Ferill 161. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 663  —  161. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Bergþóri Ólasyni um samgöngusáttmála.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
Liggur fyrir kostnaðarmat vegna framkvæmda við stokka og tengdar framkvæmdir á Miklubraut annars vegar og á Sæbraut hins vegar sem fjallað er um í samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins? Liggja fyrir áætlanir um hvernig umferð verður veitt fram hjá framkvæmdasvæðunum á framkvæmdatíma?

    Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er hönnun vega skipt í fernt; skilgreiningu, frumdrög, forhönnun og verkhönnun. Nákvæmni áætlana eykst með auknum undirbúningi og óvissumörk eru mismunandi milli hönnunarstiga, mest fyrst en minnst síðast. Frávik frá kostnaðaráætlun og óvissa í einhverri mynd er því til staðar allt til loka verks.
    Nánari upplýsingar um skilgreiningu hönnunarstiga, hvað liggur að baki hverju stigi og dæmigert óvissubili í kostnaðaráætlunum má finna í greinargerð með þingsályktunartillögu að samgönguáætlun 2020–2034.
    Í samgöngusáttmálanum er gert ráð fyrir 21.800 millj. kr. í stokk á Miklubraut. Miðað er við verðlag ársins 2019. Samkvæmt Vegagerðinni var það kostnaðarmat gert á grundvelli skilgreiningar verksins þar sem stuðst var við reynslutölur af svipuðum verkefnum.
    Vinna við frumdrög sem er næsta hönnunarstig hófst í lok sumars og áætlar Vegagerðin að henni ljúki næsta sumar. Í frumdrögum eru helstu stærðir vegnar og metnar og þá mun liggja fyrir uppfærð áætlun um kostnað auk tillögu að því hvernig umferð verði hagað á framkvæmdatíma.
    Í vinnu við frumdrög á að bera saman útfærslu stokks á Miklubraut og jarðganga. Bera á saman þætti eins og útfærslu mannvirkja, samspil við veitulagnir og tilhögun umferðar á verktímanum.
    Vinna við forhönnun stokks á Sæbraut hófst í lok sumars en frumdrög að stokki lágu fyrir vorið 2021. Samkvæmt kostnaðaráætlun sem gerð var með frumdrögum gerir Vegagerðin ráð fyrir að stokkur á Sæbraut kosti 15.500 millj. kr. miðað við verðlag ársins 2021.
    Í vinnu við frumdrög var tilhögun umferðar á framkvæmdatíma skoðuð. Miðað við það svigrúm sem er í nágrenni Sæbrautar er einungis hægt að tryggja eina akrein í hvora átt, 1+1 veg, á framkvæmdatíma. Til að koma fyrir tveimur akreinum í hvora átt, 2+2 vegi, þarf að ganga inn á nærliggjandi lóðir í Vogabyggð.
    Sæbraut er stofnvegur með mikilli umferð og því ekki fýsilegt að hafa einungis eina akrein í hvora átt á framkvæmdatíma. Því eru að hefjast viðræður við viðkomandi lóðarhafa til að tryggja meira svigrúm svo hægt sé að tryggja greiðari umferð á framkvæmdatíma.