Ferill 279. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 722  —  279. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nr. 28/2017 (EES-reglur, einföldun útgáfu leyfa).

(Eftir 2. umræðu, 6. desember.)


1. gr.

    B-liður 1. mgr. 1. gr. laganna orðast svo: farmflutninga á landi í atvinnuskyni með vélknúnum ökutækjum eða samtengdum ökutækjum þar sem leyfð heildarþyngd fer yfir 3,5 tonn, eða yfir 2,5 tonn í farmflutningum á milli landa, og leyfilegur hámarkshraði ökutækjanna er 45 km á klst. eða meiri.

2. gr.

    Við 1. mgr. 4. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Almennt rekstrarleyfi er veitt til eftirfarandi flutninga:
     a.      farþegaflutninga á landi í atvinnuskyni með bifreiðum sem eru skráðar fyrir níu farþega eða fleiri,
     b.      farþegaflutninga á landi í atvinnuskyni með sérútbúnum bifreiðum sem eru skráðar fyrir færri farþega en níu, sbr. 9. gr.,
     c.      farþegaflutninga á landi í atvinnuskyni í tengslum við ferðaþjónustu með bifreiðum sem eru skráðar fyrir færri farþega en níu, sbr. 10. gr., og
     d.      farmflutninga á landi í atvinnuskyni með vélknúnum ökutækjum eða samtengdum ökutækjum þar sem leyfilegur hámarkshraði er 45 km á klst. eða meiri og leyfð heildarþyngd ökutækjanna er yfir nánar tilgreindum mörkum sem ráðherra ákveður í reglugerð.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „sérstakt leyfi útgefið af Samgöngustofu“ í 1. málsl. kemur: almennt rekstrarleyfi til reksturs sérútbúinna bifreiða skv. 4. gr.
     b.      Orðin „og að umsækjandi hafi almennt rekstrarleyfi skv. 4. gr.“ í 2. málsl. falla brott.
     c.      Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Almennt rekstrarleyfi til farþegaflutninga í atvinnuskyni fyrir bifreiðar sem skráðar eru fyrir níu farþega eða fleiri veitir einnig rétt til reksturs sérútbúinna bifreiða sem skráðar eru fyrir færri farþega en níu skv. 1. mgr.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „sérstakt leyfi útgefið af Samgöngustofu“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: almennt rekstrarleyfi til farþegaflutninga í atvinnuskyni í tengslum við ferðaþjónustu skv. 4. gr.
     b.      2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Skilyrði slíks leyfis er að það sé notað í tengslum við ferðaþjónustu og skal umsækjandi hafa rekstrarleyfi annaðhvort sem ferðasali dagsferða eða ferðaskrifstofa.
     c.      Í stað orðsins „ferðaþjónustuleyfis“ í 3. mgr. kemur: almenns rekstrarleyfis til farþegaflutninga í tengslum við ferðaþjónustu.
     d.      Í stað orðsins „ferðaþjónustuleyfis“ í 4. mgr. kemur: leyfis samkvæmt þessari grein.

5. gr.

    Á eftir 34. gr. laganna kemur ný grein, 34. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Innleiðing.

    Lög þessi fela í sér innleiðingu ákvæða eftirtalinna reglugerða Evrópuþingsins og ráðsins:
     1.      Reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1071/2009 frá 21. október 2009 um sameiginlegar reglur varðandi skilyrði sem uppfylla þarf til þess að mega starfa sem flutningsaðili á vegum og um niðurfellingu á tilskipun ráðsins 96/26/EB, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 88/2014 frá 16. maí 2014, sem birt var 30. október 2014 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 63, bls. 31–43.
     2.      Reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1072/2009 frá 21. október 2009 um sameiginlegar reglur um aðgang að mörkuðum fyrir farmflutninga á vegum milli landa, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 88/2014 frá 16. maí 2014, sem birt var 30. október 2014 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 63, bls. 31–43.
     3.      Reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1073/2009 frá 21. október 2009 um sameiginlegar reglur um aðgang að mörkuðum fyrir flutninga með hópbifreiðum milli landa og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 561/2006, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 88/2014 frá 16. maí 2014, sem birt var 30. október 2014 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 63, bls. 31–43.
     4.      Reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 181/2011 frá 16. febrúar 2011 um réttindi farþega í hópbifreiðum og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 2006/2004, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 115/2015 frá 30. apríl 2015, sem birt var 4. ágúst 2016 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 42, bls. 69–70.
     5.      Reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1370/2007 frá 23. október 2007 um almenna farþegaflutninga á járnbrautum og á vegum og um niðurfellingu á reglugerðum ráðsins (EBE) nr. 1191/69 og (EBE) nr. 1107/70, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 85/2008 frá 4. júlí 2008, sem birt var 23. október 2008 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 64, bls. 13–14.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Aðilar sem hafa fengið útgefin ferðaþjónustuleyfi eða leyfi til reksturs sérútbúinna bifreiða hjá Samgöngustofu fyrir gildistöku laga þessara skulu halda réttindum sínum eins og um viðeigandi almennt rekstrarleyfi væri að ræða þar til gildistíma leyfis lýkur.