Ferill 316. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Prentað upp.

Þingskjal 695  —  316. mál.
Fylgiskjöl.
Svar


matvælaráðherra við fyrirspurn frá Gísla Rafni Ólafssyni um yfirráð yfir kvóta.


    Matvælaráðuneytið leitaði upplýsinga hjá Fiskistofu varðandi 1., 2. og 3. tölul. fyrirspurnarinnar.
    Í svari Fiskistofu kemur fram að farið var í gegnum 50 stærstu útgerðir 2022–2033 (aflamark og krókaaflamark), raðað eftir þorskígildum (ÞÍG).
    Nýjasti ársreikningur hvers félags var opnaður og/eða raunverulegir eigendur skoðaðir hjá RSK og eignarhald hvers félags fyrir sig skráð niður á einstaklinga eftir hlutfalli. Fyrir þau félög sem skráð eru á markað var farið eftir hluthafalista frá 31. október sl.
    Alls komu upp 219 nöfn en listinn er yfir 50 stærstu einstaklingana eftir ÞÍG. Einnig sýnir hann hlutfall hvers einstaklings eftir tegund. 50 stærstu útgerðirnar fara með 91,885% af aflamarki. Sá aðili sem er í 50. sæti fer með 0,331% af ÞÍG en næsti aðili á lista fer með 0,285%. Listinn ætti því að gefa ágæta mynd.
    Þá tekur Fiskistofa fram að eignatengsl eru byggð á ársreikningum félaganna fyrir 2021.

     1.      Hvaða félög/einstaklingar hafa yfirráð yfir kvóta? Óskað er sundurliðunar eftir fisktegund og þróun yfirráða undanfarin tíu ár.
    Sjá upplýsingar Fiskistofu í fylgiskjali I og II.

     2.      Hvert er eignarhald í þeim félögum sem hafa yfirráð yfir kvóta? Óskað er eftir að tíu stærstu hluthafar hvers félags og eignarhlutur þeirra komi fram, ásamt lista yfir hverjir eru skráðir raunverulegir eigendur þessara félaga.
    Sjá upplýsingar Fiskistofu í fylgiskjali III.

     3.      Hversu stórt er hlutfall af kvóta sem 50 stærstu eigendurnir (einstaklingar) fara með yfirráð yfir, þegar tekið er tillit til þess hverjir eru skráðir raunverulegir eigendur félaga sem hafa yfirráð yfir kvóta? Óskað er sundurliðunar eftir fisktegund.
    Sjá upplýsingar Fiskistofu í fylgiskjali IV.

     4.      Hvaða forsenda er fyrir því að skilgreiningin á tengdum aðilum í sjávarútvegi miðast við 50% eignarhlut þegar miðað er við 20% eignarhlut í öðrum greinum?
    Skilgreiningar á tengdum aðilum í sjávarútvegi og skilgreiningar í öðrum greinum byggja á ólíku lagaumhverfi. Í tilfelli sjávarútvegsins byggja skilgreiningar á lögum nr. 27/1998 og fjallað er um forsendur þeirra í greinargerð með lögunum. Alþingi hefur ekki séð ástæðu til að samræma þær skilgreiningar þvert á greinar. Bent er á að matvælaráðuneytið samdi nýlega við Samkeppniseftirlitið um að tryggja fjárhagslegt svigrúm til að stofnunin gæti ráðist í athugun á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi. Samhliða er stefnt að auknu samstarfi stofnana á þessu sviði, þ.e. Samkeppniseftirlitsins, Fiskistofu, Skattsins og Seðlabanka Íslands.
    Athuguninni er fyrst og fremst ætlað að auka gagnsæi og bæta stjórnsýslu á sviði eftirlits með stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi. Í henni felst upplýsingasöfnun og kortlagning eignatengsla sjávarútvegsfyrirtækja, sem hafa fengið úthlutað ákveðnu umfangi aflaheimilda, og áhrifavalds eigenda sjávarútvegsfyrirtækja í gegnum beitingu atkvæðisréttar og stjórnarsetu í fyrirtækjum.
    Framangreind kortlagning verður sett fram í sérstakri skýrslu sem verður afhent matvælaráðuneytinu eigi síðar en 31. desember 2023 og verður því aðgengileg ráðuneytinu í stefnumótunarvinnu um sjávarútveginn. Í þeirri stefnumótunarvinnu á meðal annars að fjalla um hvernig hægt er að auka gagnsæi í rekstri fyrirtækja í sjávarútvegi.


Fylgiskjal I.


www.althingi.is/altext/pdf/153/fylgiskjol/s0695-f_I.pdf


Fylgiskjal II.


www.althingi.is/altext/pdf/153/fylgiskjol/s0695-f_II.pdf


Fylgiskjal III.


www.althingi.is/altext/pdf/153/fylgiskjol/s0695-f_III.pdf


Fylgiskjal IV.


www.althingi.is/altext/pdf/153/fylgiskjol/s0695-f_IV.pdf