Ferill 404. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 692  —  404. mál.




Svar


matvælaráðherra við fyrirspurn frá Eyjólfi Ármannssyni um veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar.


    Matvælaráðuneytið leitaði upplýsinga frá Hafrannsóknastofnun varðandi svör við 1. og 3.–8. tölul. fyrirspurnar.

     1.      Hver er ástæðan fyrir því að mati Hafrannsóknastofnunar að þorskstofninn hafi minnkað gríðarlega á síðustu árum þrátt fyrir mun minni sókn með lækkuðu veiðihlutfalli á reiknaðri stofnstærð?
    Það er rétt að ráðgjöf um aflamark í þorski hefur farið lækkandi frá fiskveiðiárinu 2020–2021. Ástæðan fyrir þessari lækkun er tvíþætt. Annars vegar hefur stofnstærð þorsks farið minnkandi frá árinu 2015 sökum minni nýliðunar. Hins vegar var stofnmati þorsks breytt árið 2021 á sama tíma og aflareglan var endurskoðuð.
    Ástæður endurskoðunarinnar voru í stórum dráttum breytt aldurssamsetning stofnsins og breytt meðhöndlun á gögnum úr stofnmælingaleiðöngrum fyrir eldri aldursflokkana. Fyrir endurskoðun árið 2021 var fjöldi eldri fiska í stofninum því ofmetinn og leiddi endurskoðunin til lækkunar í mati á stærð þorskstofnsins. Afleiðing þess var að ráðgjöf varð lægri.

     2.      Telur ráðherra koma til greina að fela Hafrannsóknastofnun að kanna ástæður þess að nýliðun þorskstofnsins hefur verið lítil frá því snemma á tíunda áratug síðustu aldar eða frá því að dregið var mjög úr sókn?
    Veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar er birt í júní ár hvert. Í ráðgjöf um stofnþróun/stofnmat þorsks kemur fram mat stofnunarinnar á nýliðun þorskstofnsins, þ.e. fjöldi/magn nýliða, en einnig hvort um er að ræða aukningu eða minnkun nýliðunar og orsakir þeirra breytinga. Lögbundið hlutverk Hafrannsóknastofnunar er m.a. að afla með rannsóknum alhliða þekkingar á hafinu, ám og vötnum landsins og lífríki þeirra, með áherslu á hvernig nýta megi lifandi auðlindir með sjálfbærum hætti. Breytileiki í nýliðun þorskstofnsins er grundvallarþáttur í veiðiráðgjöf. Í ljósi þessa telur ráðherra ekki þörf á að fela Hafrannsóknastofnun að greina nýliðun sérstaklega, enda er það viðvarandi verkefni stofnunarinnar.

     3.      Telur ráðherra að lítil nýliðun, sem hefur farið minnkandi á síðastliðnum tveimur árum, þrátt fyrir að hrygningarstofn þorsks hafi verið mjög stór frá árinu 2011 og aldrei mælst stærri en nú í vor, gefi tilefni til endurskoðunar á þeirri kenningu að stór hrygningarstofn sé forsenda mikillar nýliðunar?
    Frá 1985 hefur nýliðun verið metin stöðug en þó umtalvert lægri en að jafnaði var á árunum 1955 til 1984. Á það má benda að frá árinu 1985 hefur hrygningarstofninn u.þ.b. þrefaldast að stærð og tíðni slakrar nýliðunar lækkað. Þannig hefur t.d. ekki verið metinn árgangur undir 100 milljónum nýliða síðan 2004.
    Stærri hrygningarstofn dregur úr líkum á mjög slakri nýliðun. Umhverfisaðstæður þegar lirfur klekjast úr eggi þurfa að vera þannig að fæða sé til staðar. Fæðuframboð við klak lirfa getur verið mjög mismunandi, t.d. getur vorblómi dýrasvifs verið breytilegur milli ára, en með stærri hrygningarstofni fæst meiri dreifing eggja í tíma og rúmi og þar með eru auknar líkur á að nýklaktar lirfur komist í fæði.
    Á það má benda að miklar breytingar hafa orðið í nýliðun annarra tegunda. Sem dæmi þá minnkaði nýliðun skarkola eftir 1990, nýliðun jókst mikið í löngu eftir 2005 en sandsíli hvarf eftir 2005. Þá hefur engin nýliðun mælst í humarstofninum í nær tvo áratugi. Undanfarin ár hefur Hafrannsóknastofnun bent á að nýliðun í fjölmörgum tegundum hefur verið slök allt frá árinu 2008. Þrátt fyrir almennt slaka nýliðun margra nytjastofna hefur þorskstofninn ekki sýnt sömu lækkun. Mikilvægt er að rannsaka hvort ástæður fyrir þessum miklu sveiflum í nýliðun eru náttúrulegur breytileiki eða umhverfisbreytingar.
    
     4.      Hvað segir það um nákvæmni mats Hafrannsóknastofnunar á náttúrulegri stofnstærðarsveiflu fiskstofna og ráðgjafar um veiðar að ufsastofninn sé metinn í niðursveiflu þrátt fyrir mun minni veiðar en samkvæmt ráðgjöf stofnunarinnar síðastliðinn áratug, ýsustofninn sé metinn í talsverðum vexti þrátt fyrir mun meiri veiðar frá árinu 2018 en samkvæmt ráðgjöf stofnunarinnar og þorskstofninn sé metinn í talsverðri niðursveiflu þrátt fyrir að ráðgjöf stofnunarinnar hafi verið fylgt með minni sókn frá því snemma á tíunda áratug síðustu aldar?
    Ábyrg stýring fiskstofna er langtímaverkefni. Þótt engin óvissa væri um mat á stofnstærðum nytjastofna og ráðgjöf fylgt til hlítar myndu náttúrulegar sveiflur lífríkis leiða til þess að ráðgjöf sveiflist í takt við þær sveiflur.
    Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um aflamark í ufsa hefur farið lækkandi undanfarin ár. Stofnmat ufsa er ónákvæmara en fyrir þorsk og ýsu sökum atferlis tegundarinnar og getur leitt til aukins breytileika í ráðgjöf milli ára. Þá eru vísbendingar um að ufsastofninn hafi verið ofmetinn síðustu fimm ár. Hafrannsóknastofnun telur þó ástand ufsastofnsins gott í sögulegu samhengi, nýliðun er stöðug og veiðihlutfall nálægt því sem að er stefnt í aflareglu stjórnvalda. Stærð ufsastofnsins er því ekki talin í niðursveiflu eða bera merki um ofveiði.
    Spáð er umtalsverðri stækkun ýsustofnsins vegna stórra árganga sem eru að koma inn í viðmiðunarstofninn, sem er 45 cm og stærri ýsa. Mjög mikill breytileiki er í nýliðun stofnsins og stækkar hann því tímabundið þegar stórir árgangar koma inn, jafnvel þótt veitt sé umfram aflamark. Aflaregla stjórnvalda tekur tillit til þessara eiginleika stofnsins með varkáru veiðihlutfalli og þar með auknum stöðugleika í afla milli ára.
    Hvað varðar þorskstofninn er vísað til svars við 1. tölul. fyrirspurnar.

     5.      Hefur verið notast við einhverjar líffræðilegar kennitölur á borð við vöxt og viðgang einstaklinga í þorskstofninum við ákvörðun á ráðlögðum heildarafla? Ef svo er, hvernig var þeim beitt og ef ekki, hvers vegna?
    Já. Upplýsingar um vöxt og viðgang einstaklinga innan þorskstofnsins koma inn í stofnmatið í formi meðalþyngdar eftir aldri þegar viðmiðunarstofn og ráðlagt aflamark er reiknað. Almennt safnar Hafrannsóknastofnun ítarlegum upplýsingum um vöxt, líkamlegt ástand og fæðu margra nytjastofna og gerir grein fyrir þeim í tækniskjölum sem fylgja ráðgjöf um aflamark. Þessar upplýsingar eru aðgengilegar á heimasíðu stofnunarinnar og á vef Alþjóðahafrannsóknaráðsins. 1

     6.      Hafa verið gerðar athuganir á náttúrulegri dánartölu þorsks, hvort hún sé rétt, hvort hún sé breytileg milli ára, árganga og fisktegunda, og hvort hún sé tengd vellíðan og vaxtarskilyrðum fiska?
    Þekkt er að náttúruleg dánartala fiska er breytileg. Þetta hefur m.a. verið skoðað sérstaklega fyrir þorsk á Íslandsmiðum í nýbirtri grein. 2 Þar skoða höfundar þann hluta náttúrulegs dauða þorsks sem er líklegur til að tengjast ástandi, t.d. fæðu, sjúkdómum og sníkjudýrum, og sýna að líkleg dánartala vegna þessara þátta er breytileg í tíma. Vert er að taka fram fyrir túlkun þessara gagna að hér er eingöngu rætt um hlutfall af náttúrulegri dánartölu. Það getur verið erfitt að meta ástand þorsks, og þar með hvernig ástand tengist dánartölu, eingöngu á þeim metlum (slembistærðum) sem eru aðgengilegir, s.s. lengd, þyngd eða lifrarhlutfalli.
    Því er erfitt að meta náttúrulega dánartölu fiskstofna af nákvæmni og sérstaklega breytileika í dánartölu milli ára. Fyrir þorsk, þar sem áreiðanleiki stofnmatslíkana byggir að nokkru leyti á löngum samfelldum gagnaröðum, hefur það ekki enn verið talið bæta matið að meta breytileika í náttúrulegri dánartölu. Þess má einnig geta að þegar reynt er að meta stærðargráðu á náttúrulegum afföllum í þorski, sem að fullu er kominn inn í veiði, þá er það mat nokkuð nærri þeirri tölu sem notuð er í stofnmatinu.

     7.      Hver tekur ákvarðanir um breytingar á forsendum í gæðum á stofnmati og kæmi til greina að kynna þær opinberlega?
    Hafrannsóknastofnun endurskoðar reglulega í samvinnu við Alþjóðahafrannsóknaráðið grundvöll ráðgjafar sinnar fyrir helstu fiskistofna, fyrir þorsk á fimm til sjö ára fresti. Í þeirri vinnu er farið yfir gögn, aðferðafræði og gæði stofnmatsins. Öll sú vinna sem þar fer fram er kynnt í ítarlegum skýrslum sem aðgengilegar eru á vef Alþjóðahafrannsóknaráðsins. Auk þess er hagsmunaaðilum tryggð áheyrnaraðild á þessum rýnifundum. 3
    Hafrannsóknastofnun hefur verið og er ávallt tilbúin til að kynna þessar niðurstöður fyrir þeim sem þess óska.

     8.      Hvaða fleiri breytur á borð við ástand annarra stofna, átu, hitastig o.fl., sem ekki er tilkynnt um í ráðgjöf og tækniskýrslum Hafrannsóknastofnunar, eru teknar með í reikninginn við undirbúning fiskveiðiráðgjafar? Er hver fisktegund rannsökuð og metin í einangrun eða í samhengi við aðra stofna?
    Hafrannsóknastofnun kynnir reglulega niðurstöður umhverfisrannsókna, stofnmælingaleiðangra og kortlagningu búsvæða. 4 Ráðgjöf stofnunarinnar um aflamark byggir, fyrir utan loðnu, að litlu leyti á fjölstofnaáhrifum.

1     Sjá t.d. www.hafogvatn.is/is/veidiradgjof og
www.ices.dk/sites/pub/Publication%20Reports/Stock%20Annexes/2015/cod-iceg_SA.pdf
2    Sjá doi.org/10.1093/icesjms/fsac063
3    Sjá leiðbeiningar Alþjóðahafrannsóknaráðsins:
www.ices.dk/community/Documents/Advice/Introduction%20to%20Benchmarks%20at%20ICES.pdf
4    Sjá t.d. www.hafogvatn.is/is/midlun/utgafa