Ferill 421. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 696  —  421. mál.




Svar


matvælaráðherra við fyrirspurn frá Berglindi Ósk Guðmundsdóttur um fiskiprófun fyrir erlend skip innan íslenskrar lögsögu.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hyggst ráðherra styðja við nýsköpun í sjávarútvegi með því að heimila, undir handleiðslu starfsmanna Fiskistofu, framkvæmd á svokallaðri fiskiprófun fyrir erlend skip innan íslenskrar lögsögu?

    Í 13. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, er heimild fyrir ráðherra til að veita tímabundin leyfi til veiðitilrauna og annarra vísindalegra rannsókna í fiskveiðilandhelgi Íslands og þurfa þau leyfi ekki að vera bundin við íslenska aðila. Ráðherra hefur á þessu ári ekki veitt erlendum skipum nein leyfi til veiðitilrauna eða annarra vísindalegra rannsókna í fiskveiðilandhelgi Íslands.
    Matvælaráðuneytið veitir utanríkisráðuneytinu umsögn á grundvelli 1. mgr. 9. gr. laga nr. 41/1979, um landhelgi, aðlægt belti, efnahagslögsögu og landgrunn, varðandi erindi frá erlendum stjórnvöldum um vísindalegar rannsóknir í lögsögu Íslands. Í slíkum tilvikum leitar matvælaráðuneytið til Hafrannsóknastofnunar og byggir umsögn sína á grunni faglegrar ráðgjafar stofnunarinnar. Á þessu ári hefur ráðuneytið veitt slíka umsögn vegna tuttugu og fjögurra tilvika.
    Á þessu ári hefur ráðuneytinu borist eitt erindi, þar sem óskað var heimildar til að framkvæma svokallaða fiskiprófun (e. fishing trial) fyrir erlend fiskiskip innan íslenskrar lögsögu. Áætlað var að afli við slíka tilraun yrði að hámarki 1–3 tonn fyrir hverja fiskiprófun. Niðurstaða ráðuneytisins var sú að ekki væri lagaheimild fyrir ráðherra/ráðuneyti til að heimila erlendu skipi að stunda fyrrgreindar fiskiprófanir í fiskveiðilandhelgi Íslands og var erindinu því hafnað.
    Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er kveðið á um að skipuð verði nefnd til að kortleggja áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum og meta þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnarkerfisins. Í framhaldi af því skipaði ráðherra í vor fjóra starfshópa og samráðsnefnd. Verkefni þessara hópa eru m.a. tillögugerð á sviði nýsköpunar og hafrannsókna. Í þeirri vinnu er tækifæri til að ræða kosti þess að skjóta lagastoð undir veiðitilraunir að þessu tagi. Gert er ráð fyrir að fyrstu drög að tillögum hópanna verði birt í upphafi næsta árs, þ.e. 2023, og lokatillögur liggi síðan fyrir vorið 2023.