Ferill 226. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 721  —  226. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019 (skipti eða slit tiltekinna skráningarskyldra aðila).

(Eftir 2. umræðu, 6. desember.)


1. gr.

    Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    a. (II.)
    Ef skráningarskyldur aðili sem fellur undir ákvæði til bráðabirgða I hefur ekki fullnægt skyldu samkvæmt lögum þessum um að tilkynna um raunverulegan eiganda eða eigendur til fyrirtækjaskrár er ríkisskattstjóra heimilt að krefjast skipta á aðilanum fyrir héraðsdómi, eða eftir atvikum slita á aðilanum í samræmi við ákvæði til bráðabirgða III, að undangenginni málsmeðferð samkvæmt ákvæði þessu. Ákvæði 13. gr. gildir ekki um aðdraganda og meðferð máls samkvæmt ákvæði þessu eða samkvæmt ákvæði til bráðabirgða III.
    Ríkisskattstjóri skal skora á skráningarskyldan aðila að fullnægja skráningarskyldu samkvæmt lögum þessum með eftirgreindum hætti. Í fyrsta lagi skal ríkisskattstjóri senda áskorun til fyrirsvarsmanns aðila á lögheimili hans sem skráð er á tiltekið heimilisfang í þjóðskrá. Með fyrirsvarsmanni er hér átt við þann sem samkvæmt skráningu í fyrirtækjaskrá er stjórnarmaður aðilans ef um eins manns stjórn er að ræða eða formaður stjórnar eða framkvæmdastjóri eða prókúruhafi eða sá sem skráður er í forsvari fyrir aðilann í fyrirtækjaskrá hvað sem líður annars stöðu viðkomandi hjá aðilanum. Nægilegt er að beina áskorun með framangreindum hætti til einhvers þeirra síðastnefndu og telst henni þá hafa verið komið á framfæri við aðilann. Ef enginn er skráður sem fyrirsvarsmaður aðila í framangreindum skilningi eða enginn skráðra fyrirsvarsmanna hefur skráð lögheimili í þjóðskrá er ekki nauðsynlegt að senda áskorun skv. 2.–4. málsl. Í annan stað skal áskorun birt í Lögbirtingablaði þar sem greina skal heiti og kennitölur þeirra skráningarskyldu aðila sem hún beinist að. Í þriðja lagi skal áskorun birt í fjölmiðli þar sem vísað skal til birtingar í Lögbirtingablaði. Í áskorun sem komið er á framfæri á framangreindan hátt skal gefinn tveggja vikna frestur til að fullnægja skráningarskyldu samkvæmt lögum þessum og miðast upphaf frestsins í öllum tilfellum við birtingardag áskorunar í Lögbirtingablaði. Áður en frestinum lýkur getur fyrirsvarsmaður aðila, í skilningi þessarar málsgreinar, þó óskað eftir því að fresturinn verði framlengdur allt að tveimur vikum og ber ríkisskattstjóra að verða við því ef hann telur lögmætar ástæður réttlæta frekari drátt á að skráningarskyldu sé sinnt.
    Ef skráningarskyldur aðili hefur ekki sinnt skráningarskyldu fyrir lok frests skv. 2. mgr. er ríkisskattstjóra heimilt án frekari tilkynninga eða aðvarana að taka ákvörðun um að krefjast skipta á honum fyrir héraðsdómi. Ákvæði III.–V., VII. og IX. kafla og 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, gilda ekki um þá ákvörðun ríkisskattstjóra. Ríkisskattstjóri skal birta í Lögbirtingablaði tilkynningu sem geymir heiti og kennitölur aðila sem hann hefur tekið ákvörðun um að krefjast skipta á samkvæmt framansögðu. Ákvörðun ríkisskattstjóra um að krefjast skipta samkvæmt þessari málsgrein getur einnig orðið grundvöllur að kröfu um slit samkvæmt ákvæði til bráðabirgða III þar sem við á.
    Eftir birtingu tilkynningar í Lögbirtingablaði skv. 3. mgr. er óheimilt að ráðstafa eignum og réttindum skráningarskylds aðila eða stofna til skuldbindinga á hendur honum nema telja megi ráðstöfun nauðsynlega til að forða aðilanum eða kröfuhöfum hans frá verulegu tjóni enda veiti ríkisskattstjóri þá fyrirframheimild til ráðstöfunar hverju sinni. Fyrir brot gegn þessari málsgrein er ríkisskattstjóra heimilt að leggja stjórnvaldssekt á hvern þann sem ábyrgð ber á broti samkvæmt ákvæðum 15. gr. Upplýsingar um skráningarskyldan aðila í fyrirtækjaskrá skulu bera með sér réttarstöðu hans samkvæmt ákvæðum þessarar málsgreinar.
    Í kjölfar birtingar tilkynningar í Lögbirtingablaði skv. 3. mgr. sendir ríkisskattstjóri afrit af henni til allra innlendra fjármálafyrirtækja skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. b laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki skulu þegar í kjölfar móttöku tilkynningar ríkisskattstjóra læsa innlánsreikningum, greiðslureikningum og vörslureikningum, hverju nafni sem nefnast, í eigu skráningarskyldra aðila sem nefndir eru í tilkynningunni. Með læsingu falla niður allar ráðstöfunarheimildir yfir reikningi sem og viðkomandi eignum og fjármunum nema um sé að ræða ráðstöfun sem ríkisskattstjóri hefur veitt heimild fyrir skv. 4. mgr. Læsingu reiknings skal ekki aflétt nema að fenginni staðfestingu ríkisskattstjóra um að viðkomandi aðili hafi fullnægt skráningarskyldu samkvæmt lögum þessum eða að fenginni staðfestingu ríkisskattstjóra um að aðili hafi verið tekinn til slita eða skipta með endanlegum dómsúrskurði. Samhliða sendingu á afriti tilkynningar skv. 1. málsl. skal ríkisskattstjóri óska eftir upplýsingum frá innlendum fjármálafyrirtækjum skv. 1. málsl. um fjárhagsstöðu skráningarskyldra aðila sem nefndir eru í tilkynningunni og setja hlutaðeigandi fjármálafyrirtækjum hæfilegan frest til að láta þær upplýsingar í té sem skal að jafnaði ekki vera lengri en tvær vikur.
    Sinni aðili ekki skráningarskyldu innan fjögurra vikna frá birtingu tilkynningar í Lögbirtingablaði skv. 3. mgr. skal ríkisskattstjóri krefjast skipta á aðila í samræmi við 6.–8. mgr. 17. gr. eða eftir atvikum slita á aðila eftir sérstökum málsmeðferðarreglum ákvæðis til bráðabirgða III. Ákvæði 17. gr. gilda að öðru leyti ekki um aðdraganda og meðferð máls samkvæmt ákvæði þessu eða ákvæði til bráðabirgða III.
    Fram að dómsúrskurði um slit eða skipti er ríkisskattstjóra heimilt að afturkalla ákvörðun sína skv. 3. mgr., kröfu um skipti aðila eða kröfu um slit aðila samkvæmt ákvæði til bráðabirgða III, enda hafi aðili fullnægt skráningarskyldu sinni.

    b. (III.)
    Ef ríkisskattstjóri hefur tekið ákvörðun um að krefjast skipta á skráningarskyldum aðila skv. 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II, og sú ákvörðun hefur ekki verið afturkölluð í samræmi við 7. mgr. sama ákvæðis, þá er ríkisskattstjóra heimilt að krefjast slita á aðilanum fyrir héraðsdómi í samræmi við reglur ákvæðis þessa án tillits til 6.–8. mgr. 17. gr., enda uppfylli aðilinn bæði eftirfarandi skilyrði:
     1.      Heildarverðmæti þekktra eigna aðilans er minna en 350.000 kr. Til þekktra eigna í skilningi þessa töluliðar teljast fasteignir, ökutæki og skip sem eru skráð í fasteigna-, skipa- og ökutækjaskrám sem og innstæður og hlutabréfa- og verðbréfaeign sem skráð er hjá innlendum fjármálafyrirtækjum skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. b laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Til þekktra eigna samkvæmt þessum tölulið teljast einnig aðrar eignir sem aðilinn eða annar sem á lögvarinna hagsmuna að gæta sýnir fram á að tilheyri aðilanum með viðhlítandi gögnum sem unnt er að sannreyna.
     2.      Heildarfjárhæð þekktra skulda aðilans er lægri en 2.000.000 kr. Til þekktra skulda í skilningi þessa töluliðar teljast skuldir aðilans sem skráðar eru hjá innlendum fjármálafyrirtækjum skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. b laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, sem og skuldir við ríkissjóð, þó að frátöldum álögðum fésektum skv. 120. gr. laga um ársreikninga, nr. 3/2006, og dagsektum skv. 1. mgr. 14. gr. laga þessara. Til þekktra skulda samkvæmt þessum tölulið teljast einnig aðrar skuldir sem aðilinn eða annar sem á lögvarinna hagsmuna að gæta sýnir fram á að hvíli á aðilanum með viðhlítandi gögnum sem unnt er að sannreyna.
    Kröfu ríkisskattstjóra um slit aðila samkvæmt ákvæði þessu skal beint til héraðsdómstóls í því umdæmi þar sem aðilinn yrði sóttur í einkamáli á heimilisvarnarþingi sínu. Ef varnarþing aðila verður ekki ráðið af skráningu hans í fyrirtækjaskrá skal kröfu beint til Héraðsdóms Reykjavíkur. Í kröfu skal greina frá heiti og kennitölu aðila, heimilisfangi hans, sé það skráð í fyrirtækjaskrá, og greina jafnframt frá því í stuttu máli hvers er krafist og við hver atvik, rök og lagaákvæði krafan er studd. Kröfunni skal fylgja staðfesting ríkisskattstjóra um að eignir og skuldir hlutaðeigandi aðila séu undir mörkum skv. 1. mgr. og skal efni hennar talið rétt þar til annað er leitt í ljós. Ekki þarf að láta önnur gögn um fjárhagsstöðu viðkomandi aðila fylgja kröfunni. Kröfuna og fylgigögn með henni má senda héraðsdómi rafrænt. Ríkisskattstjóra er heimilt að krefjast í einu lagi slita á fleiri en einum aðila skv. 1. mgr.
    Að framkominni kröfu ríkisskattstjóra um slit aðila skv. 2. mgr. skal héraðsdómari birta áskorun í Lögbirtingablaði þar sem heiti og kennitala viðkomandi aðila skulu tiltekin og fyrirsvarsmanni hans, kröfuhöfum og öðrum sem telja sig eiga lögvarinna hagsmuna að gæta gefinn kostur á því að mæta til þinghalds þar sem krafan verður tekin fyrir. Í áskorun skal jafnframt tekið fram að fyrirhugað sé að framkomin krafa um slit sæti meðferð samkvæmt ákvæði þessu nema mótmæli komi fram. Heimilt er að skora með þessum hætti á fleiri en einn aðila í einni og sömu tilkynningunni og tiltaka í henni stað og stund reglulegs þinghalds héraðsdóms þar sem kröfur um slit viðkomandi aðila verði teknar fyrir.
    Komi fram mótmæli í þinghaldi gegn kröfu ríkisskattstjóra um slit skv. 3. mgr. frá fyrirsvarsmanni aðila eða öðrum sem á lögvarinna hagsmuna að gæta skal farið með kröfuna eftir því sem greinir í 6.–8. mgr. 17. gr. enda leggi sá sem hefur uppi mótmæli fram skiptatryggingu innan frests sem héraðsdómari setur. Ef mótmæli lúta að því að skilyrði fyrir slitum skv. 1. mgr. séu ekki uppfyllt og sýnt er að þau mótmæli eigi við rök að styðjast skal skiptatrygging þó sett af ríkisskattstjóra. Sé kröfu ríkisskattstjóra beint í skiptameðferð skv. 6.–8. mgr. 17. gr. vegna framkominna mótmæla skal ríkisskattstjóra vera heimilt að leggja fram nýja kröfu ásamt fylgigögnum sem koma þá í stað kröfu og fylgigagna skv. 2. mgr. Héraðsdómari leysir úr ágreiningi vegna mótmæla eða annarra atriða er varða meðferð máls á grundvelli ákvæðis þessa með úrskurði sem kæra má til Landsréttar eftir sömu reglum og gilda um kæru í almennu einkamáli.
    Verði kröfu ríkisskattstjóra ekki beint í skiptameðferð skv. 6.–8. mgr. 17. gr. skal farið með kröfuna eftir því sem greinir í 6. mgr. ákvæðis þessa en ríkisskattstjóra verður þá ekki gert að setja skiptatryggingu.
    Héraðsdómari skal taka kröfu ríkisskattstjóra um slit aðila vegna vanrækslu á að fullnægja skráningarskyldu samkvæmt lögum þessum til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi málatilbúnaðar ríkisskattstjóra og skal úrskurður kveðinn upp eins skjótt og verða má. Afrit úrskurðar héraðsdóms skal sent rafrænt til ríkisskattstjóra. Þegar í kjölfarið skal ríkisskattstjóri birta tilkynningu í Lögbirtingablaði með heiti og kennitölum aðila sem slitið hefur verið með dómsúrskurði samkvæmt framansögðu. Ekki er þörf á frekari birtingu dómsniðurstöðu um slit.
    Úrskurður héraðsdómara skv. 6. mgr. er kæranlegur til Landsréttar. Kæra skal lögð fram innan tveggja vikna frá birtingardegi tilkynningar í Lögbirtingablaði um slit þess aðila sem í hlut á skv. 6. mgr. Að öðru leyti gilda um kæru og meðferð hennar í héraði og fyrir Landsrétti sömu reglur og um kæru í almennu einkamáli. Einnig getur sá sem á lögvarinna hagsmuna að gæta óskað eftir endurupptöku slita sem hafa farið fram samkvæmt ákvæði þessu enda leggi hann fram staðfestingu ríkisskattstjóra um að skráningarskyldu samkvæmt lögum þessum hafi verið fullnægt. Beiðni um endurupptöku skal afhent héraðsdómi innan fjögurra vikna frá birtingardegi tilkynningar skv. 6. mgr. Ef beiðni um endurupptöku er tekin til greina falla réttaráhrif slita niður og rakna þá við réttindi og skyldur skráningarskylds aðila eins og honum hafi aldrei verið slitið. Hlutaðeigandi skráningarskyldur aðili skal þó bera ábyrgð á kostnaði vegna slita sem fellur til eftir úrskurð um slit og fram að endurupptöku þeirra, á sama hátt og á við um áður áfallinn kostnað vegna kröfu um slit.
    Kostnaður vegna slita skráningarskylds aðila sem slitið hefur verið með dómsúrskurði skv. 6. mgr. skal greiðast af andvirði eigna hans en að öðru leyti greiðist hann úr ríkissjóði. Þær eignir sem eftir standa renna í ríkissjóð enda séu frestir skv. 7. mgr. runnir út eða kröfum í kærumáli fyrir æðra dómi eða um endurupptöku úrskurðar hafi verið endanlega hafnað. Á grundvelli 1. og 2. málsl. og að uppfylltum framangreindum skilyrðum öðlast ríkisskattstjóri fyrir hönd ríkissjóðs fulla ráðstöfunarheimild yfir eignum skráningarskylds aðila sem slitið hefur verið og er innlendum fjármálafyrirtækjum skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. b laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, skylt að kröfu ríkisskattstjóra að afhenda honum allar eignir á innlánsreikningum, greiðslureikningum og vörslureikningum sem áður tilheyrðu viðkomandi skráningarskyldum aðila. Hliðstæð skylda hvílir jafnframt á öðrum en fjármálafyrirtækjum sem fara með vörslur eigna skráningarskylds aðila sem hefur verið slitið. Afhending eigna til ríkisskattstjóra í samræmi við fyrirmæli þessa ákvæðis getur ekki bakað þeim sem afhendir ríkisskattstjóra eignir skaðabótaábyrgð eða refsiábyrgð að lögum.
    Í tengslum við framkvæmd þessa ákvæðis og ákvæðis til bráðabirgða II er einstaklingum og lögaðilum, þar á meðal fjármálafyrirtækjum og opinberum aðilum, skylt að láta ríkisskattstjóra í té, án tafar og án endurgjalds og á því formi sem óskað er, allar upplýsingar og gögn um eignarhald og fjárhag skráningarskyldra aðila sem nauðsynleg eru vegna framkvæmdar ákvæðanna. Ákvæði annarra laga um trúnaðar- og þagnarskyldu víkja fyrir ákvæði þessu og ákvæði til bráðabirgða II. Upplýsingar og gögn sem ríkisskattstjóri aflar með heimild í framangreindum ákvæðum eru háð sérstakri þagnarskyldu skv. 1. mgr. 117. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, og 20. gr. laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda, nr. 150/2019.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.