Ferill 469. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 730 — 469. mál.
Svar
matvælaráðherra við fyrirspurn frá Eydísi Ásbjörnsdóttur um fæðuöryggi og sjálfbærni.
1. Í hvaða búgreinum sér ráðherra fyrir sér aukna matvælaframleiðslu á Íslandi sem styður við fæðuöryggi og sjálfbærni þjóðarinnar?
Ráðherra hyggst leggja tillögu til þingsályktunar um landbúnaðarstefnu fyrir Alþingi á vorþingi 2023. Með landbúnaðarstefnunni er ætlunin að skapa skýrari sýn og áherslur fyrir landbúnað. Grundvöllur hennar er skýrslan Landbúnaðarstefnan Ræktum Ísland! – landbúnaður á 21. öld. Með stefnunni er hugað að umgjörð landbúnaðar í heild og er henni ætlað að liggja til grundvallar við endurskoðun búvörusamninga árið 2023 og síðar.
Megináherslur ráðherra við endurskoðun búvörusamninga eru að auka fæðuöryggi á Íslandi með því að efla innlenda landbúnaðarframleiðslu. Stuðningur hins opinbera verður samhæfður með það að markmiði að styrkja og fjölga stoðum landbúnaðar á grunni sjálfbærrar nýtingar í þágu loftslagsmála, umhverfis- og náttúruverndar og fjölbreytni í ræktun. Ítarlegri áherslur ráðherra munu koma fram í framangreindri tillögu til þingsályktunar.
Mikilvægi innlendrar kornræktar og innlendrar grænmetisframleiðsu hefur aukist verulega í takti við aukið vægi fæðuöryggis síðustu misseri. Hlutdeild innlendrar framleiðslu í þessum greinum er í sumum tilvikum mjög lág á meðan innlenda framleiðslan stendur undir nær allri innanlandsneyslu á kjöti og mjólkurvörum. Það er því þýðingarmikið að efla sérstaklega kornrækt og grænmetisframleiðslu.
Þá er rétt að geta þess að ráðherra hyggst jafnframt leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um matvælastefnu á vorþingi 2023. Matvælastefnunni er ætlað að verða leiðarstef í matvælaframleiðslu á Íslandi. Með henni verður lagður grunnur að sjálfbærri stefnu Íslands í málaflokknum þar sem markmið og aðgerðir eru skýrt afmarkaðar til langs tíma, þar á meðal um fæðuöryggi. Sú stefna er enn í mótun en þar er fjallað um matvælaframleiðslu í heild en ekki eingöngu landbúnað.
2. Hver er afstaða ráðherra til aukinnar kornræktar í þessum efnum?
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir meðal annars að mótuð verði heildstæð, tímasett aðgerðaáætlun til eflingar lífrænnar framleiðslu og akuryrkju. Kornrækt er þar stór þáttur. Aðeins 1% af því korni sem nýtt er til manneldis á Íslandi er framleitt innan lands. Í tillögum að landbúnaðarstefnu, Ræktum Ísland! sem liggja fyrir, er jafnframt fjallað um mikilvægi þess að efla kornrækt fyrir búfé og til manneldis sem lið í því að tryggja fæðuöryggi á Íslandi. Í skýrslu spretthópsins frá því fyrr á þessu ári er lagt til að stóraukinn kraftur verði lagður í að efla innlenda kornrækt til manneldis, fóðrunar og fóðurgerðar.
Ráðherra fól Landbúnaðarháskóla Íslands í ágúst 2022 að vinna drög að aðgerðaáætlun til eflingar kornræktar á Íslandi. Þeirra tillagna er að vænta í mars 2023.
Markmið verkefnisins eru að:
1. Kanna fýsileika á rekstri kornsamlags hér á landi.
2. Leggja fram aðgerðaáætlun til eflingar kornræktar á Íslandi.
3. Skilgreina þarfir á lágmarksbirgðum kornvöru á landinu.
Efling kornmarkaðarins verður stærsta viðfangsefni verkefnisins, en það mun einnig fela í sér tillögur að annarri nauðsynlegri innviðauppbyggingu og ábendingum um hagkvæmustu leiðir til þeirrar uppbyggingar, svo sem á sviði kynbóta, bútækni og jafnframt aðlögun stuðningskerfis til að búa til frekari hvata til ræktunar á korni.