Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 699  —  1. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2023.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið á fjölmörgum fundum og fengið til sín gesti frá umsagnaraðilum og ráðuneytum. Þeir voru frá ASÍ, BHM, Bandalagi íslenskra listamanna, BSRB, Bændasamtökum Íslands, Geðhjálp, Landspítala, Landssambandi eldri borgara, Landssamtökunum Þroskahjálp, NPA-miðstöðinni, Öryrkjabandalagi Íslands, Reykjavíkurborg, SÁÁ, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu, Samtökum iðnaðarins, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, Samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, Sjúkrahúsinu á Akureyri, Sjúkraliðafélagi Íslands, Sjúkratryggingum Íslands, Vestfjarðastofu og Fjórðungssambandi Vestfjarða og Viðskiptaráði Íslands.
    Auk umsagnaraðila kallaði nefndin til fundar við sig fulltrúa skrifstofu Alþingis og frá fjármála- og efnahagsráðuneyti sem gerðu grein fyrir einstökum greinum frumvarpsins og greinargerð með því. Gerðu þeir einnig grein fyrir tillögum ríkisstjórnar til breytinga á frumvarpinu fyrir 2. umræðu um það. Þá kallaði nefndin til ráðherra og starfsmenn allra ráðuneyta sem gerðu grein fyrir breytingum á fjárhagsramma málefnasviða sem undir þá heyra.
    Nefndinni bárust einnig aðrar umsagnir auk fjölmargra annarra erinda og minnisblaða.

Umfjöllun og verklag nefndarinnar.
    Auk umsagna um frumvarpið sjálft bárust nefndinni erindi og óskir sem fólu í sér beiðni um stuðning, hreinar fjárbeiðnir eða viðbótarframlög. Nefndin fylgdi því verklagi að áframsenda slíkar beiðnir til viðkomandi ráðherra. Það er í samræmi við ábyrgð ráðherra, sem kemur fram í 20. og 21. gr. laga um opinber fjármál.
    Þá hefur nefndin kallað eftir skýringum og rökstuðningi ráðuneyta vegna einstakra mála sem fram komu í umsögnum og á fundum nefndarinnar með umsagnaraðilum. Eins og tíðkast hefur á undanförnum árum sendi nefndin fjölmargar skriflegar fyrirspurnir til ráðuneyta með ósk um minnisblöð um einstök atriði frumvarpsins. Þá átti nefndin í fyrsta sinn fundi með fulltrúum fjármála- og efnahagsráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis þar sem sérstaklega var farið yfir svör ráðuneyta og minnisblöð.
    Frumvarpið byggist á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands frá því í sumar en ný spá var birt 11. nóvember. Í kjölfarið hefur fjármála- og efnahagsráðuneyti endurmetið tekjustofna sem byggjast á áætluninni auk þess sem tilteknir útgjaldaliðir hafa tekið breytingum sem byggjast á nýrri þjóðhagsspá. Þær tillögur eru hluti breytingartillagna fyrir 2. umræðu um frumvarpið.

Heildaráhrif breytingartillagna – afkoma ríkissjóðs.
    Gerðar eru breytingartillögur við sundurliðun 1, þ.e. tekjuáætlun frumvarpsins, um 23.727 m.kr. til hækkunar tekna, og við sundurliðun 2, sem eru gjaldaheimildir málefnasviða og málaflokka, um 52.960,6 m.kr. til hækkunar gjalda.
    Heildarafkoman verður þá neikvæð um 118.195 m.kr. en það rúmast vel innan þess ramma sem fjármálastefnan leyfir. Hallinn mun þá nema um 3% af vergri landsframleiðslu (VLF). Í töflu að aftan koma fram breytingar á 1. gr. frumvarpsins þar sem gjöld og tekjur eru sett fram samkvæmt alþjóðlegum hagskýrslustaðli.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Helstu markmið frumvarpsins.
    Frumvarpið er lagt fram í samræmi við lög um opinber fjármál, nr. 123/2015. Í 6. gr. laganna er tilgreint hvernig tölugrunnur frumvarpsins er byggður upp og settur fram. Í 14. gr. kemur fram að frumvarpið skuli vera í samræmi við markmið gildandi fjármálaáætlunar sem samþykkt var á Alþingi 14. júní 2022 og tekur til áranna 2023–2027.
    Meginmarkmið frumvarpsins snúa að fjórum lykilþáttum:
     1.      Styrkur ríkissjóðs endurheimtur með því að lækka rekstrarhalla og stöðva hækkun skuldahlutfalls á næsta ári.
     2.      Ríkisfjármálum beitt gegn þenslu og verðbólgu. Dregið er úr mótvægisaðgerðum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru á næsta ári og aðhaldi beitt til að styðja við markmið Seðlabanka Íslands um að draga úr verðbólguþrýstingi.
     3.      Staðinn verður vörður um heimilin í landinu, einkum með því að stuðla að því að viðkvæmir hópar séu varðir fyrir áhrifum verðbólgu. Lögð er áhersla á að innviðir og grunnþjónusta séu styrkt og á að viðhalda raunvirði bóta almannatrygginga.
     4.      Áframhaldandi lífskjarasókn. Mikill tekjuvöxtur hefur styrkt stöðu heimilanna á undanförnum árum og hefur staða þeirra aldrei verið sterkari. Með því að stuðla að áframhaldandi hagvexti verður Ísland í mun sterkari stöðu en mörg nágrannalönd okkar.

Breytingar á útgjaldaramma milli ára.
    Í greinargerð með frumvarpinu er tafla á bls. 123 sem sýnir í stórum dráttum breytingar frá fjárlögum þessa árs, bæði tekjur og gjöld. Breyting fyrir einstök málefnasvið rammasettra útgjalda er sýnd í töflu á bls. 129. Fjárhæðir beggja ára miðast við verðlag ársins 2022 og öll frávik því sýnd að raungildi. Með rammasettum gjöldum er átt við að útgjöld vegna vaxtagjalda, lífeyrisskuldbindinga, atvinnuleysis og til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga eru undanskilin.
    Í töflu að aftan hefur tillögum meiri hlutans verið bætt við breytingar í frumvarpinu til að skýra breytingar milli ára.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Á heildina litið hækka heildargjöld rammasettra útgjalda um 48,5 ma.kr. eða 4,8%. Framlög til félags-, húsnæðis- og tryggingamála hækka um 9,7 ma.kr. eða 3,6%. Það skýrist að mestu af áætlaðri fjölgun ellilífeyrisþega auk þess sem frítekjumark atvinnutekna öryrkja stórhækkar. Þá hækka framlög til Fæðingarorlofssjóðs um 2,6 ma.kr. Útgjöld til húsnæðisbóta hækka um 1,5 ma.kr.
    Framlög til heilbrigðismála hækka um 17,4 ma.kr. eða sem nemur 5,7%. Þar vegur þyngst 6,8 ma.kr. raunhækkun til heilbrigðisstofnana og sjúkratrygginga til að koma til móts við aukna eftirspurn og öldrun þjóðarinnar. Framlög til lyfjamála eru stóraukin eða um 5,2 ma.kr. Einnig er 1,2 ma.kr. bætt við vegna reksturs nýrra hjúkrunarrýma sem gert er ráð fyrir að tekin verði í notkun á næsta ári.
    Á móti vega nokkur tilefni til lækkunar vegna stofnkostnaðar þar sem framkvæmd við nýjan Landspítala og framkvæmdir við Sjúkrahúsið á Akureyri hafa hliðrast í tíma.
    Framlög til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina hækka að raungildi um 6,1 ma.kr. eða rúm 20% sem er hlutfallslega þriðja mesta hækkun allra málefnasviða. Þar munar mestu um 4 ma.kr. aukningu á endurgreiðslum vegna kvikmyndagerðar og 1,3 ma.kr. hækkun styrkja til nýsköpunarfyrirtækja.
    Framlög til umhverfis- og orkumála hækka um 5,7 ma.kr. eða sem nemur 18%. Fjölmargar aðgerðir í loftslagsmálum í tengslum við skuldbindingar í þeim efnum eru fjármagnaðar. Bætt er við 1,4 ma.kr. til Orkusjóðs vegna verkefna um orkuskipti. Auk þess er bætt í fjárveitingar til að bæta ástand ferðamannastaða innan náttúruverndarsvæða og þjónustu á þeim.
    Lækkun til sjávarútvegsmála skýrist af niðurfellingu tímabundinna framlaga til smíði nýs hafrannsóknarskips.

Þróun útgjalda til fjárfestinga.
    Ein meginskýringin á því að gjöldin lækka ekki á næsta ári, þrátt fyrir að áhrifa heimsfaraldurs gæti mun minna en áður, er sú að aðgerðir vegna COVID-19 ná yfir lengra tímabil. Nefna má að fjárfestingarátak sem ákveðið var á fyrsta ári faraldurs stendur enn yfir auk stuðnings við rannsóknir og nýsköpunar- og þróunarstarf. Ætlunin er að viðhalda fjárfestingarstigi þannig að arðbærar fjárfestingar verði áfram framarlega í forgangsröðun í fjárlögum.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.    Línuritið að framan sýnir hvernig þróun helstu fjárfestingarflokka hefur verið allt frá árinu 2017. Þar koma glögglega í ljós áhrif fjárfestingarátaks ríkisins árið 2021. Framlög til samgöngumála dragast saman eftir það, en framlög til uppbyggingar hjúkrunarheimila og til nýsköpunar og rannsókna- og þekkingargreina haldast því sem næst óbreytt þrátt fyrir að áhrifa heimsfaraldurs gæti ekki lengur. Í gildandi fjármálaáætlun var tekin ákvörðun um að gera stóran hluta þess stuðnings, eða um 75%, varanlegan frá og með árinu 2024. Eins og sést eru fjárfestingar áfram miklum mun hærri en þær voru árið 2017 í öllum helstu fjárfestingarflokkum.
    Fjárfestingarframlög til sjúkrahúsmála fylgja að mestu verkframvindu við byggingu nýs Landspítala sem hefur heldur dregist frá því sem upphaflega var áætlað.
    Í ljósi nemendafjölgunar bæði á framhalds- og háskólastigi voru framlög til beggja skólastiga stóraukin í faraldrinum. Einungis hluti aukningarinnar hefur fallið niður í ljósi þess að skólaganga spannar nokkurra ára tímabil.

Efnahagsforsendur.
    Efnahagsforsendur frumvarpsins byggjast á sumarspá Hagstofu Íslands. Samkvæmt nýjustu spám eru horfur á að hagvöxtur í ár verði verulegur eða í kringum 6%. Á næsta ári er gert ráð fyrir því að hægi á vexti innlendrar eftirspurnar og að hagvöxtur verði um 2%. Í forsendum frumvarpsins er reiknað með því að hagvöxtur verði um 2,7% á næsta ári. Helstu drifkraftar hagvaxtar á næsta ári verða útflutningur á vöru og þjónustu og fjárfestingar í íbúðarhúsnæði.
    Útlit er fyrir að ferðaþjónusta og fjöldi ferðamanna nái fyrri styrk og að á næsta ári muni fjöldi ferðamanna verða svipaður og fyrir heimsfaraldur. Þetta hefur áhrif á þjónustuútflutning sem hefur aukist talsvert í ár og mun einnig aukast talsvert á næsta ári.
    Verðbólga hefur hækkað verulega fram eftir ári en tólf mánaða hækkun í mælingu Hagstofu Íslands á vísitölu neysluverðs fór hæst í 9,9% í júlí 2022. Í nýjustu mælingu nam tólf mánaða hækkunin 9,3% og útlit er fyrir að verðbólgan hafi nú náð hámarki þótt það sé ekki alveg útséð með það enn. Í forsendum frumvarpsins er gert ráð fyrir að verðbólga á næsta ári fari lækkandi og verði um 4,9%.
    Í haustspá Hagstofu Íslands er þó gert ráð fyrir nokkuð hærri verðbólgu á næsta ári eða um 5,6%. Helstu orsakir verðbólgu má rekja til verðhækkana á hráefni í helstu viðskiptalöndum sem hafa aukið aðfangakostnað. Þá hefur spenna á vinnumarkaði sett þrýsting á launakostnað. Mest vegur þó hækkun á húsnæðislið vísitölu neysluverðs en áætlað er að um 40% af hækkun vísitölu neysluverðs á þriðja ársfjórðungi í ár megi rekja til verðbreytinga á húsnæði.
    Áætlað er að á næsta ári muni hrávöruverð og erlend verðbólga lækka ásamt því að dragi úr verðhækkunum á húsnæðismarkaði. Seðlabanki Íslands hefur brugðist við með hækkun vaxta en meginvextir standa nú í 6,0% eftir síðustu vaxtabreytingu bankans. Í nýrri spá bankans er þó reiknað með eilítið betri horfum í verðlagsþróun. Eigi að síður gerir bankinn ráð fyrir því að verðbólga á næsta ári verði áfram talsvert yfir verðbólgumarkmiði.
    Í súluriti að aftan er sýnd þróun tólf mánaða breytingar á verðbólgu frá því í byrjun árs 2021.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.    Horfur eru á að atvinnuleysi í ár verði að meðaltali tæp 4%. Í forsendum frumvarpsins er áætlað að atvinnuleysi á næsta ári verði á svipuðu róli eða um 3,7%.
    Í töflu að aftan er sýndur samanburður á sumarspá Hagstofu Íslands og nýrri spám fram eftir hausti.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.    Samkvæmt spám Hagstofu Íslands hafa hagvaxtarhorfur á næsta ári versnað og hagvaxtarspá lækkað úr 2,9% í 1,8%. Á móti kemur að hagvaxtarhorfur í ár hafa batnað talsvert en þar hefur Hagstofan hækkað spá sína úr 5,1% í 6,2%. Niðurstaðan er sú að samanlagt verði umfang hagkerfisins á næsta ári á svipaðri stærðargráðu og reiknað var með í sumarspá Hagstofunnar þrátt fyrir lækkun á hagvaxtarspá fyrir næsta ár. Auk þess kemur fram í nýrri hagspá Seðlabanka Íslands að hagvöxtur á næsta ári verði á svipuðu róli og gert er ráð fyrir í forsendum frumvarps til fjárlaga.
    Nýjustu spár gefa til kynna að tekjur ríkissjóðs gætu orðið nokkuð hærri en gert var ráð fyrir í frumvarpinu. Til að mynda hefur grunnur einkaneyslu hækkað samkvæmt spám Hagstofunnar og Seðlabanka Íslands, sem eykur tekjur vegna virðisaukaskatts.
    Verðbólguhorfur fyrir næsta ár hafa versnað nokkuð frá sumarspá Hagstofu Íslands en til að mynda er reiknað með að hrávöruverð og erlend verðbólga muni lækka hægar en gert var ráð fyrir í sumarspá Hagstofunnar.

Alþjóðlegar efnahagshorfur og óvissa í heimshagkerfinu.
    Horfur í alþjóðahagkerfinu halda áfram að vera dökkar. Útlit er fyrir að í ýmsum helstu hagkerfum verði óverulegur hagvöxtur á næsta ári eða jafnvel samdráttur. Einnig veldur innrás Rússa í Úkraínu talsverðri óvissu um gang mála.
    Orkumál og orkukostnaður er ofarlega á baugi, sérstaklega í Evrópu. Mikil óvissa ríkir um orkumál í Evrópu þar sem Rússar hafa dregið úr útflutningi á gasi um 20% frá 2021. Þá hefur verð á gasi í Evrópu fjórfaldast frá 2021. Ekkert lát virðist vera hryllilegum stríðsrekstri Rússa í Úkraínu, með ófyrirséðum afleiðingum fyrir Úkraínu og Evrópu alla.
    Víða í Evrópu er verðbólga mjög há en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) spáir því að í ár verði verðbólga í Þýskalandi 8,5% og 7,2% á næsta ári. Á Bretlandi er spáð enn hærri verðbólgu eða 9,1% í ár og 9,0% á næsta ári. Þessi mikla verðbólga hefur valdið því að seðlabankar hafa brugðist við með aðhaldssamri peningastefnu með því að hækka meginvexti. Seðlabanki Evrópu, sem var lengi vel með 0% vexti, hefur hækkað vexti í 2%. Þá hafa Englandsbanki og Seðlabanki Bandaríkjanna hækkað vexti verulega á þessu ári. Talsverð óvissa ríkir um áhrif af slíkri peningastefnu á alþjóðahagkerfi, fjármálakerfi og heimili. Staðan er sérstaklega erfið í löndum þar sem verðbólga er mikil, vextir hafa verið hækkaðir og hagvöxtur er lítill sem enginn.
    Verulega hefur hægt á hagvexti í Kína. AGS áætlar að hagvöxtur þar í ár verði 3,2% og 4,4% á næsta ári. Á árunum fyrir heimsfaraldur hafði hagvöxtur í Kína um langt skeið verið að jafnaði vel yfir 6%. Þar í landi ríkir enn talsverð óvissa um takmarkanir vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og um þróun á fasteignamörkuðum. Kínverskt hagkerfi er orðið svo mikilvægt að þegar hægir þar á hefur það talsverð áhrif á heimsviðskipti og umsvif í alþjóðahagkerfinu.
    Í töflu að aftan má sjá spá AGS frá því í október 2022 um hagvöxt og verðbólgu á næsta ári í nokkrum af helstu hagkerfum heims ásamt Norðurlöndum.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Áætlað er að hagvöxtur í Bandaríkjunum verði mjög hóflegur eða um 1,0% á næsta ári og verðbólga um 3,5%. Erfiðara ástand er í Evrópu þar sem hagvöxtur í mörgum löndum verður minni en 1% á næsta ári. Jafnvel er reiknað með að samdráttur geti orðið í Þýskalandi. Samkvæmt spá AGS er ástand efnahagsmála nokkuð misjafnt á Norðurlöndum en í Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð er reiknað með minna en 1% hagvexti. Staða efnahagsmála í Noregi og á Íslandi er nokkuð betri samkvæmt spá AGS.

Áherslumál og ábendingar meiri hluta fjárlaganefndar.
    Meiri hlutinn telur sérstaka ástæðu til að vekja athygli á nokkrum áherslumálum í tengslum við tillögur sínar fyrir 2. umræðu um frumvarpið.

Um forgangsröðun vegna starfsemi stofnana.
    Frá breytingum á lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015, sem samþykktar voru haustið 2017, hefur aukin áhersla í umfjöllun fjárlaganefndar verið á málefnasvið og málaflokka. Fyrir umræddar breytingar voru fjárveitingar til einstakra liða fjárlaga í kastljósinu, m.a. í umræðum á Alþingi. Það er mat meiri hlutans að markvissara sé að ræða stefnumörkun og forgangsröðun líkt og nú er gert. Þetta leiðir af sér að ráðherrar einstakra málaflokka svara fyrir fjármögnun einstakra liða og stofnana.
    Mikilvægt er að stefnumörkun sé gagnsæ og ákvarðanir og breytingar þingsins markvissar. Meiri hlutinn beinir því til ríkisstjórnarinnar að skerpa á áherslum sínum, sér í lagi þeim sem hafa bein áhrif á starfsemi ríkisstofnana og verkefni á þeirra vegum sem flutt hafa verið út á land.

Framlög til grunnrannsókna.
    Á undanförnum árum hafa fjármunir til nýsköpunar, rannsókna og þróunar verið auknir um 5 ma.kr. á ári. Grundvallarbreytingar hafa verið gerðar í umhverfi nýsköpunar og efling samkeppnissjóða hefur laðað fram mikla krafta sem byggja undir sókn til verðmætasköpunar og fjölgunar starfa. Afar mikilvægt er að hefja vinnu við að meta árangur af auknum fjármunum og hvert við stefnum. Miklum vexti í málaflokknum fylgja vaxtarverkir sem nauðsynlegt er að leggja mat á. Fjárlaganefnd stefnir að því að meta árangur og skilvirkni af auknum fjármunum á árinu 2023.
    Við vinnu fjárlaganefndar vegna frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2023 hefur kastljósið beinst að grunnrannsóknum. Grunnrannsóknir eru í þessum skilningi rannsóknir sem illa eða ekki passa inn í markmið og viðmið samkeppnissjóða, eru í eðli sínu langtímavöktun eða þess eðlis að stuttur tími leiðir ekki fram niðurstöður sem byggja undir verðmætasköpun innan þess ramma sem tíðkast í samkeppnissjóðaumhverfi.
    Fjárlaganefnd kallaði eftir upplýsingum frá ráðuneytum um kostnað við slíka rannsóknastarfsemi. Af svörum má draga þá ályktun að skýr viðmið vanti um hvernig hægt væri að flokka rannsóknir og vöktun með tilliti til þessa umhverfis. Skilgreina þyrfti í framhaldinu skil milli rannsókna og huga að stefnumörkun á sviði grunnrannsókna. Meiri hlutinn beinir því til ráðuneyta að fyrir gerð fjármálaáætlunar vorið 2023 verði tekin saman fyrstu skref í slíkri flokkun og fyrirkomulag fjármögnunar til lengri tíma. Meiri hlutinn hefur þar t.d. í huga rannsóknir á sviði jarðvísinda og veðurs, rannsóknir í ferðaþjónustu, hafrannsóknir og langtímarannsóknir á sviði landnýtingar, jarðræktar og plöntukynbóta. Nú eru stofnanir á þessum sviðum fjármagnaðar með framlögum á fjárlögum og grunnrannsóknir því að langstærstum hluta fjármagnaðar með því rekstrarfé. Eðlilega skal reynt að fullnýta samkeppnissjóði og aðra möguleika á fjármögnun. Grunnrannsóknir eru nauðsynlegar vegna langtímahugsunar sem þeim fylgir og leiðir af sér nýsköpun og tækifæri til aukinnar verðmætasköpunar.

Netöryggismál.
    Undanfarin ár hafa verið byggðir upp mikilvægir fjarskiptainnviðir um land allt samkvæmt áherslum stjórnvalda og nýr gagnasæstrengur, IRIS, hefur verið lagður til Írlands. Ríkisstjórnin hefur lagt mikla áherslu á nýsköpun og þróun sem byggist að stórum hluta á tækni og er þess getið í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að unnið verði markvisst að því að auka traust almennings á upplýsingatækni með áherslu á netöryggi. Netöryggi er einnig stór þáttur í þjóðaröryggisstefnu Íslands sem nú er til umfjöllunar á Alþingi. Lagt er til 100 m.kr. framlag til netöryggismála til að fylgja ofangreindum áherslum eftir.

Félagsmál.
    Meiri hlutinn fagnar sérstaklega þeim skrefum sem verið er að stíga í átt að endurskoðun örorkulífeyriskerfisins, í málefnum aldraðra og í öðrum veigamiklum þáttum í velferðarþjónustu. Í takt við breyttar áherslu í málaflokkunum breytast útgjöld til félags-, húsnæðis- og tryggingamála mest frá síðustu fjárlögum. Innan málaflokksins hafa framlög ekki síst aukist til að stuðla að betri kjörum og velferð þeirra sem fá greiðslur almannatrygginga.
    Á árinu verða húsnæðisbætur auknar um 1,5 ma.kr. Þessi þáttur frumvarpsins er mikilvægur til að jafna stöðu fólks á leigumarkaði og styðja þau sem mest þurfa á að halda. Meiri hlutinn vill árétta mikilvægi þess að ná utan um umfang þeirra vandamála sem steðja að í húsnæðiskerfinu og þess að skilja hvar og hvernig sá vandi er. Meiri hlutinn bíður niðurstaðna starfshóps um húsnæðisstuðning. Meiri hlutinn væntir þess að aðgerðir sem byggðar eru á tillögum starfshópsins verði að fullu fjármagnaðar innan ramma fjárlaga fyrir árið 2023.
    Meiri hlutinn fagnar tillögum ríkisstjórnarinnar um tvöföldun frítekjumarks atvinnutekna örorkulífeyrisþega og um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Tillögurnar hækka frítekjumarkið úr 109.600 kr. í 200.000 kr. Markmiðið er að auka atvinnuþátttöku örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega. Þessi breyting eykur til muna möguleika til atvinnuþátttöku sem vinnur gegn félagslegri einangrun og getur aukið almenna velferð fólks. Þá er ráðgert að fjölga samningum um notendastýrða persónulega aðstoð við fatlað fólk með 375 m.kr auknum framlögum. Ráðgert er að ráðstöfunin fjölgi samningum um 50% og verða framlög úr ríkissjóði til NPA því alls 1.083 m.kr.
    Þá verða 2,6 ma.kr. lagðir í aukningu til Fæðingarorlofssjóðs. Markmið hækkunarinnar er að stuðla að bættri nýtingu fæðingarorlofs. Þau markmið stuðla að auknu jafnrétti en ungir karlmenn eru líklegri til að nýta ekki fæðingarorlofsrétt en ungar konur.

Heilbrigðismál.
    Meiri hlutinn fagnar sérstaklega auknum framlögum til heilbrigðismála. Aukning til heilbrigðismála í heild nemur 53 ma.kr. að raungildi frá árinu 2020 og til sjúkrahúsþjónustu um 4,5 ma.kr. að raunvirði frá núgildandi fjárlögum.
    Trygg þjónusta til verndar heilsu fólks eru sameiginlegir hagsmunir samfélagsins og grunnur að velsæld þjóðarinnar.
    Í kjölfar heimsfaraldurs hefur mikil þörf safnast upp eftir heilbrigðisþjónustu sem endurspeglast m.a. í biðlistum. Þótt áhrif COVID-19 á samfélagið dvíni ört og opinberum sóttvarnaaðgerðum hafi verið aflétt er ljóst að heilbrigðiskerfið er enn að glíma við faraldurinn og afleidd áhrif hans.
    Til að ná þeim markmiðum sem sett voru fram í stjórnarsáttmála og heilbrigðisstefnu til 2030 um jafnt aðgengi allra landsmanna að heilbrigðisþjónustu leggur meiri hlutinn til aukið fjármagn til heilbrigðismála.
    Viðbótarframlag til heilbrigðismála milli umræðna er 12,2 ma.kr. og undirstrikar það áherslu stjórnvalda á að standa vörð um heilbrigðiskerfið. Þar ber helst að nefna 2,3 ma.kr. styrkingu á rekstrargrunni Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri til að gera þeim betur kleift að sinna mikilvægum verkefnum sínum innan heilbrigðiskerfisins. Áfram verður haldið að styrkja heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað innan heilbrigðiskerfisins með 2 ma.kr. viðbótarframlagi. Nefna má fleiri mikilvæg framlög, m.a. til uppbyggingar Grensásdeildar, hærri fjárheimild vegna reksturs nýrra hjúkrunarrýma, aukin framlög til sjúkratrygginga, aukna áherslu á betri geðheilbrigðisþjónustu og lægri greiðsluþátttöku sjúklinga.
    Fjármagn er veitt til verkefna sem tengjast endurreisn heilbrigðiskerfisins og endurheimt heilbrigðisstarfsfólks í kjölfar heimsfaraldurs. Til viðbótar verður ráðist í verkefni til að vinna niður biðlista eftir ýmsum aðgerðum, svo sem liðskiptaaðgerðum. Viðbótarfjármagn er sömuleiðis veitt til að efla bæði endurhæfingarúrræði og heimahjúkrun í takt við stjórnarsáttmála og heilbrigðisstefnu til 2030.
    Framlög til kaupa á leyfisskyldum lyfjum hafa aukist jafnt og þétt undanfarin ár vegna fjölgunar þjóðarinnar og breyttrar aldurssamsetningar hennar. Hafa kringumstæður, m.a. faraldur og stríð, leitt til verðhækkana. Til að mæta þessari þróun og tryggja bestu fáanlegu lyf og meðferðir eru framlög aukin um 2 ma.kr.
    Heilbrigðismál eru einn stærsti útgjaldaliður ríkisins og sæta ekki aðhaldskröfu. Þá telur meiri hlutinn að mikilvægt sé að fyrir liggi ítarleg greining og upplýsingar um hvernig fjármunum er varið, m.a. með því að tengja fjárveitingar við framleiðsluna eins og hún er mæld með svokölluðu DRG-verkbókhaldi.
    Meiri hlutinn hefur sett ýmsar starfsemistölur Landspítala í samhengi við íbúaþróun og DRG-einingar fyrir árin 2016–2019 en sleppt árunum 2020 og 2021 vegna heimsfaraldurs. Á tímabilinu fjölgaði ársverkum á spítalanum um 400 eða um 10% á sama tíma og framleiðsla mæld í DRG-einingum dróst saman um 2%. Íbúum höfuðborgarsvæðisins sem eru 80 ára eða eldri fjölgaði aðeins um 2% á tímabilinu.
    Nauðsynlegt er að snúa þessari þróun við þannig að ótvírætt sé að framvegis skili auknar fjárveitingar sér í meiri afkastagetu á spítalanum.

Endurhæfingarþjónusta.
    Í breytingartillögum meiri hlutans er tillaga um hækkun framlags til málaflokksins um 130 m.kr. Þar er vert að nefna að Reykjalundur hefur gegnt mikilvægu hlutverki í endurhæfingu. Þangað leita einstaklingar til að öðlast á ný færni til að takast á við líf eftir veikindi eða önnur áföll. Eykur það lífsgæði þeirra. Einnig er þjóðhagslega hagkvæmt og mikilvægt að fólk komist aftur út á vinnumarkað. Eðli starfsemi Reykjalundar er jöfnum höndum að byggja upp færni og hæfni til að takast á við vinnu eða aðra virkni í samfélaginu. Uppi hefur verið umræða um hvort svokölluð starfsendurhæfing, sem er eitt endurhæfingarúrræði á Reykjalundi, standi í raun milli félagslegs úrræðis og heilbrigðismála. Þá kom fram að framtíð samninga við Reykjalund væri í óvissu vegna þess að tilvist málaflokksins væri á gráu svæði milli ráðuneyta.
    Meiri hlutinn beinir því til ráðherra viðkomandi ráðuneyta að skera úr um þetta en lítur svo á að þangað til annað verður ákveðið tryggi þetta framlag að Sjúkratryggingar Íslands geti gert samninga við Reykjalund um framhald á endurhæfingarþjónustu.

Störf án staðsetningar.
    Í nútímaatvinnulífi fjölgar störfum sem vinna má án staðsetningar. Hið opinbera þarf að gera betur í þeim efnum en hlutfallslega eru allt of fá störf á vegum hins opinbera á landsbyggðunum. Það getur haft mikla þýðingu fyrir starfsfólk að eiga þess kost að geta valið sér búsetu án þess að það hafi áhrif á starfsöryggi. Sömuleiðis hefur fjölgun starfa innan hlutaðeigandi sveitarfélags jákvæð áhrif á atvinnulíf á staðnum, ekki síst með tilliti til fjölbreyttari starfa en víða í hinum dreifðu byggðum þar sem atvinnulíf er oft með einhæfasta móti.
    Sá galli er á gjöf Njarðar að störf án staðsetningar flytjast búferlum með starfsfólki. Það er því viðvarandi verkefni að gæta að störfum á landsbyggðunum og tryggja að störf án staðsetningar séu unnin úti um allt land. Það er ábyrgðarhluti fjárlaganefndar að sýna pólitískt aðhald í þessum efnum. Mikilvægt er að mati meiri hlutans að aðhald ríkisstofnana komi ekki niður á störfum á landsbyggðunum. Hið sama gildir um nýja stefnumörkun, breytt hlutverk stofnana eða niðurlagningu þeirra. Það er mat meiri hlutans að of oft beri á því að störf flytjist aftur til höfuðstöðva eða að þau fari af landsbyggðunum ef fækka þarf stöðugildum án athugasemda frá hlutaðeigandi ráðuneyti. Eðlilegt er að ráðuneyti hlutist ekki til um einstök störf en meiri hlutinn leggur á það áherslu að bæta þurfi stefnumörkun og eftirlit með störfum án staðsetningar innan ráðuneyta.
    Í umsögnum fjölda sveitarfélaga er vakin athygli á því að jafnt og þétt fækki störfum á vegum ríkisins á landsbyggðunum. Opnun útibúa eða starfsstöðva opinberra stofnana hefur reynst ágæt leið til að fjölga störfum á landsbyggðunum. En því getur fylgt viðbótarkostnaður fyrir viðkomandi stofnun. Því leggur meiri hlutinn til að í greinargerð með fjármálaáætlun og fjárlagafrumvarpi verði samantekt um áhrif á dreifingu og staðsetningu starfa og birt áform um breytingar á staðsetningu starfa hjá opinberum stofnunum. Jafnframt leggur meiri hlutinn til að fram fari greining á fjölda starfa utan höfuðborgarsvæðisins, á staðsetningu þeirra, þróun á fjölda starfsmanna og stöðugilda undanfarin fimm ár og á þeim fjölda starfa sem flust hefur aftur til höfuðborgarsvæðisins.

Löggæslan.
    Umtalsverðum viðbótarfjármunum er varið til lögreglunnar og fagnar meiri hlutinn því að verið sé að mæta auknum og fjölbreyttum áskorunum lögreglu. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að lögregla og önnur lögregluyfirvöld þurfa að vera í stakk búin til að mæta þeim miklu samfélagslegu áskorunum sem leiðir af skipulagðri glæpastarfsemi, tækniþróun, nýjum hugbúnaðarlausnum, hnattvæðingu og fjarskipta- og nettengingum. Undir þetta tók fjárlaganefnd við afgreiðslu fjármálaáætlunar þar sem meiri hlutinn benti á nýjar og vaxandi áskoranir sem löggæsla og almannavarnir standa frammi fyrir. Mikilvægt er að hafa öryggismál í hinu stóra samhengi í lagi. Almannavarnir hér á landi hafa verið að störfum nánast stanslaust síðan í óveðrinu 2019 og tekist á við heimsfaraldur, jarðhræringar, eldgos, skriðuföll og fleira sem nauðsynlegt hefur reynst að bregðast við. Netglæpum fjölgar stöðugt auk þess sem álag eykst á löggæslu með ferðamannastraumi, umferðarslysum og öðrum óhöppum.
    Einnig hefur komið fram að markmiðum ríkisstjórnarinnar um aukna áherslu á jafnrétti og kynfrelsi verði best náð með því að auka öryggi og öryggistilfinningu með bættum rannsóknum í kynferðisbrotamálum, auknum málshraða og öflugri löggæslu. Við því var brugðist í fjárlögum fyrir árið 2022 með 200 m.kr. hækkun til lögreglunnar til að efla rannsókn og saksókn kynferðisbrota og efla forvarnir og þjónustu við þolendur kynferðisbrota í samræmi við áherslur í stjórnarsáttmála. Fram kom fyrir nefndinni að lögreglustjórar sjái merki um aukinn málshraða og öflugri löggæslu til forvarna sem og eftirfylgni í málaflokknum.
    Þá var einnig lögð á það áhersla í fjárlögum fyrir árið 2022 að styrkja löggæsluna á landsbyggðunum en verkefnum lögreglu hafði fjölgað í heimsfaraldri, áskoranir varðandi skipulagða glæpastarfsemi voru fleiri og fjöldi ferðamanna vaxið. Þessar áskoranir allar voru ítrekaðar fyrir nefndinni nú. Kynnt var sú greiningar- og undirbúningsvinna sem fram hafði farið á vegum dómsmálaráðuneytis til að takast mætti á við þessar áskoranir. Áætlað er að fjölga sértækum rannsóknarhópum til að rannsaka skipulagða glæpastarfsemi og er lögð til 500 m.kr. fjárveiting á þeim lið og 900 m.kr. til eflingar almennri löggæslu.
    Áform eru uppi um að styrkja lögregluna um allt land með því að skipta verkefnum milli lögregluembætta og dreifa þannig álaginu en um leið styrkja grunnviðbragð lögregluembættanna á landsbyggðunum. Ítrekað var fyrir nefndinni nú eins og áður hversu hátt launahlutfall þeirra stofnana er sem falla undir liðinn almanna- og réttaröryggi.
    Launahlutfall í rekstri Fangelsismálastofnunar og löggæsluembætta er 75–85% sem gerir þessa mikilvægu almannaþjónustu mjög viðkvæma fyrir aðhaldskröfu. Aðhaldskrafa getur því ekki þýtt annað en að fækka þurfi stöðugildum í málaflokki sem býr við aukin verkefni og auknar áskoranir. Til að bregðast við þessu leggur meiri hlutinn til aukna fjárheimild upp á 200 m.kr. til að draga úr aðhaldskröfu gagnvart lögreglu. Þá er því beint eindregið til ríkisstjórnarinnar að taka aðhaldskröfu á almanna- og réttaröryggislið til skoðunar við gerð næstu fjármálaáætlunar.

Stjórnun og þróun raforkumála – átaksverkefni vegna hreinorkubíla.
    Orkuskipti í samgöngum hafa farið hratt af stað og er eftirspurn eftir hreinorkubílum, fyrst og fremst rafmagnsbílum, umtalsverð. Yfirgnæfandi meiri hluti bíla sem seldir eru hér á landi eru hreinorkubílar. Stór hluti af innleiðingu rafbíla hefur verið innkaup bílaleigufyrirtækja. Lauslega má áætla að fjöldi bílaleigubíla sé rúmlega 20 þúsund og er því mikilvægt að áliti meiri hlutans að skapa áfram rétta hvata og forsendur til að fjölga slíkum bílum, einnig fyrir almennan markað. Áfram er haldið að styðja við slík kaup og því er lögð til allt að 1 ma.kr. fjárheimild til slíkra ívilnana. Sömuleiðis hefur stuðningur vegna uppbyggingar innviða fyrir orkuskipti í samgöngum vegið þungt í þessum breytingum og fagnar meiri hlutinn því að net hleðslustöðva á landsvísu sé tekið að þéttast.
    Meiri hlutinn áréttar mikilvægi þess að viðhalda réttum hvötum til orkuskipta í samgöngum og telur að styðja megi betur við þróun og sókn til hreinorku meðal flutningabíla og atvinnutækja. Því er lagt til að 400 m.kr. verði veittar Orkusjóði í þeim tilgangi.

Afhendingaröryggi.
    Í fyrravetur kom til skerðingar á afhendingu skerðanlegrar orku frá Landsvirkjun. Einna þyngst bitnaði þetta á rafkyntum fjarvarmaveitum sem víða eru reknar til húshitunar. Bæði hlaust verulegur aukakostnaður af því þar sem gjald fyrir forgangsorku er mun hærra, kerfið gat ekki annað eftirspurn og grípa þurfti til varaafls með olíubrennslu. Vegna umræddrar skerðingar jókst olíunotkun m.a. á Vestfjörðum umtalsvert, en um mitt ár var notkunin komin í 2,1 milljónir lítra samanborið við 210 þúsund lítra árið 2021. Mikilvægt er að tryggja afhendingu rafmagns í öllum landshlutum. Sérstaklega þarf að hafa í huga svæði á Austurlandi og Vestfjörðum þar sem uppbygging innviða vegna flutnings raforku hefur orðið út undan.
    Í skýrslu á vegum Stjórnarráðsins um raforkuframleiðslu og aðra orkuframleiðslu á Vestfjörðum kom í ljós að setja þarf þunga í að leita með markvissum hætti að heitu vatni til húshitunar. Sömuleiðis hefur með lagabreytingu á árinu verið aukinn stuðningur við uppsetningu á varmadælum og með sérstakri áherslu á Orkusjóð verið horft til fjarvarmaveitna. Nauðsynlegt er að tryggja öryggi grunnþátta eins og húshitunar. Í skýrslunni er dregið fram að með því að virkja jarðvarma megi spara allt að 10 MW á svæðinu. Það væri gríðarlegur ávinningur því að raforkukerfi Vestfjarða er háð því að tryggt varaafl sé á svæðinu. Uppsetning á slíku afli getur kostað allt að 1,5 ma.kr. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í skýrslunni um orkumál á Vestfjörðum og í breytingartillögum hans er því gerð tillaga um 150 m.kr. til jarðhitaleitarátaks.
    Meiri hlutinn beinir því til ráðherra málaflokksins að fyrir næstu fjármálaáætlun verði um frekari stefnumörkun að ræða. Meiri hlutinn minnir á að ráðherra er heimilt að verja allt að 5% af niðurgreiðslu fjármagns til húshitunar til jarðhitaleitar.

Yfirlit breytingartillagna meiri hluta.
    Í kjölfar greiningarvinnu nefndarinnar við yfirferð á umsögnum og svörum ráðuneyta við spurningum nefndarinnar eru gerðar margar breytingartillögur við frumvarpið. Þá hefur ríkisstjórnin komið fram með fjölmargar tillögur til nefndarinnar til umfjöllunar. Breytingar á tekjuhlið eru allar byggðar á tillögum ríkisstjórnarinnar.

Tekjur ríkissjóðs.
    Fjármála- og efnahagsráðuneyti hefur endurmetið tekjuáætlun ríkissjóðs. Það byggist á nýjustu þjóðhagsspá Hagstofu Íslands, nýjustu gögnum um þróun skattstofna fram til októbermánaðar og nýjum áformum á tekjuhlið fjárlaga.
    Frá því að frumvarpið var lagt fram hafa bæst við tvenns konar ný áform. Annars vegar er það afnám fjöldatakmarkana fyrir rafmagnsbíla og virðisaukaskattsívilnun sem lækkar tekjur um 3,8 ma.kr. og hins vegar breytingar á gjaldskrá Úrvinnslusjóðs sem hækkar tekjur um 2 ma.kr.
    Í heild hækka tekjur um 23,7 ma.kr. frá því sem ráðgert var í frumvarpinu. Þar munar mest um 12,6 ma.kr. hærri tekjur af virðisaukaskatti. Það skýrist bæði af hærra nafnvirði einkaneyslu en ætlað var og af jákvæðum áhrifum af ferðaþjónustu þar sem uppfært mat á tekjum af hverjum ferðamanni vegur þyngra en áður. Á móti vegur ætlað tekjutap vegna afnáms fjöldatakmarkana rafmagnsbíla með ívilnun.
    Næstmest munar um 8 ma.kr. hærri tekjur af tekjuskatti lögaðila sem skýrist að mestu af hærri tekjuskatti vegna ársins 2022 sem hefur grunnáhrif á áætlun næsta árs. Miklar tekjur árið 2022 endurspegla því hraðari viðspyrnu atvinnulífsins en áður hafði verið áætluð.
    Tekjur af úrvinnslugjaldi hækka um 2 ma.kr. í samræmi við álagningu úrvinnslugjalds.
    Á móti þessum hækkunum vegur að áætlaðar tekjur af tekjuskatti einstaklinga lækka um 2,8 ma.kr. Tvíþætt ástæða er fyrir því. Annars vegar er meiri verðbólga árið 2022 sem hækkar persónuafslátt og þrepa- og skattleysismörk meira en ætlað var. Hins vegar er gert ráð fyrir hækkun á hlutfalli útsvars sem rennur til sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir því að sveitarfélög fái auknar tekjur sem nemur um 5 ma.kr. til að mæta auknum kostnaði við málefni fatlaðs fólks og á móti er tekjuskattshlutfall lækkað og samsvarandi lækkun á tekjuskatti einstaklinga. Loks er áætlað að sektargreiðslur, t.d. gjald vegna óskoðaðra ökutækja, lækki um 1,7 ma.kr. og er þá miðað við reynslu yfirstandandi árs.
    Aðrar tekjubreytingar vega mun minna. Í töflu að aftan koma fram helstu frávik frá tekjuáætlun frumvarpsins.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Umfjöllun um einstök málefnasvið.
    Almenna umfjöllun um málefnasvið er að finna í greinargerð með frumvarpinu en hér verður gerð grein fyrir þeim málefnasviðum þar sem veigamestu breytingartillögur meiri hlutans koma fram.

04 Utanríkismál.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir samtals 15,8 ma.kr. Gerðar eru tvær breytingartillögur og þar munar langmest um 750 m.kr. tímabundið framlag til eins árs. Framlaginu er ætlað að fjármagna sameiginleg varnartengd verkefni með NATO og bandalagsríkjum Íslands til aðstoðar Úkraínu.

07 Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir samtals 29,3 ma.kr. Gerðar eru tvær breytingartillögur. Annars vegar um 4.000 m.kr. vegna endurmats til að mæta áætlaðri fjárþörf í endurgreiðslukerfi vegna kvikmyndagerðar á Íslandi til að hægt verði að standa við útgreiðslur á þeim vilyrðum sem áætluð eru á árinu 2023. Hins vegar um 1.300 m.kr. til að auka framlag vegna endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar hjá fyrirtækjum í ljósi uppfærðrar áætlunar fyrir árið 2023. Með þessum viðbótarheimildum er heildarheimild málefnasviðsins komin í 34,3 ma.kr. sem er 11% hækkun frá frumvarpinu.

09 Almanna- og réttaröryggi.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir samtals 34,7 ma.kr. Gerðar eru margar breytingartillögur sem samtals nema 2.840 m.kr. á málefnasviðinu í heild. Í málaflokki löggæslu er gert ráð fyrir 1.830 m.kr. og munar mest um 750 m.kr. til að mæta veikleikum í starfsemi lögreglunnar í landinu. Ætlunin er að meta mannaflaþörf á samræmdan hátt í öllum umdæmum með hliðsjón af markmiðum löggæsluáætlunar og fjármálaáætlunar um viðbragðstíma, málsmeðferðarhraða og öryggisstig. Gerð er tillaga um 500 m.kr. framlag til að efla viðbragð lögreglu og löggæslustofnana gegn skipulagðri brotastarfsemi. Markmiðið er að tryggja samræmingu og samhæfingu lögreglu á landsvísu. Þá er gert ráð fyrir 150 m.kr. til búnaðarkaupa og tækniþróunar lögreglu.
    Gjaldaheimildir Landhelgisgæslu Íslands hækka samtals um 600 m.kr. af fimm ástæðum. Mest munar um 370 m.kr. til að mæta auknum eldsneytiskostnaði. Heimsmarkaðsverð á eldsneyti hefur hækkað gríðarlega í kjölfar stríðsins í Úkraínu. Einnig er lagt til 103 m.kr. framlag til endurnýjunar nauðsynlegs búnaðar í tækjakosti Landhelgisgæslunnar. Aðrar viðbætur vega minna.
    Gerð er tillaga um 250 m.kr. framlag til að mæta veikleikum í starfsemi fangelsa í landinu. Er það í beinu framhaldi af tillögu meiri hlutans fyrir 2. umræðu um frumvarp til fjáraukalaga þar sem gerð var tillaga um 150 m.kr. framlag af sama tilefni. Með þessum viðbótarfjárveitingum er gert ráð fyrir því að Landhelgisgæslan og Fangelsismálastofnun þurfi ekki að grípa til sérstakra aðgerða til að aðlaga reksturinn að fjárheimildum.

10 Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir 18,3 ma.kr. Gerðar eru nokkrar breytingartillögur og munar mest um 1.000 m.kr. vegna aukins fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd. Þá er gerð tillaga um hækkun vegna sóknargjalda um 383,5 m.kr. til samræmis við breytingartillögur meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar við frumvarp um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga.

11 Samgöngu- og fjarskiptamál.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir 50,1 ma.kr. Gerðar eru nokkrar breytingartillögur sem samtals nema 2.214,3 m.kr. Þar munar mest um 900 m.kr. til Betri samgangna þar sem ekki kemur til álagningar flýti- og umferðargjalda á árinu 2023 eins og gert var ráð fyrir í sáttmála um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2019. Næstmest munar um 489 m.kr. til Vegagerðarinnar af tveimur ástæðum. Annars vegar eru það 210 m.kr. til að tryggja ferjurekstur um Breiðafjörð og hins vegar 279 m.kr. til almenningssamgangna vegna óhagstæðrar verðlagsþróunar. Ráðandi þáttur í því er hækkun olíuverðs sem er þess valdandi að tilboð sem berast í kjölfar útboða eru hærri en áður. Þá er gert ráð fyrir að veita 385,3 m.kr. framlag vegna samningsbundinna verðlagsbóta vegna samgöngusáttmálans.
    Til fjarskiptamála eru veittar samtals 350 m.kr. til netöryggismála til að fjármagna að fullu nýleg fjarskiptalög og til að veita tekjur af útboði tíðniheimilda til fjarskiptasjóðs.

15 Orkumál.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir 6,2 ma.kr. Gerðar eru nokkrar breytingartillögur með það að meginmarkmiði að auka akstur ferðamanna á hreinorkubifreiðum og auka um leið hlutfall hreinorkubifreiða á eftirmarkaði þegar bílaleigur ráðast í endurnýjun á bílaflota sínum. Kæmi þetta fyrirkomulag í stað núverandi ívilnana til bílaleigna um afslátt af vörugjöldum. Gert er ráð fyrir að umfang þessarar aðgerðar nemi allt að 1.400 m.kr. til eins árs árið 2023 og yrði fjárveiting nýtt bæði til að styrkja kaup bílaleigna á bílaleigubifreiðum sem ganga fyrir hreinni orku og til að fjármagna orkuskipti í þungaflutningum.

17 Umhverfismál.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir 27,9 ma.kr. Gerðar eru nokkrar breytingartillögur þar sem langmest munar um 1.910 m.kr. hækkun á gjaldaheimild Úrvinnslusjóðs. Tekjur sjóðsins aukast um sömu fjárhæð og nettóáhrif verða því engin á ríkissjóð.

18 Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir 19,8 ma.kr. Gerðar eru fjölmargar breytingartillögur sem samtals nema 1.164 m.kr. Meiri hlutinn vekur sérstaka athygli á því að gerðar eru tillögur um að styrkja fjölmörg söfn og ýmis menningartengd verkefni og eru þau sundurliðuð nákvæmlega í lokakafla álitsins.

19 Fjölmiðlun.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir 5,8 ma.kr. Gerð er ein breytingartillaga sem felur í sér aukinn stuðning við einkarekna fjölmiðla um 100 m.kr. Framlagið er vegna reksturs fjölmiðla á landsbyggðinni sem framleiða eigið efni fyrir sjónvarpsstöð.

23 Sjúkrahúsþjónusta.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir 140,4 ma.kr. Gerðar eru nokkrar veigamiklar breytingartillögur sem samtals nema 2.683 m.kr. Mest munar um styrkingu rekstrargrunns Landspítala um 2.000 m.kr. til að takast á við þríþættar áskoranir; undirliggjandi rekstrarvanda, erfiðleika við að tryggja lágmarksmönnun á deildum spítalans, og endurskipulagningu og uppbyggingu þjónustu í kjölfar COVID-19.
    Einnig er lögð til 250 m.kr. styrking á rekstrargrunni Sjúkrahússins á Akureyri. Sama fjárhæð er vistuð á safnlið málefnasviðsins til að bæta mönnun í heilbrigðisþjónustu en hún er mikil áskorun á Íslandi líkt og annars staðar. Afar mikilvægt er að hlúa að þeim mannauði sem er til staðar og stuðla að endurheimt starfsfólks með fjölbreyttum stuðningi.

24 Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir 74,2 ma.kr. Gerðar eru nokkrar tillögur sem samtals nema 3.760 m.kr. Þyngst vega 2.000 m.kr. til að efla fyrsta stig heilbrigðisþjónustu. Mikilvægt er að styrkja grunnrekstur heilsugæslustöðva með auknu framlagi þannig að skjólstæðingar geti sótt grunnheilbrigðisþjónustu á dagvakt stöðvanna í stað þess að þurfa að sækja í önnur dýrari úrræði.
    Gerð er tillaga um 750 m.kr. til að fjármagna fleiri liðskiptaaðgerðir til að vinna niður biðlista. Á móti fellur niður kostnaður sem Sjúkratryggingar Íslands hafa greitt á grundvelli reglna um biðtíma eftir aðgerðum erlendis.
    Gerðar eru tvær tillögur sem hvor um sig nemur 300 m.kr. Annars vegar til að fjármagna valdar aðgerðir utan sjúkrahúsa til að vinna niður biðlista og hins vegar til að efla heimahjúkrun. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er sett fram skýr sýn um þá þjónustu sem eldra fólk eigi að hafa aðgang að og miðast við að einstaklingurinn sjálfur skuli vera hjartað í kerfinu.
    Að lokum er tillaga um 260 m.kr. framlag vegna fyrirsjáanlegra umframútgjalda vegna samninga um tannlæknaþjónustu.

25 Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir 74,8 ma.kr. Gerðar eru nokkrar breytingartillögur sem samtals nema 906 m.kr. Þar munar mest um 318 m.kr. vegna aukinnar hjúkrunarþyngdar á hjúkrunarheimilum. Þar næst eru 160 m.kr. til Framkvæmdasjóðs aldraðra sem samsvara áætluðum tekjum af gjaldi til sjóðsins. Tillaga er gerð um samtals 428 m.kr. framlag til endurhæfingarstofnana sem sundurliðaðar eru í lokakafla álitsins.

26 Lyf og lækningavörur.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir 31,1 ma.kr. Gerðar eru þrjár breytingartillögur sem samtals nema 4.940 m.kr. Á þessu ári hafa útgjöld vegna lyfjakostnaðar reynst langt umfram áætlun í fjárlögum. Lagt er til að auka fjárheimild til kaupa á almennum lyfjum um 2.040 m.kr. vegna fyrirsjáanlegra umframútgjalda og á leyfisskyldum lyfjum um 2.200 m.kr. Einnig koma fram umframgjöld vegna hjálpartækja og gerð er 700 m.kr. tillaga af þeim sökum.

27 Örorka og málefni fatlaðs fólks.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir 97,8 ma.kr. Gerðar eru breytingartillögur sem nema samtals 1.501 m.kr. Mest munar um 1.070 m.kr. vegna hækkunar á frítekjumarki atvinnutekna örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega frá 1. janúar 2023 úr 109.600 kr. á mánuði í 200.000 kr. á mánuði til samræmis við sérstakt frítekjumark atvinnutekna ellilífeyrisþega.

29 Fjölskyldumál.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir 56,2 ma.kr. Gerðar eru breytingartillögur sem samtals nema 1.386 m.kr. og þar af eru 350 m.kr. tímabundið framlag til eins árs vegna samninga við sveitarfélög um samræmda móttöku flóttamanna. Sambærileg tillaga er einnig lögð fram í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2022. Einnig er gerð 337,8 m.kr. tillaga um sérstök úrræði í tengslum við móttöku flóttabarna.

33 Fjármagnskostnaður, ábyrgðir og lífeyrisskuldbindingar.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir 127,3 ma.kr. Gerð er 13,6 ma.kr. tillaga til hækkunar á vaxtagjöldum. Ástæðu hækkunarinnar má að mestu leyti rekja til horfa um meiri verðbólgu en lágu til grundvallar frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2023. Áætlaðar verðbætur ársins 2023 hækka frá frumvarpinu um 10,5 ma.kr og verri afkoma ríkissjóðs og hærra vaxtastig hækka vaxtagjöld um samtals 3,1 ma.kr.

34 Almennur varasjóður og sértækar fjárráðstafanir.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir 66,1 ma.kr. Gerðar eru tillögur bæði til hækkunar og lækkunar. Nettóaukning heimilda nemur 5,2 ma.kr. sem skýrist af 9,4 ma.kr. hækkun verðlags og fyrirhugaðrar hækkunar á bótum almannatrygginga. Á móti vegur 6,5 ma.kr. lækkun á almennum varasjóði þar sem minni óvissa er um verðbólguþróun næsta árs og 2 ma.kr. millifærsla af varasjóði yfir á ýmis málefnasvið vegna aukins fjölda flóttafólks.

35 Alþjóðleg þróunarsamvinna.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir 11,7 ma.kr. Gerð er tillaga um 1.500 m.kr. framlag til Úkraínu með áherslu á mannúðar- og efnahagsaðstoð. Fjárhæðin er til viðbótar viðmiði um að verja 0,35% af vergum þjóðartekjum til þróunaraðstoðar. Á móti vegur tillaga um 277 m.kr. samdrátt til alþjóðlegrar þróunaraðstoðar. Það byggist á nýrri spá um þjóðartekjur fyrir árið 2023 og nýjum áætlunum um útgjöld vegna móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd.

Skýringar við breytingartillögur á gjaldahlið.


01 Alþingi og eftirlitsstofnanir þess.
01.10 Alþingi.
    Gerð er tillaga um 36,6 m.kr. tímabundið framlag til að standa straum af viðhaldi og viðgerðum á Jónshúsi í Kaupmannahöfn.
    Lagt er til að Alþingi verði veitt 53,1 m.kr. tímabundið framlag til að breyta frágangi vinnurýma á þingmannahæðum í nýbyggingu Alþingis svo að þau verði lokuð en ekki opin.
    Lagt er til að veita Alþingi 199,4 m.kr. tímabundið framlag svo að bæta megi við fundarherbergjum á 5. hæð nýbyggingar Alþingis.

03 Æðsta stjórnsýsla.
03.30 Forsætisráðuneyti.
    Gert er ráð fyrir 40 m.kr. tímabundnu framlagi til að halda áfram með þá áætlun sem fram kemur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar að hugmyndafræði sjálfbærni og réttlátra umskipta og aukinnar samkeppnishæfni verði leiðarstef ríkisstjórnarinnar. Fjármagnið verður m.a. nýtt til að móta stefnu Íslands um sjálfbæra þróun og vinna að þróun mælikvarða og sjálfbærni. Þá verður hluti nýttur í vinnu við allsherjarúttekt Sameinuðu þjóðanna á stöðu heimsmarkmiða hér á landi.
    Gert er ráð fyrir 60 m.kr. tímabundnu framlagi vegna minnisvarða um eldsumbrotin á Heimaey. Eldgosið á Heimaey árið 1973 er einn af stærstu atburðum Íslandssögunnar og fyrirhugað er að reisa minnisvarða í tengslum við 50 ára goslokaafmælið árið 2023. Á fundi ríkisstjórnarinnar 25. janúar sl. voru veittar 2 m.kr. af sameiginlegu ráðstöfunarfé ríkisstjórnar til Vestmannaeyjabæjar vegna hugmyndavinnu Ólafs Elíassonar fyrir minnisvarða um eldgosið á Heimaey 1973. Samþykkt var á Alþingi þingsályktun um minnisvarða um eldgosið á Heimaey, þar sem Alþingi ályktar í tilefni þess að árið 2023 eru 50 ár liðin frá Heimaeyjargosinu að fela forsætisráðherra að skipa nefnd til að undirbúa kaup á minnisvarða um þann sögulega atburð. Undirbúningsnefndin skyldi skipuð fimm fulltrúum og skyldu tveir skipaðir samkvæmt tilnefningu bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar, tveir af Alþingi og einn án tilnefningar sem yrði formaður nefndarinnar. Undirbúningsnefndin skyldi fyrir lok október 2022 leggja fram tillögu fyrir forsætisráðherra til samþykktar. Að fengnu samþykki skal nefndin annast frekari undirbúning fyrir uppsetningu og afhjúpun minnisvarðans sumarið 2023 ( www.althingi.is/altext/152/s/1227.html).

04 Utanríkismál.
04.20 Utanríkisviðskipti.
    Gert er ráð fyrir breytingum á fjárveitingu til Íslandsstofu í samræmi við áætlun um tekjur af markaðsgjaldi. Samkvæmt tekjuáætlun frá því í nóvember 2022 er nú gert ráð fyrir að gjaldið nemi 1.032 m.kr. árið 2023.

04.30 Samstarf um öryggis- og varnarmál.
    Gerð er tillaga um 750 m.kr. fjárheimild til eins árs til að fjármagna sameiginleg varnartengd verkefni með bandalagsþjóðum Íslands, t.d. í tengslum við sjóð sem Bretland stendur að, sjóði á vegum Atlantshafsbandalagsins, verkefni á vegum Nordic Defence Cooperation (NORDEFCO) og önnur sambærileg verkefni sem ætlað er að leggja vörnum Úkraínu lið. Mikilvægt er að bregðast skjótt við núna og efla þannig viðnámsþol til lengri tíma. Ástandið tekur hröðum breytingum og því brýnt að hafa ákveðinn sveigjanleika hvað varðar útfærslu á stuðningi. Gera má ráð fyrir að stærstur hluti þess stuðnings sem Ísland getur veitt á sviði varnarmála muni felast í þjálfun við sprengjuleit og -eyðingu og útvegun hlífðarbúnaðar og klæðnaðar en einnig mun Ísland halda áfram að leita leiða til þess að leggja hvaðeina af mörkum sem gagnast vörnum Úkraínu. Horft verður sérstaklega til þess í öllum framlögum til Úkraínu að þau séu í samræmi við óskir og þarfir Úkraínu hverju sinni og að tryggt sé að aðstoðin berist þangað sem hún gagnast úkraínsku þjóðinni.

05 Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla.
05.10 Skattar og innheimta.
    Lagt er til að gerð verði breyting á hagrænni skiptingu á fjárveitingu til Skattsins þannig að 1,4 m.kr. rekstrartilfærslu verði breytt í önnur gjöld.

06 Hagskýrslugerð og grunnskrár.
06.10 Hagskýrslugerð, grunnskrár og upplýsingamál.
    Gerð er tillaga um lækkun fjárheimilda Þjóðskrár Íslands um 763 m.kr. sem fjármögnuð er með 226 m.kr. beinu framlagi úr ríkissjóði og 537 m.kr. með rekstrartekjum. Verkefni tengd fasteignaskrá og fasteignamati eru flutt frá Þjóðskrá Íslands til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Gert er ráð fyrir að fjárveitingar vegna reksturs og þróunar fasteignaskrár hjá Þjóðskrá Íslands færist til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar 2023. Ákvörðunin byggist á samþykkt laga um flutning fasteignaskrár sem tóku gildi 1. júlí 2022. Markmiðið er að einfalda og efla þjónustu við fólk og fyrirtæki á sviði húsnæðismála og tryggja enn frekari samhæfingu milli ríkisstofnana og sveitarfélaga. Þjóðskrá Íslands mun áfram veita öfluga þjónustu við skráningu einstaklinga. Um er að ræða óhjákvæmilega tilfærslu fjárveitinga í samræmi við samþykkt fyrrgreindra laga um fasteignaskrá. Færa þarf fjárheimildir milli málefnasviða þar sem Þjóðskrá Íslands er á málefnasviði 06, málaflokki 6.10 en Húsnæðis- og mannvirkjastofnun er á málefnasviði 31, málaflokki 31.10 Húsnæðismál.
    Gert er ráð fyrir að fjárfestingarheimild að fjárhæð 33 m.kr. fari til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá Þjóðskrá Íslands . Verkefni tengd fasteignaskrá og fasteignamati eru flutt frá Þjóðskrá Íslands til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

07 Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar.
07.10 Vísindi og samkeppnissjóðir í rannsóknum.
    Gert er ráð fyrir 160 m.kr. tímabundnu framlagi í fjögur ár til markáætlunar um tungu og tækni vegna máltækni. Samsvarandi hækkun er lögð til á málaflokki 18.30 Menningarsjóðir. Samtals eru því lagðar til 320 m.kr. til máltækniverkefnisins.

07.20 Nýsköpun, samkeppni og þekkingargreinar.
    Gert er ráð fyrir 4.000 m.kr. fjárveitingu til að mæta áætlaðri fjárþörf í endurgreiðslukerfi vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Nú hafa verið samþykkt vilyrði til endurgreiðslna að fjárhæð 5.722,7 m.kr. sem áætluð eru til útgreiðslu á árinu 2023. Gert er ráð fyrir að fjárveiting liðarins verði 1.724 m.kr. og því vantar 4.000 m.kr. til að hægt sé að standa við útgreiðslur á þeim vilyrðum sem áætluð eru á árinu 2023.
    Gert er ráð fyrir að flytja 4 m.kr. af launum á tilfærslur á liðnum 1.96 Hönnunarmál, ýmis framlög í samræmi við raungjöld.
    Lagt er til að auka framlag vegna endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar hjá fyrirtækjum um 1,3 ma.kr. í ljósi uppfærðrar áætlunar fyrir árið 2023 (rekstrarárið 2022).
    Gerð er tillaga um 15 m.kr. tímabundið framlag til reksturs Þörungamiðstöðvar Íslands.

08 Sveitarfélög og byggðamál.
08.10 Framlög til sveitarfélaga.
    Áætlun er um 318 m.kr. aukningu á lögbundnu framlagi í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, sbr. tekjuspá. Framlagið er á verðlagi 2022.

08.20 Byggðamál.
    Lagt er til að veita verkefni um sóknaráætlanir landshluta 120 m.kr. tímabundið framlag til að efla atvinnu- og menningarlíf á landsbyggðinni.
    Lagt er til að veita starfsemi atvinnuráðgjafa á landsbyggðinni 40 m.kr. tímabundið framlag sem Byggðastofnun verði falið að ráðstafa.

09 Almanna- og réttaröryggi.
09.10 Löggæsla.
    Gert er ráð fyrir 72,5 m.kr. framlagi til reksturs ferðaupplýsinga- og ferðaheimildakerfis (ETIAS-landseining) sem áætlað er að verði fjármagnað með ríkistekjum. Með reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 2018/1240 frá 12. september 2018 var lögfestur grundvöllur fyrir evrópsku ferðaupplýsinga- og ferðaheimildakerfi (ETIAS-ferðaheimildakerfi), en með tilkomu þess þurfa ríkisborgarar þriðju ríkja sem eru undanþegnir kvöð um vegabréfsáritun að hafa fengið útgefna ETIAS-ferðaheimild til að mega ferðast inn á Schengen-svæðið. Umsækjandi greiðir umsóknargjald og tekjur sem verða til við innheimtu þess eiga að standa að öllu leyti undir kostnaði við rekstur og viðhald ferðaheimildakerfisins, miðlægrar ETIAS-einingar sem og landseininga. Gert er ráð fyrir því í tilviki Íslands að fjármunir muni berast í formi endurgreiðslna frá hinum nýja landamærasjóði BMVI til að standa undir rekstri ETIAS-landseiningar og kostnaði við nauðsynlegan tæknibúnað. Nauðsynlegt er þó að tryggja fjármögnunina á því tímabili á fjárlögum fyrir árið 2023 frá því að starfsemi einingarinnar hefst þar til endurgreiðslur berast úr sjóðnum.
    Gert er ráð fyrir 70 m.kr. framlagi til reksturs nýs komu- og brottfararkerfis Schengen-samstarfsins auk rekstrarsamhæfingar eldri kerfa við nýju kerfin en áætlað er að þau verði tekin í notkun á miðju næsta ári. Áætlaður árlegur heildarkostnaður upplýsingakerfanna er 300 m.kr. þegar þau eru komin í fullan rekstur en gert er ráð fyrir að nýr landamærasjóður fjármagni helming kostnaðarins. Það er háð því skilyrði að Ísland gerist aðili að sjóðnum og leggi til 105 m.kr. viðbótarframlag í nýja sjóðinn. Ferðaþjónustan er orðin stærsta útflutningsgrein landsins og því mikilvægt að ekki verði neinir hnökrar á framkvæmd innleiðingar á nýju komu- og brottfararkerfi Schengen-samstarfsins sem raski viðskiptamódeli alþjóðaflugvallarins í Keflavík. Gangi fjármögnun nýja landamærasjóðsins ekki eftir kallar það á 300 m.kr. framlag til reksturs upplýsingakerfanna.
    Gerð er tillaga um 10,7 m.kr. lækkun rekstrarframlags til lögreglustjórans á Vesturlandi með breytingu á hagrænni skiptingu af rekstri yfir á fjárfestingu. Tillögunni er ætlað að mæta kostnaði við endurnýjun á bifreiðum.
    Lagt er til að embætti ríkislögreglustjóra verði veitt 37,6 m.kr. viðbótarfjárveiting vegna stöðugilda tveggja lögreglumanna sem taki að sér öryggisgæslu á Alþingi.
    Gert er ráð fyrir millifærslu hluta af 200 m.kr. framlagi af sameiginlegum fjárlagalið lögreglunnar sem ætlað var til að efla aðgerðir gegn kynferðisbrotum á árinu 2022. 16,4 m.kr. færast til héraðssaksóknara og sama fjárhæð til ríkissaksóknara. Framlagið er ætlað til ráðningar aðstoðarsaksóknara til að mæta áætlaðri fjölgun mála til ákærumeðferðar.
    Lagt er til að varanlegar fjárheimildir til lögreglu verði auknar um 500 m.kr. árið 2023 til að efla viðbragð lögreglu og löggæslustofnana gegn skipulagðri brotastarfsemi. Í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra um skipulagða brotastarfsemi frá árinu 2021 kom fram að áhætta vegna skipulagðrar brotastarfsemi á Íslandi teldist mjög mikil. Skýrslur greiningardeildarinnar hafa fram til þessa sýnt aukið og vaxandi umfang skipulagðrar brotastarfsemi hér á landi. Þessar samfélagsbreytingar hafa breytt umhverfi löggæslu og kallað á nýja nálgun í afbrotavörnum. Á árinu 2020 var stofnaður stýrihópur með fulltrúum embætta ríkislögreglustjóra, lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, héraðssaksóknara og lögreglustjórans á Suðurnesjum, en einnig er starfandi sameiginlegur aðgerðahópur hjá embættunum. Markmið stýrihópsins er að tryggja samræmingu og samhæfingu lögreglu á landsvísu til að sporna við skipulagðri brotastarfsemi. Til þess að styrkja baráttuna gegn skipulagðri brotastarfsemi þarf að efla samstarf lögregluembætta og löggæslustofnana innan lands enn frekar á grundvelli þessa samstarfs. Þá kallar skipulögð brotastarfsemi á mun nánari samvinnu og samstarf lögreglu við erlend lögregluyfirvöld en skipulagðir brotahópar starfa óháð landamærum. Fjölga þarf þeim sem starfa við rannsóknir mála sem varða skipulagða brotastarfsemi, en þeim hefur fjölgað verulega á undanförnum árum samhliða framangreindri þróun. Fjölgun rannsakenda myndi leiða til hærra hlutfalls upplýstra mála og styttri málsmeðferðartíma, auk þess sem það myndi auka getu lögreglu til þess að sinna fleiri umfangsmiklum rannsóknum á sama tíma.
    Gert er ráð fyrir 750 m.kr. framlagi til að mæta veikleikum í starfsemi lögreglunnar í landinu. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er áhersla lögð á að sinna megi löggæslustörfum á sem skilvirkastan hátt um allt land og þarf mönnun löggæslunnar að vera í takt við þarfir samfélagsins. Meta þurfi mannaflaþörf á samræmdan hátt í öllum umdæmum með hliðsjón af markmiðum löggæsluáætlunar og fjármálaáætlunar um viðbragðstíma, málsmeðferðarhraða og öryggisstig. Svo að unnt sé að ná þessum markmiðum á næstu misserum þarf að bæta gæði rannsókna, stytta málsmeðferðartíma, bæta þjónustustig, sérstaklega á landsbyggðinni, bæta búnað á sviði tölvu- og tæknirannsókna og efla tæknirannsóknir. Þá þarf að endurnýja og bæta búnað sérsveitar, bæta öryggi lögreglumanna og nýta mögulega tækni til að lögreglumenn geti afgreitt mál á vettvangi. Þetta verður aðeins gert með auknu fjármagni, sem m.a. verði veitt til þess að fjölga menntuðum lögreglumönnum og með því að auka símenntun og þjálfun hjá lögreglumönnum. Tryggja þarf að fjármagn fari á rétta staði þar sem veikleikar eru í löggæslu. Lagt er til að fjármagn verði veitt til framangreindra verkefna með hliðsjón af þörf samkvæmt árangursmælingum löggæsluáætlunar. Hafa þarf í huga að ekki er aðeins um að ræða fjölgun lögreglumanna heldur einnig fjölgun sérfræðinga og í stoðþjónustu og einnig aukna menntun og þjálfun þessa fólks. Þá má einnig benda á að hluti þessa fjármagns gæti verið veittur í formi sjóðs sem ætlað væri að mæta rannsóknum sem teygja sig yfir mörg svið og umdæmi. Sama á við um almenna löggæslu þar sem hugmyndafræðin er að þjónustan verði færanleg eftir þörfum og áherslum hverju sinni og að fjölgun lögreglumanna verði til að efla alla þætti löggæslu, m.a. upplýsingamiðaða löggæslu og almannavarnir í umdæmunum. Þannig gæti fjármagn færst á milli svæða og verkefna eftir þörfum hverju sinni. Í heild er gert ráð fyrir 900 m.kr. í átaksverkefnið; að 650 m.kr. verði varið til almennrar löggæslu og þjálfunar, 50 m.kr. til tölvu- og tæknirannsókna og 50 m.kr. til að styrkja rannsóknir og saksókn; 50 m.kr. verði varið til búnaðarkaupa sérsveitar og 100 m.kr. í annan búnað og tækniþróun lögreglu sem fara undir sérstakan eignakaupalið.
    Gert er ráð fyrir 150 m.kr. framlagi til að mæta veikleikum í starfsemi lögreglunnar. Gert er ráð fyrir að 50 m.kr. verði varið til búnaðarkaupa sérsveitar og 100 m.kr. í annan búnað og tækniþróun lögreglu.
    Lagt er til að lögreglu verði veitt 200 m.kr. tímabundið framlag svo að dregið verði úr aðhaldskröfu til löggæslu.
    Vísindasamfélagið er sammála um að nýtt eldgosatímabil sé hafið á Reykjanesi. Því er brýnt að leggja áherslu á forvarnir, uppbyggingu og stuðning við íbúa og viðbragðsaðila vegna mögulegra eldsumbrota í stað þess að bregðast við aðstæðum þegar gos er hafið. Í kjölfar eldsumbrota og þess álags sem innviðir og samfélag voru undir er mikilvægt að bregðast við með markvissum hætti. Opnun upplýsinga- og samfélagsmiðstöðvar þar sem upplýsingum á tímum hættuástands og miðlun á öðrum tímum er sköpuð sérstök aðstaða er ein af þeim aðgerðum sem undirbúnar hafa verið í kjölfar eldsumbrota. Í slíkri miðstöð í Grindavík verður unnt að búa íbúa á svæðinu og gesti þeirra undir ástandið. Áætlað er að kostnaður við miðstöðina verði um 100 m.kr. Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi þess að bregðast tímanlega við og samþykkir 50 m.kr. framlag til samfélagsmiðstöðvar í Grindavík. Meiri hlutinn beinir því til ríkisstjórnarinnar að hafa forystu um að ljúka fjármögnun miðstöðvarinnar með viðeigandi stofnunum og ráðuneytum og veita til þess 50 m.kr.     

09.20 Landhelgi.
    Gerð er tillaga um alls 600 m.kr. framlag til Landhelgisgæslu Íslands sem skiptist þannig:
    Gert er ráð fyrir 30 m.kr. viðbótarframlagi til að mæta auknum rekstrarkostnaði vegna breytingar á skipastól gæslunnar. Í nóvember 2021 fékk gæslan í þjónustu sína notað en stórt og öflugt varðskip. Varðskipinu, Freyju, fylgdi þó ekki aukið rekstrarfé þótt fjórfalt stærra væri en forveri þess, Týr. Fyrir utan meiri olíunotkun er um tæknilegra og stærra skip að ræða sem dýrara er að viðhalda og reka.
    Gert er ráð fyrir 55 m.kr. framlagi til að mæta auknum kostnaði Landhelgisgæslunnar vegna nýrri og tæknilegri tækjakosts. Landhelgisgæslan er í dag vel tækjum búin, með tvö öflug varðskip, þrjár nýlegar þyrlur, flugvél, auk minni báta og tækja. Tækjakosturinn í heild er mun nýrri, tæknilegri og flóknari og viðhald er kostnaðarsamara en fyrir nokkrum árum. Sú staðreynd ásamt auknum ytri kröfum um m.a. öryggismál og gæðaeftirlit hefur leitt til þess að rekstur Landhelgisgæslunnar er orðinn dýrari en hann var.
    Gert er ráð fyrir 42 m.kr. hækkun framlags til að mæta hærri leigukostnaði á nýju flugskýli en áætlanir gerðu ráð fyrir. Nýtt flugskýli og starfsmannaaðstaða sem verið er að reisa fyrir flugstarfsemi Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli kemst í notkun í áföngum á næstunni. Landhelgisgæslunni voru úthlutaðar 50 m.kr. á ársgrundvelli til leigu á nýrri aðstöðu. Fyrirsjáanlegt er að leigan verði umtalsvert hærri þótt endanlegur leigusamningur sé ekki frágenginn.
    Gert er ráð fyrir 370 m.kr. framlagi til að mæta auknum eldsneytiskostnaði. Heimsmarkaðsverð á eldsneyti hefur hækkað gríðarlega vegna átakanna í Úkraínu og yfirvofandi orkukreppu í Evrópu. Einn stærsti kostnaðarliður Landhelgisgæslunnar, fyrir utan launa- og viðhaldskostnað, er eldsneyti fyrir varðskip, báta og loftför stofnunarinnar. Hluti aukins kostnaðar er tilkominn vegna álagningar virðisaukaskatts á skipagasolíu sem tekin er á Íslandi en var áður keypt í Færeyjum, ásamt því að varðskipið Freyja er mun stærra en eldra varðskip og notar þar með meiri olíu. Þyngst af öllu vegur þó heimsmarkaðsverð.
    Gert er ráð fyrir 103 m.kr. framlagi til endurnýjunar nauðsynlegs búnaðar fyrir tækjakost Landhelgisgæslunnar. Landhelgisgæslan er búin öflugum tækjum og búnaði en hins vegar skortir á fjárfestingarheimildir til samræmis svo að unnt sé að uppfæra og endurnýja búnað til að nýta tæki stofnunarinnar til fulls. Gert er ráð fyrir að framlagið verði nýtt til að endurnýja ónýtt gervihnattasamband í flugvélinni TF-SIF.

09.30 Ákæruvald og réttarvarsla.
    Lagt er til 160 m.kr. framlag til óbyggðanefndar vegna málskostnaðar landeigenda í þjóðlendumálum. Óbyggðanefnd skal samkvæmt þjóðlendulögum úrskurða landeigendum, sem gera kröfur í þjóðlendumálum, málskostnað sem er ætlað að tryggja að þeir beri ekki fjárhagslegan skaða af málsmeðferðinni. Þessar málskostnaðargreiðslur ríkisins hafa verið bókfærðar á nefndina sjálfa. Þar sem kröfur fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkisins um þjóðlendur í Ísafjarðarsýslum, sem nú eru til meðferðar, eru mun umfangsmeiri en á næstu svæðum á undan eru gagnaðilar ríkisins einnig fleiri og ljóst að málskostnaður eykst verulega frá því sem verið hefur undanfarin ár. Núverandi fjárheimild óbyggðanefndar dugar ekki fyrir þeim málskostnaði sem fyrirsjáanlegur er á árinu og að óbreyttu gæti það tafið fyrir uppkvaðningu úrskurða. Ef aukið fé fæst ekki til greiðslu málskostnaðar hefur það einkum þessar afleiðingar:
     1.      Það tefur fyrir því að óbyggðanefnd geti úrskurðað um svæði sem nú eru til meðferðar. Málsmeðferð dregst því á langinn sem er óásættanlegt gagnvart þeim landeigendum sem dregist hafa inn í málin, m.a. með tilliti til sjónarmiða um réttláta málsmeðferð.
     2.      Það tefur fyrir því að óbyggðanefnd geti lokið verkefnum sínum og hægt verði að leggja hana niður.
    Gert er ráð fyrir 16,4 m.kr. millifærslu til héraðssaksóknara og 16,4 m.kr. millifærslu til ríkissaksóknara. Er þetta hluti af 200 m.kr. framlagi af sameiginlegum fjárlagalið lögreglunnar sem ætlað var til að efla aðgerðir gegn kynferðisbrotum á árinu 2022. Framlagið er ætlað til ráðningar aðstoðarsaksóknara til að mæta áætlaðri fjölgun mála til ákærumeðferðar.

09.50 Fullnustumál.
    Gert er ráð fyrir 250 m.kr. framlagi til að mæta veikleikum í starfsemi fangelsanna í landinu. Fangelsiskerfið á Íslandi hefur átt við alvarlegan rekstrarvanda að stríða um langt skeið sem raunar hefur verið viðvarandi sl. áratug. Hingað til hefur verið brugðist við honum með lokun ýmissa rekstrareininga, frestun á viðhaldi húsnæðis og endurnýjun öryggisbúnaðar og síðustu árin með því að skerða nýtingu fangelsanna. Ljóst er að uppsöfnuð 278 m.kr. aðhaldskrafa síðustu 12 ára vegur hvað þyngst í þeim rekstrarvanda sem stofnunin stendur nú frammi fyrir. Til þess að geta rekið öll fjögur fangelsin á fullum afköstum þarf a.m.k. 250 m.kr. aukið framlag til rekstursins sem yrði nýtt til að fjölga um 12 fangaverði, til að ráða sérfræðing í öryggisvörnum og til viðhalds húsnæðis og öryggiskerfa.

10 Rétt. einstakl., trúmál og stjórnsýsla dómsmála.
10.10 Persónuvernd.
    Gerð er tillaga um 25 m.kr. tímabundið framlag til Persónuverndar vegna starfsemi stofnunarinnar á Húsavík.
    Gerð er tillaga um 3 m.kr. tímabundið framlag til Persónuverndar til að halda fund norrænna persónuverndarstofnana á Íslandi árið 2023.

10.20 Trúmál.
    Gerð er tillaga um 383,5 m.kr. hækkun sóknargjalda, sem leiðir af breytingartillögu meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar við frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2023 (2. mál á yfirstandandi löggjafarþingi). Forsendur fjárlagafrumvarps miðuðust við að sóknargjöld yrðu 1.055 kr. á hvern einstakling 16 ára og eldri sem skráður væri í þjóðkirkjuna. Nú er gert ráð fyrir að sóknargjöld verði tímabundið miðuð við 1.192 kr. á einstakling.

10.30 Sýslumenn.
    Lagt er til að veita sýslumanninum á Norðurlandi eystra 11 m.kr. tímabundið framlag til að styrkja starfsstöð embættisins á Þórshöfn.

10.40 Stjórnsýsla dómsmálaráðuneytis.
    Gerð er tillaga um 105 m.kr. hækkun framlags til að mæta hækkun aðildargjalda í nýjan landamærasjóð Schengen-samstarfsins. Um er að ræða þriðja landamærasjóðinn. Heildarframlög í landamærasjóðinn verða þá 240 m.kr. Gert er ráð fyrir að árlega verði hægt að sækja framlög í sjóðinn til reksturs Schengen-upplýsingakerfanna sem nemur 150 m.kr.

10.50 Útlendingamál.
    Gerðar eru þrjár tillögur, samtals að fjárhæð 1.196 m.kr., sem lúta að auknum fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd.
    Gert er ráð fyrir 48 m.kr. hækkun framlags til Útlendingastofnunar til að mæta kostnaði við aukinn fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttamanna frá Úkraínu. Fyrstu átta mánuði ársins voru innkomnar umsóknir 2.552 samanborið við 800–1.100 ársumsóknir í eðlilegu árferði. Fyrirséð er að þessi þróun haldi áfram á árinu 2023. Gert er ráð fyrir að fjárheimildin verði endurskoðuð reglulega með hliðsjón af fjölda flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd.
    Af sömu ástæðu er gert ráð fyrir 148 m.kr. hækkun framlags á liðnum Umsækjendur um alþjóðlega vernd.
    Þá er gerð er tillaga um 1.000 m.kr. fjárveitingu til að mæta kostnaði vegna fjölgunar umsækjenda um alþjóðlega vernd. Í lok september á þessu ári höfðu 3.238 manns sótt um alþjóðlega vernd eða nærri fjórfalt fleiri en þeir sem sóttu um árið áður. Fjölgunina má að stærstum hluta skýra með fólki sem er að flýja stríðsástand í Úkraínu eða um 60% þeirra sem sótt hafa um vernd. Þá hafa 20% komið frá Venesúela. Flóttafólk frá þessum tveimur löndum fær svo til allt vernd með skömmum fyrirvara sem byggist á stjórnsýslulegum ákvörðunum. Útlendingastofnun gerir ráð fyrir að fjöldi umsækjenda um alþjóðlega vernd gæti orðið um 4.500 í árslok 2022. Vinnumálastofnun fer með þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd. Samkvæmt stofnuninni er áætlaður heildarkostnaður 2022 vegna þjónustunnar um 4.180 m.kr. Miðað við óbreytta stöðu í Úkraínu og óbreytta stefnu gagnvart Venesúela þá er áætlað að fjöldi umsókna 2023 verði að lágmarki 4.900. Miðað við þann fjölda áætlar Vinnumálastofnun að heildarkostnaður 2023 verði um 3.200 m.kr. sem er um 23% minna en áætlun 2022 segir til um. Ástæðan er m.a. sú að á árinu 2022 hefur verið fjárfest töluvert í einskiptiskostnaði vegna búsetuúrræða sem nýtast áfram á árinu 2023, svo sem ýmsum húsbúnaði, rúmum og fleiru. Þegar Vinnumálastofnun tók við verkefninu um mitt ár 2022 voru búsetuúrræðin þrjú en þeim hafði fjölgað í 17 í október 2022. Hvert búsetuúrræði getur hýst mismunandi fjölda umsækjenda. Fjárheimild samkvæmt frumvarpi til fjárlaga 2023 er 2.197,2 m.kr. og því er viðbótarfjárþörf vegna þessa 1.000 m.kr. Þó er ljóst að mjög erfitt er að áætla fjölda umsókna um vernd fram í tímann og tilheyrandi kostnað. Gert er ráð fyrir að fjárheimildin verði endurskoðuð reglulega með hliðsjón af fjölda flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd.

11 Samgöngu- og fjarskiptamál.
11.10 Samgöngur.
    Lagt er til að veittar verði 210 m.kr. til að tryggja ferjurekstur um Breiðafjörð en rekstraraðili ferjunnar Baldurs mun hætta siglingum um Breiðafjörð. Í heimildagrein frumvarpsins er gert ráð fyrir að leigja eða kaupa aðra ferju og hefur skoðun leitt í ljós að líklega er einungis um eitt skip að ræða, Röst, sem er í siglingum í Norður-Noregi. Vegagerðin hefur leitað tilboða á Evrópska efnahagssvæðinu. Viðbótarkostnaður er áætlaður 210 m.kr. á ári.
    Lagt er til að veittar verði 279 m.kr. til almenningssamgangna vegna óhagstæðrar verðlagsþróunar. Ráðandi þáttur í því er hækkun olíuverðs sem veldur því að tilboð sem berast í kjölfar útboða eru hærri en áður. Tillagan er þríþætt. Í fyrsta lagi hafa heildarútgjöld aukist vegna ríkisstyrktra flugleiða úr 533 m.kr. árið 2021 í 775 m.kr. eða um 203 m.kr. og í fluginu eru 97,6% útgjalda samningsbundin. Í öðru lagi er áætlunarakstur á landsbyggðinni vanfjármagnaður um 86 m.kr. á yfirstandandi ári og verður það áfram á árinu 2023. Í þriðja lagi er ferjurekstur vanfjármagnaður um 106 m.kr. en á móti er gert ráð fyrir að Vegagerðin fái 100 m.kr. tekjur af Herjólfi III sem leigður hefur verið til Færeyja.
    Lagt er til að veittar verði 900 m.kr. til Betri samgangna þar sem ekki kemur til álagningar flýti- og umferðargjalda á árinu 2023 eins og gert var ráð fyrir í sáttmála um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2019. Í sáttmálanum er gert ráð fyrir alls 60 ma.kr. tekjum af flýti- og umferðargjöldum á árunum 2022–2033. Til að ná markmiðum og fjármögnun samkomulagsins vantar 900 m.kr. á árinu 2023. Heildarfjárhæðin, 60 ma.kr., tekur breytingum eftir vísitölu áætlana Vegagerðarinnar, og nemur 74,6 ma.kr. á verðlagi ársins 2022. Ef upphæðinni er skipt jafnt yfir árin frá og með 2024 og út samningstímann þá nema árlegar tekjur af flýti- og umferðargjöldum 7,5 ma.kr.
    Gert er ráð fyrir 385,3 m.kr. hækkun á framlagi til samgöngusáttmála á höfuðborgarsvæðinu vegna samningsbundinna verðlagsbóta. Útreikningar á verðbótum í takt við þjónustusamning skiptast í þrennt:
     1.      Óuppgerðar verðbætur vegna 2021 – 159,8 m.kr. Ekki gert ráð fyrir því í frumvarpinu. Vegagerðin skuldajafnaði til baka verðbótum til Betri samgangna sem Vegagerðin fékk ekki bætt úr ríkissjóði.
     2.      Óuppgerðar verðbætur vegna 2022 – 108,8 m.kr. Ekki gert ráð fyrir því í frumvarpinu. Útreikningar bárust ekki fyrr en 31. ágúst 2022.
     3.      Áætlaðar verðbætur 2023 eru 116,7 m.kr. hærri en áætlun ráðuneytisins gerði ráð fyrir eða 2.514,7 m.kr. í stað 2.398 m.kr.
    Hækkun á milli áranna 2022 og 2023 er áætluð um 9,6%, þ.e. úr 2.295 m.kr. í 2.514 m.kr.

11.20 Fjarskipti.
    Lagt er til að 100 m.kr. framlag fari til fjármögnunar nýrra fjarskiptalaga sem tóku gildi í september. Langstærsti nýi kostnaðarþáttur frumvarpsins varðandi varanlegan rekstrarkostnað felst í innleiðingu eftirlits með skipulagi net- og upplýsingaöryggis og áhættustýringarumgjörð í samræmi við 78. og 87. gr. laganna. Er hér um að ræða eftirlit með netöryggi á sviði fjarskipta, t.d. með stjórnkerfum fjarskiptakerfa, öryggi 5G-farnetskerfa og eftirlit með öryggi fastaneta og annarra rekstrarþátta hjá öllum helstu fjarskiptafélögum landsins. Í þessu felst m.a. eftirlit með útvistun og birgjum félaganna og áhættu sem af þeim kann að leiða. Eftirlit þetta skal framkvæmt í samræmi við bestu framkvæmd eins og henni er lýst í leiðbeiningum Netöryggisstofnunar Evrópu, ENISA.
    Jafnframt er í frumvarpinu fjallað um þörf fyrir aukna afkastagetu við að sinna markaðsgreiningum. Í ljósi breytinga á eignarhaldi fyrirtækja á markaði, aukins flækjustigs markaðsgreininga og stöðu markaðarins hérlendis telur stofnunin nauðsynlegt að bæta við sem nemur tveimur ársverkum til að sinna þessu verkefni. Að lokum er talið nauðsynlegt að fjölga um einn starfsmann sem sinni eftirliti með ljósvakanum (radíótruflunum), alþjóðlegu samstarfi, nýsköpun og fleiru. Auknu eftirliti fylgir stofnkostnaður. Annars vegar er það í fjárfestingum í búnaði af völdum eftirlits með ljósvakanum vegna 5G-þjónustu og hins vegar í einskiptiskostnaði við innleiðingu samanburðartóls á fjarskiptaáskriftarleiðum, uppfærslu gagnagrunns almennra fjarskiptaneta og endurmenntun starfsmanna.
    Lagt er til að 100 m.kr. framlag fari til fjármögnunar netöryggismála á grunni laga frá 2021. Fjármununum verður varið til að efla CERT-IS (netöryggissveit). Með auknu fjármagni mun sveitin að mestu standa jafnfætis norrænum systursveitum hvað varðar getu til að sinna netöryggi varðandi ástandsvitund og atvikameðhöndlun. Starf netöryggissveitarinnar er að taka á sig mynd og reynsla að fást af starfseminni. Einnig hefur alþjóðleg samvinna og samstarf verið aukið að einhverju marki. Í ljósi þessarar reynslu og þekkingar sem aflað hefur verið hafa komið í ljós ákveðnir veikleikar í starfinu, m.a. í samanburði við norræna systurhópa. Þessir veikleikar endurspeglast í eftirfarandi þáttum:
          Netöryggissveitin hefur ekki næga getu, þekkingu, upplýsingakerfi eða gagnasöfn til að greina og takast á við flókna öryggisáhættu. Hér er einkanlega átt við áhættu sem stafar af ásælni erlendra ríkja til að afla upplýsinga um íslenska hagsmuni og/eða mögulega valda truflunum á starfsemi á Íslandi.
          Netöryggissveitin hefur ekki aðgang að þróuðum alþjóðlegum gagnasöfnum um vírusa og netóværu.
          Efla þarf tæknileg vöktunarkerfi netöryggissveitarinnar verulega til að hafa upplýsingar í rauntíma um ástand íslenska netumdæmisins.
          Efla þarf verulega erlent samstarf við systurhópa, einkanlega á Norðurlöndunum, en einnig innan vébanda ESB og NATO.
          Auka þarf almennt afkastagetu sveitarinnar til að takast á við hlutverk sitt, t.d. með því að flýta og fjölga æfingum og takast á við ýmis brýn viðfangsefni sem fyrirvaralaust skjóta upp kollinum, sbr. innrás Rússa í Úkraínu.
          Auka þarf lögfræðilega getu netöryggissveitarinnar og vegna eftirlits með net- og upplýsingaöryggis í ljósi fjölgunar atvika og skipulagðra úttekta.
    Lagt er til að 150 m.kr. fjárheimildir verði veittar árlega næstu þrjú árin til Fjarskiptasjóðs til að sinna uppbyggingu fjarskiptainnviða. Nýta skal fjármagnið til að flýta uppbyggingu fjarskipta þar sem markaðsbresta gætir í þágu áreiðanleika og öryggis fjarskipta, aðstöðusköpunar fyrir farnetssenda gagnvart helstu stofn- og þjóðvegum, endurnýjunar ljósleiðarastofnnets um landið og til ljósleiðaravæðingar byggðakjarna sem eftir eru.

12 Landbúnaður.
12.20 Rannsóknir, þróun og nýsköpun í landbúnaðarmálum.
    Gert er ráð fyrir að 46,6 m.kr. verði fluttar af öðrum gjöldum yfir á tilfærslur í samræmi við rauntölur úr bókhaldi.
    Gert er ráð fyrir að 30 m.kr. framlag færist af málaflokki 12.20 Rannsóknir, þróun og nýsköpun í landbúnaðarmálum á málaflokk 12.60 Stjórnsýsla matvælaráðuneytisins. Um er að ræða breytta forgangsröðun innan ramma málefnasviða matvælaráðuneytisins sem skýrist m.a. af því að kostnaður aðalskrifstofu ráðuneytisins, vegna verkefna sem tengjast matvælaöryggi, hefur verið meiri en ráð var fyrir gert. Á móti hefur framlag á lið matvælaöryggis verið hærra en kostnaður við verkefnið sem sést m.a. á því að yfirfærð uppsöfnuð staða frá árinu 2021 er ríflega 50 m.kr. Er því gert ráð fyrir að 30 m.kr. verði færðar á aðalskrifstofu ráðuneytisins.
    Gert er ráð fyrir 30 m.kr. tímabundnu framlagi í eitt ár til að mæta kostnaði við tjón af völdum skriðufalla í Út-Kinn í október 2021. Hinn 24. apríl 2022 voru samþykktar á fundi ríkisstjórnarinnar tillögur varðandi framlag úr ríkissjóði og fyrirkomulag vegna styrkja til uppbyggingar í Út-Kinn eftir skriðuföllin sem þar urðu í október 2021. Samkvæmt mati Bjargráðasjóðs er áætlað að kostnaður vegna tjónsins verði samtals 90 m.kr. Gert er ráð fyrir að þar af falli 60 m.kr. kostnaður til á árinu 2022 sem búið er að greiða Bjargráðasjóði af almennum varasjóði fjárlaga. Eftir stendur 30 m.kr. kostnaður sem fellur til á árinu 2023 og er mætt hér með.
    Gerð er tillaga um 15 m.kr. tímabundið framlag til Klúbbs matreiðslumeistara og Íslensku bocuse d'or akademíunnar vegna keppnismatreiðslu.

12.60 Stjórnsýsla matvælaráðuneytis.
    Gert er ráð fyrir að 30 m.kr. framlag færist af málaflokki 12.20 Rannsóknir, þróun og nýsköpun í landbúnaðarmálum yfir á málaflokk 12.60 Stjórnsýsla matvælaráðuneytisins. Um er að ræða breytta forgangsröðun innan ramma málefnasviða matvælaráðuneytisins sem skýrist m.a. af því að kostnaður aðalskrifstofu ráðuneytisins, vegna verkefna sem tengjast matvælaöryggi, hefur verið meiri en ráð var fyrir gert. Á móti hefur framlag á lið matvælaöryggis verið hærra en kostnaður við verkefnið sem sést m.a. á því að yfirfærð uppsöfnuð staða frá árinu 2021 er ríflega 50 m.kr. Er því gert ráð fyrir að 30 m.kr. verði færðar á aðalskrifstofu ráðuneytisins.
    Gerð er tillaga um breytta hagræna skiptingu, 80 m.kr. færast af tilfærslum yfir á rekstur. Er tillagan tilkomin vegna millifærslutillagna um breytta forgangsröðun fjárheimilda þar sem fjárheimildir voru millifærðar af málaflokkum 12.20 Rannsóknir, þróun og nýsköpun í landbúnaðarmálum og 13.20 Rannsóknir, þróun og nýsköpun í sjávarútvegi og á málaflokk 12.60 Stjórnsýsla matvælaráðuneytisins, samtals 110 m.kr.
    Gert er ráð fyrir að 80 m.kr. framlag færist af 13.20 Rannsóknir, þróun og nýsköpun í sjávarútvegi á málaflokk 12.60 Stjórnsýsla matvælaráðuneytisins. Um er að ræða breytta forgangsröðun innan ramma málefnasviða matvælaráðuneytisins sem skýrist m.a. af því að kostnaður aðalskrifstofu ráðuneytisins, vegna breyttrar skipanar Stjórnarráðsins, hefur verið meiri en ráð var fyrir gert. Því til viðbótar miðar tillagan að því að breyta forgangsröðun fjárveitinga í þá veru að færa fjármagn af safnlið yfir á aðalskrifstofu ráðuneytisins, m.a. út frá þeirri staðreynd að undir aðalskrifstofu ráðuneytisins heyrir nú eingöngu einn ráðherra en ekki tveir eins og var fyrir breytta skipan Stjórnarráðsins. Er því gert ráð fyrir að 80 m.kr. verði færðar á aðalskrifstofu ráðuneytisins.

13 Sjávarútvegur og fiskeldi.
13.10 Stjórnun sjávarútvegs og fiskeldis.
    Gert er ráð fyrir að 16,5 m.kr. færist af fjárfestingu yfir á rekstur. Um er að ræða leiðréttingu á breytingu á hagrænni skiptingu í frumvarpinu.

13.20 Rannsóknir, þróun og nýsköpun í sjávarútvegi.
    Gert er ráð fyrir að 200 m.kr. framlag til hvalatalninga, sem gert var ráð fyrir í frumvarpinu, muni frestast til ársins 2024. Um er að ræða tímabundna hliðrun frá árinu 2023 og þarf því rammi viðkomandi málefnasviðs í fjármálaáætlun fyrir árin 2024–2028 að hækka á árinu 2024 um 200 m.kr.
    Gert er ráð fyrir að 165 m.kr. fjárheimild, sem felld var niður í frumvarpinu, verði færð aftur inn í ramma málaflokksins. Um er að ræða framlag sem kom inn árið 2018 og veitt var tímabundið í fimm ár til Hafrannsóknastofnunar til að sinna auknum loðnurannsóknum. Framlagið var hluti af útgjaldaramma málaflokksins og átti því ekki að falla niður. Gert er ráð fyrir að framlagið komi aftur inn í ramma Hafrannsóknastofnunar frá og með 2023 og verði nýtt til áframhaldandi rannsókna eins og upphaflegar forsendur þess gerðu ráð fyrir.
    Gert er ráð fyrir að 80 m.kr. framlag færist af 13.20 Rannsóknir, þróun og nýsköpun í sjávarútvegi á málaflokk 12.60 Stjórnsýsla matvælaráðuneytisins. Um er að ræða breytta forgangsröðun innan ramma málefnasviða matvælaráðuneytisins sem skýrist m.a. af því að kostnaður aðalskrifstofu ráðuneytisins, vegna breyttrar skipanar Stjórnarráðsins, hefur verið meiri en ráð var fyrir gert. Því til viðbótar miðar tillagan að því að breyta forgangsröðun fjárveitinga í þá veru að færa fjármagn af safnlið yfir á aðalskrifstofu ráðuneytisins, m.a. út frá þeirri staðreynd að undir aðalskrifstofu ráðuneytisins heyrir nú eingöngu einn ráðherra en ekki tveir eins og var fyrir breytta skipan Stjórnarráðsins. Er því gert ráð fyrir að 80 m.kr. verði færðar á aðalskrifstofu ráðuneytisins.

14 Ferðaþjónusta.
14.10 Ferðaþjónusta.
    Lagt er til að veita 150 m.kr. varanlegt framlag til að halda starfsemi Flugþróunarsjóðs við. Mikilvægt er að koma á reglulegu millilandaflugi um alþjóðaflugvellina Akureyri og Egilsstaði. Með því er stuðlað að dreifingu ferðamanna um landið í samræmi við Framtíðarsýn og leiðarljós íslenskrar ferðaþjónustu til ársins 2030. Sjóðurinn var stofnaður á árinu 2016 og var framlag í sjóðinn samkvæmt fjárlögum 300 m.kr. á ári á árunum 2017–2019. Frá árinu 2020 hefur sjóðurinn verið áfram starfræktur og hefur fjármögnun sjóðsins verið uppsafnaður höfuðstóll frá fyrri árum þar sem starfsemi sjóðsins fór hægt af stað. Nú er staðan sú að höfuðstóllinn er að verða uppurinn og því er gerð tillaga um varanlegt fjármagn til að halda starfsemi sjóðsins áfram.
    Gerð er tillaga um 8 m.kr. tímabundið framlag til að vinna að stefnumörkun um húsasafnið á Núpsstað.
    Gerð er tillaga um 8 m.kr. tímabundið framlag til Ferðafélags Akureyrar til lokafrágangs á þjónustuhúsi í Drekagili.

15 Orkumál.
15.10 Stjórnun og þróun orkumála.
    Gerð er tillaga um tímabundna millifærslu fjárveitinga á milli málefnasviðanna 15 Orkumál og 17 Umhverfismál. Um er að ræða tímabundna styrkingu til Orkustofnunar um 25 m.kr. á ári í þrjú ár, 2023–2025, til að styðja við verkefni er varða eftirlit með nýtingu auðlinda og auðlindaspár. Mótbókun er á liðinn Ýmis verkefni 14-190-190. Markmið verkefnisins er að byggja upp og efla eftirlit Orkustofnunar með auðlindanýtingu landsins, þ.m.t. vegna jarðhitanýtingar og orkuöryggis hitaveitna, grunnvatns- og vatnsaflsnýtingar, jarðefnanýtingar og nýtingar auðlinda á hafsbotni, og að hagnýta gögn sem stofnuninni berast um nýtingu auðlinda Íslands sem og spá fyrir um framtíðarnýtingu verðmætra auðlinda (kortasjár og auðlindaspár jarðhita, vatnsafls, grunnvatns og jarðefna).
    Í verkefninu felst eftirlit með auðlindanýtingu landsins sem þarfnast verulegrar eflingar svo að unnt sé að efla sjálft eftirlitið og ekki síst hagnýta þau verðmætu gögn sem stofnuninni berast á ári hverju. Með styrkingu eftirlits getur stofnunin betur sinnt lögbundnu hlutverki sínu og veitt upplýsingar um nýtingarhraða, umfang og forða auðlindanna með sjálfbærni auðlindanna að leiðarljósi, og spáð fyrir um framtíðareftirspurn auðlindanna (t.d. auðlindaspár).
    Gerð er tillaga um tímabundna millifærslu fjárveitinga á milli málaflokka 15.10 Stjórnun og þróun orkumála, og 17.50 Stjórnsýsla umhverfismála. Um er að ræða styrkingu til Orkusjóðs um 550 m.kr. á ári í tvö ár. Áhersla er á verkefni til innviðauppbyggingar í samræmi við aðgerðaáætlun í loftlagsmálum.
    Ríkisstjórnin leggur áherslu á loftslagsmál og orkuskipti. Markmiðið er að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040 og verði þá óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja. Aukin jarðhitaleit og nýting jarðhita á svæðum þar sem nú er notast við raforku og olíu til húshitunar er ein mikilvæg leið að því markmiði. Ef góður árangur næst þar er hægt að minnka notkun olíu og raforku við húshitun og þar með draga úr losun vegna olíunotkunar, sem og nýta raforku sem losnar til annarra nota. Einkum er horft til svæða þar sem vísbendingar eru um að finna megi heitt vatn sem nýta megi beint inn á hitaveitu eða volgt vatn í nægilegu magni sem nýta megi á miðlæga varmadælu á svæðum þar sem innviðir fyrir veitu eru þegar til staðar. Með hliðsjón af framangreindu er lagt til að veita 150 m.kr. til jarðhitaleitarátaks 2023.
    Sem liður í orkuskiptum og til vinna að markmiðum Íslands um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda er talið bæði mikilvægt og nauðsynlegt að tryggja þátttöku bílaleiga. Markmið aðgerðarinnar eru að auka akstur ferðamanna á hreinorkubifreiðum og auka um leið hlutfall hreinorkubifreiða á eftirmarkaði þegar bílaleigur fara í endurnýjun á bílaflota sínum. Kæmi þetta fyrirkomulag í stað núverandi ívilnana til bílaleiga um afslátt af vörugjöldum. Gert er ráð fyrir að umfang þessarar aðgerðar nemi allt að 1 ma.kr. til eins árs árið 2023 og yrði fjárveiting nýtt til að styrkja kaup bílaleiga á bílaleigubifreiðum sem ganga fyrir hreinni orku sem gæti skilað allt að 3,5 kílótonna samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Fyrirhugað er að styðja við þessa aðgerð með öflugu markaðsátaki til að hvetja ferðamenn til að taka hreinorkubifreiðar á leigu og átaki í uppbyggingu innviða á fjölsóttum ferðamannastöðum. Takist vel til er gengið út frá því að verkefnið verði endurskoðað og útfært nánar í næstu fjármálaáætlun. Sem liður í orkuskiptum í samgöngum er einnig talið mikilvægt að ráðast í sambærilega aðgerð til aðila í þungaflutningum en þungaflutningabifreiðar nota um það bil tvöfalt meira magn jarðefnaeldsneytis en almennir bílar. Í þessu sambandi er því gert ráð fyrir að mögulegt verði að nýta fjármagn úr flokki bílaleigubíla til að styrkja kaup á þungaflutningabifreiðum til að fullnýta fjárveitingu. Slík yfirfærsla yrði þó háð sérstöku samþykki ráðherra.
    Til viðbótar við framangreinda tillögu um 1 ma.kr. vegna orkuskipta er gerð tillaga um 400 m.kr. framlag. Fjárhæðinni er ætlað að fjármagna aðgerð til orkuskipta í þungaflutningum.
    Lagt er til að Sveitarfélaginu Skagafirði verði veitt 88 m.kr. tímabundið framlag vegna framkvæmda við lagningu stofnlagnar hitaveitu frá Langhúsum í Fljótum að Hrolleifsdal.

16 Markaðseftirlit og neytendamál.
16.10 Markaðseftirlit og neytendamál.
    Gert er ráð fyrir 214 m.kr. hækkun á eftirlitsgjaldi til að standa straum af kostnaði við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Í frumvarpinu var miðað við rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins sem var skilað inn í ársbyrjun 2022. Fjármálaeftirlitið hefur nú endurskoðað áætlunina með tilliti til verðlags- og launaþróunar. Áætlað eftirlitsgjald ársins 2023 er samtals að fjárhæð 2.674 m.kr. og áætlað er að aðrar tekjur nemi 20,9 m.kr. Gert er ráð fyrir að heildarkostnaður Fjármálaeftirlitsins muni nema 2.804 m.kr. Þannig er gert ráð fyrir að heildarútgjöld verði um 109,1 m.kr. umfram tekjur og verði þeim mismun mætt með lækkun á uppsöfnuðum rekstrarafgangi Fjármálaeftirlitsins. Í frumvarpinu var miðað við að tekjur vegna eftirlitsins væru 214 m.kr. lægri en nú er áætlað eða 2.460 m.kr. Kostnaður var áætlaður 2.632 m.kr. Áætlað gjald vegna fjármögnunar skilavalds er samtals 94,5 m.kr. sem endurspeglar áætlaðan kostnað vegna skilavaldsins og er það óbreytt frá frumvarpinu.

17 Umhverfismál.
17.10 Náttúruvernd, skógrækt og landgræðsla.
    Stefna matvælaráðherra, Land og líf, sem er heildstæð stefna um landgræðslu og skógrækt og jafnframt sú fyrsta, var lögð fram í ágúst sl. og gerir hún ráð fyrir auknu umfangi aðgerða í landgræðslu og skógrækt. Markmiðið er að auka landgræðslu og skógrækt í þágu loftslagsmála. Þar á meðal er aukið umfang aðgerða til að endurheimta vistkerfi, auka skógrækt og bæta landnýtingu og jafnframt rannsóknir á áhrifum aðgerða á líffræðilega fjölbreytni og áhættumat fyrir notkun á framandi tegundum í skógrækt og eru lagðar til auknar fjárveitingar til verkefnisins, 153,7 m.kr.

17.20 Rannsóknir og vöktun á náttúru Íslands.
    Gerð er tillaga um 48 m.kr. tímabundið framlag til Samtaka náttúrustofa sem dreifist jafnt til náttúrustofanna átta, þ.e. 6 m.kr. til hverrar.
    Gerð er tillaga um breytingu á hagrænni skiptingu af rekstri á fjárfestingu vegna aðgerðar úr tillögum átakshóps sem tengdist úrbótum á innviðum í kjölfar óveðurs í desember 2019. Um er að ræða leiðréttingu vegna búnaðar Veðurstofunnar (LAN 044-Búnaður), 5 m.kr. eru færðar á fjárfestingu af rekstri.
    Gerð er tillaga um breytingu á hagrænni skiptingu af fjárfestingu yfir á rekstur vegna aðgerðar úr tillögum átakshóps sem tengdist úrbótum á innviðum í kjölfar óveðurs í desember 2019. Um er að ræða leiðréttingu vegna ofurtölvu Veðurstofunnar (LAN 106- Ofurtölva), 40 m.kr. eru færðar af fjárfestingu á rekstur þar sem allt fjármagn var upphaflega fært sem fjárfesting.

17.30 Meðhöndlun úrgangs.
    Gerð er tillaga um breytingu á hagrænni skiptingu af almennum rekstri (rekstrarframlagi) Úrvinnslusjóðs, viðfangi 101, á rekstrartilfærslur, viðfang 110.
    Gerð er tillaga um breytingu á áætluðum tekjum og gjöldum Úrvinnslusjóðs. Gert er ráð fyrir að áhrif breytinga á álagningu ársins 2023 verði 1.910 m.kr. á tekju- og gjaldahlið og að nettóáhrif verði því engin á ríkissjóð. Breytingar skiptast þannig: Olíuvörur 40 m.kr., varnarefni 5 m.kr., pappaumbúðir 500 m.kr., plastumbúðir 790 m.kr., málmumbúðir 50 m.kr., glerumbúðir 125 m.kr., viðarumbúðir 20 m.kr., rafhlöður og rafgeymar 80 m.kr. og ökutæki 300 m.kr.

17.50 Stjórnsýsla umhverfismála.
    Gerð er tillaga um tímabundna millifærslu fjárveitinga á milli málefnasviðanna 15 Orkumál og 17 Umhverfismál. Um er að ræða tímabundna styrkingu til Orkustofnunar um 25 m.kr. á ári í þrjú ár, 2023–2025, til að styðja við verkefni er varða eftirlit með nýtingu auðlinda og auðlindaspár. Markmið verkefnisins er að byggja upp og efla eftirlit Orkustofnunar með auðlindanýtingu landsins, þ.m.t. vegna jarðhitanýtingar og orkuöryggis hitaveitna, grunnvatns- og vatnsaflsnýtingar, jarðefnanýtingar og nýtingar auðlinda á hafsbotni, og að hagnýta gögn sem stofnuninni berast um nýtingu auðlinda Íslands sem og spá fyrir um framtíðarnýtingu verðmætra auðlinda (kortasjár og auðlindaspár jarðhita, vatnsafls, grunnvatns og jarðefna).
    Í verkefninu felst eftirlit með auðlindanýtingu landsins sem þarfnast verulegrar eflingar svo að unnt sé að efla sjálft eftirlitið og ekki síst hagnýta þau verðmætu gögn sem stofnuninni berast á ári hverju. Með styrkingu eftirlits getur stofnunin betur sinnt lögbundnu hlutverki sínu og veitt upplýsingar um nýtingarhraða, umfang og forða auðlindanna með sjálfbærni auðlindanna að leiðarljósi, og spáð fyrir um framtíðareftirspurn auðlindanna (t.d. auðlindaspár).
    Gerð er tillaga um tímabundna millifærslu fjárveitinga á milli málaflokka 15.10 Stjórnun og þróun orkumála, og 17.50 Stjórnsýsla umhverfismála. Um er að ræða styrkingu til Orkusjóðs um 550 m.kr. á ári í tvö ár. Áhersla er á verkefni til innviðauppbyggingar í samræmi við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.
    Lagt er til að veita 27,5 m.kr. tímabundið framlag til handa umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti svo að unnt verði að klára seinni hluta frumrannsóknar sem kveðið er á um í skýrslu ráðherra um hreinsun Heiðarfjalls.
    Lagt er til að veita Stofnun Vilhjálms Stefánssonar 7 m.kr. tímabundið framlag.
    Gerð er tillaga um 2 m.kr. tímabundið framlag til Hollvinafélags Kvíabekkjarkirkju til framkvæmda við kirkjuna.

18 Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál.
18.10 Safnamál.
    Tekjuáætlun Náttúruminjasafns er endurskoðuð vegna áætlaðs aðgangseyris að nýrri sýningu í Náttúruhúsinu í Nesi en nú liggur fyrir að opnun hússins verður ekki fyrr en á árinu 2024 og lækka því bæði tekjur og gjöld um 30 m.kr.
    Gert er ráð fyrir að færa 130,3 m.kr. af öðrum gjöldum og 31,1 m.kr. af tilfærslum á laun hjá Þjóðminjasafni til samræmis við raunkostnað stofnunarinnar.
    Gert er ráð fyrir að flytja 23 m.kr. af tilfærslum á önnur gjöld hjá Landsbókasafni – Háskólabókasafni til samræmis við raunkostnað stofnunarinnar.
    Lagt er til að hækka fjárveitingu til Þjóðskjalasafns um 214,4 m.kr. þar sem FSRE mun um áramót taka yfir húsnæðið og mun Þjóðskjalasafn þar af leiðandi greiða leigu til FSRE frá þeim tíma. Þessu samhliða mun því þurfa að endurmeta tekjuáætlun FSRE. Áætlað er að leiga muni verða að meðaltali um 2.300 kr. á fermetra og er húsnæði Þjóðskjalasafns á Laugavegi 162 7.766 fermetrar. Ársleigan er því áætluð 214,4 m.kr. Um áætlun er að ræða og er því fjárhæðin sett fram með fyrirvara um breytingar þegar endanlegur leigusamningur liggur fyrir.
    Lagt er til að veita 75 m.kr. fjárveitingu til Þjóðskjalasafns til að geta unnið áfram að innviðaverkefnum safnsins með því að ráða inn sjö starfsmenn. Innviðaverkefni Þjóðskjalasafnsins skiptast í þrennt. Í fyrsta lagi er um að ræða viðtöku rafrænna gagna afhendingarskyldra aðila ríkisins. Verkefnið felst í aðstoð við skil afhendingarskyldra aðila og við varðveislu rafrænna gagna. Í öðru lagi er um að ræða stafræna endurgerð sem felst í magnskönnun ásamt skönnun á mikið notuðum gögnum. Í þriðja lagi er um að ræða aðgengi og miðlun. Í því felst að þróa áfram og ritstýra aðgengi og miðlun á rafrænum gögnum, bæði gögnum sem eru afhent á rafrænu formi til varðveislu og skönnuðum pappírsgögnum. Umrædd verkefni styðja við markmið stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að sett verði stefna um rafræna langtímavörslu skjala og að rafrænir innviðir opinberrar skjalavörslu verði endurnýjaðir til að mæta þessum kröfum.
    Gert er ráð fyrir að flytja 9,6 m.kr. af tilfærslum yfir á laun og önnur gjöld hjá Safnasjóði til samræmis við rekstur sjóðsins.
    Gerð er tillaga um 15 m.kr. tímabundið framlag til tveggja ára til Áhugafélags um rekstur Maríu Júlíu BA-36.
    Gerð er tillaga um 15 m.kr. tímabundið framlag til Tækniminjasafns Austurlands.
    Gerð er tillaga um 5 m.kr. tímabundið framlag til varðskipsins Óðins.
    Lagt er til að Safnasafninu verði veitt 9 m.kr. tímabundið framlag til að gera markaðsátak og taka á móti erlendum ferðahópum.
    Lagt er til að Þjóðlagasetrinu á Siglufirði verði veitt 4 m.kr. tímabundið framlag til að standa straum af viðgerðum á húsnæði.

18.20 Menningarstofnanir.
    Gert er ráð fyrir að flytja 9 m.kr. varanlega af fjárlagalið Samninga og styrkja til starfsemi menningarstofnana til Þjóðleikhússins til að mæta kjarasamningsbundnum hækkunum vegna nýrra kjarasamninga við danshöfunda sem undirritaðir voru í maí 2022.
    Lagt er til að millifæra 55 m.kr. af málaflokki 18.30 á 18.20. Um er að ræða leiðréttingu frá framlagningu frumvarpsins þar sem 98 m.kr. tímabundið framlag úr fjárfestingar- og uppbyggingarátaki til Kvikmyndamiðstöðvar var fellt niður en 55 m.kr. af því runnu til kvikmyndasjóða á málaflokki 18.30 og hefðu því með réttu átt að falla niður á málaflokki 18.30. Með þessari millifærslu er það leiðrétt. Tillagan felur jafnframt í sér breytingu á hagrænni skiptingu af rekstrartilfærslum á málaflokki 18.30 á rekstrarframlög á málaflokki 18.20.
    Gerð er tillaga um 14 m.kr. tímabundið framlag til Hins íslenska fornritafélags.
    Gert er ráð fyrir að flytja 7 m.kr. af fjárlagalið Samninga og styrkja vegna starfsemi menningarstofnana á fjárlagalið Samninga og styrkja á sviði lista og menningar vegna einföldunar á fylgiriti og sameiningar verkefna á einum stað.
    Gert er ráð fyrir að flytja 9 m.kr. varanlega af fjárlagalið Samninga og styrkja til starfsemi menningarstofnana til Þjóðleikhússins til að mæta kjarasamningsbundnum hækkunum vegna nýrra kjarasamninga við danshöfunda sem undirritaðir voru í maí 2022.
    Lagt er til að sveitarfélaginu Norðurþingi verði veitt 20 m.kr. tímabundið framlag sem varið verði í framkvæmdir við heimskautsgerði á Raufarhöfn.

18.30 Menningarsjóðir.
    Gerð er tillaga um 2,5 m.kr. tímabundið framlag til Arnarfjarðar á miðöldum, fornleifauppgraftar að Auðkúlu.
    Gerð er tillaga um 35 m.kr. tímabundið framlag til stuðnings verkefna sem Fornminjasjóður styrkir.
    Í hamförunum í Seyðisfirði í desember 2020 gjöreyðilögðust mörg hús eða urðu fyrir miklum skemmdum, en önnur stóðu eftir óskemmd. Þessi hús hafa flest mikið menningarsögulegt gildi og því ber að varðveita þau en til þess þarf að flytja þau af skilgreindum hættusvæðum. Í samræmi við tillögur starfshóps vegna hamfaranna er lagt til að veitt verði 190 m.kr. viðbótarframlag til Húsafriðunarsjóðs til að mæta kostnaði við flutning húsanna.
    Lagt er til að veita 100 m.kr. tímabundið framlag til Kvikmyndasjóðs til að standa undir vilyrðum til framleiðslustyrkja sem áætlaðir eru til greiðslu á árinu 2023.
    Lagt er til að millifæra 55 m.kr. af málaflokki 18.30 á 18.20. Um er að ræða leiðréttingu frá framlagningu frumvarpsins þar sem 98 m.kr. tímabundið framlag úr fjárfestingar- og uppbyggingarátaki til Kvikmyndamiðstöðvar var fellt niður en 55 m.kr. af því runnu til kvikmyndasjóða á málaflokki 18.30 og hefðu því með réttu átt að falla niður á málaflokki 18.30. Með þessari millifærslu er það leiðrétt. Tillagan felur jafnframt í sér breytingu á hagrænni skiptingu af rekstrartilfærslum á málaflokki 18.30 á rekstrarframlög á málaflokki 18.20.
    Gert er ráð fyrir að færa 55 m.kr. af rekstrarframlögum yfir á rekstrartilfærslur.
    Gerð er tillaga um 20 m.kr. tímabundið framlag til Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík (RIFF).
    Gerð er tillaga um 5 m.kr. tímabundið framlag til Pálshúss.
    Gerð er tillaga um 9 m.kr. tímabundið framlag til Flugsafns Íslands.
    Gerð er tillaga um 15 m.kr. tímabundið framlag til Skaftfells.
    Gerð er tillaga um 10,5 m.kr. tímabundið framlag til Sköpunarmiðstöðvarinnar á Stöðvarfirði.
    Gerð er tillaga um 3 m.kr. tímabundið framlag til Steinshúss.
    Gert er ráð fyrir 160 m.kr. tímabundnu framlagi í fjögur ár til máltækniverkefnisins. Samsvarandi hækkun er lögð til á málaflokki 07.10 Vísindi og samkeppnissjóðir í rannsóknum vegna markáætlunar um tungu og tækni.
    Gert er ráð fyrir að flytja 7 m.kr. af fjárlagalið Samninga og styrkja vegna starfsemi menningarstofnana á fjárlagalið Samninga og styrkja á sviði lista og menningar vegna einföldunar á fylgiriti með fjárlögum og sameiningar verkefna á einum stað.
    Gerð er tillaga um 7 m.kr. tímabundið framlag til reksturs menningarhúss í Sigurhæðum.
    Lagt er til að veita 3 m.kr. tímabundið framlag til Lista-, menningar- og listfræðsluhátíðarinnar LungA til að greiða skuldir sem til eru komnar vegna tekjufalls af völdum heimsfaraldurs kórónuveiru.
    Lagt er til að veita menningarfélaginu Hrauni í Öxnadal 12 m.kr. tímabundið framlag sem varið verði í uppbyggingu að Hrauni.
    Lagt er til að veita Minja- og sögufélagi Vatnsleysustrandar 5 m.kr. tímabundið framlag vegna uppbyggingar samkomuhússins Kirkjuhvols á Vatnsleysuströnd.
    Lagt er til að veita Leikfélagi Reykjavíkur 30 m.kr. tímabundið framlag vegna tekjufalls af völdum heimsfaraldurs.
    Lagt er til að veita Menningarfélagi Akureyrar 20 m.kr. tímabundið framlag til almenns reksturs vegna tekjufalls af völdum heimsfaraldurs.
    Gerð er tillaga um leiðréttingu á hagrænni skiptingu eftirfarandi liða í samræmi við raunútgjöld:
          Launasjóðir listamanna. Gert er ráð fyrir að flytja 20 m.kr. af tilfærslum yfir á laun og önnur gjöld. Undir fjárveitingu sjóðsins falla einnig nefndarþóknanir og annar rekstrarkostnaður og því þarf að hafa fjárheimild á rekstrarframlagi í fjárlögum til að geta bókað þann kostnað rétt.
          Útflutningssjóður ísl. tónl. Gert er ráð fyrir að flytja 1 m.kr. af tilfærslum yfir á laun. Undir fjárveitingu sjóðsins falla einnig nefndarþóknanir og því þarf að hafa fjárheimild á rekstrarframlagi í fjárlögum til að geta bókað þann kostnað rétt.
          Myndlistarsjóður. Gert er ráð fyrir að flytja 12 m.kr. af tilfærslum yfir á laun og önnur gjöld. Undir fjárveitingu sjóðsins falla einnig nefndarþóknanir og annar rekstrarkostnaður og því þarf að hafa fjárheimild á rekstrarframlagi í fjárlögum til að geta bókað þann kostnað rétt.
          Stuðningur við útgáfu bóka á íslensku. Gert er ráð fyrir að flytja 5 m.kr. af tilfærslum yfir á önnur gjöld. Undir fjárveitingu sjóðsins fellur einnig annar rekstrarkostnaður og því þarf að hafa fjárheimild á rekstrarframlagi í fjárlögum til að geta bókað þann kostnað rétt.
          Starfsemi atvinnuleikhópa. Gert er ráð fyrir að flytja 3 m.kr. af tilfærslum yfir á laun. Undir fjárveitingu sjóðsins falla einnig nefndarþóknanir og því þarf að hafa fjárheimild á rekstrarframlagi í fjárlögum til að geta bókað þann kostnað rétt.
          Tónlistarsjóður. Gert er ráð fyrir að flytja 3 m.kr. af tilfærslum yfir á laun. Undir fjárveitingu sjóðsins falla einnig nefndarþóknanir og því þarf að hafa fjárheimild á rekstrarframlagi í fjárlögum til að geta bókað þann kostnað rétt.
          Hljóðritunarsjóður. Gert er ráð fyrir að flytja 2 m.kr. af tilfærslum yfir á laun. Undir fjárveitingu sjóðsins falla einnig nefndarþóknanir og því þarf að hafa fjárheimild á rekstrarframlagi í fjárlögum til að geta bókað þann kostnað rétt.
          Barnamenningarsjóður. Gert er ráð fyrir að flytja 4 m.kr. af tilfærslum yfir á laun. Undir fjárveitingu sjóðsins falla einnig nefndarþóknanir og því þarf að hafa fjárheimild á rekstrarframlagi í fjárlögum til að geta bókað þann kostnað rétt.
          Bókasafnasjóður. Gert er ráð fyrir að flytja 3 m.kr. af tilfærslum yfir á laun og önnur gjöld. Undir fjárveitingu sjóðsins falla einnig nefndarþóknanir og annar rekstrarkostnaður og því þarf að hafa fjárheimild á rekstrarframlagi í fjárlögum til að geta bókað þann kostnað rétt.
          Gjöf Jóns Sigurðssonar. Gert er ráð fyrir að flytja 1,3 m.kr. af tilfærslum yfir á laun og önnur gjöld. Undir fjárveitingu sjóðsins falla einnig nefndarþóknanir og annar rekstrarkostnaður og því þarf að hafa fjárheimild á rekstrarframlagi í fjárlögum til að geta bókað þann kostnað rétt.

18.40 Íþrótta- og æskulýðsmál.
    Lagt er til að veita UMFÍ 12 m.kr. tímabundið framlag til að styrkja uppbyggingu á landsmótsstöðum.
    Gerð er tillaga um 60 m.kr. tímabundið framlag til tveggja ára til Skógarmanna KFUM vegna uppbyggingar á nýjum matskála í Vatnaskógi.
    Lagt er til að veita UMFÍ 20 m.kr. tímabundið framlag til almenns reksturs sem verði viðbót við framlag til félagsins á fjárlögum.
    Lagt er til að veita íþróttafélaginu ÍBV 40 m.kr. tímabundið framlag vegna tekjufalls af völdum heimsfaraldurs.

18.50 Stjórnsýsla menningar og viðskipta.
    Gert er ráð fyrir að flytja 13,5 m.kr. varanlega frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun til menningar- og viðskiptaráðuneytis. Við breytingu á verkefnum Neytendastofu fluttist fjárveiting vegna leigu á húsnæði, þar sem kvörðunarþjónustan var hýst, til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Samkvæmt samkomulagi var gert ráð fyrir að við breytingar á fyrirkomulagi kvörðunarþjónustunnar myndi fjárveiting vegna leigunnar renna aftur inn í útgjaldaramma ráðuneytisins.
    Gert er ráð fyrir að flytja 10 m.kr. tímabundið af öðrum gjöldum á eignakaup hjá aðalskrifstofu menningar- og viðskiptaráðuneytis.
    Gert er ráð fyrir að flytja 10 m.kr. tímabundið fjárfestingarframlag til eins árs frá menningar- og viðskiptaráðuneyti til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Framlagið er til að koma til móts við endurnýjun á mælitækjum sem notuð eru til að tryggja rekjanlegar kvarðanir mælitækja, sem notuð eru í viðskiptum hér á landi. Til að hægt sé að starfrækja faggilta mælifræðistofu og til að sinna lögbundnu eftirliti er nauðsynlegt að tryggja að mælitækin virki sem skyldi.
    Lagt er til að veita 30 m.kr. varanlegt framlag á fjárlagaliðinn Ýmis viðskipta- og bankamál til að standa undir auknum kostnaði vegna Staðlaráðs Íslands. Samkvæmt lögum nr. 36/2003, um staðla og Staðlaráð Íslands, er hlutverk Staðlaráðs að staðfesta alþjóðlega staðla og annast gerð íslenskra staðla í samvinnu við hagsmunaaðila. Frá árinu 2012 hefur Staðlaráð fengið framlag frá ríkinu til að sinna hlutverki sínu og er það framlag ákveðið í fjárlögum hvers árs (fjárlagaliður áður 04-190-129 og nú 16-190-121). Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, nú menningar- og viðskiptaráðuneytið, hefur frá árinu 2012 verið með þjónustusamning við Staðlaráð um ráðstöfun rekstrarframlags í fjárlögum vegna starfsemi Staðlaráðs. Frá 2019 hefur framlagið verið 70 m.kr. á ári, og að óbreyttu er gert ráð fyrir sama framlagi 2023. Árið 2012 var framlagið 54 m.kr. Hækkun framlagsins frá árinu 2012 hefur því verið 29% á meðan launavísitala hefur hækkað um 214% á sama tímabili. Staðlaráð gegnir ákveðnum lögbundnum hlutverkum í samræmi við EES-skuldbindingar Íslands á sviði staðlamála. Hafa þau verkefni, og þær kröfur sem þeim fylgja, aukist undanfarin 10 ár. Tap varð á rekstri Staðlaráðs 2021 og fyrirséð er enn meira tap á árinu 2022 og 2023, að óbreyttum framlögum á fjárlögum. Til að geta uppfyllt lögbundnar lágmarkskröfur á sviði staðla þarf framlag ríkisins til Staðlaráðs árið 2023 að hækka um a.m.k. 30 m.kr. Er sú tala byggð á kostnaðarmati á starfsemi Staðlaráðs og er um að ræða lágmarksþjónustu sem Staðlaráði ber að uppfylla samkvæmt lagakröfum sem taka mið af EES-skuldbindingum Íslands, sbr. lög nr. 36/2003 og afleiddar reglugerðir. Um er að ræða viðbótarfjármagn sem nauðsynlegt er til að halda úti starfsemi Staðlaráðs í samræmi við lög um Staðlaráð, og mun sú fjárþörf áfram verða til staðar eftir 2023.

19 Fjölmiðlun.
19.10 Fjölmiðlun.
    Gerð er tillaga um 100 m.kr. tímabundið framlag til stuðnings við einkarekna fjölmiðla.

20 Framhaldsskólastig.
20.10 Framhaldsskólar.
    Gerð er tillaga um 18 m.kr. framlag til LungA-skólans Seyðisfirði.
    Lagt er til að Menntanet Suðurnesja fái 50 m.kr. tímabundið framlag. Menntanetið var sett á stofn árið 2021 og er ætlað að efla náms- og starfsúrræði fyrir atvinnuleitendur. Í fjárlögum fyrir árið 2021 fékk Menntanetið tímabundin fjárframlög, 30 m.kr., í rekstur menntanetsins og 50 m.kr. í tímabundin fjárframlög árið 2022. Átti Menntanetið að sækja fjármagn í verkefnið Nám er tækifæri. Vorið 2022 lauk verkefninu Nám er tækifæri og er það farið af fjárlögum hjá mennta- og barnamálaráðuneytinu. Því er lagt til að Menntanetið fái þessi tímabundnu framlög árið 2023.
    Vegna samkomulags milli háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis og mennta- og barnamálaráðuneytis um 180 m.kr. flutning fjárheimildar í frumvarpinu er nú lagt til að 15 m.kr. flytjist frá mennta- og barnamálaráðuneyti af málaflokki 20.10 til háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis á málaflokk 21.10.
    Gerð er tillaga um 42 m.kr. tímabundið framlag til Fisktækniskóla Íslands ehf. vegna kennslu á námsbrautum í fiskeldistækni, gæðastjórnun, vinnslutækni, haftengdri nýsköpun og veiðarfæratækni á vorönn og haustönn árið 2023.
    Gerð er tillaga um 4 m.kr. tímabundið framlag til Fjölsmiðjunnar á Akureyri.
    Gerð er tillaga um 8 m.kr. framlag til Húnaþings vestra vegna kostnaðar sveitarfélagsins við rekstur dreifnámsdeildar á Hvammstanga.
    Gerð er tillaga um 15 m.kr. tímabundið framlag til Framhaldsskólans á Laugum til að hreinsa tjörnina við aðalhús skólans og gera umhverfi hennar öruggt.

21 Háskólastig.
21.10 Háskólar og rannsóknastarfsemi.
    Lagt er til að veita Háskólanum á Akureyri 25 m.kr. tímabundið framlag svo að efla megi svæðisbundið hlutverk hans sem miðstöðvar Íslands í málefnum norðurslóða.
    Vegna samkomulags milli háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis og mennta- og barnamálaráðuneytis um 180 m.kr. flutning fjárheimildar í frumvarpinu er nú lagt til að 15 m.kr. flytjist frá mennta- og barnamálaráðuneyti af málaflokki 20.10 til háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis á málaflokk 21.10.
    Lögð er til 75 m.kr. tímabundin hækkun í eitt ár vegna undirbúnings og samkeppni í tengslum við húsnæði fyrir Listaháskóla Íslands að Tryggvagötu.
    Gerð er tillaga um 15 m.kr. framlag vegna framkvæmda við skólahúsnæði Hólaskóla. Um er að ræða viðhaldsúttekt/hönnun á skólahúsnæði Hólaskóla í samræmi við niðurstöður úr útboði. Framkvæmdasýslan Ríkiseignir mæltu með að háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti samþykkti tilboð Stoðar/Eflu.
    Gerð er tillaga um 20 m.kr. tímabundið framlag til reksturs Rannsóknarseturs um menntun og hugarfar.
    Lagt er til að fjárframlög til háskóla vegna fjölgunar nemenda vegna COVID lækki um 200 m.kr. Það er gert vegna þess að nemendafjöldi árið 2022 er lægri en ráð var fyrir gert. Þrátt fyrir fækkunina er enn mikil nemendafjölgun í skólunum sem rekja má til COVID. Áætluð fjölgun er 2.039 ársnemar eða 14,3% (miðað við breytingu frá árinu 2019). Háskólanemum er ekki að fækka í öllum skólum. Áhrifin af COVID koma ólíkt fram á milli skóla og breytingar á framlögum til þeirra munu taka mið af því. Árið 2022 var gert ráð fyrir að greidd yrðu 75% af kennsluframlagi vegna þeirra nemenda sem Covid-fjölgunin náði til. Ekki er gert ráð fyrir að öll framlög vegna fækkunar nemenda gangi til baka árið 2023.
    Gerð er tillaga um 41 m.kr. tímabundið framlag til Austurbrúar. Framlagið er til viðbótar við gildandi samning við ráðuneytið.
    Gerð er tillaga um 15 m.kr. tímabundið framlag til Huldu – náttúruhugvísindaseturs.

21.40 Stjórnsýsla háskóla, iðnaðar og nýsköpunar.
    Lagt er til að 15 m.kr. verði varið til að sinna verkefnum nýs Vísinda- og nýsköpunarráðs. Forsætisráðherra hefur lagt fram frumvarp á haustþingi 2022 þess efnis.

22 Önnur skólastig og stjórnsýsla mennta- og barnamála.
22.20 Framhaldsfræðsla og menntun óflokkuð á skólastig.
    Gerð er tillaga að 115 m.kr. fjárheimild til íslenskukennslu fyrir innflytjendur vegna aukins fjölda innflytjenda, mikilvægis íslenskukunnáttu og til að tryggja samfélagslega virkni og að fólk af erlendum uppruna geti nýtt tækifæri í nýju samfélagi. Innflytjendum og flóttamönnum hefur fjölgað ört og svo virðist sem hlutfall þeirra af heildarmannfjölda sé að hækka úr 15,5% í 19% á árinu 2022. Flóttamenn frá Úkraínu eru nú áætlaðir 0,51% þjóðarinnar og eru umsóknir um alþjóðlega vernd frá þeim og Venesúelabúum um 3.400 talsins í október 2022. Innflytjendum hefur fjölgað jafnt og þétt frá 2012 þegar hlutfall þeirra var 8% af heildarmannfjölda en fjárframlög til íslenskukennslu hafa staðið í stað með þeirri undantekningu þó að viðbótarframlagi, 132 m.kr., var bætt við íslenskukennsluna vegna áhrifa heimsfaraldurs fyrir árin 2021–2022.
    Fullorðið fólk með annað móðurmál en íslensku getur lært íslensku eftir nokkrum leiðum en þær eru misvel þekktar. Hægt er að stunda nám innan formlega skólakerfisins en þó aðallega á íslenskunámskeiðum utan formlega skólakerfisins sem stjórnvöld styrkja í gegnum sjóð í Rannís. Heildarframlög síðustu ára í Rannís-sjóðinn hafa verið frá 143–145,5 m.kr. sem dreift hefur verið til um 20 viðurkenndra fræðsluaðila. Viðbótarframlagið árin 2021– 2022 var um 132 m.kr. sem bætt var við árlegt framlag og við það fjölgaði þátttakendum úr 6.259 árið 2020 í 8.416 árið 2021. Viðbótarframlagið nýttist því vel en tryggja þarf áframhaldandi vöxt og fjölbreytni í íslenskunámi útlendinga til að efla áfram íslensku sem opinbert mál. Fjárveitingunni er einnig ætlað að endurskoða kostnaðarhlutdeild nemenda í byrjunarnámi í íslensku (A-stig) með það fyrir augum að lækka hana eða fella niður, svo að kostnaður verði ekki hindrun.
    Gerð er tillaga um 75 m.kr. framlag til íslenskukennslu fyrir útlendinga. Fjárveitingin er ætluð í sjóð um starfstengda íslensku á vinnustað sem úthlutað verður úr til óformlegrar, sérhæfðrar og getutengdrar íslenskuþjálfunar á vinnustað. Íslenskunámskeiðin sem styrkt eru í gegnum Rannís eru kennd samkvæmt námskrám og tengd við evrópskan hæfniramma menntunar. Gagnrýni hefur komið á námskeiðin þar sem námskeiðsgjöld þykja há og þau eru oft kennd utan hefðbundins vinnutíma sem getur skapað álag og dregið úr þátttöku. Þess vegna er mikilvægt að bjóða upp á fjölbreyttara námsfyrirkomulag þar sem íslenska er æfð og töluð út frá starfstengdum orðaforða og á vinnutíma. Fyrirtæki geti þannig farið í samstarf við kennara og/eða fræðsluaðila sem sérhæfa sig í íslensku og þannig boðið upp á sérhæfða og getutengda talþjálfun á vinnustað, samhliða starfi. Vísir að svona samstarfi er til innan Rannís-sjóðsins en sá sjóður ræður ekki við aukna aðkomu atvinnulífsins heldur hefur almennari skírskotun til íslenskukennslu fyrir alla, þ.m.t. hælisleitendur og flóttamenn.
    Starfstengd íslenska á vinnustað stuðlar að aukinni fjölbreytni í íslenskunámi og íslenskan færð nær fólkinu og inn í málsamfélag þess. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hyggst leita eftir samstarfi við þá aðila sem næst standa fyrirtækjum, og þá einnig litlum og meðalstórum fyrirtækjum, til að greiða út þessa eyrnamerktu starfstengdu íslenskustyrki þannig að hægt sé að hafa yfirsýn yfir nokkrar leiðir til að læra íslensku, tryggja almennara aðgengi og góða nýtingu fjár ásamt því að meta árangur, eftirspurn og þróun þjónustunnar.
    Gerð er tillaga að 15 m.kr. framlagi til Fjölmenntar, símenntunar og þekkingarmiðstöðvar.

23 Sjúkrahúsþjónusta.
23.10 Sérhæfð sjúkrahúsþjónusta.
    Gerð er tillaga um 250 m.kr. styrkingu á rekstrargrunni Sjúkrahússins á Akureyri. Rekstur Sjúkrahússins á Akureyri hefur verið erfiður undanfarin ár og hefur ráðuneytið því m.a. nýtt varasjóð til að bregðast við þeim veikleika. Eigi að síður hefur rekstrarhalli stofnunarinnar aukist um tæplega 100 m.kr. á ári. En með þessari fjárheimild er gert ráð fyrir að hægt verði að reka sjúkrahúsið innan fjárheimilda.
    Gerð er tillaga um styrkingu rekstrargrunns Landspítala um 2 ma.kr. Landspítali er að takast á við þríþættar áskoranir; undirliggjandi rekstrarvanda, erfiðleika við að tryggja lágmarksmönnun á deildum spítalans og að endurskipuleggja og byggja upp þjónustu í kjölfar COVID-19. Þörf er á að endurskipuleggja þjónustu spítalans og byggja upp í kjölfar COVID-19 en biðlistar hafa lengst umtalsvert og margir bíða þjónustu. Faraldurinn hefur kallað á breytt verklag á mörgum sviðum, m.a. með aukinni áherslu á sýkingavarnir. Enn fremur hefur geta spítalans til að framkvæma vissar rannsóknir aukist með tilkomu nýrra tækja sem keypt voru til að greina COVID-19. Mikilvægt er að nýta þessa auknu getu til að bæta þjónustu og auka öryggi sjúklinga.
    Gerð er tillaga um millifærslu af safnlið sérhæfðrar sjúkrahúsþjónustu til embættis landlæknis vegna innleiðingar fjármögnunar samkvæmt DRG-fjármögnunarkerfinu, 12,7 m.kr. vegna viðbótarstarfsmanns við DRG-flokkun og 3,2 m.kr. vegna leyfisgjalda Visual DRG-hugbúnaðar.
    Gerð er tillaga um 200 m.kr. framlag til að hefja endurreisn heilbrigðiskerfisins. Þótt áhrif COVID á samfélagið dvíni ört og opinberum sóttvarnaaðgerðum hafi verið aflétt er ljóst að heilbrigðisþjónustan í heild er löskuð. Telja má að það taki að minnsta kosti ár að endurreisa kerfið til fyrri stöðu. Viðvarandi álag í tvö ár hefur leitt til ýmiss aukakostnaðar, þar er helst að telja veikindi og brottfall starfsmanna. Lagt er til að greiddur verði kostnaður sem fellur til á árinu 2023 vegna afleiðinga heimsfaraldurs kórónuveiru á rekstur heilbrigðisstofnana.
    Lagt er til að veita 250 m.kr. til að bæta mönnun í heilbrigðisþjónustunni en hún er mikil áskorun á Íslandi líkt og annars staðar. Afar mikilvægt er að hlúa að þeim mannauði sem er til staðar og stuðla að endurheimt starfsfólks með fjölbreyttum stuðningi. Heimsfaraldur kórónuveiru hefur haft veruleg áhrif á starfsfólk vegna mikils álags í starfi sem eykur hættu á kulnun, dregur úr starfsþreki fólks og veldur margvíslegum álagseinkennum, andlegum og líkamlegum. Nú þegar hefur verið lagt til verkefni þar sem unnið mun að þessu markmiði en leitað er fleiri leiða til að hlúa að starfsmönnum.

23.20 Almenn sjúkrahúsþjónusta.
    Gerð er tillaga um millifærslu fjárheimilda hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða milli sjúkrasviðs í málaflokki 23.20 og heilsugæslusviðs í málaflokki 24.10:
          1 m.kr. færist á sjúkrasvið, en endurhæfingardeild var flutt af heilsugæslusviði yfir á sjúkrasvið, árið 2021, án þess að breyting væri gerð á fjárheimildum.
          1 m.kr. færist af sjúkrasviði en gjöld vegna rannsóknar eru öll bókuð á sjúkrasvið en 90% þeirra eiga heima á heilsugæslusviði.
          1 m.kr. færist af sjúkrasviði en gjöld vegna röntgen eru öll bókuð á sjúkrasvið en 10% þeirra eiga heima á heilsugæslusviði.

24 Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa.
24.10 Heilsugæsla.
    Lagt er til að veita 2.000 m.kr. til heilsugæslustöðva til að efla fyrsta stig heilbrigðisþjónustunnar. Mikilvægt er að styrkja grunnrekstur heilsugæslustöðva með auknu framlagi þannig að skjólstæðingar geti sótt grunnheilbrigðisþjónustu á dagvaktir stöðvanna í stað þess að þurfa að sækja í önnur dýrari úrræði. Eins þarf að efla burði heilsugæslunnar til að annast kennslu og þjálfun heilbrigðisstétta til að tryggja mönnun til framtíðar.
    Lagt er til að veita 300 m.kr. til að efla heimahjúkrun. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er sett fram skýr sýn um þá þjónustu sem eldra fólk á að hafa aðgang að út frá því að einstaklingurinn sjálfur eigi að vera hjartað í kerfinu. Í samræmi við þessa áherslu hefur verið lögð áhersla á að þjónusta og skipulag hennar miði að því að minnka stofnanadvöl og styðja fólk til að búa heima eins lengi og unnt er. Mikilvægi þessa kemur líka fram í niðurstöðum í skýrslu McKinsey sem unnin var fyrir heilbrigðisráðuneytið. Hlutfall aldraðra einstaklinga í aldurssamsetningu þjóðarinnar mun fara vaxandi á næstu árum. Heimahjúkrun og önnur heilbrigðisþjónusta heim er nauðsynleg þjónusta til að styðja við búsetu fólks heima þegar heilsan brestur. Á Íslandi er heimahjúkrun og önnur heilbrigðisþjónusta heim yfirleitt veitt frá heilsugæslustöðvum með þeirri undantekningu þó að Sjúkratryggingar Íslands hafa gert samning við Heimaþjónustu Reykjavíkur um að sinna þeirri þjónustu í Reykjavík og að hluta til á öðrum svæðum á höfuðborgarsvæðinu. Ef vel er staðið að þessari þjónustu með viðeigandi stuðningi dregur hún úr þörf fyrir dvöl á stofnun, svo sem hjúkrunarheimili, og gerir fólki kleift að búa lengur heima. Auk þess minnka líkur á að fólk verði innlyksa í legurýmum sjúkrahúsa vegna of lítillar þjónustu heima.
    Gerð er tillaga um að millifæra 83,6 m.kr. af lið sjúkratrygginga til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Geðheilsuteymi fanga verður í umsjón Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
    Sértekjuáætlun Heyrnar- og talmeinastöðvar er leiðrétt vegna breytinga sem urðu á tekjum stofnunarinnar við gildistöku greiðsluþátttökukerfis í heilbrigðiskerfinu og lækkar þannig fjárheimild á lið heilsugæslustöðva um 10 m.kr.
    Gerð er tillaga um millifærslu fjárheimilda hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða milli sjúkrasviðs í málaflokki 23.20 og heilsugæslusviðs í málaflokki 24.10:
          1 m.kr. færist af heilsugæslusviði, en endurhæfingardeild var flutt af heilsugæslusviði yfir á sjúkrasvið, árið 2021, án þess að breyting væri gerð á fjárheimildum.
          1 m.kr. færist á heilsugæslusvið en gjöld vegna rannsóknar eru öll bókuð á sjúkrasvið en 90% þeirra eiga heima á heilsugæslusviði.
          1 m.kr. færist á heilsugæslusvið en gjöld vegna röntgen eru öll bókuð á sjúkrasvið en 10% þeirra eiga heima á heilsugæslusviði.

24.20 Sérfræðiþjónusta og hjúkrun.
    Gerð er tillaga um 750 m.kr. framlag til að fjármagna fleiri liðskiptaaðgerðir til að vinna niður biðlista. Á móti fellur niður kostnaður sem Sjúkratryggingar hafa greitt á grundvelli biðtímareglna í aðgerðir erlendis. Biðlistar eftir liðskiptaaðgerðum hafa verið að lengjast undanfarin misseri. Í upphafi árs 2018 biðu 385 eftir mjaðmaskiptum og 555 í upphafi árs 2022. Eftir liðskiptum á hné biðu 709 í ársbyrjun 2018 en 1.143 fjórum árum síðar.
    Lagt er til að veita 300 m.kr. fjárheimild til að fjármagna valdar aðgerðir utan sjúkrahúsa til að vinna niður biðlista. Meðal aðgerða eru kviðsjáraðgerðir sem bæði ná yfir efnaskiptaaðgerðir og ýmsar kvenaðgerðir, þ.m.t. aðgerðir vegna legslímuflakks. Þessi ráðstöfun er í takt við mat McKinsey-greiningarfyrirtækisins á framtíðarverkefnum Landspítala þar sem m.a. er lögð áhersla á að sú þjónusta sem hægt er að framkvæma utan sérgreinasjúkrahúsa sé veitt á öðru stigi heilbrigðisþjónustu.
    Gerð er tillaga um að millifæra 83,6 m.kr. af lið sjúkratrygginga til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Geðheilsuteymi fanga verður í umsjón Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
    Lagt er til að auka fjárheimild málaflokksins um 260 m.kr. vegna fyrirsjáanlegra umframútgjalda miðað við fyrri áætlun um útgjöld sjúkratrygginga á árinu 2023.

24.30 Sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og talþjálfun.
    Sértekjuáætlun Heyrnar- og talmeinastöðvar er leiðrétt vegna breytinga sem urðu á tekjum stofnunarinnar við gildistöku greiðsluþátttökukerfis í heilbrigðiskerfinu og hækka framlög til stöðvarinnar þannig um 10 m.kr.
    Nú er unnið að hugsanlegum flutningi Heyrnar- og talmeinastöðvar til heilsugæslunnar. Á tímabili var miðað við að hætta heyrnartækjasölu sem hefði þýtt lækkun sértekna. Fallið var frá þeim áformum og eru gjöld nú hækkuð um 148,6 m.kr. og tekjur hækkaðar jafnmikið.

25 Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta.
25.10 Hjúkrunar- og dvalarrými.
    Gerð er tillaga um 160 m.kr. hækkun á framlagi til Framkvæmdasjóðs aldraðra til að fjárveiting til sjóðsins samsvari áætluðum tekjum af gjaldi til sjóðsins. Áætlunin er frá nóvember 2022.
    Lagt er til að fjárveiting til reksturs hjúkrunarrýma hækki um 318 m.kr. vegna aukinnar hjúkrunarþyngdar. Hjúkrunarheimilum ber að framkvæma mat á heilsufari og aðbúnaði íbúa með mælitæki sem er alþjóðlegt (RAI-mælingar). Mælitækið vinnur úr öllum þessum gögnum og gefur út einn stuðul, RUG-stuðul, fyrir hjúkrunarheimilið. Allt mengi íbúanna er mælt og skoðað, ein tala verður til sem á að grípa það mengi. Þróunin hefur verið sú sl. ár að stuðullinn er hækkandi sem þýðir aukin hjúkrunarþyngd þeirra einstaklinga sem dvelja á hjúkrunarheimilum. Aukin hjúkrunarþyngd er reiknuð inn í daggjald til hjúkrunarheimila. Samkvæmt þeim mælingum sem liggja fyrir nemur aukning hjúkrunarþyngdar 318 m.kr. á milli ára.

25.20 Endurhæfingarþjónusta.
    Gerð er tillaga um 100 m.kr. framlag til Alzheimersamtakanna annars vegar og Parkinsonsamtakanna hins vegar til að styrkja þjónustumiðstöðvar fyrir fólk með viðkomandi sjúkdóma og fjölskyldur þeirra.
    Þjónusta við fólk með heilabilun, þ.m.t. fólk yngra en 67 ára, og fjölskyldur þess er vaxandi áskorun hérlendis sem annars staðar. Koma þarf til móts við þarfir þessa hóps með heildstæðri þjónustu allt frá greiningu heilabilunarsjúkdóms. Í apríl 2020 gaf heilbrigðisráðuneytið út aðgerðaáætlun um þjónustu við einstaklinga með heilabilun, þá fyrstu hérlendis. Í henni er tekið tillit til allra þessara þátta og áhersla lögð á stofnun þjónustumiðstöðvar fyrir einstaklinga með heilabilun og aðstandendur þeirra þar sem þeir geta sótt fræðslu og stuðning til sjálfsbjargar á fyrri stigum sjúkdómsins. Seiglan, þjónustumiðstöð á vegum Alzheimersamtakanna, hóf starfsemi í lok árs 2021. Gert er ráð fyrir að á hverjum tíma séu um 120 einstaklingar á höfuðborgarsvæðinu í þeirri stöðu að geta nýtt sér þá þjónustu sem þar verður í boði. Mikil áhersla verður lögð á iðjuþjálfun, líkamsþjálfun og þjónustu sálfræðinga, markþjálfa og félagsráðgjafa. Alzheimersamtökin fengu 50 m.kr. á fjárlögum fyrir árið 2022, tímabundið í eitt ár, í þetta verkefni. Þörf er á áframhaldandi rekstrarfjármagni til samtakanna svo að hægt sé að halda þjónustunni áfram á sama stigi.
    Parkinsonsjúkdómurinn er ólæknandi heila- og taugahrörnunarsjúkdómur. Parkinsonsamtökin hafa í nokkur ár unnið að stofnun Parkinsonseturs eða miðstöðvar fyrir fólk með parkinson og skylda sjúkdóma. Markmið þjónustunnar verður að hægja á framgangi parkinsonsjúkdómsins, stuðla að sjálfstæði og aukinni virkni einstaklinganna, auk þess að auka líkamlega, andlega og félagslega færni. Þá er markmiðið að minnka álag á opinberar heilbrigðisstofnanir, svo sem taugadeild Landspítala, og draga úr þörf fyrir dagdvalar- og hjúkrunarrými. Margvísleg þjónusta verður veitt, m.a. sérhæfð sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, fræðsla og sálfræðiþjónusta.
    Gert er ráð fyrir 130 m.kr. til að efla endurhæfingu sem unnin er á endurhæfingarstofnunum samkvæmt samningum við Sjúkratryggingar Íslands.
    Lagt er til að veita SÁÁ 120 m.kr. tímabundið framlag til almenns reksturs.
    Gerð er tillaga um 48 m.kr. tímabundið framlag til reksturs Hlaðgerðarkots.
    Gerð er tillaga um 30 m.kr. tímabundið framlag til að vinna gegn fíknisjúkdómum. Meiri hlutinn leggur til að heilbrigðisráðuneyti nýti fjármagnið til samningagerðar við frjáls félagasamtök sem hafa að markmiði að vinna gegn fíknisjúkdómum.

26 Lyf og lækningavörur.
26.10 Lyf.
    Lagt er til að auka fjárheimild málaflokksins um 2.040 m.kr. vegna fyrirsjáanlegra umframútgjalda miðað við fyrri áætlun um útgjöld sjúkratrygginga á árinu 2023.
    Gerð er tillaga um viðbótarfjárveitingu til málaflokks leyfisskyldra lyfja, samtals 2,2 ma.kr. Mjög mikilvægt er fyrir málaflokkinn að hægt sé að greiða fyrir lyf sem þegar hafa verið innleidd og til að tryggja aðgengi að nýjum lyfjum í takt við þróunina í nágrannalöndum okkar. Svigrúm lyfjanefndar LSH fyrir upptöku nýrra lyfja er nú uppurið fyrir árið 2022. Fyrirséð er að verði ekki bætt í fjármagn liðarins árið 2023 verður til að mynda ekki svigrúm fyrir upptöku nýrra lyfja á næsta ári, auk þess sem taka verður tillit til aukins kostnaðar og fjölgunar þjóðarinnar. Miklar framfarir hafa orðið í þróun lyfja til meðferðar við illvígum sjúkdómum. Þessi lyf bæta lífsgæði sjúklinga og lengja líf sem hefur í för með sér að sjúklingar eru lengur á lyfjameðferð og á meðan bætast við nýir sjúklingar. Fjármagn leyfisskyldra lyfja er því eðli málsins samkvæmt að megninu bundið til langs tíma og fjárfesting í lyfjameðferð lítið sveigjanleg. Á móti kemur að betri lyfjameðferð með auknum lífsgæðum eykur líkur á og viðheldur atvinnuþátttöku sem aftur skilar tekjum inn í hagkerfið. Ýmsum hagræðingaraðgerðum hefur verið beitt til að halda leyfisskylda fjárlagaliðnum innan fjárlaga, svo sem með því að beita ódýrari meðferðum þegar þær bjóðast og með skýrari skilmerkjum fyrir vali á meðferð, en lítið þarf út af bregða til að skerða þurfi núverandi þjónustu.

26.30 Hjálpartæki.
    Lagt er til að auka fjárheimild málaflokksins um 700 m.kr. vegna fyrirsjáanlegra umframútgjalda miðað við fyrri áætlun um útgjöld sjúkratrygginga á árinu 2023.

27 Örorka og málefni fatlaðs fólks.
27.10 Bætur skv. lögum um almannatryggingar, örorkulífeyrir.
    Gert er ráð fyrir að fjárheimild liðarins hækki um 1.070 m.kr., þar af eru 1.014 m.kr. vegna hækkunar á frítekjumarki atvinnutekna örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega frá 1. janúar 2023 úr 1.315.200 kr. á ári (109.600 kr. á mánuði) í 2.400.000 kr. á ári (200.000 kr. á mánuði) til samræmis við sérstakt frítekjumark atvinnutekna ellilífeyrisþega. Gert er ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs muni aukast um 56 m.kr. til viðbótar með lækkun skerðingarhlutfalls örorkulífeyris í 9% til að koma í veg fyrir „fall krónunnar“ vegna hækkunar frítekjumarksins og verðlagshækkana ársins. Fyrsti áfangi í heildarendurskoðun örorkulífeyriskerfisins felur í sér lengingu greiðslutímabils endurhæfingarlífeyris og verður frumvarp þess efnis lagt fyrir Alþingi á haustþingi 2022. Hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna er hluti af heildarendurskoðuninni og mikilvægt skref til að ryðja úr vegi hindrunum til atvinnuþátttöku örorkulífeyrisþega. Þá helst þessi aðgerð líka í hendur við gerð tillagna um fjölgun hlutastarfa og sveigjanlegra starfa sem samhæfingarnefnd um velferð og virkni á vinnumarkaði á að skila félags- og vinnumarkaðsráðherra. Í frumvarpinu er gerð tillaga um auknar fjárheimildir nýrra vinnumarkaðsúrræða sem styðja eiga við atvinnuþátttöku einstaklinga með mismikla starfsgetu. Því er hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna nauðsynlegur hluti af endurskoðun örorkulífeyriskerfisins og mikilvægt að hækkunin taki gildi í byrjun árs 2023 til að búa til nauðsynlegan hvata og réttan jarðveg fyrir verkefni tengd aukinni atvinnuþátttöku fólks með mismikla starfsgetu.

27.30 Málefni fatlaðs fólks.
    Gerð er tillaga um 375 m.kr. fjárheimild vegna NPA-samninga. Í fjárlögum fyrir árið 2022 er 690 m.kr. fjárheimild vegna NPA-samninga. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 679,3 m.kr. fjárheimild til samninganna auk þess sem gert er ráð fyrir 29,2 m.kr. vegna samninga um notendur með öndunarvélar. Fjöldi samninga á yfirstandandi ári eru 95–97 talsins. Til að uppfylla fjölda samninga sem getið er í bráðabirgðaákvæði laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, þarf að bæta við 75 samningum en ákvæðið kveður á um 172 samninga. Til að hægt verði að ná þessum fjölda er gerð tillaga um tvískipta fjárheimild. Tillaga í frumvarpinu að fjárhæð 375 m.kr. er til að standa straum af 50 nýjum samningum. Á árinu 2023 verði þá til ráðstöfunar 1.065 m.kr. til að gera 50 samninga til viðbótar við þá 95–97 sem þegar eru í gildi. Í október 2023 verði þá 145–147 samningar í gildi. Einnig er gert ráð fyrir að í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2024 verði tillaga að fjárhæð 203 m.kr. til að standa straum af 25–27 samningum til viðbótar. Í heildina er þá búið að uppfylla fjölda í bráðabirgðaákvæðinu um 172 samninga. Sú tillaga er ekki lögð fram nú heldur verður tekin upp við gerð fjármálaáætlunar fyrir árin 2024–2029 sem hefst í janúar nk. Viðbótarheimildir árið 2023 og 2024 eru 578 m.kr.
    Miðað við að meðalsamningur í dag nálgast 30 m.kr. yrði framlag ríkisins (25%) 7,5 m.kr. á samning. Stefnt yrði að því að frá 1. janúar 2025 verði 25% framlag ríkisins til NPA-samninga lagt inn í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem viðvarandi fjárheimild til framtíðar. Jöfnunarsjóður greiði síðan framlag til sveitarfélaganna á grundvelli umsókna sem sjóðnum berast og verkefnið verði alfarið á ábyrgð sveitarfélaganna eftir þann tíma.

27.50 Jöfnun á örorkubyrði almennra lífeyrissjóða.
    Lagt er til að hækka fjárveitingu liðarins um 56 m.kr. Hækkunin er í samræmi við útgjaldaferil sem ræðst af fyrirliggjandi tekjuáætlun. Lög kveða á um að 0,325% af almennu tryggingagjaldi næstliðins árs skuli ráðstafa til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða sem fylgir þá vexti tryggingagjaldsstofnsins. Við þessa breytingu verður framlagið til jöfnunar á örorkubyrði 6.481 m.kr. á árinu 2023.

29 Fjölskyldumál.
29.30 Bætur skv. lögum um félagslega aðstoð, fjölskyldur.
    Gert er ráð fyrir að millifærðar verði varanlega 260 m.kr. frá mæðra- og feðralaunum í málaflokki 29.30 til umönnunargreiðslna með fötluðum og langveikum börnum í málaflokki 29.40. Meiri fjölgun hefur verið í hópi fjölskyldna sem eiga rétt á umönnunargreiðslum en kerfislægur vöxtur síðustu ára hefur gert ráð fyrir á meðan minni nýting hefur verið á mæðra- og feðralaunum. Ekki er útlit fyrir að þessi þróun sé að breytast og er því lagt til að millifærðar verði varanlega 260 m.kr. á milli málaflokkanna.

29.40 Annar stuðningur við fjölskyldur og börn.
    Gerð er tillaga um 337,8 m.kr. framlag vegna barna á flótta. Börn sem hafa verið á flótta búa við fjölþættar áskoranir til lengri eða skemmri tíma. Því þurfa börnin og fjölskyldur þeirra oft og tíðum aukinn stuðning þegar þau eru að taka sín fyrstu skref í nýju samfélagi. Í kjölfar mikillar fjölgunar barna á flótta hér á landi ákvað ríkisstjórnin að hefja reynsluverkefni til þess að styðja við sveitarfélög vegna barna á flótta sem eru búsett og með skráð lögheimili hérlendis. Með börnum á flótta er átt við börn sem hlotið hafa dvalarleyfi á grundvelli alþjóðlegrar verndar skv. 73. gr. laga um útlendinga eða á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Styrkir verða veittir vegna barna sem fengið hafa dvalarleyfi á tímabilinu 1.1.2021–31.8.2023. Styrkurinn til sveitarfélaga er ætlaður til styðja við móttöku barna á flótta með sértækum stuðningi vegna sérstöðu þeirra sem hafa neyðst til þess að flýja heimaland sitt vegna átaka.
    Styrknum er ætlað að styðja við verkefni sem snúa að:
     1.      Stuðningi innan skóla og frístundastarfs. Um er að ræða stuðning vegna launakostnaðar stuðningsaðila, svo sem brúarsmiða sem hafa það hlutverk að styðja við íslenskunám og hjálpa börnum með aðlögun í leik- og grunnskólum. Þannig fá börnin viðeigandi stuðning og handleiðslu. Brúarsmiðir styðja einnig við starfsfólk innan skóla og frístundaheimila til að mæta þörfum barnanna á þeirra forsendum. Auk þess styðja brúarsmiðir foreldra barnanna til virkrar þátttöku í skóla- og frístundastarfi.
     2.      Stuðningi við barnaverndarnefndir og önnur úrræði fyrir fjölskyldur á flótta. Nauðsynlegt er að þróa aðferðir og stuðning við fjölskyldur sem glíma við áföll vegna stríðsátaka og flótta og eru að fóta sig í nýjum og breyttum aðstæðum.
    Um er að ræða eingreiðslu vegna hvers barns og sækir sveitarfélagið um styrk út frá fjölda barna sem hafa alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Greiddar eru sem nemur 125.000 kr. vegna hvers barns á aldrinum 0–6 ára. Greiddar eru sem nemur 200.000 kr. vegna hvers barns á aldrinum 6–18 ára. Í lok skólaársins skilar sveitarfélagið greinargerð um nýtingu fjármagnsins ásamt uppfærðum upplýsingum um fjölda barna sem falla undir úrræði. Ef fleiri börn sem hafa fengið alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum hafa flust í sveitarfélagið heldur en sótt var um í fyrri úthlutun gefst sveitarfélögum tækifæri til þess að sækja um fyrir þau börn þegar uppgjör fer fram. Huga skal sérstaklega að ungmennum á aldrinum 16–18 ára.
    Lagt er til að framlag til umboðsmanns skuldara hækki um 2 m.kr. í samræmi við uppfærða tekjuáætlun.
    Gert er ráð fyrir að millifærðar verði varanlega 260 m.kr. frá mæðra- og feðralaunum í málaflokki 29.30 til umönnunargreiðslna með fötluðum og langveikum börnum í málaflokki 29.40. Meiri fjölgun hefur verið í hópi fjölskyldna sem eiga rétt á umönnunargreiðslum en kerfislægur vöxtur síðustu ára hefur gert ráð fyrir á meðan minni nýting hefur verið á mæðra- og feðralaunum. Ekki er útlit fyrir að þessi þróun sé að breytast og er því lagt til að millifærðar verði varanlega 260 m.kr. á milli málaflokkanna.
    Gerð er tillaga um millifærslu að fjárhæð 42,5 m.kr. af útgjaldasvigrúmi varasjóðs málaflokks 29.40 og millifærslu að fjárhæð 2,5 m.kr. af safnlið málaflokks 29.40 á Fjölmenningarsetur. Með vísan til mikillar fjölgunar flóttamanna hefur verið ákveðið að nýta hluta af útgjaldasvigrúmi félags- og vinnumarkaðsráðuneytis til að tryggja áframhaldandi starfsemi Ráðgjafarstofu innflytjenda, sem nú er hluti af Fjölmenningarsetri. Samtals verða 45 m.kr. millifærðar af útgjaldasvigrúmi ráðuneytisins.
    Gerð er tillaga um 8 m.kr. tímabundið framlag til Sigurhæða, þjónustu við þolendur kynbundins ofbeldis.
    Lagt er til að veita lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra 13 m.kr. tímabundið framlag til reksturs Bjarmahlíðar, miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis á Akureyri.

29.70 Málefni innflytjenda og flóttamanna.
    Gerð er tillaga um millifærslu að fjárhæð 42,5 m.kr. af útgjaldasvigrúmi varasjóðs málaflokks 29.40 og millifærslu að fjárhæð 2,5 m.kr. af safnlið málaflokks 29.40 á Fjölmenningarsetur. Með vísan til mikillar fjölgunar flóttamanna hefur verið ákveðið að nýta hluta af útgjaldasvigrúmi félags- og vinnumarkaðsráðuneytis til að tryggja áframhaldandi starfsemi Ráðgjafarstofu innflytjenda, sem nú er hluti af Fjölmenningarsetri. Samtals verða 45 m.kr. millifærðar af útgjaldasvigrúmi ráðuneytisins.
    Gerð er tillaga um fjárheimild að fjárhæð 500 m.kr. til að standa straum af endurgreiðslum vegna 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Mikil aukning hefur verið á endurgreiðslum til sveitarfélaga vegna 15. gr. laga um félagsþjónustu undanfarin tvö ár en greiðslurnar eru gerðar á grundvelli reglugerðar nr. 520/2021. Búist er við hækkun á fjárhæð endurgreiðslna frá fyrra ári en mjög mikil óvissa ríkir um fjárhæðir og byggist framsetning tillögunnar á þessari óvissu. Gert er ráð fyrir að fjárheimildin verði endurskoðuð reglulega við fjármálaáætlunar- og fjárlagagerð með hliðsjón af fjölda flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd.
    Gerð er tillaga um 175 m.kr. fjárheimild til að standa straum af húsaleigugreiðslum í húsnæðisúrræðum sem nefnd hafa verið skjól. Búið er að leigja húsnæði á fjórum stöðum og skuldbindingar útistandandi árið 2023 vegna leigugreiðslna. Alls er óvíst hvort leiga verður innheimt af íbúum þessara búsetuúrræða eins og mál standa í dag en eftir stendur að samningar eru í gildi fram eftir ári 2023.
    Gerð er tillaga um 350 m.kr. tímabundið framlag til eins árs vegna samninga við sveitarfélög um samræmda móttöku flóttamanna. Sambærileg tillaga er einnig í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2022. Markmið samninganna er að samræma móttöku flóttafólks þannig að ríki og sveitarfélög tryggi flóttafólki samfellda og jafna þjónustu óháð því hvaðan það kemur. Með samræmdu móttökukerfi flóttafólks er stefnt að því markmiði að tryggja flóttafólki nauðsynlega aðstoð til að vinna úr áföllum og að það fái tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu, hvort sem það er á vinnumarkaði, vegna menntunar eða á öðrum sviðum. Tillagan byggist á mati á kostnaði við samninga við sveitarfélög um samræmda móttöku flóttafólks. Gert er ráð fyrir að kostnaður vegna samninganna verði 695 m.kr. hvort ár, 2022 og 2023, og að félags- og vinnumarkaðsráðuneytið fjármagni um 350 m.kr. innan ramma ráðuneytisins.

30 Vinnumarkaður og atvinnuleysi.
30.10 Vinnumál og atvinnuleysi.
    Lækkun atvinnuleysisbóta um 178 m.kr. í samræmi við þjóðhagsspá, dags. 19. okt. 2022, þar sem miðað er við að atvinnuleysi verði 3,8% og mannfjöldi á vinnufærum aldri aukist um 2,1% frá fyrra ári. Að meðaltali er gert ráð fyrir að 7.684 verði atvinnulausir á árinu. Með breytingunni er gert ráð fyrir að fjárveiting til atvinnuleysisbóta verði 27.583,2 m.kr. á árinu 2023.
    Lagt er til að framlag til VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs hækki um 106,5 m.kr., sem skýrist af breytingu frá fyrri áætlunum um tryggingagjaldsstofn.

31 Húsnæðis- og skipulagsmál.
31.10 Húsnæðismál.
    Gert er ráð fyrir að flytja 13,5 m.kr. varanlega frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun til menningar- og viðskiptaráðuneytis. Við breytingu á verkefnum Neytendastofu fluttist fjárveiting vegna leigu á húsnæði, þar sem kvörðunarþjónustan var hýst, til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Samkvæmt samkomulagi var gert ráð fyrir að við breytingar á fyrirkomulagi kvörðunarþjónustunnar myndi fjárveiting vegna leigunnar renna aftur inn í útgjaldaramma ráðuneytisins.
    Gerð er tillaga um hækkun fjárheimilda Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um 763 m.kr. sem fjármögnuð er með beinu 226 m.kr. framlagi úr ríkissjóði og 537 m.kr. með rekstrartekjum. Verkefni tengd fasteignaskrá og fasteignamati eru flutt frá Þjóðskrá Íslands til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Gert er ráð fyrir að fjárveitingar vegna reksturs og þróunar fasteignaskrár hjá Þjóðskrá Íslands færist til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar árið 2023. Ákvörðunin byggist á samþykkt laga um fasteignaskrá sem tóku gildi 1. júlí 2022. Markmiðið er að einfalda og efla þjónustu við fólk og fyrirtæki á sviði húsnæðismála og tryggja enn frekari samhæfingu milli ríkisstofnana og sveitarfélaga. Þjóðskrá Íslands mun áfram veita öfluga þjónustu við skráningu einstaklinga. Um er að ræða óhjákvæmilega tilfærslu fjárveitinga í samræmi við samþykkt fyrrgreindra laga. Færa þarf fjárheimildir milli málefnasviða þar sem Þjóðskrá Íslands er á málefnasviði 06, málaflokki 06.10 en Húsnæðis- og mannvirkjastofnun er á málefnasviði 31, málaflokki 31.10 Húsnæðismál.
    Gert er ráð fyrir að flytja 10 m.kr. tímabundið fjárfestingarframlag til eins árs frá menningar- og viðskiptaráðuneyti til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Framlagið er til að koma til móts við endurnýjun á mælitækjum sem notuð eru til að tryggja rekjanlegar kvarðanir mælitækja, sem notuð eru í viðskiptum hér á landi. Til að hægt sé að starfrækja faggilta mælifræðistofu og til að sinna lögbundnu eftirliti er nauðsynlegt að tryggja að mælitækin virki sem skyldi.
    Verkefni tengd fasteignaskrá og fasteignamati eru flutt frá Þjóðskrá Íslands til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Því er gert ráð fyrir að fjárfestingarheimild að fjárhæð 33 m.kr. fari til Húsnæðis-og mannvirkjastofnunar frá Þjóðskrá Íslands.
    Gerð er tillaga um breytta hagræna skiptingu innan málaflokksins, 35 m.kr. eru færðar af rekstri yfir á fjárfestingaviðfang Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Fjárfesta þarf í grunnkerfum á sviði húsnæðis- og skipulagsmála til þess að ná fram þeim markmiðum sem fram koma í stjórnarsáttmála um að stöðugleiki ríki á húsnæðismarkaði og að tryggt verði að fyrir liggi góðar rauntímaupplýsingar um húsnæðismarkað, framboð íbúða og stöðu í skipulags- og byggingarmálum á öllu landinu.

31.20 Skipulagsmál.
    Gert er ráð fyrir 85 m.kr. viðbótarframlagi í Skipulagssjóð. Lögbundið er að sveitarfélög fái hluta af sínum útgjöldum vegna skipulagsvinnu greiddan úr Skipulagssjóði.

32 Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála.
32.10 Lýðheilsa, forvarnir og eftirlit.
    Gert er ráð fyrir að millifæra 21 m.kr. til embættis landlæknis til að reka hjartaáfallaskrá hjá embættinu.
    Gerð er tillaga um millifærslu af safnlið sérhæfðrar sjúkrahúsþjónustu til embættis landlæknis vegn innleiðingar fjármögnunar samkvæmt DRG-fjármögnunarkerfinu, 12,7 m.kr. vegna viðbótarstarfsmanns við DRG-flokkun og 3,2 m.kr. vegna leyfisgjalda Visual DRG-hugbúnaðar.

32.20 Jafnréttismál.
    Gerð er tillaga um 15 m.kr. tímabundið framlag til Samtakanna '78 til að ráða starfsmann í tímabundna stöðu til eins árs sem leiði starf samtakanna móti bakslagi í samfélaginu gagnvart hinsegin fólki.
    Lagt er til að veitt verði 20 m.kr. tímabundið framlag til að fylgja eftir aðgerðum í tillögu til þingsályktunar um aðgerðir gegn hatursorðræðu sem forsætisráðherra mun leggja fram á vorþingi. Tillögunni er ætlað að ná til almennings, félagasamtaka, barna og ungmenna og einstaklinga sem verða einkum fyrir hatursorðræðu í samfélaginu, m.a. vegna kynþáttar, þjóðernisuppruna, kynhneigðar og kynvitundar. Framlaginu er ætlað að fjármagna aðgerðir sem snúa að því að hrinda tilteknum aðgerðum í framkvæmd. Aðgerðirnar lúta að forvörnum, fræðslu, námsefni og vitundarvakningu um samhæfðar aðgerðir gegn hatursorðræðu.

32.30 Stjórnsýsla heilbrigðismála.
    Gerð er tillaga um 100 m.kr. fjárheimild til að styrkja rekstrargrunn Sjúkratrygginga Íslands, m.a. vegna innleiðingar DRG-kerfisins, auk þess sem fjárveitingin verður nýtt til að efla stofnunina sem kaupanda og kostnaðargreinanda heilbrigðisþjónustu.
    Gert er ráð fyrir að millifæra 21 m.kr. til embættis landlæknis til að reka hjartaáfallaskrá hjá embættinu.

32.40 Stjórnsýsla félagsmála.
    Gerð er tillaga um breytta tegundaskiptingu hjá Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála þannig að 1,7 m.kr. flytjast af rekstrarfjárheimild yfir á fjárfestingarheimild. Þegar stofnunin tók til starfa 1. janúar sl. var útbúið nýtt fjárlaganúmer en ekki var á þeim tímapunkti útbúið viðfang vegna Tækja og búnaðar. Nú þarf að gera þessar leiðréttingar og setja inn varanlega heimild á nýtt viðfang eignakaupa. Sambærileg færsla verður gerð á viðfang Tækja og búnaðar.
    Gerð er tillaga um 5 m.kr. tímabundið framlag til Sorgarmiðstöðvarinnar.
    Lagt er til að veita samtökunum Hugarafli 10 m.kr. tímabundið framlag til almenns reksturs.

33 Fjármagnskostnaður, ábyrgðir og lífeyrisskuldbindingar.
33.10 Fjármagnskostnaður.
    Gerð er tillaga um að heimild vegna vaxtagjalda ríkissjóðs verði hækkuð um 13.601 m.kr. Ástæðu hækkunarinnar má að mestu leyti rekja til horfa um meiri verðbólgu en lá til grundvallar frumvarpinu. Áætlaðar verðbætur ársins 2023 hækka frá frumvarpinu um 10,5 ma.kr. og verri afkoma ríkissjóðs og hærra vaxtastig hækka vaxtagjöld um samtals 3,1 ma.kr.

34 Almennur varasjóður og sértækar fjárráðstafanir.
34.10 Almennur varasjóður.
    Lagt er til að millifæra 1.986 m.kr. á ýmis málefnasvið vegna aukins fjölda flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd. Í fjármálaáætlun fyrir árin 2023–2027 var ákveðið að setja 2 ma.kr. á almenna varasjóðinn vegna aukningarinnar í stað þess að dreifa á málefnasvið í ljósi óvissu um framvindu. Nú er gert ráð fyrir að millifæra á málefnasviðin miðað við áætlanir um fjölgun á árinu 2023.
    Gert er ráð fyrir 1.600 m.kr. framlagi vegna betri vinnutíma í vaktavinnu. Á árinu 2022 var veitt 1.600 m.kr. tímabundið framlag á almennum varasjóði sem millifæra átti til stofnana heilbrigðisráðuneytis og dómsmálaráðuneytis að uppfylltum ákveðnum skilyrðum um framvindu og þátttöku í verkefninu. Í upphafi var áætlað að kostnaður við verkefnið næmi 5,4 ma.kr. og kostnaður væri framhlaðinn, þ.e. mestur í upphafi en síðan drægi úr útgjaldaþörf þegar ávinningur eða hagræðing sem fylgdi verkefninu myndi raungerast. Hér er lagt til að framlagið verði gert varanlegt þar sem ávinningur af breyttu fyrirkomulagi hefur ekki enn raungerst og því talin þörf á að mæta upphaflegri kostnaðaráætlun við verkefnið.
    Endurmat á verðlags- og gengisforsendum og forsendum um bótahækkanir í frumvarpinu nemur 8.337,1 m.kr. Um er að ræða endurmat á verðlagsforsendum og forsendum um bótahækkanir vegna uppfærðrar þjóðhagsspár og uppfærslu á gengisforsendum. Í fyrsta lagi var hækkun almennra rekstrargjalda 9,17% samkvæmt forsendum frumvarpsins. Sú hækkun byggðist annars vegar á spá um 4,9% verðbólgu á næsta ári að viðbættri ákvörðun um að leiðrétta vanmat á verðbólgu yfirstandandi árs. Fjárlög fyrir árið 2022 gerðu ráð fyrir 3,3% verðbólgu en uppfærð þjóðhagsspá Hagstofunnar í júní sl. gerði ráð fyrir að verðbólga ársins yrði 4,2% hærri eða 7,5%. Verðlagsforsendur frumvarpsins hafa verið uppfærðar til samræmis við uppfærða þjóðhagsspá Hagstofunnar í nóvember sl. Þannig er gert ráð fyrir að verðbólga næsta árs verði 5,6% í stað 4,9% áður og verðbólga yfirstandandi árs verði 8,2% í stað 7,5% samkvæmt forsendum frumvarpsins. Þessar breytingar leiða til þess að hækkun almennra rekstrargjalda verður 10,61% og aukast fjárheimildir til samræmis við það.
    Í öðru lagi er gert ráð fyrir hækkun fjárheimilda til samræmis við að bætur almannatrygginga hækki um 7,4% 1. janúar nk. í stað 6% samkvæmt forsendum frumvarpsins. Hækkun frumvarpsins byggðist annars vegar á 4,9% verðbólguspá næsta árs auk ákvörðunar um 1,1% til viðbótar. Sú viðbót fólst í 0,5% hækkun til samræmis við forsendu um 0,5% kaupmáttaraukningu á árinu 2023 og 0,6% ákvarðaðri hækkun til þess að hækkun ársins 2022 yrði ekki minni en hækkun verðlags samkvæmt vísitölu neysluverðs. Samkvæmt endurmetinni þjóðhagsspá er gert ráð fyrir að bæði verðbólga yfirstandandi árs og verðbólga næsta árs verði 0,7% umfram forsendur frumvarpsins. Þetta leiðir til þess, út frá sömu forsendum og giltu við útreikning bóta almannatrygginga í frumvarpinu, að gert er ráð fyrir að bæturnar hækki um 1,4% til viðbótar þannig að samanlögð hækkun verði 7,4%.
    Í þriðja lagi er gert ráð fyrir hækkun fjárheimilda til samræmis við að atvinnuleysisbætur hækka um 5,6% í stað 4,9% samkvæmt forsendum frumvarpsins.
    Loks er í fjórða lagi gert ráð fyrir hækkun fjárheimilda vegna endurmats á gengisforsendum frumvarpsins. Það tíðkast ekki að spá fyrir um þróun á gengi gjaldmiðla í fjárlagafrumvarpinu og var í frumvarpinu miðað við meðalgengi í júlí 2022 eða síðasta mánuði áður en talnabálki frumvarpsins var lokað. Nú hafa forsendurnar verið endurmetnar og er nú miðað við meðalgengi gjaldmiðla í október sl.
    Skipting fjárheimilda niður á málefnasvið og málaflokka, 8.337,1 m.kr., sundurliðað eftir ráðuneytum, er sýnd í sérstöku yfirliti með breytingartillögum meiri hlutans og munu breytingarnar koma fram í viðkomandi fjárheimildum í frumvarpinu eftir 2. umræðu.
    Í ljósi hækkunar vegna launa-, gengis-, bóta- og verðlagsbreytinga þykir rétt að lækka það svigrúm sem fyrir var á almennum varasjóði um 6.547,2 m.kr.
    Endurmat á launaforsendum í frumvarpinu nemur 1.800 m.kr. Um er að ræða endurmat vegna uppfærðrar þjóðhagsspár. Líkt og í forsendum frumvarpsins þá eru launabætur vegna samningsbundinna launahækkana allra málaflokka fyrir komandi ár lagðar inn á almennan varasjóð vegna mikillar óvissu um framvindu fyrirliggjandi kjarasamningsgerðar og hvenær samkomulag muni nást.

35 Alþjóðleg þróunarsamvinna.
35.10 Þróunarsamvinna.
    Lagt er til að veita 1.500 m.kr. til aðstoðar Úkraínu með áherslu á mannúðar- og efnahagsaðstoð. Aðstoðin er til viðbótar framlögum Íslands til annarrar alþjóðlegrar þróunarsamvinnu eins og þau eru lögð fram í frumvarpinu. Rétt er að vekja athygli á því að mannúðar- og efnahagsstuðningur Íslands við Úkraínu hefur hingað til verið fjármagnaður af þróunarsamvinnufé á kostnað framlaga til annarra brýnna alþjóðlegra verkefna. Gert er ráð fyrir að framlaginu verði að mestu beint í gegnum í stofnanir Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðabankann og annað fjölþjóðasamstarf í samræmi við óskir og þarfir úkraínskra stjórnvalda.
    Gerð er tillaga um 277 m.kr. lækkun á framlögum til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu. Tillagan byggist á nýrri spá um þjóðartekjur fyrir árið 2023 og nýjum áætlunum um útgjöld vegna móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd. Báðar breytur hækka frá þeim forsendum sem lágu til grundvallar við framlagningu frumvarpsins en sökum þess að útgjöld vegna móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd hækka mun meira en framlagið samkvæmt markmiðinu um 0,35% af þjóðartekjum og eru frádráttarliður við útreikning á framlögum til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu verður niðurstaðan að lækka þarf framlagið til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu. Með þessu er leitast við að halda framlagi Íslands í 0,35% af vergum þjóðartekjum eins og gildandi þingsályktun um alþjóðlega þróunarsamvinnu kveður á um.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar hafa verið og gerð er tillaga um í sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 5. desember 2022.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
form., frsm.
Haraldur Benediktsson. Stefán Vagn Stefánsson.
Þórarinn Ingi Pétursson. Bryndís Haraldsdóttir. Vilhjálmur Árnason.