Ferill 435. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 731  —  435. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007 (greiðslutímabil endurhæfingarlífeyris).

Frá meiri hluta velferðarnefndar .


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ágúst Þór Sigurðsson og Klöru Briem frá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, Andreu Valgeirsdóttur og Sigríði Hönnu Ingólfsdóttur frá Öryrkjabandalagi Íslands, Vigdísi Jónsdóttur og Þóreyju Eddu Heiðarsdóttur frá VIRK – starfsendurhæfingarsjóði, Auði Axelsdóttur og Málfríði Hrund Einarsdóttur frá Hugarafli, Unni Sverrisdóttur og Sverri Berndsen frá Vinnumálastofnun, Margréti Ólafíu Tómasdóttur frá Félagi íslenskra heimilislækna og Gísla Pál Oddsson og Þóri Ólason frá Tryggingastofnun ríkisins.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Bandalagi háskólamanna, Endurhæfingarráði, Félagsráðgjafafélagi Íslands, Hugarafli, Landssamtökunum Þroskahjálp, Samtökum atvinnulífsins, Tryggingastofnun ríkisins, VIRK – starfsendurhæfingarsjóði og Öryrkjabandalagi Íslands.
    Markmið frumvarpsins er að tryggja einstaklingum sem misst hafa starfsgetuna endurhæfingarlífeyri til lengri tíma en nú gildir, úr 18 mánuðum í 36 mánuði, enda sé starfsendurhæfing með aukna atvinnuþátttöku að markmiði enn talin raunhæf. Þá gerir frumvarpið einnig ráð fyrir heimild til að framlengja greiðslutímabilið um allt að 24 mánuði í stað 18 mánaða samkvæmt gildandi lögum ef starfsendurhæfing með atvinnuþátttöku að markmiði er enn talin raunhæf. Samanlagt er því gert ráð fyrir að tímabil greiðslna geti orðið allt að fimm ár í stað þriggja ára samkvæmt gildandi lögum. Frumvarpið inniheldur fyrsta skref í átt að nýju greiðslu- og þjónustukerfi vegna starfsgetumissis.
    Umsagnaraðilar eru almennt jákvæðir í garð frumvarpsins og benda á að frumvarpinu sé ætlað að bæta réttarstöðu þeirra sem glíma við alvarlegan heilsuvanda og gera þeim kleift að klára endurhæfingu sína með það að markmiði að auka vinnugetu sína og lífsgæði. Þá hvöttu umsagnaraðilar til þess að vinnu við endurskoðun á greiðslu- og þjónustukerfi almannatrygginga vegna örorku og starfsgetumissis, sem vísað er til í greinargerð, verði hraðað eins og kostur er. Tekur meiri hlutinn heilshugar undir það og bendir á tækifæri til að skoða nánar ýmsar ábendingar sem nefndinni hafa borist í tengslum við málið í vinnu við nýtt greiðslu- og þjónustukerfi.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Guðbrandur Einarsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, lýsir sig samþykkan álitinu.

Alþingi, 7. desember 2022.

Líneik Anna Sævarsdóttir,
form.
Jódís Skúladóttir,
frsm.
Ásmundur Friðriksson.
Guðrún Hafsteinsdóttir. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir. Oddný G. Harðardóttir.
Óli Björn Kárason.