Ferill 490. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 648  —  490. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðigjald, nr. 145/2018 (framkvæmd fyrninga).

Frá 3. minni hluta atvinnuveganefndar.


    Frumvarp þetta felur ekki í sér neina hækkun á veiðigjaldinu, þjóðinni til hagsbóta. Með frumvarpinu er lagt til að dreifa áhrifum svokallaðrar flýtifyrningar milli ára. Um er að ræða fegrunaraðgerð til að fletja út tekjukúrfuna. Það voru klárlega mistök að heimila 50% fyrningu af fjárfestingu í skipum í miðjum COVID-faraldrinum. Það skyldi engum detta í hug að útgerðirnar hafi allt í einu ákveðið að smíða ný skip í kjölfar lagabreytinganna. Slíkar framkvæmdir krefjast lengri aðdraganda en svo. Flýtifyrningin var í raun sérhannað úrræði fyrir stórútgerðirnar sem höfðu þegar ákveðið að ráðast í fjárfestingar.
    Fjölmiðlar tala um frumvarpið sem hækkun veiðigjalda en raunin er önnur. Ríkisstjórnin er búin að átta sig á því hvað þessi flýtifyrning hafði mikil áhrif á veiðigjöldin og hefur því ákveðið að fegra tölurnar og fletja kúrfuna. Keyra þarf frumvarpið í gegnum þingið á methraða svo tryggja megi að tekjurnar á næsta ári hækki um 2,5 ma. kr. en það má ekki gleyma að þá lækka tekjurnar á árunum þar á eftir um sömu upphæðir. Þessi fegrunaraðgerð er til þess að almenningur rísi ekki upp og mótmæli því hvað veiðigjöldin eru skammarlega lág. Það er óumdeilt að veiðigjaldið dugir vart til reksturs þeirra stofnana og rannsókna sem ætlað er að halda utan um sjávarauðlindina. Þar má nefna Fiskistofu, Hafrannsóknastofnun og Landhelgisgæsluna.
    Þjóðin á sjávarauðlindina og á skilyrðislaust að fá fullt endurgjald (markaðsverð) fyrir afnot af henni. Frumvarpið tekur af allan vafa um það að áfram fær stórútgerðin að arðræna þjóðina.
    Inga Sæland skrifar undir álit þetta samkvæmt heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

Alþingi, 29. nóvember 2022.

Inga Sæland.