Ferill 497. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Prentað upp.

Þingskjal 599  —  497. mál.
Viðbót.
Frumvarp til laga


um breytingu á kosningalögum, nr. 112/2021 (lækkun kosningaaldurs).

Flm.: Andrés Ingi Jónsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Eva Sjöfn Helgadóttir, Guðbrandur Einarsson, Halldóra Mogensen, Hanna Katrín Friðriksson, Jóhann Páll Jóhannsson, Logi Einarsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


1. gr.

    Í stað orðanna „18 ára“ í a-lið 1. mgr. 4. gr. laganna kemur: 16 ára.

2. gr.

    Á eftir orðunum „kosningarrétt í sveitarfélagi skv. 4. gr.“ í 2. mgr. 6. gr. laganna kemur: er 18 ára eða eldri.

3. gr.

    Á eftir c-lið 1. mgr. 14. gr. laganna kemur nýr stafliður, svohljóðandi: tryggja að nýir kjósendur fái viðeigandi fræðslu um þátttöku í kosningum.

4. gr.

    Í stað orðanna „allir kjósendur“ í b-lið 49. gr. laganna kemur: öll þau sem hafa kjörgengi skv. 4. gr.

5. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ráðherra skal koma til framkvæmdar markvissum aðgerðum til að auka fræðslu á sviði lýðræðis og samfélagslegrar virkni á öllum skólastigum og styðja við grasrótarstarf ungmenna þar sem þau læra að hafa áhrif á samfélagið á sínum eigin forsendum. Ráðherra skal gefa Alþingi skýrslu að afloknum fyrstu kosningum þar sem einstaklingar 16 ára og eldri hafa kosningarrétt um aðgerðir sem gripið var til í samræmi við grein þessa.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að ungu fólki verði veitt tækifæri til þess að taka virkan þátt í mótun samfélagsins síns og styrkja þar með lýðræðið. Verði frumvarpið samþykkt mun kosningaaldur í sveitarstjórnarkosningum lækka úr 18 árum í 16 ár, þó að kjörgengi muni áfram miðast við 18 ár. Lækkun kosningaaldurs hefur lengi verið til umræðu á vettvangi Alþingis, frá því að Hlynur Hallsson og Kolbrún Halldórsdóttir lögðu fram þingsályktunartillögu þess efnis (514. mál á 133. löggjafarþingi). Síðan hafa frumvörp sem miða að lækkun kosningaaldurs verið lögð fram í ólíkum myndum en ekki náð fram að ganga, síðast á 151. löggjafarþingi (188. mál).

Lýðræðisbylting ungs fólks.
    Ungt fólk víðsvegar um heim hefur í síauknum mæli krafist þess að réttur þess til þátttöku í lýðræðissamfélaginu sem það lifir og hrærist í sé viðurkenndur. Síðastliðin ár hafa rökin fyrir lækkun kosningaaldurs hlotið sífellt breiðari og sterkari hljómgrunn. Austurríki var fyrst til að stíga það formlega skref að taka upp 16 ára kosningaaldur og hafa nokkur lönd fylgt í kjölfarið, t.a.m. Malta og Skotland, en í hinu síðarnefnda er miðað við 16 ár í þjóðaratkvæðagreiðslum og sveitarstjórnarkosningum. Þá komst hæstiréttur Nýja-Sjálands nýverið að þeirri niðurstöðu að það mismuni nýsjálenskum borgurum að miða upphaf kosningaaldurs við 18 ára aldur og að aldursákvæðið feli í raun í sér brot gegn mannréttindum ungs fólks.
    Eðli sínu samkvæmt fela aldursmörk í sér eitthvert form mismununar, þótt almennt sé viðurkennt að mismunun sökum aldurs sé réttlætanleg þegar færð eru fyrir henni málefnaleg rök sem helgast af lögmætu markmiði. Almennt er þó eðlilegt að gæta meðalhófs við ákvörðun slíkra marka og hvað varðar kosningarréttinn hefur þróunin verið sú að víkka út þann hóp sem nýtur þeirra grundvallarréttinda. Leitun er að skýrum og málefnalegum röksemdum fyrir því að binda kosningarréttinn við 18 ára aldursmörk; í greinargerð og athugasemdum við 4. gr. þess frumvarps sem varð að kosningalögum, nr. 112/2021, segir einfaldlega að ekkert norrænt ríki stefni að lækkun kosningaaldurs og að ekki þyki rétt að „[hrófla við] samræmi á milli laga um kosningar til Alþingis og sveitarstjórna að þessu leyti.“ Það er erfitt að sjá hvernig samanburður við norræn ríki eða einhver óáþreifanleg krafa um samræmi fyrir samræmisins sakir standi framar almennum sjónarmiðum um jöfnuð og útvíkkun réttinda.
    Ör tækniþróun á undanförnum árum hefur átt þátt í aukinni valdeflingu ungs fólks og aukið möguleika þess til að hafa áhrif á valdhafa. Með tilkomu samfélagsmiðla hefur orðið auðveldara að skipuleggja rótttækt grasrótarstarf og grípa til aðgerða á eigin forsendum og út frá eigin sannfæringu. Byltingar á við #Skolstrejk, #MeToo, #FreeTheNipple og #MahsaAmini sýna svart á hvítu hverju slíkt grasrótarstarf getur áorkað og að ungt fólk er fullfært um að láta rödd sína heyrast og knýja á um aðgerðir í þágu réttlætis þegar stjórnvöld bregðast skyldum sínum á einn eða annan hátt.
    Með lækkun kosningaaldurs í sveitarstjórnarkosningum í 16 ár má veita tveimur nýjum árgöngum fólks sem nýtur verndar barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna rétt til að taka þátt í lýðræðislegum ákvörðunum um eigið samfélag. Flutningsmenn telja fulla ástæðu til að lækka kosningaaldur í öllum kosningum, en í ljósi þeirra stjórnarskipunarlegu takmarkana sem gildandi stjórnarskrá ber með sér þá er hér lagt til að byrja á kosningum til sveitarstjórna, sem bera ábyrgð á ýmissi þeirri þjónustu sem stendur börnum og ungmennum næst. Sú ráðstöfun er í anda barnasáttmálans sem tryggir börnum rétt til að tjá skoðanir sínar í öllum málum er þau varða. Sú skylda sem hvílir á stjórnvöldum hvað það varðar vex með þroska og aldri barna.
    Í ljósi þess að Ísland hefur stigið það mikilvæga skref að lögfesta barnasáttmálann fer vel á því að þau elstu í þeim hópi sem barnasáttmálinn nær til fái formleg verkfæri til að ganga á eftir því að réttindi þeirra sjálfra og þeirra sem eru þeim yngri séu virt. Þannig mun stjórnmálafólk þurfa að standa skýr skil á baráttu sinni í þágu barna þegar að kosningum kemur.
    Flutningsfólk leggur áherslu á að samþykkt frumvarpsins þarf að fylgja eftir með markvissum og vel fjármögnuðum aðgerðum til að auðvelda þessum nýja hópi kjósenda þátttöku í kosningum. Slíkar aðgerðir geta falið í sér aukna fræðslu á sviði lýðræðis og samfélagslegrar virkni á öllum skólastigum, að styðja við grasrótarstarf ungmenna þar sem þau reyna að hafa áhrif á samfélagið á sínum eigin forsendum, og tryggja að nýir kjósendur fái viðeigandi fræðslu um þátttöku í kosningum. Við umfjöllun um lækkun kosningaaldurs á fyrri löggjafarþingum hefur verið bent á að lengi hafi verið þörf á metnaðarfullum aðgerðum til að styrkja lýðræðisvitund fyrstu kjósenda og til valdeflingar ungs fólks, aðgerðir sem eru nauðsynlegar óháð þeim breytingum sem hér eru lagðar til, en slík skref er hægt að taka samhliða lækkun kosningaaldurs og sem hluta af undirbúningi fyrir næstu kosningar.
    Ungt fólk hefur löngum þurft að þola lýðræðishalla hvað varðar aðkomu að vali á kjörnum fulltrúum og vægi á framboðslistum stjórnmálasamtaka. Lækkun kosningaaldurs myndi styrkja rödd ungu kynslóðarinnar, leiðrétta þennan lýðræðishalla og auðga stjórnmálin með nýjum hugmyndum. Ísland myndi með lækkun kosningaaldurs skipa sér í hóp þeirra ríkja þar sem ekki er einungis kallað eftir sjónarmiðum ungs fólks til málamynda, heldur væri því veittur formlegur og fullur aðgangur að lýðræðinu til jafns við fullorðna.