Ferill 541. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 683  —  541. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019 (fjármálaeftirlitsnefnd).

Frá forsætisráðherra.



1. gr.

    Í stað 3. málsl. 2. mgr. 3. gr. laganna kemur nýr málsliður sem orðast svo: Ákvarðanir sem faldar eru Fjármálaeftirlitinu í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum eru teknar af Seðlabanka Íslands eða fjármálaeftirlitsnefnd, sbr. 15. gr.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
     a.      1. og 2. mgr. orðast svo:
                      Fjármálaeftirlitsnefnd setur stefnu um beitingu stjórnsýsluviðurlaga og þvingunarúrræða og skal veita umsögn um stefnumarkandi áherslur í fjármálaeftirliti. Varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits undirbýr tillögu að stefnumörkun við framkvæmd fjármálaeftirlits og hefur umsjón með innleiðingu hennar að lokinni umfjöllun í nefndinni. Þá tekur nefndin ákvarðanir um eftirfarandi:
              a.      afturköllun starfsleyfis og skráningar vegna alvarlegra eða ítrekaðra brota,
              b.      álagningu stjórnvaldssekta,
              c.      samkomulag um sátt þegar um fordæmisgefandi mál er að ræða,
              d.      kæru til lögreglu vegna meintra brota gegn þeim lögum sem Fjármálaeftirlitinu er falið að hafa eftirlit með,
              e.      beitingu dagsekta til að knýja á um úrbætur,
              f.      beitingu févítis,
              g.      frávikningu stjórnarmanns og framkvæmdastjóra þegar hæfisskilyrði eru ekki uppfyllt vegna brotlegrar háttsemi,
              h.      aðrar ákvarðanir en getið er um í a–g-lið sem teljast sérstaklega þýðingarmiklar eða hafa veruleg áhrif.
                      Seðlabankinn tekur aðrar ákvarðanir sem faldar eru Fjármálaeftirlitinu í stjórnvaldsfyrirmælum eða lögum. Seðlabankinn skal, að teknu tilliti til lögbundinna tímafresta, gefa fjármálaeftirlitsnefnd tækifæri til að koma að ábendingum og athugasemdum áður en teknar eru ákvarðanir í eftirfarandi málum:
              a.      ákvörðunum sem varða könnunar- og matsferli fjármálafyrirtækja sem teljast kerfislega mikilvæg,
              b.      veitingu eða synjun starfsleyfis til eftirlitsskyldra aðila,
              c.      afgreiðslu á tilkynningum um virka eignarhluti eftirlitsskyldra aðila,
              d.      höfðun dómsmáls, áfrýjun eða kæru á niðurstöðu dómsmáls til æðri dómstóls í málefnum fjármálaeftirlits.
     b.      Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein er orðast svo:
                      Í fjármálaeftirlitsnefnd sitja seðlabankastjóri, varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika og þrír sérfræðingar í málefnum fjármálamarkaðar skipaðir af ráðherra sem fer með málefni fjármálaeftirlits. Skipunartími þeirra þriggja sérfræðinga sem ráðherra skipar er frá þremur til fimm ára og skal þess að jafnaði gætt að skipun sérfræðinganna þriggja ljúki ekki á sama tíma. Samsetning fjármálaeftirlitsnefndar skal vera þannig að nefndin búi sameiginlega yfir fullnægjandi þekkingu, hæfni og reynslu til að vinna þau verkefni sem nefndinni eru falin. Sami einstaklingur getur setið í fjármálaeftirlitsnefnd í að hámarki tíu ár. Seðlabankastjóri er formaður fjármálaeftirlitsnefndar og er varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits staðgengill hans.

3. gr.

    1. og 2. málsl. 2. mgr. 16. gr. laganna orðast svo: Fjármálaeftirlitsnefnd skal halda fundi eins oft og þörf er á, að jafnaði ekki sjaldnar en sex sinnum á ári. Fjármálaeftirlitsnefnd heldur fundi ef formaður ákveður eða þrír nefndarmenn krefjast þess.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarpið er samið á vegum forsætisráðuneytisins og byggist á tillögum í skýrslu nefndar sem forsætisráðherra skipaði í júní 2021 til að annast úttekt á reynslunni af starfi fastanefnda Seðlabanka Íslands, m.a. með hliðsjón af skiptingu verkefna á milli fjármálastöðugleikanefndar og fjármálaeftirlitsnefndar. Í maí 2022 skipaði forsætisráðherra jafnframt starfshóp til að vera til ráðgjafar við mótun lagabreytingatillagna með hliðsjón af tillögum úttektarnefndarinnar. Í starfshópnum áttu sæti fulltrúar forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og Seðlabanka Íslands.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Með lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019, var eftirlit með fjármálastarfsemi flutt til Seðlabanka Íslands við sameiningu bankans og Fjármálaeftirlitsins. Jafnframt voru gerðar breytingar á stjórnkerfi Seðlabankans og settar á laggirnar fjármálastöðugleikanefnd og fjármálaeftirlitsnefnd, til viðbótar við peningastefnunefnd.
    Í meðförum Alþingis var bætt við frumvarp það sem varð að lögum nr. 92/2019 ákvæði til bráðabirgða sem fól í sér að fyrir lok árs 2021 skyldi ráðherra flytja Alþingi skýrslu þriggja óháðra sérfræðinga á sviði peninga- og fjármálahagfræði og fjármálaeftirlits um reynsluna af starfi nefnda Seðlabanka Íslands eftir gildistöku laganna. Skyldi það m.a. gert með hliðsjón af skiptingu verkefna á milli fjármálastöðugleikanefndar og fjármálaeftirlitsnefndar.
    Forsætisráðherra skipaði hinn 9. júní 2021 nefnd sérfræðinga til að annast úttektina og skilaði nefndin skýrslu til ráðherra í nóvember 2021. Ráðherra flutti Alþingi skýrslu um málið í lok janúar 2022 (þskj. 164, 162. mál 152. löggjafarþings).
    Helsta niðurstaða úttektarnefndarinnar var að af öllum merkjum að dæma hefði gengið vel að sameina Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið. Í skýrslunni kemur fram að nefndin hafi lagt áherslu á að greina hvort markmiðin um valddreifingu, gagnsæi og fullnægjandi aðkomu ytri nefndarmanna, þ.e. utanaðkomandi sérfræðinga í nefndinni, hafi náðst.
    Meginábendingar úttektarnefndarinnar lúta að fyrirkomulagi fjármálaeftirlits og ákvarðanatöku á því sviði.
    Taldi nefndin að í stað þess að fela fjármálaeftirlitsnefnd ákvörðunarvald í öllum málum á sviði fjármálaeftirlits og heimila framsal á töku ákvarðana til varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits, líkt og í gildandi lögum, færi betur á því að skilgreina með fullnægjandi hætti í lögum hvaða verkefni fjármálaeftirlits þurfi að fela sérstakri nefnd og hvaða þættir tilheyri hefðbundinni stjórnsýslu innan Seðlabankans. Segir í skýrslu nefndarinnar að víðtækt starfssvið fjármálaeftirlitsnefndar sé óraunhæft og í raun sé brugðist við því með víðtæku framsali frá nefndinni til varaseðlabankastjóra sem fari með málefni fjármálaeftirlits. Í því sambandi benti úttektarnefndin á að til greina kæmi að einungis ákvarðanir um refsikennd viðurlög og íþyngjandi stjórnsýsluákvarðanir verði teknar á vettvangi þar sem réttlát málsmeðferð er betur tryggð en í núverandi fyrirkomulagi, en í slíkum málum reynir fyrst og fremst á lagalega þætti. Kæmi til greina að verkefni fjármálaeftirlitsnefndar yrðu einskorðuð við slík mál og skipan hennar þá ákveðin með það í huga.
    Einnig benti úttektarnefndin á að mögulegt væri að kveða á um að Seðlabanki Íslands tæki sjálfur ákvarðanir á sviði fjármálaeftirlits með svipuðum hætti og ýmis önnur stjórnvöld og þau verkefni sem eftir væru á sviði fjármálaeftirlits og fjármálastöðugleika myndu þá eiga heima hjá einni og sömu nefndinni, þ.e. fjármálastöðugleikanefnd.
    Tilgangur frumvarpsins er að bregðast við tillögum sem úttektarnefndin setti fram í skýrslu sinni í þeim tilgangi að tryggja réttaröryggi við ákvarðanatöku á sviði fjármálaeftirlits sem best. Eru breytingarnar nauðsynlegar m.a. í ljósi ummæla í skýrslu úttektarnefndarinnar sem varða lögbundin verkefni fjármálaeftirlitsnefndar, skipun nefndarinnar, málsmeðferð og gagnsæi um valdheimildir.
    Þegar hafa verið gerðar breytingar á verkferlum innan Seðlabankans til að koma til móts við athugasemdir sem fram koma í skýrslu úttektarnefndarinnar. Hins vegar liggur fyrir að breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands eru nauðsynlegar til að bregðast við ábendingum sem fram koma í skýrslunni og eru ekki aðrar leiðir færar en að breyta ákvæðum laga um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019.
    Viðbrögð við öðrum athugasemdum úttektarnefndarinnar bíða þar til lokið er mati óháðra sérfræðinga á því hvernig Seðlabanka Íslands hefur tekist að uppfylla markmið um stöðugt verðlag, fjármálastöðugleika og framkvæmd fjármálaeftirlits, sbr. 36. gr. laga um Seðlabanka Íslands. Nú er unnið að matinu og er ráðgert að niðurstöður liggi fyrir í lok árs 2022, sbr. ákvæði til bráðabirgða VII í lögum um Seðlabanka Íslands.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu snúa að meginstefnu að fjármálaeftirlitsnefnd. Í gildandi lögum er kveðið á um að fjármálaeftirlitsnefnd taki allar ákvarðanir sem faldar eru Fjármálaeftirlitinu í lögum. Einnig er kveðið á um að nefndin geti framselt vald sitt til töku ákvarðana sem ekki teljast meiri háttar til varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits.
    Í skýrslu úttektarnefndarinnar er bent á að með þessu fyrirkomulagi sé flækjustig aukið í rekstri og samskiptum við eftirlitsskylda aðila og að betur færi á því að Seðlabankanum væri falið í lögum að taka ákvarðanir á sviði fjármálaeftirlits. Þá er gerð athugasemd við hið umfangsmikla valdaframsal til varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits, sem hefur svo framselt vald sitt til annarra starfsmanna Seðlabankans. Einnig kemur fram að rétt væri að afmarka aðkomu fjármálaeftirlitsnefndar að ákvarðanatöku bankans við refsikennd viðurlög og íþyngjandi stjórnsýsluákvarðanir.
    Lagt er til að Seðlabanki Íslands taki að meginstefnu þær ákvarðanir sem faldar eru Fjármálaeftirlitinu í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Þá er lagt til að fjármálaeftirlitsnefnd fjalli um og taki ákvarðanir í nokkrum tegundum veigameiri mála.
    Einnig er kveðið á um að gefa skuli fjármálaeftirlitsnefnd tækifæri til að koma að ábendingum og athugasemdum áður en teknar eru tilteknar ákvarðanir. Slíkt fyrirkomulag hefur þann tilgang að gera nefndina betur í stakk búna til að fjalla um og fylgjast með starfsemi á fjármálamarkaði.
    Með breytingunni er ætlunin að skýra valdsvið fjármálaeftirlitsnefndar. Við afmörkun þeirra ákvarðana sem fjármálaeftirlitsnefnd er ætlað að taka og þeirra ákvarðana sem kynna skal fyrir nefndinni var m.a. höfð hliðsjón af starfssviði stjórna norrænu fjármálaeftirlitanna.
    Ekki er gert ráð fyrir að fjármálaeftirlitsnefnd geti framselt vald til ákvarðanatöku til varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits og er með því brugðist við þeirri gagnrýni sem sett var fram í skýrslu úttektarnefndarinnar um að slíkt framsal valds og hin lagskipta stjórnsýsla sem búin var til í kringum eftirlitsverkefni innan sömu stofnunarinnar skapi flækjustig við ákvarðanatöku. Með því að afmarka nánar í lögum hvaða ákvarðanir nefndin skal taka er stuðlað að skýrleika í stjórnsýslu á sviði fjármálaeftirlits og er breytingunum ætlað að gera starf nefndarinnar markvissara og efla þar með eftirlitsstarfsemi Seðlabankans.
    Þá er lagt til að seðlabankastjóri verði formaður fjármálaeftirlitsnefndar en hann er for-maður hinna tveggja fastanefndanna, peningastefnunefndar og fjármálastöðugleikanefndar. Er tillagan í samræmi við það sem lagt var til í frumvarpi því er varð að lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019, en úttektarnefndin benti á að það væri rökréttara þegar horft væri til hefðbundinna sjónarmiða um að ábyrgð fylgi ákvörðunum að seðlabankastjóri gegndi formennsku í nefndinni.
    Lagt er til það nýmæli að fjármálaeftirlitsnefnd setji stefnu um beitingu stjórnsýsluviðurlaga og þvingunarúrræða og veiti umsögn um stefnumörkun um áherslur í fjármálaeftirliti. Er gert ráð fyrir því að varaseðlabankastjóri á því fagsviði undirbúi tillögur um áherslur í fjármálaeftirliti og hafi umsjón með innleiðingu þeirra.
    Jafnframt er lagt til að ákvæði laganna um skipunartíma utanaðkomandi sérfræðinga í fjármálaeftirlitsnefnd verði breytt svo að skipunartími þessara nefndarmanna verði mislangur, frá þremur til fimm árum. Markmið tillögunnar er að tryggja að utanaðkomandi sérfræðingar í nefndinni láti ekki af störfum á sama tíma og stuðla þannig að samfellu þegar kemur að þekkingu utanaðkomandi nefndarmanna á starfsemi nefndarinnar og að nýir nefndarmenn fái möguleika á að starfa með sérfræðingum sem hafa setið í nefndinni í einhvern tíma.
    Enn fremur er lagt til að kveðið verði á um að fjármálaeftirlitsnefnd komi saman eins oft og þurfa þykir, að jafnaði ekki sjaldnar en sex sinnum á ári en ekki tíu sinnum eins og nú er.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið vekur ekki spurningar um samræmi við stjórnarskrá eða þjóðréttarskuldbindingar.

5. Samráð.
    Svo sem að framan greinir skipaði forsætisráðherra hinn 9. júní 2021 nefnd þriggja sér-fræðinga til að annast úttekt á fastanefndum Seðlabankans. Í störfum sínum ræddi nefndin við fjölda aðila.
    Áform um lagasetningu og frummat á áhrifum voru kynnt í opnu samráði í samráðsgátt stjórnvalda (mál nr. S-134/2022). Engar umsagnir bárust um áformin og frummatið. Drög að frumvarpi ásamt endanlegu mati á áhrifum voru sömuleiðis kynnt í almennu samráði í samráðsgátt stjórnvalda (mál nr. S-217/2022). Ein umsögn barst frá Seðlabanka Íslands.
    Í umsögn bankans er tekið undir þá afmörkun á ákvörðunum fjármálaeftirlitsnefndar sem lögð er til í 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins um breytingu á 15. gr. laga nr. 92/2019, um Seðlabanka Íslands. Slík afmörkun tryggi að mati bankans að aðkoma fjármálaeftirlitsnefndar bæti ákvörðunartöku í málum þar sem mjög ríkar kröfur eru gerðar til stjórnsýslumeðferðar og aðgerða Seðlabankans og á sama tíma sé hún til þess fallin að auka skilvirkni í hefðbundnum eftirlitsverkefnum. Seðlabankinn gerir þó athugasemd við tillögur að nýjum 2. málsl. 2. mgr. 15. gr., sbr. a-lið 2. gr. Að mati bankans séu flest þau mál sem hér um ræðir og talin eru upp í 2. mgr. 2. gr. hefðbundnar eftirlitsákvarðanir. Slíkar ákvarðanir séu þess eðlis að rétt sé að þær lúti innra skipulagi bankans og séu teknar af þeim aðila sem ber stjórnskipulega ábyrgð á rekstri hans eða þeim aðila sem hann framselur valdið til. Auk þess sé í mörgum tilvikum lögbundinn tímafrestur til að ljúka afgreiðslu máls. Nauðsynlegt sé að mati bankans að horfa til skilvirkni og hagkvæmnissjónarmiða við ákvarðanatöku, auk þess sem ætla má að slík afgreiðslumál þurfi ekki sömu aðkomu nefndarinnar og íþyngjandi ákvarðanir á borð við til að mynda álagningu stjórnvaldssekta. Í ljósi þessa leggur bankinn til breytt sé þeirri tillögu sem birtist í 2. málsl. 2. mgr. 2. gr. og að ákvarðanir í þessum tilteknu málum sem þar eru talin upp verði þess í stað bornar undir fjármálaeftirlitsnefnd til upplýsingar eða kynningar.
    Að mati forsætisráðuneytisins er mikilvægt að áður en teknar eru ákvarðanir í þessum tilteknum málum sé fjármálaeftirlitsnefnd veitt tækifæri að koma að ábendingum og athugasemdum og þar með vera umsagnaraðili áður en bankinn tekur þessar ákvarðanir frekar en að eingöngu sé um að ræða tilkynningar til nefndarinnar um þegar teknar ákvarðanir. Ekki verður séð að það sé til þess fallið að draga úr skilvirkni og hagkvæmni við ákvarðanatöku bankans, heldur geti þvert á móti orðið til þess að styrkja slíka ákvarðanatöku í ljósi þeirra ábendinga og athugasemda sem kunna að berast bankanum frá nefndinni í einstökum málum.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið felur fyrst og fremst í sér viðleitni til að auka réttaröryggi við framkvæmd fjármálaeftirlits og töku stjórnvaldsákvarðana. Efnahags- og fjárhagsleg áhrif sem ótvírætt væri hægt að rekja til frumvarpsins eru því óveruleg. Ekki er gert ráð fyrir neinum fjárhagslegum áhrifum fyrirhugaðra breytinga á ríkissjóð, né heldur hagrænum áhrifum á heildar-eftirspurn eða einstaka markaði sem haft gætu áhrif á hagstjórn. Ekki er heldur gert ráð fyrir að þær breytingar sem lagafrumvarpið felur í sér hafi nein áhrif á reglubyrði vegna fjármálaeftirlits, á samkeppni fyrirtækja, fjölda þeirra á markaði eða möguleika þeirra til þess að mæta samkeppni vegna reglusetningar.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í ákvæðinu er lögð til breyting á 2. mgr. 3. gr. laganna þar sem fjallað er um ákvarðanatöku innan Seðlabanka Íslands. Í 1. mgr. 3. gr. kemur fram sú meginregla að seðlabankastjóri fari með yfirstjórn bankans og fari með ákvörðunarvald í öllum málefnum hans sem ekki eru falin öðrum með lögum. Í 2. mgr. 3. gr. kemur fram að hvaða leyti þrjár fastanefndir bankans koma að ákvarðanatöku og er fjallað um fjármálaeftirlitsnefnd í 3. málsl. málsgreinarinnar. Lagt er til, sbr. 2. gr. frumvarpsins, að í stað þess að fela fjármálaeftirlitsnefnd það hlutverk að taka allar ákvarðanir sem faldar eru Fjármálaeftirlitinu í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum verði aðkoma nefndarinnar afmörkuð við nánar tilteknar ákvarðanir auk þess að koma að stefnumótun í fjármálaeftirliti. Aðrar ákvarðanir en þessar verði Seðlabankanum falið að taka til samræmis við 1. mgr. 3. gr. laganna.

Um 2. gr.

    Í ákvæðinu eru lagðar til breytingar á 15. gr. laganna um hlutverk og skipan fjármálaeftirlitsnefndar.
    Í fyrsta lagi er lagt til að kveðið verði á um það í 1. mgr. að fjármálaeftirlitsnefnd setji stefnu um beitingu stjórnsýsluviðurlaga og þvingunarúrræða en slík stefnumótun er nátengd því hlutverki nefndarinnar að taka ákvarðanir í málum sem snúa að beitingu refsikenndra viðurlaga. Þá er lagt til að nefndin veiti umsögn um stefnumarkandi áherslur í fjármálaeftirliti en Seðlabankinn og áður Fjármálaeftirlitið hafa sett sér og gefið út opinberlega stefnumarkandi áherslur í fjármálaeftirliti til nokkurra ára í senn. Með þessu eru áherslur í eftirliti mótaðar til skemmri tíma sem endurspeglast m.a. í árlegri verkáætlun. Með tillögunni er komið til móts við ábendingar um að eðlilegt sé að fjármálaeftirlitsnefnd hafi það hlutverk, eins og aðrar fastanefndir Seðlabankans, að koma að mótun stefnu á málefnasviði nefndarinnar.
    Í öðru lagi er lagt til að um leið og Seðlabanka Íslands er falið að meginstefnu til að taka ákvarðanir sem faldar eru Fjármálaeftirlitinu í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum verði kveðið á um það að tilteknar ákvarðanir á sviði fjármálaeftirlits verði teknar af fjármálaeftirlitsnefnd, sbr. 1. gr. frumvarpsins.
    Lagt til að það verði skilgreint með ítarlegri hætti en áður hvaða ákvarðanir skuli bornar undir fjármálaeftirlitsnefnd. Í greininni eru ákvarðanirnar taldar upp í a–h-lið. Að meginstefnu er um að ræða ákvarðanir er snúa að beitingu stjórnsýsluviðurlaga og þvingunarúrræða,
    Þær viðurlagaheimildir sem Seðlabanki Íslands hefur yfir að ráða eru m.a. álagning stjórnvaldssekta og févíta, beiting dagsekta til að knýja á um úrbætur og afturkallanir starfsleyfa og skráningar vegna brota. Er lagt til að fjármálaeftirlitsnefnd taki ákvarðanir er varða framangreint. Þá er lagt til að fjármálaeftirlitsnefnd taki ákvarðanir um gerð sátta þegar um fordæmisgefandi mál er að ræða, en Seðlabankinn geti lokið málum vegna brota sem varða stjórnvaldssekt með sátt við málsaðila um greiðslu sektarfjárhæðar. Einnig er lagt til að fjármálaeftirlitsnefnd taki ákvarðanir um hvort meint brot á lögum, sem Fjármálaeftirlitinu er falið að hafa eftirlit með, verði kærð til lögreglu, en samkvæmt lögum er Seðlabankanum sem eftirlitsaðila á fjármálamarkaði skylt að kæra meint meiri háttar brot á sérrefsilöggjöf sem undir bankann heyrir til lögreglu.
    Jafnframt er lagt til að fjármálaeftirlitsnefnd taki ákvarðanir um frávikningu stjórnarmanna eða framkvæmdastjóra eftirlitsskyldra aðila vegna brota enda leiði brotið til þess að aðili uppfylli ekki lengur hæfisskilyrði sem gerð eru til þeirra í lögum og reglum. Við slíkar aðstæður er gerð krafa um að viðkomandi láti af störfum, ella er viðkomandi vikið frá með formlegri ákvörðun.
    Loks er lagt til að í h-lið 1. mgr. verði kveðið á um að í öðrum tilvikum en tilgreind eru í a–g-lið málsgreinarinnar taki fjármálaeftirlitsnefnd ákvarðanir sem teljast sérstaklega þýðingarmiklar eða hafi veruleg áhrif að mati Seðlabankans. Hér er til að mynda átt við ákvarðanir sem fela í sér beitingu annarra tegunda stjórnsýsluviðurlaga eða þvingunarúrræða en talin eru upp í greininni og aðrar þýðingarmiklar ákvarðanir sem geta haft víðtækar og verulegar afleiðingar á fjármálamarkaði. Slíkar ákvarðanir geta einnig varðað eigið fé, laust fé og fjármögnun kerfislega mikilvægra fjármálafyrirtækja. Gert er ráð fyrir að framangreint verði nánar útfært í starfsreglum nefndarinnar.
    Með því að endurskoða, afmarka og skilgreina með þessum hætti þær ákvarðanir sem bornar skulu undir fjármálaeftirlitsnefnd er komið til móts við sjónarmið úttektarnefndarinnar um aukið réttaröryggi og skilvirkni í fjármálaeftirliti.
    Lagt er til að í 2. mgr. 15. gr. verði kveðið á um að gefa skuli fjármálaeftirlitsnefnd tækifæri til að koma að ábendingum og athugasemdum áður en teknar eru tilteknar ákvarðanir. Er þar m.a. um að ræða ákvarðanir sem varða könnunar- og matsferli fjármálafyrirtækja sem teljast kerfislega mikilvæg, veitingu eða synjun starfsleyfis til eftirlitsskyldra aðila, afgreiðslu á tilkynningum um virka eignarhluti eftirlitsskyldra aðila og höfðun dómsmáls, áfrýjun eða kæru á niðurstöðu dómsmáls til æðri dómstóls í málefnum fjármálaeftirlits.
    Lagt er til að ákvæði sem nú eru í 2. mgr. 15. gr. verði í nýrri málsgrein, sem verður 3. mgr. Jafnframt er lagt til að ákvæðinu verði breytt þannig að þar verði kveðið á um að seðlabankastjóri skuli eiga sæti í fjármálaeftirlitsnefnd og verði formaður nefndarinnar. Þá er lagt er til að kveðið verði á um það í lögum að varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits verði staðgengill hans og gegni formennsku í fjarveru og forföllum seðlabankastjóra. Ákvæðið er í samræmi við tillögu sem lögð var fram í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 92/2019. Ákvæðinu var breytt í meðförum Alþingis þannig að seðlabankastjóri á almennt ekki sæti í nefndinni og varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits veitir nefndinni að jafnaði formennsku. Seðlabankastjóri tekur þó sæti í nefndinni, og veitir henni formennsku, við töku ákvarðana um setningu starfsreglna hennar, framsal ákvörðunarvalds til varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits og ákvarðana sem varða eigið fé, laust fé og fjármögnun kerfislega mikilvægra fjármálafyrirtækja.
    Í skýrslu úttektarnefndarinnar kemur fram að ef horft sé til hefðbundinna sjónarmiða um að ábyrgð fylgi ákvörðunum væri rökréttara að seðlabankastjóri hefði formlega stöðu innan nefndarinnar í þeim málum sem henni eru falin þótt hann myndi í samræmi við stjórnskipulag fela varaseðlabankastjóra að leiða málefnasviðið. Er breytingin lögð til í því skyni að koma til móts við þessar ábendingar, en reynslan hefur sýnt að áhyggjur af orðsporsáhættu sem fram koma í umræðum á Alþingi hafa reynst óþarfar.
    Í ákvæðinu er einnig lagt til að ákvæði laganna um skipunartíma utanaðkomandi sér-fræðinga í fjármálaeftirlitsnefnd verði breytt svo að skipunartími þeirra verði mislangur, frá þremur upp í fimm ár. Markmið tillögunnar er að tryggja samfellu í starfi nefndarinnar með því að tryggja að ávallt eigi sæti í nefndinni utanaðkomandi nefndarmaður sem hefur reynslu og þekkingu af starfi nefndarinnar. Í samræmi við breytinguna er lagt til að í stað þess að kveða á um að ekki megi skipa sérfræðing oftar en tvisvar verði kveðið á um að sérfræðingur geti ekki átt sæti í fjármálaeftirlitsnefnd í meira en tíu ár.
    Að öðru leyti eru ekki gerðar tillögur að breytingum á skipan nefndarinnar og er því gert ráð fyrir að nefndarmenn verði sex talsins.

3. gr.

    Í ákvæðinu er lögð til sú breyting á 2. mgr. 16. gr. laganna að í stað þess að kveðið sé á um að fjármálaeftirlitsnefnd skuli halda fundi að jafnaði tíu sinnum á ári þá sé kveðið á um að nefndin skuli halda fundi eins oft og þörf er á og að jafnaði eigi sjaldnar en sex sinnum á ári. Eftir sem áður geti nefndin hist oftar ef formaður hennar ákveður eða ef þrír nefndarmenn krefjist þess. Til samanburðar er með sama hætti gert ráð fyrir fjórum fundum árlega hið minnsta hjá fjármálastöðugleikanefnd, sbr. 2. mgr. 14. gr. laganna, en sex fundum hjá peningastefnunefnd, sbr. 2. mgr. 11. gr. laganna.