Ferill 409. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 652  —  409. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2022, sbr. lög nr. 72/2022.

Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.


Hvað eru fjáraukalög?
    26. gr. laga um opinber fjármál (LOF), nr. 123/2015, fjallar um frumvarp til fjáraukalaga. Þar segir:
    „Ráðherra er heimilt, ef þess gerist þörf, að leita aukinna fjárheimilda í frumvarpi til fjáraukalaga til að bregðast við tímabundnum, ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum innan fjárlagaársins, enda hafi ekki verið unnt að bregðast við þeim með úrræðum sem tilgreind eru í lögum þessum. Í fylgiriti með frumvarpi til fjáraukalaga skal skýra frá skiptingu fjárveitinga til ríkisaðila og verkefna, sbr. 19. gr.
    Við framlagningu breytingartillagna við frumvarp til fjáraukalaga á Alþingi skal liggja fyrir mat á áhrifum þeirra á heildarafkomu ríkissjóðs, skuldbindingar hans og aðrar forsendur fjármálaáætlunar.“

    Hvaða úrræði hefur ráðherra til að bregðast við á annan hátt en með fjáraukalögum? Helstu úrræðin er að finna í eftirfarandi greinum í LOF:
          29. gr. Millifærsla fjárveitinga.
                  Hverjum ráðherra er heimilt að breyta skiptingu fjárveitinga innan málaflokks, enda sé ekki um að ræða tilfærslu fjárveitinga milli rekstrar, tilfærslna eða fjárfestinga. Sama gildir um málefnasvið skiptist það ekki í málaflokka. Ákvörðun hans skal rökstudd og tilkynnt hlutaðeigandi forstöðumanni og öðrum þeim sem breytingarnar varða með a.m.k. sex vikna fyrirvara. Rekstraráætlun skal uppfærð til samræmis við ákvörðunina.
    Þetta er frekar einföld aðgerð. Stundum eru fjárheimildir vanmetnar á einum stað og ofmetnar á öðrum, því er eðlilegt að bregðast við því með millifærslu. Lykilatriði hér er að rökstyðja ákvörðunina. Hér er einnig um að ræða varasjóði málaflokka en Ríkisendurskoðun hefur gert athugasemdir við hversu lítið þeir hafa verið notaðir. Miðað við ábendingu Ríkisendurskoðunar eru rúmir 3 milljarðar kr. til ráðstöfunar í þessum varasjóðum málaflokka. Meiri hluti fjárlaganefndar bendir á að ekki hafi verið gefin út reglugerð um ráðstöfun úr þessum varasjóðum og hvetur til þess að sú reglugerð sé gefin út sem allra fyrst. 1. minni hluti tekur undir þá ábendingu.

          30. gr. Heimild til flutnings fjárheimilda milli ára.
                  Útgjöld, sem eru umfram fjárheimild í árslok, skulu dragast frá fjárheimild næsta árs. Hlutaðeigandi ráðherra skal þá án tafar greina ráðherra frá því hvernig hann hyggst tryggja að markmið fjárlaga yfirstandandi fjárlagaárs séu virt komi til frádráttar skv. 1. málsl.
                  Hafi fjárheimild ekki verið nýtt að fullu í árslok getur hlutaðeigandi ráðherra óskað eftir því við ráðherra að hinni ónýttu fjárheimild verði ráðstafað á næsta ári í heild eða að hluta, enda verði henni ráðstafað til þess að mæta útgjöldum sem hafa frestast eða fyrir liggi skýr hagkvæmnisrök.
    Í greinargerð með frumvarpi til laga um opinber fjármál var þessi grein nánar útskýrð: „Í 1. mgr. er mælt fyrir um þá meginreglu að útgjöld umfram fjárheimild skuli dragast frá fjárheimild næsta árs. Jafnframt er gerð sú krafa að hlutaðeigandi ráðherra greini ráðherra frá því hvernig hann hyggst tryggja að markmið fjárlaga yfirstandandi fjárlagaárs verði virt. Með þessu er leitast við að skýra hvort áætlanir um útgjöld málefnasviðs eða málaflokks og markmið sem tengjast þeim byggist á réttmætum forsendum, enda ljóst að úrræði hlutaðeigandi ráðherra skv. 34. gr. hafa ekki dugað til að koma í veg fyrir frávik.“
    Þessi lagagrein er ein helsta breytingin frá fyrri lögum um fjárreiður ríkisins með tilliti til fjáraukalaga. Í þessari lagagrein er gert ráð fyrir því að árslokastaðan færist almennt séð á milli ára ef fjárheimildir eru nægar til þess að sinna verkefnum málefnasviðsins eða málaflokksins. Nákvæmlega hver staðan er um áramót skiptir ekki máli þegar allt kemur til alls nema fjárheimildir séu of- eða vanáætlaðar. Þessi lagagrein á að sjá til þess að rökstyðja það hvort fjárheimildir séu einmitt nægar eða ekki. Eins og sagt er: „Með þessu er leitast við að skýra hvort áætlanir um útgjöld málefnasviðs eða málaflokks og markmið sem tengjast þeim byggist á réttmætum forsendum.“ Það er ekki ofsagt að ráðherrar hafa ekki sinnt skyldu sinni gagnvart þessari lagagrein frá því að lögin voru sett.

          34. gr. Eftirlit með fjármálum innan fjárlagaárs.
                  Hver ráðherra skal hafa reglubundið eftirlit með fjárhag ríkisaðila í A1-hluta sem stjórnarmálefnasviði hans tilheyra og greina og bregðast við áhættu og veikleikum í rekstri. Ef hætta er á að útgjöld verði umfram fjárveitingar skal hann leita leiða til að lækka gjöld innan ársins, millifæra fjárveitingar innan málaflokka eða nýta varasjóði þannig að útgjöld verði ekki umfram fjárveitingar.
                  Hver ráðherra skal skila greinargerð til ráðherra um samanburð raunútgjalda og fjárheimilda fyrir þá málaflokka sem undir hann heyra fyrir hvern ársfjórðung þar sem byggt er á útgefnu uppgjöri ríkissjóðs fyrir sama tímabil. Ef markverð frávik eru milli raunútgjalda og fjárheimilda, eða ef ástæða er til að ætla að svo verði, skal hlutaðeigandi ráðherra án tafar gera ráðherra grein fyrir ástæðum þess og þeim ráðstöfunum sem hann hefur gripið til eða hyggst grípa til til að koma í veg fyrir frávik milli raunútgjalda og fjárheimilda.
                  Ráðherra skal upplýsa ríkisstjórn og fjárlaganefnd Alþingis, eins oft og ástæða er til og eigi sjaldnar en ársfjórðungslega, um framkvæmd fjárlaga og fjárhagslega framvindu ríkissjóðs
    Fyrsti minni hluti hefur verið í fjárlaganefnd síðan 2016 og aldrei séð greinargerð um frávik raunútgjalda frá fjárheimildum sem fylgir nokkurs konar „ráðstöfunum sem hann hefur gripið til eða hyggst grípa til til að koma í veg fyrir frávik milli raunútgjalda og fjárheimilda“. Aldrei.

          35. gr. Upplýsingaskylda, frávik frá rekstraráætlunum ríkisaðila í A1-hluta.
                  Forstöðumaður ríkisaðila í A1-hluta skal upplýsa hlutaðeigandi ráðherra án tafar um frávik frá rekstraráætlun, ástæður þeirra og hvernig fyrirhugað er að bregðast við þeim. Hlutaðeigandi ráðherra skal upplýsa forstöðumann innan 15 daga um afstöðu sína til fyrirhugaðra viðbragða. Fallist hann ekki á tillögurnar skal hann, innan sama tímafrests, leggja fyrir forstöðumanninn að bregðast við með nánar tilgreindum hætti þannig að settum markmiðum verði náð.
    Það má vel vera að einhverjar tillögur gangi á milli forstöðumanns og ráðherra en engum öðrum er gerð grein fyrir þessum samskiptum. Ekki einu sinni fjárlaganefnd Alþingis.
    Fjáraukalög áttu að verða svo til óþörf með tilkomu LOF en það hefur síður en svo farið þannig og í ár fáum við fjáraukalög númer tvö með næstum 75 milljarða kr. viðbótarfjárheimildum sem ríkisstjórnin biður um og svo aukalega rúmlega 15 milljarða kr. í breytingartillögum. Samtals um 90 milljarðar kr. í auknar fjárheimildir fyrir árið 2022.
    Hvernig stendur á því að í fjárlögum upp á 1.217.9 milljarða kr. með almennan varasjóð upp á 35,3 milljarða kr. þá þurfi auknar fjárheimildir upp á 90 MILLJARÐA í viðbót? Hvað í ósköpunum fór úrskeiðis?

Hvað fór úrskeiðis?
    Fyrstu fjáraukalögin voru tæknilegs eðlis út af breytingum á Stjórnarráði Íslands. Þau hvorki bættu við né minnkuðu fjárheimildir. Það var bara tilfærsla á milli ráðuneyta og stofnun nýrra ráðuneyta. Nú bætast hins vegar við 90 milljarðar kr. sem sundurliðast samkvæmt töflu sem birtist í greinargerð frumvarpsins. Þar eru auknar fjárheimildir vegna kórónuveirufaraldursins í vor metnar upp á tæplega 16,6 milljarða kr. Efnahagslegar aðgerðir eru tæplega 4,9 milljarðar kr. Stuðningur vegna stríðsins í Úkraínu eru rétt rúmir 1,4 milljarðar kr., önnur útgjaldatilefni eru um14,9 milljarðar kr. Að lokum eru svo endurmetin vaxtagjöld upp á 37 milljarða kr. Á móti þessum útgjaldatilefnum eru millifærðir rúmir 13,8 milljarðar kr. af almennum varasjóði.
    Nú bætast við 15 milljarðar kr. í breytingartillögum sem skiptast í tvennt. Annars vegar ýmis útgjaldamál eins og 150 m.kr. í fullnustumál (fangelsi), 100 m.kr. í íþrótta- og æskulýðsmál, 77,3 m.kr. vegna íslenskukennslu vegna móttöku barna á flótta frá Úkraínu og að lokum 780 m.kr. til þess að hækka eingreiðslu til öryrkja upp í 60.300 kr. Hins vegar er gert ráð fyrir 14 milljörðum kr. í lífeyrisaukasjóð LSR.

Nefndarálit meiri hlutans.
    Meiri hlutinn fjallar um endurmat á afkomu ársins 2022 og minnist þar á hraðan viðsnúning í hagkerfinu eftir COVID-19-faraldurinn. Það hefur leitt af sér 94 milljarða kr. betri afkomu ríkissjóðs en búist var við. Halli á frumjöfnuði sé nú 38 milljarðar kr. í stað 134 milljarðar kr. Verðbólgan hefur þó þau áhrif að vaxtagjöld aukast sem gerir það að verkum að heildarniðurstaðan er 60 milljörðum kr. betri en búist var við.
    Meiri hlutinn ákveður í þessum fjáraukalögum og breytingartillögum vegna þeirra að nýta nær alla viðbótarafkomuna í aukin útgjöld, samtals 52,9 milljarða kr. Ágætis vafi er á því hvort þau útgjöld falli undir þau skilyrði sem lög um opinber fjármál gera til fjárheimilda sem hægt er afla með fjáraukalögum, það er að segja að þau séu tímabundin, ófyrirséð og óhjákvæmileg. Athygli skal vakin á því að fjárheimildir sem beðið er um í fjáraukalögum þurfa að uppfylla öll skilyrðin, ekki bara eitt af þeim.
    Vaxtagjöldin falla tvímælalaust undir skilyrði laganna. Þar má þó vekja athygli á því að stefna og aðgerðir stjórnvalda í húsnæðismálum hefur verið ein helsta ástæðan fyrir aukinni verðbólgu á undanförnum árum. Því má alveg leiða að því líkur að hér sé ekki um ófyrirséð útgjöld að ræða heldur ógreindrar afleiðingar pólitískrar stefnu ríkisstjórnarinnar. Að greiningar á verðbólguáhrifum stefnu stjórnvalda vanti getur ekki flokkast sem ófyrirséð heldur verður að flokkast sem handvömm.
    COVID-kostnaður heilbrigðiskerfisins fellur að mestu leyti undir skilyrði laganna. Ný bylgja síðasta vor olli mjög miklu álagi á heilbrigðiskerfið eins og sést í fjáraukalagafrumvarpinu. Sú bylgja hafði sérstaklega mikil áhrif á starfsfólk heilbrigðiskerfisins. Hér er spurningin helst hvort eigi að reyna að gera ráð fyrir fjárheimildum fyrir fram eða eftir á. Stjórnarskráin gerir ráð fyrir því að ekkert gjald megi greiða nema heimild sé fyrir því í fjárlögum eða fjáraukalögum, en hér erum við tvímælalaust að gefa fjárheimildir fyrir gjöldum sem þegar sem þegar hafa verið greidd.
    Kaup á húsnæði fyrir 6 milljarða kr. fyrir utanríkisráðuneytið er algjör óþarfi að hafa í fjárauka.
    Auknar fjárheimildir vegna lyfja eru að miklu leyti ófyrirséðar, miðað við spár um verðbólguþróun, en kostnaður vegna lyfja hefur hins vegar ítrekað verið vanmetinn. Hér er því kannski frekar um vanmat að ræða frekar en óvænt útgjöld.
    Fjölskyldumál vegna fæðingarorlofs og barnabótaauka er óþarfi að hafa í fjáraukalögum. Þetta á að vera stefnumótandi ákvörðun stjórnvalda sem verður að koma fram í fjármálaáætlun.
    Landbúnaðarmál, hækkun vegna verðhækkunar á aðföngum er ekki fjáraukamál.
    Lögbundin hækkun vegna hækkunar skatttekna til jöfnunarsjóðs getur alveg talist vera fjáraukamál. Það má samt segja að hér sé um ákveðið vanmat að ræða.
    Auknar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar, aftur vanmat.
    Viðspyrnuaðgerðir vegna COVID-19 fyrir tónlist, sviðslistir og íþróttafélög. Hér er mögulega viðeigandi að beita fjárauka en aftur spurning hvort það eigi ekki að gera það fyrir fram en ekki eftir á.
    Hækkun framfærslubótar örorku í kjölfar dóms. Hérna ætti að beita varasjóðum áður en gripið er til fjárauka.
    Almennt séð má segja að að langmestu leyti sé um vanmat stjórnvalda að ræða. Lög um opinber fjármál eru skýr hvað það varðar, það á bara að leiða til yfirfærslu halla yfir á næsta ár og þá vonandi betri áætlunargerðar í fjármálaáætlun og fjárlögum næsta árs.

Lífeyrisaukasjóður.
    Það er verið að biðja um 14 milljarða kr. aukalega í fjáraukalögum fyrir þetta ár vegna um 2.200 ríkisstarfsmanna sem hófu vinnu aftur á tímabilinu júní 2016 til júlí 2018. Þetta voru starfsmenn sem áttu rétt á svokölluðum lífeyrisauka sem viðkomandi lífeyrisþegar áttu bara rétt á ef þeir væru opinberir starfsmenn. Það er að segja, rétturinn til lífeyrisauka féll niður ef starfsfólk hætti störfum. Það töldust ekki áunnin réttindi. Þegar lögum um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins var breytt úr jafnri ávinnslu í aldurstengda ávinnslu var samhliða kveðið á um stofnun lífeyrisaukasjóðs innan A-deildar LSR sem var fjármagnaður með sérstöku 106,8 milljarða kr. framlagi úr ríkissjóði vegna lífeyrisréttinda um 25 þúsund sjóðfélaga, sjá www.lsr.is/media/arsskyrslur/Arsskyrsla_2016.pdf. Lögin sem voru samþykkt sögðu meðal annars að þau sem greiddu ekki iðgjald til sjóðsins á tímabilinu júní 2016 til júní 2017 skyldu eiga rétt á greiðslum úr lífeyrisauka hæfu þau greiðslur til sjóðsins eigi síðar en 12 mánuðum eftir gildistöku. Það þýddi þá að einhver sem hafði ekki greitt iðgjöld á tímabilinu júní 2016 til júní 2017 en byrjaði að greiða til LSR fyrir 1. júní 2018 fengi réttindi úr lífeyrisaukasjóði.
    Það sem gerist er að um 1.100 byrja að greiða til LSR á tímabilinu 30. sept. 2016 til 1. júní 2017. Álíka stór hópur bætist síðan við fram til 31. maí 2018.
    En af hverju er þá verið að biðja um 14 milljarða? Jú. Það var metið sem svo að þessi endurkomuréttindi myndu ekki kosta neitt. Ef einhverjir gætu nýtt sér þessa heimild þá myndu að minnsta kosti svipað margir hætta á móti og heildarkostnaðurinn því jafnast út. Þetta vanmat á því hvað þessi lagabreyting kostaði hljómar nú upp á allt að 14 milljörðum kr. Það er álíka mikið vanmat á kostnaði og við glímum nú við vegna málaflokks fatlaðs fólks.
    Það er vakin athygli á þessu máli í greinargerð frumvarpsins en ekki gerð nein tilraun til þess að útskýra mögulegt umfang vandans. Rétt rúmum tveimur vikum seinna kemur svo tillaga frá fjármálaráðuneytinu um 10–14 milljarða kr. til þess að koma til móts við þetta vanmat á kostnaði. Þar segir ráðuneytið að stranglega séð, miðað við lög, þá þurfi ríkið ekki að greiða þennan pening. Það myndi þó þýða einhverjar skerðingar á lífeyri ef það verði ekki gert og út frá sjónarmiðum sanngirni væri ekki hjá því komist að standa skil á þessum fjárheimildum fyrir LSR.
    Það er frekar kaldhæðnislegt í samanburði við bæði þann vanda sem ÍL-sjóður stendur frammi fyrir, þar sem fyrirsjáanlegar eru einhverjar skerðingar á lífeyrisréttindum ef ríkið stendur ekki við skilyrði HFF-bréfanna, og vanda sveitarfélaga vegna lagasetningar um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, þar sem klárlega var vanmat á því hvað sú lagasetning myndi kosta sveitarfélögin sem tóku við þjónustunni.
    En hvaða hópur er þetta sem greiddi ekki iðgjald á bilinu júní 2016 til júní 2017? Við þeirri spurningu fengust engin svör. Fjárlaganefnd hefur ekki hugmynd um hvað einkennir þennan hóp rúmlega 2.000 manns sem kom einhvern vegin aftur inn í LSR á þessum tiltölulega stutta tíma. Samt þarf að samþykkja fjárheimild upp á 14 milljarða kr. til þess að uppgjör LSR líti vel út um áramótin og ekki komi til þess að stjórn LSR þurfi að taka einhverja ákvörðun um breytingar á réttindum.
    Að mati 1. minni hluta ganga þessi rök ekki upp. Það ætti að vera nóg fyrir LSR að stjórnvöld myndu gefa út yfirlýsingu um að þessi réttindi muni vera tryggð af ríkinu til þess að koma í veg fyrir einhverja lagalega skyldu stjórnar LSR til þess að ákveða breytingar á réttindum. Þá væri hægt að vinna vel og faglega að því að útskýra um hvað þetta mál snýst allt saman í staðinn fyrir að troða því í gegnum þingið á einni viku.
    Fjárlaganefnd var lofað að niðurstaða greiningarvinnu vegna þessa máls yrði lögð fyrir nefndina jafnóðum. Þegar 1. minni hluti spurði hins vegar hvort það þýddi að fjárheimildin yrði ekki notuð ef nefndinni litist ekki á blikuna hvað greininguna varðar, þá voru svörin ekki mjög jákvæð. Spurningin væri í raun hversu mikið af fjárheimildinni þyrfti að nota, því eins og segir þá er talið að það þurfi á bilinu 10–14 milljarða kr. Hér er því veitt heimild fyrir 14 milljörðum kr. þó raunveruleg útgjöld gætu verið lægri.

Breytingartillögur.
    Fyrsti minni hluti stendur ásamt nefndinni allri að breytingartillögu sem leiðir af sér 60.300 kr. eingreiðslu til öryrkja. 1. minni hluti vekur þó athygli á því að hér er um að ræða fjárheimild sem fellur ekki undir skilyrði fjáraukalaga samkvæmt lögum um opinber fjármál. Hér er í rauninni um að ræða úthlutun á fjárheimildum sem þegar eru til staðar. Það er að segja að fyrir nokkrum árum síðan voru lagðir til 4 milljarðar kr. til kerfisbreytinga fyrir lífeyrisgreiðslur öryrkja. Hluti þeirra 4 milljarða kr. var notaður til þess að minnka svokallaða krónu á móti krónu skerðingu. Ekki var samkomulag um hvað átti að gera við afganginn og var hann því greiddur út í eingreiðslu í lok árs. Enn hefur ekki verið fundinn staður í kerfinu fyrir þennan afgang af þessum upprunalegu fjórum milljörðum.
    Það er skilningur 1. minni hluta að tillaga ráðherra í fjáraukalögum sé að úthluta afganginum af þessari fjárheimild í eingreiðslu, eins og fyrri ár. Þingið er ekki bundið á sama hátt af skilyrðum laga um opinber fjármál, þar sem segir að „ráðherra er heimilt, ef þess gerist þörf, að leita aukinna fjárheimilda í frumvarpi til fjáraukalaga til að bregðast við tímabundnum, ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum innan fjárlagaársins“. Þingið hefur hins vegar mun frjálsari hendur í fjárheimildum sínum. Því er lögð til ný upphæð í takt við fyrri eingreiðslur sem þingið hefur afgreitt. 1. minni hluti beinir því til ríkisstjórnarinnar að gera ráð fyrir þessari eingreiðslu í næstu fjármálaáætlun. Nánar tiltekið ætti að miða við að þessi eingreiðsla, sem margir túlka sem desemberuppbót (en er það alls ekki), verði í raun sameinuð eiginlegri desemberuppbót og látin fylgja þeirri upphæð sem launþegar á bæði opinberum og almennum vinnumarkaði fá.
    Það undarlega við þessa breytingartillögu er að hún er 300 kr. hærri en breytingartillaga sem Flokkur fólksins lagði fram við 1. umræðu þessa máls. Þótt 300 kr. aukalega séu alveg kærkomin viðbót í þessa eingreiðslu þá er þetta óþarfa skjalavinnsla til þess að þurfa ekki að samþykkja bara tillögu Flokks fólksins.
    Þá stendur 1. minni hluti ásamt fleirum að breytingartillögu um 5 milljarða kr. aukningu til jöfnunarsjóðs vegna útgjalda við framfylgd laga um stuðning við fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Sambærileg fjárheimild er lögð til við 2. umræðu fjárlaga fyrir næsta ár en samsvarandi kostnaður hefur einnig fallið til á þessu ári. Sömu rök gilda um þann kostnað sem hefur fallið á sveitarfélögin á þessu ári og munu falla á þau á næsta ári.
    Hér má geta þess að kostnaður vegna laganna um stuðning við fólk með langvarandi stuðningsþarfir er líklega miklu meiri. Slagar jafnvel upp í 13 milljarða kr. á árinu 2022. Ráðuneytið hefur kallað þennan kostnað „mögulegan útgjaldavanda“ hjá sveitarfélögunum sem þurfi að skoða betur og hefur ríkisstjórnin lagt til 5 milljarða kr. inn í fjárlög næsta árs til þess að koma til móts við þennan kostnaðarauka. Staðreyndin er sú að kostnaður vegna þeirra réttinda sem fólk með langvarandi stuðningsþarfir fékk með lagasetningunni 2018 var stórkostlega vanmetinn. Á nákvæmlega sama hátt og kostnaður vegna lífeyrisaukasjóðs LSR var vanmetinn. Þar er lögð til 14 milljarða kr. heimild þrátt fyrir að enginn hafi góðar greiningar í höndunum um raunverulegan kostnað. Þar er vísað í sanngirnisrök sem eiga alveg jafnmikið við í þessu máli. 5 milljarða kr. aukning til jöfnunarsjóðs vegna þessa fyrir árið 2022, eins og lagt er til vegna næsta árs, er því algjört lágmark. Þessi upphæð ætti að sjálfsögðu að vera að minnsta kosti 9 milljarðar kr., og þess vegna 13 milljarðar kr., með sömu heimildarákvæðum og gerð eru vegna lífeyrisaukans.
    Það er skoðun 1. minni hluta að allur þessi kostnaður sem lagasetningin hefur kostað sveitarfélögin ætti að vera bættur að fullu þegar góð kostnaðargreining hefur verið gerð. Því er að minnsta kosti lagt til að bætt verði við 5 milljörðum kr. fyrir árið 2022 upp í þann kostnað sem er fyrirsjáanlega meiri.

Alþingi, 29. nóvember 2022.

Björn Leví Gunnarsson.