Ferill 409. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 655  —  409. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2022.

Frá 3. minni hluta fjárlaganefndar.


    Nú er komið í ljós að afkoma ríkissjóðs árið 2022 verður umtalsvert betri en gert var ráð fyrir við setningu fjárlaga síðustu jól. Þetta er annað árið í röð þar sem fjárlög draga upp svarta mynd af ríkisfjármálum en síðan reynist staðan mun betri þegar frumvarp til fjáraukalaga kemur til umfjöllunar að hausti. Afkoman reyndist 32 ma.kr. betri í fyrra og afkoman reynist 60 ma.kr. betri í ár.
    Fjármálaráðherra hefur frá upphafi heimsfaraldurs boðað sveltistefnu ríkisfjármála að faraldri loknum. Nú er sú stefna komin til framkvæmda. Til að framfylgja þeirri stefnu er dregin upp eins dökk mynd og hægt er í fjárlagafrumvarpi hverju sinni og síðan kemur í ljós mun betri árangur í frumvarpi til fjáraukalaga um haustið. Þá nýtist þessi aðferð sem eins konar væntingastjórnun. Fjármálaráðherra dregur upp svarta mynd af ríkisfjármálum við upphaf árs en nær alltaf að rétta við skútuna fyrir jólin.
    Verðbólga er að nálgast tveggja stafa tölu og Seðlabanki Íslands virðist ekki hafa önnur ráð gegn henni en að fylgjast með tásumyndum á Instagram og stilla vexti eftir því. Sólarlandaferðir Íslendinga til Tenerife valda því að Seðlabankinn þarf að hækka stýrivexti til að berjast gegn verðbólgu og standa vörð um íslensku krónuna. Staðreyndin er hins vegar sú að verðbólga er að stórum hluta til komin vegna stríðs í Úkraínu og truflana í framboðskeðjum erlendis. Hinn innlendi orsakaþáttur verðbólgunnar er viðvarandi húsnæðisskortur í landinu. Stýrivextir hafa lítil sem engin áhrif á framboð á húsnæði eða verðhækkanir á innfluttum matvörum vegna stríðs í Úkraínu.
    Ríkið hefur tekið verðtryggð lán og því hafa vaxtagjöld ríkissjóðs aukist til muna það sem af er ári um heila 37 ma.kr. Það er ákveðin kaldhæðni fólgin í því að ríkisstjórn sem ávallt hafnar tillögum um að banna verðtryggð lán óski nú eftir aukafjárheimild til að greiða verðbætur eigin lána.
    Samkvæmt frumvarpinu þarf að auka fjárheimild til heilbrigðiskerfisins um 18,4 ma.kr. Bróðurpartur þeirrar hækkunar, um 14,8 ma.kr., skýrist af auknum kostnaði vegna kórónuveirufaraldurs. Þetta er afar umhugsunarverð hækkun í ljósi þess að í fjárlögum var gert ráð fyrir áhrifum faraldursins og fjárheimildir málefnasviðs 23 auknar um 2,6 ma.kr. vegna þess. Ljóst má vera að fjárlög þessa árs tryggðu engan veginn viðbúnað heilbrigðiskerfisins gagnvart kórónuveiru. Sú mikla hækkun sem hér er til umfjöllunar gefur skýrt til kynna þann fjármögnunarvanda sem heilbrigðiskerfið glímir við.
    Þá barst fjárlaganefnd erindi 22. nóvember þar sem fram kemur ósk fjármálaráðuneytis um að hækka fjárheimildir ársins um 14 ma.kr. vegna þess að árið 2017 urðu mistök við breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Þegar A-deild var breytt úr jafnri ávinnslu í aldurstengda ávinnslu var ákveðið að þeir sem ættu réttindi samkvæmt jafnri ávinnslu gætu virkjað þau næstu tólf mánuði eftir lagabreytingu. Fjárhagsáhrif þessarar undanþágu voru ekki metin sérstaklega en nú eru þau metin á 14 ma.kr. Hver bendir á annan og enginn vill axla ábyrgð á því hvers vegna það uppgötvast ekki fyrr en núna að A-deild LSR er svo verulega vanfjármögnuð. Þriðji minni hluti telur málið ekki nægilega upplýst og telur þörf á að afla álitsgerðar áður en breytingartillaga um aukna fjárveitingu til A-deildar LSR verður samþykkt. Hér er um að ræða umtalsverðar fjárhæðir og vert að Alþingi skoði málið gaumgæfilega áður en gengið er lengra. Treysta verður því að fjármálaráðuneyti og Ríkisendurskoðun rannsaki tildrög þeirra lagabreytinga sem leiddu til aukinna skuldbindinga LSR og ekki síst af hverju láðist að greina og meta áhrif þeirra hvað varðar lífeyrisskuldbindingar LSR sem gætu síðan fallið á ríkissjóð.
    Fulltrúar minni hluta fjárlaganefndar hafa sammælst um breytingartillögu sem felur í sér aukna fjárheimild til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að fjármagna með viðhlítandi hætti framfylgd laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Hér er um að ræða lögbundna þjónustu sem ríkið hefur falið sveitarfélögum að framkvæma án þess að tryggja nægt fjármagn. Þessu þarf að breyta svo að fatlað fólk geti fengið þá þjónustu sem lög kveða á um.
    Inga Sæland lagði fram breytingartillögur við frumvarpið 10. nóvember. Í fyrri tillögunni er lögð til 60.000 kr. eingreiðsla til öryrkja og fátækra eldri borgara. Í seinni tillögunni er lagt til 300 m.kr. framlag til SÁÁ og 150 m.kr. framlag til hjálparstofnana. Fjárlaganefnd hefur sammælst um eingreiðslu til öryrkja að fjárhæð 60.300 kr. og lagt fram breytingartillögu um hana en ekki náðist samstaða um sambærilega greiðslu til fátækra eldri borgara. Það er ánægjulegt að sjá að samstaða sé þvert á flokka um eingreiðslu til öryrkja en að sama skapi dapurt að ríkisstjórnarflokkarnir ætli að skilja fátæka eldri borgara eftir enn einu sinni.
    Hvað varðar eingreiðslu til fátækra eldri borgara er vert að minna á að margir eldri borgarar búa við mikla fátækt og ná ekki endum saman. Þeir hópar sem hafa það hvað verst eru konur, sem voru heimavinnandi bróðurpart starfsævinnar, og nutu þá talsvert lakari kjara þegar þær héldu út á vinnumarkaðinn, og öryrkjar sem eru komnir á ellilífeyrisaldur. Þessir hópar náðu ekki að safna lífeyri svo að það skili tekjuaukningu þegar frá eru taldar skerðingar almannatrygginga. Fjölmargir eldri borgarar þurfa að reiða sig á berstrípaðan lífeyri almannatrygginga það sem eftir lifir ævinnar. Það er með öllu óboðlegt að ekki sé hægt að finna til litlar 360 m.kr. í frumvarp til fjáraukalaga til að auðvelda þeim að halda heilög jól, og það þegar boðuð er bætt afkoma um 60 ma.kr. Sjaldan hefði jafnlítil fjárhæð haft jafnmikil áhrif ef eingreiðsla til fátækra eldri borgara yrði samþykkt. Útlit er fyrir að svo verði ekki. Sýnir þetta svart á hvítu forgangsröðun og áhugaleysi ríkisstjórnarinnar á málefnum þeirra sem minna mega sín.
    SÁÁ hafa rekið hágæðaheilbrigðisþjónustu í góðu samstarfi við hið opinbera um margra áratuga skeið. Því miður hefur það tíðkast undanfarin ár að hið opinbera ætlast til að fá full afköst en aðeins greiða fyrir starfsemina að hluta. Nú er starfsemin verulega vanfjármögnuð þrátt fyrir aðdáunarverða fjáröflun samtakanna og sjálfboðaliða þeirra ár hvert. Ef Alþingi grípur ekki í taumana er hætta á því að samtökin þurfi að skera niður þjónustu. Víða má finna fordóma gagnvart fíknisjúkdómum og eflaust eiga fordómar sinn þátt í því að samtökin þurfa hvert einasta ár að berjast fyrir fjárframlögum til að halda áfram rekstri sem ríkið hefur samið um að greiða fyrir. SÁÁ eru samtök áhugamanna sem reka mikilvæga þjónustu sem ætti í raun að vera á hendi ríkisvaldsins í öllum velferðarsamfélögum.
    Undanfarið hafa fulltrúar hjálparsamtaka sem veita matargjafir kallað eftir auknum stuðningi. Vegna mikillar eftirspurnar geta samtökin ekki aðstoðað alla sem á hjálp þurfa að halda. Fólk fer svangt heim. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Með því að styrkja hjálparsamtök um 150 m.kr., eins og lagt er til í breytingartillögu Ingu Sæland, mætti gera kraftaverk, enda færu fjármunirnir óumdeilanlega þangað sem þörfin er mest. Hér er grundvallarmál sem íslenskt samfélag, eitt ríkasta samfélag heims, þarf að taka utan um.

Alþingi, 29. nóvember 2022.

Eyjólfur Ármannsson.