Ferill 537. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 679  —  537. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006 (orkuskipti).

Frá matvælaráðherra.



1. gr.

    Við 4. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. geta bátar sem eru styttri en 15 metrar að mestu lengd og minni en 45 brúttótonn öðlast veiðileyfi með krókaaflamarki, noti þeir að lágmarki til helminga vistvæna orkugjafa. Til vistvænna orkugjafa samkvæmt þessari grein teljast rafmagn, vetni, metan og rafeldsneyti. Ráðherra getur með reglugerð heimilað aðra vistvæna orkugjafa með lágu kolefnisspori.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta, sem unnið er í matvælaráðuneytinu, kveður á um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða er varða græn skref í sjávarútvegi. Breytingin lýtur að því að innleiða hvata til orkuskipta tiltekinna skipa sem hafa heimild til að veiða með krókaaflamarki.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Stærðartakmarkanir tiltekinna skipa hafa áhrif á upptöku nýrra orkugjafa og með frumvarpi þessu eru því lagðar til breytingar er varða leyfilega stærð krókaaflamarksbáta sem nýta sér vistvæna orkugjafa.
    Í skýrslu starfshóps fjármála- og efnahagsráðherra um græn skref í sjávarútvegi sem gefin var út í júní 2021 kemur fram að olíunotkun íslenskra og erlendra fiskiskipa í íslenskri lögsögu standi að baki nærri fimmtungi af losun gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð Íslands. Samkvæmt drögum að nýrri eldsneytisspá Orkustofnunar mun olíunotkun fiskiskipa við landið minnka um 6% frá 2020 til 2030. Losun frá fiskiskipum myndi þá í heild hafa minnkað um 37% frá árinu 2005, en samdrátturinn er enn meiri, eða 45%, ef aðeins er horft til íslenskra fiskiskipa. Samdráttur í losun í íslenskum sjávarútvegi er drifinn áfram af hagræðingu í greininni, fjárfestingu í nýjum skipum og búnaði, ásamt árangursríkri fiskveiðistjórn.
    Til þess að hægt sé að ná settum markmiðum þarf losun frá sjávarútvegi að minnka enn meira en orkuspáin gerir ráð fyrir eða losun að minnka enn frekar í öðrum geirum hagkerfisins. Enn fremur hefur Alþingi ályktað að hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í haftengdri starfsemi skuli vera 10% árið 2030. Frumvarp þetta er liður í að ýta undir framþróun í skipakosti með það fyrir augum að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og losun gróðurhúsalofttegunda.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í gildandi lögum um stjórn fiskveiða er stærðartakmörkun fyrir báta til að öðlast veiðileyfi með krókaaflamark. Í lögunum kemur fram að þeir bátar einir geti öðlast veiðileyfi með krókaaflamarki sem eru styttri en 15 metrar að mestu lengd og minni en 30 brúttótonn. Í frumvarpinu er lagt til að bátar sem nota vistvæna orkugjafa hafi heimild til að vera stærri en samkvæmt stærðartakmörkunum gildandi laga, þar sem slíkir bátar gera kröfu um aukið rými vegna orkuinnihalds, þ.e. stærri tanka eða rafhlöðu. Enn fremur þarf að huga að öryggi áhafnar ef notaðir eru eldfimir orkugjafar og öryggisráðstafanir krefjast aukins rýmis í bátunum. Er því lagt til að krókaaflamarksbátum sem gangi að minnsta kosti til helminga fyrir vistvænum orkugjöfum verði heimilt að vera 50% stærri, eða 45 brúttótonn, en þeir bátar sem nú geta öðlast leyfi til veiða með krókaaflamark. Ekki er gert ráð fyrir að lengd bátanna aukist. Til vistvænna orkugjafa samkvæmt frumvarpinu telst rafmagn, vetni, metan og rafeldsneyti. Einnig er heimild fyrir ráðherra að heimila aðra vistvæna orkugjafa með lágu kolefnisspori samkvæmt ákvæðinu. Nauðsynlegt er samkvæmt lögmætisreglu að ráðherra geti rökstutt að tiltekinn orkugjafi rúmist innan þessara efnislegu viðmiða um að orkugjafinn geti verið talinn vistvænn og með lágt kolefnisspor miðað við aðra orkugjafa sem koma ekki frá jarðefnaeldsneyti. Viðmið um slíkt er m.a. að finna í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/2001.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið var ekki talið gefa tilefni til skoðunar á samræmi við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Frumvarpið snertir fyrst og fremst þá aðila sem stunda veiðar með krókaaflamarki.
    Áform um lagasetningu voru til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda dagana 17. ágúst 2022 til og með 31. ágúst 2022 og bárust 13 umsagnir. Í áformum um lagasetningu var gert ráð fyrir breytingu á tvennum lögum, annars vegar á lögum um stjórn fiskveiða og hins vegar á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands er varðar aflvísi fiskiskipa. Í innsendri umsögn kom fram að ruglingslegt gæti verið að blanda þessum tveimur málum saman og var því tekin ákvörðun um að leggja hvort mál fram sjálfstætt til að auka skýrleika.
    Voru umsagnir almennt jákvæðar hvað varðar fyrirhugaða lagasetningu, en þó var vakin athygli á því að rétt væri að endurskoða viðmið laganna um brúttótonn. Enn fremur var vakin athygli á skorti á hvata fyrir minni báta en þá sem næðu lagalegu stærðarhámarki sem og að vafi væri um hvort til staðar væru innviðir til þess að veita þá raforku sem til þyrfti. Í þessu samhengi má nefna að í yfirstandandi stefnumótunarvinnu í sjávarútvegi er meðal annars gert ráð fyrir að starfshópar sem við störf eru leggi til þá hvata til grænna skrefa í sjávarútvegi sem þeir telja rétt að koma í framkvæmd. Vonast er til að í þeirri vinnu komi fram enn frekari hvatar sem verði til þess að útgerðir smærri krókaaflamarksbáta sjái hag sinn í að færa sig yfir í notkun vistvænna orkugjafa. Þá komu fram athugasemdir er varða veiðafærafrelsi krókaaflamarksbáta en fyrrgreindum starfshópum í sjávarútvegi er einnig ætlað að leggja mat á mögulegar breytingar er varða veiðarfæranotkun.
    Drög að frumvarpi voru til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda dagana 20. október 2022 til og með 4. nóvember 2022 í máli nr. S-199/2022. Var helstu hagsmunaaðilum gert viðvart um málið á samráðsgáttinni. Bárust sex umsagnir, frá Landssambandi smábátaeigenda, Samtökum iðnaðarins, Félagi smábátaeigenda á Austurlandi, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og einstaklingum. Í umsögnum kom m.a. fram að stækkun krókaaflamarksbáta gæti leitt til fækkunar þeirra og samþjöppunar aflaheimilda, áhyggjur af því að farið yrði á svig við reglur um notkun vistvænna orkugjafa og að skortur geti verið á framboði slíkra orkugjafa. Þá væri nauðsynlegt að gagnsæi væri um setningu regluverks, um kröfur til hönnunar skipa og búnaðar. Þá voru umsagnir einnig jákvæðar í garð frumvarpsins sem hefur það markmið að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda við fiskveiðar.
    Í kjölfar umsagna var bætt inn í frumvarpið nánari upptalningu á því hvaða orkugjafar teljast vistvænir orkugjafar samkvæmt greininni. Einnig er heimild fyrir ráðherra að heimila aðra vistvæna orkugjafa með lágu kolefnisspori samkvæmt ákvæðinu. Mikilvægt er að taka fram að frumvarpið fjallar um heimild til að vera með stærri skip með minna kolefnisspor sem stunda veiðar með krókaaflamarki en fjallar ekki um ívilnanir með aflaheimildum. Eftirlit mun verða í höndum Fiskistofu eins og önnur atriði sem varða skilyrði til útgáfu almenns veiðileyfis krókaaflamarksbáta.

6. Mat á áhrifum.
    Áhrifin eru að þeir sem veiða með krókaaflamarki gætu samkvæmt ákvæðum frumvarpsins tekið ákvörðun um að gera breytingar á skipunum þannig að þau gangi að hluta fyrir vistvænum orkugjöfum án þess að það hafi áhrif á magn afla, öryggi áhafnar eða annað vegna þess aukna rýmis sem ráðstöfun sem þessi krefst. Talið er að frumvarpið hafi óveruleg áhrif á fjárhag ríkissjóðs, verði það að lögum, þ.e. hafi óveruleg áhrif á tekjur, útgjöld, eignir og aðra áhrifaþætti. Ekki er talið að frumvarpið hafi nein áhrif á stjórnsýslu ríkisins og ávinningur þess ótvíræður, þar sem þeim breytingum sem lagðar eru til er ætlað að ýta undir græn skref í sjávarútvegi með samdrætti í notkun jarðefnaeldsneytis.
    Ekki er talið að ákvæði frumvarpsins, verði það að lögum, hafi áhrif á stöðu kynjanna.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í ákvæðinu er lögð til heimild fyrir 50% stærðaraukningu báta sem knúnir eru áfram að lágmarki til helminga með vistvænum orkugjöfum. Er breytingin lögð til sem hvati fyrir þá aðila sem gera út krókaaflamarksbáta til að gera breytingar á bátunum eða endurnýja þá þannig að þeir falli að umræddu ákvæði og slík ráðstöfun hafi ekki neikvæð áhrif á starfsemi bátanna. Bátar sem ganga fyrir vistvænum orkugjöfum krefjast aukins rýmis fyrir eldsneyti sem og öryggisráðstafanir tengdar eldfimum efnum.