk býr og er staðsett, utan búsetuþjónustu og stofnana?
    Viðbragðsaðilar búa ekki yfir skrám með upplýsingum um hvar fatlað fólk er búsett og er staðsett utan búsetuþjónustu og stofnana.

     3.      Eru upplýsingar til almennings um viðlagakassa, viðbrögð við hamförum og aðrar viðbragðsáætlanir aðgengilegar fólki með þroskahömlun og öðrum sem nýta sér auðlesið mál?
    Í upplýsingamiðlun til almennings vegna Covid-19 faraldursins var leitast við að hafa útgefið efni aðgengilegt fólki með þroskahömlun og öðrum sem nýta sér auðlesið mál. Nú er hafin undirbúningsvinna hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra við að innleiða þau vinnubrögð til framtíðar þegar kemur að upplýsingamiðlum almannavarna vegna hamfara og alvarlegra atburða. Í þeirri vinnu verður horft til þeirrar reynslu og þekkingar sem fékkst vegna Covid-19 upplýsingamiðlunar. Þá verður verkefnið unnið í góðu samstarfi við alla hlutaðeigandi aðila, svo sem félagasamtök, mannréttindasamtök og aðrar stofnanir sem málaflokkinn varðar.