Ferill 435. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 756  —  435. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007 (greiðslutímabil endurhæfingarlífeyris).

Frá minni hluta velferðarnefndar.


    Í frumvarpi þessu er lagt til að tímabil endurhæfingarlífeyris verði lengt úr 18 mánuðum í 36 mánuði. Einnig er lagt til að hægt verði að framlengja greiðslutímabili um allt að 24 mánuði í stað 18. Með því er hámarkstímabil endurhæfingar lengt úr þremur árum í fimm. Fram hefur komið í umfjöllun nefndarinnar að verði frumvarpið ekki samþykkt muni hópur fólks detta á milli kerfa og missa rétt á töku endurhæfingarlífeyris án þess að hafa öðlast rétt til örorkulífeyris. Fari svo mun þessi hópur enda á félagsbótum sveitarfélaga sem duga varla fyrir salti í grautinn. Það er mikilvægt að tryggja þessu fólki skjól og því mun minni hlutinn styðja málið.
    Engu að síður vill minni hlutinn leggja áherslu á að ástæða þess að umræddur hópur er í þeim vanda sem raun ber vitni er sú hversu erfitt það er að fá viðurkennda örorku. Markmið stjórnvalda um að draga úr nýgengi örorku hafa leitt til þess að nú er erfiðara en nokkru sinni áður að fá viðurkennda örorku og rétt til greiðslu örorkulífeyris. Það segir sig sjálft að ef einstaklingur er ekki vinnufær eftir þriggja ára endurhæfingu þá á hann rétt til örorku almannatrygginga. Endurhæfingin er fullreynd. Þá er þar með ekki sagt að viðkomandi muni aldrei nokkurn tímann gera tilraun til að hefja störf að nýju. Við þurfum einfaldlega að tryggja að almannatryggingakerfið hvetji öryrkja til þátttöku á vinnumarkaði í stað þess að refsa þeim öryrkjum sem fara út á vinnumarkaðinn með grimmilegum tekjuskerðingum. Endurhæfing á að hafa það meginmarkmið að hjálpa þeim sem hafa lent í slysum eða eru að vinna upp styrk í kjölfar veikinda að komast aftur út á vinnumarkaðinn. Endurhæfing er ekki til þess hönnuð að sía út fólk svo að nýgengi örorku lækki.
    Minni hlutinn telur rétt að vekja athygli á ábendingum umsagnaraðila um hversu flókin umgjörðin er í kringum endurhæfingarlífeyri. Þroskahjálp bendir á ýmiss dæmi í umsögn sinni við frumvarp þetta. Samtökin benda á tilvik eins og þegar fötluð ungmenni fá synjun um örorkulífeyri vegna þess að endurhæfing er ekki fullreynd, þrátt fyrir að hafa í höndum álit lækna um að frekari endurhæfing muni ekki skila árangri. Öryrkjabandalagið gagnrýnir hversu gjarnan fólk fær synjun vegna bæði endurhæfingarlífeyris og örorkulífeyris án þess að stjórnvöld leiðbeini þeim á nokkurn hátt um hvers vegna umsóknum var synjað; heimilislæknar séu ekki sérfræðingar í gerð endurhæfingaráætlana og vitað sé að sumir þeirra veigra sér við að gera slíkar áætlanir sökum upplýsinga- og leiðbeiningaskorts Tryggingastofnunar (TR). Öryrkjabandalagið bendir á dæmi þar sem TR hefur synjað umsóknum um örorkulífeyri á þeim grundvelli að endurhæfing sé ekki fullreynd, þrátt fyrir að fyrir liggi læknisvottorð um að frekari endurhæfing muni ekki skila árangri. Öryrkjabandalagið vekur einnig athygli á því að einstaklingar í endurhæfingu þurfi gjarnan að sækja um framhald endurhæfingar með mjög stuttu millibili; endurhæfingarlífeyrir sé samþykktur til sex mánaða í upphafi en við síðari umsóknir sé endurhæfingarlífeyrir öllu jöfnu ekki samþykktur til lengri tíma en 2–3 mánaða. Þegar viðkomandi sækir um framlengingu endurhæfingarlífeyris megi hann búast við að TR taki allt að sex vikur í afgreiðslu umsóknar, að því gefnu að öll gögn hafi borist. Því þarf að sækja um næstu framlengingu um leið og framlenging er samþykkt hverju sinni.
    Minni hlutinn mun styðja málið til að tryggja að fólk lendi ekki á milli skips og bryggju þegar réttur til endurhæfingarlífeyris fellur niður eftir 36 mánuði en telur jafnframt að endurskoða þurfi lögin til að tryggja að þeir sem hafa fullreynt endurhæfingu fái viðurkenndan rétt til örorku. Minni hlutinn leggur til að við slíka endurskoðun verði stofnuð miðstöð endurhæfingar þar sem fólk geti fengið leiðbeiningar, ráðgjöf og úrlausn sinna mála vegna hvers konar endurhæfingar sem þörf er á í hverju tilvik.

Alþingi, 7. desember 2022.

Guðmundur Ingi Kristinsson.