Ferill 382. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 757  —  382. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016 (alþjóðleg vernd).

Frá 1. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Fyrsti minni hluti allsherjar- og menntamálanefndar leggst alfarið gegn því að frumvarp þetta verði samþykkt. 1. minni hluti tekur undir það að ákveðnir annmarkar séu á núgildandi lögum um útlendinga sem nauðsynlegt sé að bregðast við en bendir á að úr þeim annmörkum verði ekki leyst með fyrirliggjandi frumvarpi. Frumvarp það er síðar varð að lögum um útlendinga, nr. 80/2016, var samið á vegum innanríkisráðuneytis og þverpólitískrar þingmannanefndar um málefni útlendinga og fól í sér heildarendurskoðun á lögum um útlendinga, nr. 96/2002. Þingmannanefndin hafði það að leiðarljósi að bæta enn frekar íslenska löggjöf um útlendinga í samráði við helstu sérfræðinga á sviðinu, háskólasamfélagið og sjálfa notendur kerfisins. Var það almenn skoðun hversu mikilvægt það væri fyrir málaflokkinn að breytingar væru unnar í þverpólitískri sátt með ríku samráði við helstu hagaðila.
    Fyrsti minni hluti leggur til að stjórnvöld skipi þverpólitíska þingmannanefnd og að í henni sitji fulltrúar frá helstu hagaðilum sem starfað hafa við málaflokkinn. Í því samhengi er vert að minnast á áskorun Alþýðusambands Íslands, Barnaheilla – Save the Children á Íslandi, Geðhjálpar, Hjálparstarfs kirkjunnar, Íslandsdeildar Amnesty International, Kvenréttindafélags Íslands, Landssamtakanna Þroskahjálpar, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Rauða krossins á Íslandi, Samtakanna ’78, Siðmenntar, samtakanna W.O.M.E.N. in Iceland, UN Women á Íslandi, UNICEF á Íslandi og ÖBÍ frá 19. maí 2022 þar sem ríkisstjórnin var hvött til að stíga skref til baka, dýpka samtalið og samráðið og ná þannig faglegri sátt líkt og áður hefði tekist. Þá kom fram í áskoruninni að áríðandi væri að mikilvægar lagabreytingar eins og þær sem lagðar eru til í frumvarpinu yrðu unnar í samráði og samtali við aðila sem starfa við málaflokkinn og hafa til þess sérþekkingu og reynslu. Við smíði frumvarps þessa virðist slíkt samráð hafa gleymst með öllu og þar með hefur mikilvæg þekking á framkvæmd málaflokksins farið forgörðum.
    Fyrsti minni hluti telur nauðsynlegt að bregðast við þeim áskorunum sem samfélagið stendur frammi fyrir vegna aukins fjölda fólks á flótta í heiminum en allt bendir til þess að sá fjöldi muni aukast á komandi árum. Nauðsynlegt er að Ísland búi sig betur undir móttöku fólks á flótta enda er landið þátttakandi í alþjóðasamfélaginu og því fylgja bæði réttindi og skyldur. Móta þarf innflytjendastefnu og löggjöf sem tekur mið af stöðu mála í heiminum og þörfum íslensks samfélags til framtíðar. Mikilvægt er að sú vinna byggist á skýrri framtíðarsýn, bestu fáanlegu þekkingu og reynslu þeirra sem unnið hafa við málaflokkinn og síðast en ekki síst á viðhorfum innflytjenda sem hafa reynslu af því að setjast að í íslensku samfélagi. Ábyrgjast þarf skilvirkari afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd, tryggja þarf umsækjendum um alþjóðlega vernd rétt til að starfa hér á landi á meðan umsókn þeirra er til meðferðar, ganga þarf úr skugga um að réttindalaust fólk festist ekki í lagalegu tómarúmi hér á landi og nauðsynlegt er að til verði raunhæfar leiðir fyrir ríkisborgara ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins til að sækja um atvinnu og setjast að hér á landi. Allt þetta er hægt að gera með betri yfirsýn yfir málaflokkinn þannig að heildarmarkmið náist um að auka skilvirkni og draga úr kostnaði ríkissjóðs, samhliða því að tryggja ýtrustu mannréttindi þeirra sem hingað leita.
    Rannsóknir sýna að íslenskur vinnumarkaður þarfnast aukins fjölda í ýmis störf á næstu árum og áratugum, þar með talið í fjölmörg störf innan heilbrigðiskerfisins. Þjóðin er að eldast og þörf fyrir vinnandi hendur eykst samfara því. Það ætti því að vera forgangsatriði hjá stjórnvöldum að fá hingað til lands fjölbreyttan hóp fólks til að standa undir grunnþjónustu við hlið innfæddra. Einnig er nauðsynlegt fyrir íslenskt samfélag að móta árangursríka rótfestuáætlun fyrir innflytjendur til að koma í veg fyrir að hér myndist gjá milli þeirra og innfæddra. Í þeirri vinnu verður ekki einungis tekið mið af þörfum fólks á flótta heldur allra þeirra sem setjast hér að. Tryggja þarf innflytjendum, sér í lagi börnum þeirra, jöfn tækifæri og jafnt aðgengi að þjónustu. Það verður ekki gert nema með sérstakri aðlögun og sértækum aðgerðum í þágu barna af erlendum uppruna en því má ekki gleyma að aukin tækifæri og velferð foreldra eru árangursríkasta og besta leiðin til að tryggja börnum aukin tækifæri.
    Frumvarp það sem hér er til umfjöllunar inniheldur fjölmörg ákvæði sem skerða réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd og veita þeim lakari rétt en þann lágmarksrétt sem tryggður er í stjórnsýslulögum, nr. 37/1993. Þá er réttur flóttafólks til fjölskyldusameiningar í ákveðnum tilvikum felldur niður en hann er grundvallarréttur og jafnframt forsenda fyrir árangursríkri inngildingu.
    Allar umsagnir sem bárust nefndinni fela í sér harða gagnrýni á frumvarpið og þær breytingar sem þar eru lagðar til. Margir umsagnaraðilar fjalla um nauðsynlegar breytingar sem gera þarf á lögum um útlendinga, t.d. að veita einstaklingum sem ekki hefur tekist að flytja úr landi eftir margra ára dvöl tækifæri til að fá mál sitt tekið upp í stað þess að þau festist réttindalaus í lagalegu tómarúmi. 1. minni hluti telur mörg þeirra ákvæða sem lögð eru til í frumvarpinu beinlínis til þess fallin að minnka skilvirkni og auka kostnað kerfisins.
    Það er dapurlegt að ríkisstjórnin sjái ekki þau tækifæri sem felast í því að hefja þverpólitíska og þverfaglega vinnu við endurskoðun útlendingalaga og stefnumótun í málefnum útlendinga. Viðhorf ríkisstjórnarinnar í málefnum útlendinga bera vott um skammsýni og afneitun að því er varðar hlutverk og stöðu innflytjenda í íslensku samfélagi á næstu áratugum. 1. minni hluti leggst alfarið gegn því að frumvarpið verði samþykkt og leggur til að 6. og 8. gr. frumvarpsins verði felldar brott enda muni þau ákvæði hafa gríðarlega neikvæðar afleiðingar í för með sér fyrir fólk á flótta og samfélagið í heild.

Samræmi við stjórnarskrána og mannréttindasáttmála Evrópu (MSE).
    Í umsögn Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands frá 11. nóvember 2022 var fundið að því að hvorki væri vísað til ákvæða stjórnarskrárinnar né mannréttindasáttmála Evrópu í athugasemdum með frumvarpinu. Þetta væri afar óheppilegt þar sem efni frumvarpsins varðaði með augljósum hætti mannréttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd. Vísaði stofnunin til þess að til álita kæmi hvort ákvæði í 6. gr. frumvarpsins um brottfall þjónustu samræmdist 65., 68. og 76. gr. stjórnarskrárinnar, 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 13. gr. félagsmálasáttmála Evrópu. Nefndarmenn vöktu athygli á þessu í allsherjar- og menntamálanefnd og gerð var tillaga um að málinu yrði vísað til ráðuneytisins þar sem það væri ótækt til áframhaldandi þinglegrar meðferðar í ljósi þeirra athugasemda sem fram komu í umsögn Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands. Þegar ekki var orðið við því óskuðu þrír nefndarmenn eftir því að Lagastofnun Háskóla Íslands legði mat á það hvort frumvarpið stæðist ákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu. Er enn beðið svara við þeirri beiðni. 1. minni hluti telur ekki þörf á að hafa mörg orð um nauðsyn þess að löggjafinn samþykki ekki frumvarp sem vafi leikur á hvort standist stjórnarskrána.

Tilmæli í umsögnum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.
    Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna skilaði umsögn um frumvarpið sem dagsett er 22. nóvember 2022. Þar er vísað til fyrri umsagna stofnunarinnar um eldri frumvörp sem ekki urðu að lögum og dagsettar voru 16. ágúst 2019 og 29. maí 2020. Í umsögnunum komu fram margvísleg tilmæli stofnunarinnar en ekki hafa verið gerðar breytingar á efni frumvarpsins í samræmi við þau. Verða tilmæli þessi rædd hér að aftan.
    Fyrsti minni hluti telur mikilvægt að taka fram að í 3. mgr. 23. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, er kveðið á um skyldu íslenskra stjórnvalda til að eiga samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna í samræmi við 35. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna, m.a. um framkvæmd og túlkun þess samnings og útlendingalaga, og þá einnig breytingartillagna við lögin. Alþingi Íslendinga getur ekki hunsað ítarleg tilmæli stofnunarinnar um breytingar á frumvarpinu.

Ákvæði um fyrsta griðland/öruggt þriðja ríki.
    Fyrsti minni hluti lýsir þungum áhyggjum vegna þeirra breytinga sem lagðar eru til í 8. gr. frumvarpsins. Þar er mælt fyrir um regluna um fyrsta griðland, þ.e. að umsókn um alþjóðlega vernd skuli afgreidd í fyrsta ríki sem umsækjandi kemur til og getur veitt honum vernd. Í athugasemd um ákvæðið í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að ákvæði í lögum um fyrsta griðland hafi ekki verið beitt að fullu þar sem það sé talið óskýrt.
    Áður en lengra er haldið í umfjöllun um ákvæðið vill 1. minni hluti vekja athygli á því að hér er ekki einungis lagt til að festa í sessi regluna um fyrsta griðland (e. first country of asylum) heldur einnig regluna um öruggt þriðja ríki (e. safe third country). Reglan um öruggt þriðja ríki er mun umdeildari en reglan um fyrsta griðland og er beiting hennar háð fleiri og þrengri skilyrðum en beiting reglunnar um fyrsta griðland.
    Í einföldum dráttum lýtur reglan að því að mögulegt verði að synja umsækjanda um efnismeðferð hafi hann slík tengsl við þriðja ríki að „sanngjarnt og eðlilegt“ geti talist að hann dvelji þar. Athygli er vakin á því að hér er ekki átt við ríki sem eru aðilar að Dyflinnarreglugerðinni heldur ríki sem falla utan hennar. Ekki er gert ráð fyrir því að Ísland hafi gert sérstaka viðtökusamninga við þriðja ríki um móttöku á umsækjendum um alþjóðlega vernd og ekki er gert að skilyrði að umsækjandi hafi dvalið í ríkinu eða hafi þar heimild til dvalar. Þá er ekki gerð krafa um að viðkomandi ríki sé aðili að flóttamannasamningnum þó að fram komi í greinargerð að nauðsynlegt sé að þau réttindi sem mælt er fyrir um í honum séu virt.
    Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna gerði verulegar athugasemdir við umrætt ákvæði og telur 1. minni hluti ljóst að verði ákvæðið að lögum muni það leiða til aukins vanda í kerfinu með tilheyrandi kostnaði. Það hlýtur að vera grundvallarforsenda þess að synja einstaklingi um efnislega meðferð og senda hann til þriðja ríkis að viðkomandi hafi heimild til dvalar í ríkinu og að stjórnvöld í viðtökuríki hafi samþykkt að taka á móti umsækjanda, enda kom það fram á fundi nefndar með fulltrúum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna að slíkt væri eitt skilyrða fyrir því að beita ákvæðinu.
    Hafi íslensk stjórnvöld ekki gert sérstaka viðtökusamninga á borð við þá sem felast í Dyflinnarreglugerðinni er ljóst að gríðarlegt skrifræði mun fylgja umræddri breytingu. Viðbúið er að umsækjendur sem synjað hefur verið um efnismeðferð á þessum grundvelli þurfi að bíða lengi eftir því að yfirgefa landið og í mörgum tilvikum verður ekki hægt að flytja fólk til viðtökuríkis. Ekki er gert ráð fyrir því að fólk eigi rétt á endurupptöku máls síns fáist ekki samþykki viðtökuríkis fyrir móttöku viðkomandi. Hér er þannig um lögfestingu á afar umdeildu ákvæði að ræða því að vafi leikur á því hvort senda megi einstaklinga til þriðja ríkis í öðrum tilvikum en þeim þegar þeim hefur verið veitt vernd af einhverjum toga í ríkinu. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur varað við því að gera það og sett fram tilmæli um afar ströng skilyrði fyrir því að reglunni sé beitt yfirleitt.
    Rætt hefur verið að hér sé komin eins konar innleiðing á alheims-Dyflinnarreglugerð án þeirra lágmarksréttinda sem reglugerðin þó tryggir, svo sem einingu fjölskyldunnar og aukin réttindi fylgdarlausra barna, auk þess sem í reglugerðinni er að finna mikilvæg ákvæði um tímafrest sem tryggir skilvirkni og réttaröryggi. Þá er upplýsinga- og samskiptakerfi aðildarríkja Dyflinnarreglugerðarinnar mjög skilvirkt og þróað. Af þessum sökum er tiltölulega einfalt fyrir aðildarríki reglugerðarinnar að skiptast á upplýsingum. Aukinheldur ríkir samkomulag um viðtöku ríkja á fólki sem fellur undir reglugerðina. Engu slíku er fyrir að fara í hugmyndum frumvarpshöfunda um að senda einstaklinga til öruggs þriðja ríkis. Í ákvæðinu um öruggt þriðja ríki er ekki að finna neinar reglur um lágmarksvernd eins og þær sem eru í Dyflinnarreglugerðinni. Að mati 1. minni hluta er fyrirséð að kostnaður lögreglu og Útlendingastofnunar við framkvæmd brottvísana hækki verulega, dómsmálum fjölgi og að fólk, sem synjað er um efnismeðferð á grundvelli reglunnar án þess að hafa gilt dvalarleyfi eða heimild til að ferðast til ríkisins, verði fast í lagalegu tómarúmi hér á landi.

Ákvæði um þjónustusviptingu.
    Í 6. gr. frumvarpsins er lagt til að umsækjendur um alþjóðlega vernd verði sviptir þjónustu 30 dögum eftir að ákvörðun um synjun varð endanleg á stjórnsýslustigi, enda flokkist fólk þá ekki lengur sem umsækjendur um alþjóðlega vernd heldur útlendingar og eigi þar með ekki rétt til þjónustu sem umsækjendum er tryggð.
    Þrátt fyrir að gerðar séu undantekningar á þessu þegar um börn er að ræða, barnshafandi konur og sérlega viðkvæma einstaklinga, auk þess sem heimilt er að viðhalda þjónustu til handa þeim sem sýnt hefur samstarfsvilja við framkvæmd ákvörðunar um að hann skuli yfirgefa landið, leggst 1. minni hluti alfarið gegn umræddu ákvæði. Verði tillagan um þjónustusviptingu að lögum verða kaflaskil í meðferð íslenskra stjórnvalda á fólki sem óskað hefur eftir vernd. Það skal áréttað að flest sem synjað er um vernd yfirgefa landið annaðhvort sjálfviljug eða þannig að lögregla framkvæmir þvingaða brottvísun. Undirbúningur þvingaðrar brottvísunar getur tekið langan tíma en það er fyrst og fremst á ábyrgð stjórnvalda að framkvæma brottvísun sé umsækjandi ekki reiðubúinn að yfirgefa landið. Með því að nota þjónustusviptingu til að þrýsta á umsækjendur að yfirgefa landið er heimilisleysi, sár fátækt og skortur á heilbrigðisþjónustu notaður sem tæki til að takmarka straum flóttafólks til landsins og neyða fólk til að fara. Eru það beinlínis rök stjórnvalda fyrir þjónustusviptingunni. 1. minni hluti telur óraunhæft að gera ráð fyrir því að allir umsækjendur sem fengið hafa synjun á umsókn sinni yfirgefi landið sjálfviljugir innan 30 daga frá endanlegri synjun. Fólk sem telur sig ekki geta farið til heimaríkis eða annars viðtökuríkis og lögreglu tekst ekki að vísa á brott með þvingaðri brottvísun verður hér áfram. Það mun þá falla sveitarfélögum í skaut að útvega fólkinu þjónustu. Þar með virðist sá hvati verða að engu sem stjórnvöld sjá fyrir sér að komi til við sviptingu þjónustu.
    Hafi fólk ekki rétt á heilbrigðisþjónustu má leiða líkur að því að það leiti sér ekki aðstoðar fyrr en það er orðið fárveikt. Heilbrigðisstarfsfólki er skylt að sinna veiku fólki en hafi það ekki hlotið læknisþjónustu um langt skeið eru auknar líkur á því að sjúkdómar og kvillar krefjist flóknari og dýrari meðferðar en ella. Kostnaður vegna þessa fellur á þá heilbrigðisstofnun sem sinnir viðkomandi sjúklingi. Þá er vert að vísa í umsögn Læknafélags Íslands frá 5. desember 2022 þar sem áréttað er að það að njóta heilbrigðisþjónustu séu grundvallarmannréttindi, eins og komi fram í fjölmörgum mannréttindasamningum sem Ísland hefur staðfest. Er það áréttað í Helsinki-yfirlýsingunni, sem eru siðfræðilegar meginreglur lækna og kveða á um skyldu þeirra til að aðstoða fólk í neyð.
    Jafnframt vísar 1. minni hluti til umsagnar embættis landlæknis sem segir það óásættanlegt að svipta fólk réttinum til heilbrigðisþjónustu. Segir enn fremur að embættið telji heilbrigðisþjónustu vera grundvallarmannréttindi sem byggist á alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, nr. 10/1979. Það bjóði heim hættu fyrir aðra en umsækjanda um vernd ef einstaklingur er haldinn smitsjúkdómi eða geðröskun og þeir kvillar eru hugsanlega ekki metnir alvarlegir við fyrstu sýn og viðkomandi því sviptur heilbrigðisþjónustu.
    Í 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, er kveðið á um að erlendum ríkisborgurum sem ekki eiga lögheimili í landinu skuli í sérstökum tilvikum veitt fjárhagsaðstoð hér á landi. Í 2. mgr. 15. gr. er kveðið á um rétt sveitarfélaga til endurgreiðslu úr ríkissjóði vegna aðstoðar við erlenda ríkisborgara sem ekki eiga lögheimili í landinu. Til ákvæðisins er jafnan vísað með orðunum „aðstoð við útlendinga í neyð“ og telja sveitarfélög sér skylt að veita útlendingum aðstoð samkvæmt því. Fram kom við umfjöllun nefndarinnar að sveitarfélög fái í flestum tilfellum aðstoðina endurgreidda úr ríkissjóði. 1. minni hluti bendir á að til þess að einstaklingur geti óskað eftir umræddum stuðningi þarf hann að fá upplýsingar um að sá stuðningur standi til boða. Fær 1. minni hluti ekki séð hvernig þetta úrræði muni auka skilvirkni í málaflokknum, eða búa til þann þrýsting til brottfarar sem sagður er hvatinn að niðurfellingu þjónustu eins og ákvæðið ber með sér, fyrst þjónusta færist einungis til milli stjórnsýslustiga en er þó greidd af sama ráðuneyti. Telur 1. minni hluti þessa tilfærslu eingöngu til þess fallna að flækja verkefnið og gera það óskilvirkara og óskýrara fyrir þá sem þurfa á þjónustunni að halda.
    Sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að svipta ákveðinn hóp, þó að hann sé án kennitölu og dvalarleyfis, algjörlega réttinum til grunnþjónustu á borð við húsnæði, fæði og heilbrigðisþjónustu getur talist brot á 76. og 68. gr. stjórnarskrárinnar og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Það að frumvarpshöfundar hafi ekki hugleitt að verkefnið myndi við þetta færast til sveitarfélaga í formi stuðnings við útlendinga í neyð sýnir að yfirsýn virðist hafa verið af skornum skammti þegar ríkisstjórnin mótaði hugmyndir um hvata til brottfarar fyrir umsækjendur um vernd með því að fella þjónustu við þá niður.

Breytingar á afmörkun tímafrests.
    Fyrsti minni hluti leggst alfarið gegn þeim breytingum sem lagðar eru til á afmörkun tímafrests í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Frá gildistöku þeirra hafa ítrekað komið upp mál barna sem dvalið hafa hér á landi um langt skeið og fest rætur en verið synjað um alþjóðlega vernd. Slíkt var mál hinnar ellefu ára gömlu Hanyie Maleki frá Afganistan, mál hinnar átta ára gömlu Mary frá Nígeríu árið 2017, mál afgönsku systkinanna Zainab og Amirs Safari, þá tólf og fjórtán ára, árið 2019, og mál hins sex ára gamla Muhammeds Zohairs Faisals árið 2020. Umrædd mál leiddu öll til breytinga á lögum eða reglugerð um útlendinga. Mál Hanyie og Mary árið 2017 leiddu til breytinga á lögum um útlendinga en Katrín Jakobsdóttir var fyrsti flutningsmaður frumvarps þess sem varð að lögum nr. 81/2017, um breytingu á lögum um útlendinga. Mál systkinanna Zainab og Amirs Safari leiddi til þess að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þáverandi dómsmálaráðherra, setti reglugerð nr. 638/2019, um breytingu á reglugerð um útlendinga, nr. 540/2017, sem fól í sér heimild Útlendingastofnunar til að taka til efnismeðferðar umsókn barns sem fengið hefur vernd í öðru ríki séu meira en tíu mánuðir liðnir frá því að umsókn barst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs. Mál Muhammeds Zohairs Faisals leiddi til þess að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttur, þáverandi dómsmálaráðherra, setti reglugerð nr. 122/2020, um breytingu á reglugerð um útlendinga, nr. 540/2017, þar sem kveðið er á um að þrátt fyrir 4. mgr. 23. gr. laga um útlendinga skuli umsóknum barna skv. 37. og 39. gr. laganna svarað innan 16 mánaða. Þá væri heimilt að veita barni, sem sótt hefði um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu á stjórnsýslustigi innan 16 mánaða frá því að það sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi, dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða að uppfylltum öðrum skilyrðum.
    Með 8. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á afmörkun tímafrests núgildandi laga sem leiðir til þess að tímafrestur til að öðlast rétt til efnislegrar meðferðar vegna tafa á málsmeðferð stöðvist þegar endanleg niðurstaða er fengin á stjórnsýslustigi í stað þess að slíkt gerist við flutning úr landi líkt og nú er. Þetta leiðir til þess að umsækjendur, þar með talin börn, sem synjað er um efnismeðferð hjá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála innan tólf mánaða frá því að umsókn var lögð fram öðlast engan rétt til efnismeðferðar þó að flutningur þeirra úr landi dragist úr hófi. Er það óháð því hvort þau geti haft áhrif á það hvenær þau yfirgefa landið.
    Þetta mun að mati 1. minni hluta leiða til minni skilvirkni stjórnvalda við að afgreiða umsóknir innan tímafrests og til þess að sífellt fleiri börn sem dvalið hafa hér um langt skeið og fest rætur munu ekki öðlast neinn rétt á þeim grundvelli heldur dvelja hér áfram í óvissu án nokkurra réttinda. 1. minni hluti telur ótækt að horfið verði frá þeim réttarbótum sem gerðar hafa verið undanfarin ár í þágu barna á flótta og leggur til breytingu til að verja þær.

    Fyrsti minni hluti áréttar að hann leggst gegn málinu en verði frumvarpið samþykkt telur 1. minni hluti nauðsynlegt að það verði gert með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      6. gr. falli brott.
     2.      8. gr. falli brott.
     3.      A-liður 17. gr. orðist svo: Í stað orðanna „ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: er enn hér á landi 18 mánuðum eftir að hann lagði fram umsókn.

    Sigmar Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 6. desember 2022.

Helga Vala Helgadóttir.