Ferill 442. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 755  —  442. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist, nr. 110/2016 (framlenging gildistíma o.fl.).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sóldísi Rós Símonardóttur frá menningar- og viðskiptaráðuneyti og Guðrúnu Björk Bjarnadóttur frá STEF.
    Þá barst nefndinni ein umsögn vegna málsins frá STEF.
    Með frumvarpi þessu er meðal annars lagt til að gildistími laga nr. 110/2016 um tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist verði framlengdur um fimm ár. Auk þess eru lagðar til í frumvarpinu aðrar breytingar með það að markmiði að gera endurgreiðslukerfið skilvirkara og afkastameira. Markmið frumvarpsins er þannig að festa endurgreiðslukerfið, sem hingað til hefur gefið góða raun, betur í sessi með framlengingu gildistíma laganna og styðja þannig enn frekar við innviði greinarinnar. Þrátt fyrir að Ísland sé enn þá eina landið sem býður upp á endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist, bjóða ýmis önnur lönd upp á ákveðnar skattaívilnanir fyrir tónlistarframleiðslu. Með því að framlengja gildistíma laganna er áframhaldandi samkeppnishæfni Íslands á þessu sviði tryggð og jafnframt stuðlað að enn frekari uppgangi íslensks tónlistariðnaðar.
    Sú umsögn sem barst um frumvarpið var jákvæð og því fagnað að framlengja ætti úrræðið. Þá var þar jafnframt hvatt til þess að endurgreiðsluhlutfall laganna yrði endurskoðað og hækkað úr 25% í 35% til að mynda nægilegan hvata fyrir erlenda aðila að koma hingað til lands og taka upp tónlist, sem og að hvetja innlenda aðila enn frekar til að nýta sér úrræðið.
    Meiri hluti nefndarinnar tekur undir meginmarkmið frumvarpsins um að framlengja gildistíma laganna og telur mikilvægt að efla og styrkja íslenskan tónlistariðnað áfram með endurgreiðslufyrirkomulagi því sem komið var á með lögum nr. 110/2016.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 8. desember 2022.

Stefán Vagn Stefánsson,
form., frsm.
Berglind Ósk Guðmundsdóttir. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.
Haraldur Benediktsson. Hildur Sverrisdóttir. Tómas A. Tómasson.
Þórarinn Ingi Pétursson.