Ferill 488. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 705  —  488. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um þyrluvaktir Landhelgisgæslunnar.


    Við vinnslu fyrirspurnarinnar var óskað eftir upplýsingum frá Landhelgisgæslu Íslands og er svarið unnið í samstarfi við embættið.

     1.      Hversu oft hefur sú staða komið upp á undanförnum þremur árum að engin áhöfn sé á vakt til að fljúga þyrlum Landhelgisgæslunnar? Þess er óskað að fram komi dagsetning, hversu lengi það ástand hafi varað hverju sinni og að tilgreindar séu ástæður þess að engin áhöfn hafi verið á vakt.
    Í þyrlusveit Landhelgisgæslu Íslands eru starfandi sex þyrluáhafnir sem allar vinna á bakvöktum. Um 65% ársins eru tvær þyrluáhafnir á bakvakt og ríflega þriðjung ársins er ein áhöfn tiltæk. Eftir að þyrluáhöfnum var fjölgað úr fimm í sex fyrir tæplega tveimur árum gerist það afar sjaldan að Landhelgisgæslan hafi ekki yfir neinni þyrluáhöfn að ráða. Þegar slík tiltivik koma upp hefst strax vinna við að tryggja fulla viðbragðsgetu þyrlusveitarinnar og tekst það í flestum tilfellum á skömmum tíma. Jafnframt er rétt að geta þess að sú staða getur vissulega komið upp að þrátt fyrir að tvær þyrlur og tvær áhafnir séu tiltækar að morgni þá getur staðan breyst þegar líður á daginn vegna útkalla og annarra krefjandi verkefna þyrlusveitarinnar.
    Þau tilvik þar sem engin áhöfn er á vakt hafa ekki verið skráð sérstaklega. Til að fara yfir það þyrfti að fara yfir stöðuskýrslu hvers einasta dags síðastliðin þrjú ár. Eins og fram kemur hér að framan er þar að auki erfitt að segja til um þessi tilvik þar sem sú staða getur komið upp að þyrluvakt sé tiltæk að morgni en útköll eða önnur krefjandi verkefni geri það að verkum að þyrluvakt verði ekki tiltæk síðar sama sólarhring.

     2.      Hversu oft hafa komið upp neyðartilvik við þær aðstæður þannig að nauðsynlegt hafi verið að kalla þyrlusveitina út sérstaklega? Hversu mikið seinkar viðbragði í slíkum tilvikum?
    Eins og fram kemur í svari við 1. tölul. fyrirspurnar er þetta ekki sérstaklega skráð. Í þeim tilvikum þegar fyrirséð er að þyrluvakt sé ekki tiltæk er ávallt strax leitað leiða til að manna vaktina og tekst það í langflestum tilvikum.