Ferill 278. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 760  —  278. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála, lögum um meðferð sakamála og lögum um dómstóla (ýmsar breytingar).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þorvald Heiðar Þorsteinsson og Hákon Þorsteinsson frá dómsmálaráðuneytinu og Jón Gunnar Ásbjörnsson frá Lögmannafélagi Íslands.
    Við vinnslu málsins hafði nefndin til hliðsjónar umsagnir frá Lögmannafélagi Íslands og Landsrétti frá því þegar drög að frumvarpinu voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda. Þá barst nefndinni erindi frá dómsmálaráðuneytinu.

Efni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, og lögum um dómstóla, nr. 50/2016. Mikilvægustu breytingarnar sem lagðar eru til með frumvarpinu varða heimild til að sækja um kæruleyfi til Hæstaréttar Íslands í auknum mæli sem og rýmri skilyrði fyrir því að áfrýja héraðsdómi beint til Hæstaréttar. Aðrar breytingar miða ýmist að því að skýra eða einfalda gildandi lagaákvæði eða færa þau til betri vegar í ljósi fenginnar reynslu.

Umfjöllun og breytingartillögur nefndarinnar.
Framlenging gæsluvarðhalds án dómsúrskurðar við ákveðnar aðstæður (12. gr.).
    Nefndin fjallaði sérstaklega um 12. gr. frumvarpsins. Þar er lagt til að nýjum málslið verði bætt við 1. mgr. 98. gr. laga um meðferð sakamála þar sem mælt verði fyrir um það með skýrum hætti að þegar krafist sé framlengingar á gæsluvarðhaldi og dómari taki kröfuna fyrir áður en það renni út falli það gæsluvarðhald ekki niður á meðan dómari hafi kröfuna til meðferðar. Með ákvæðinu verði þannig tekinn af vafi um hvort gæsluvarðhald standi áfram á meðan dómari hefur til meðferðar beiðni lögreglu um framlengingu gæsluvarðhalds.
    Nefndin fjallaði um hvort framangreint stæðist ákvæði 67. gr. stjórnarskrárinnar um frelsissviptingu þar sem gæsluvarðhald getur í þessum tilvikum lengst um allt að 24 klukkustundir án sérstaks dómsúrskurðar. Samkvæmt lögum um meðferð sakamála er almenna reglan sú að heimilt er að úrskurða sakborning í gæsluvarðhald að hámarki í 12 vikur og ávallt þarf nýjan dómsúrskurð þegar að framlengingu þess kemur. Við umfjöllun málsins komu fram sjónarmið um að óvarlegt væri að heimila að hægt væri að bæta við 24 klukkustundum við gæsluvarðhald án þess að dómari úrskurðaði sérstaklega um það og óábyrgt að breyta þeirri reglu, enda grundvallarmannréttindi í húfi. Bent var á að stæði lögreglan frammi fyrir því að gæsluvarðhald væri að renna út væri eðlilegt að hún þyrfti að leggja tímanlega fram nýja kröfu um gæsluvarðhald og fá heimild til að halda sakborningi áfram í gæsluvarðhaldi.
    Af hálfu ráðuneytisins kom fram að ríkir hagsmunir kunni að búa að baki því að gæsluvarðhaldsfanga verði ekki sleppt úr haldi á meðan dómari ákveði hvort orðið skuli við beiðni um framlengingu gæsluvarðhalds, jafnvel þótt aðeins sé um örfáar klukkustundir að ræða. Þetta eigi við hvort heldur sem gæsluvarðhald byggist á rannsóknarhagsmunum eða því að viðkomandi teljist hættulegur sjálfum sér eða öðrum. Þá geta þær aðstæður skapast að sleppa þurfi sakborningi á meðan dómari tekur ákvörðun um framlengingu gæsluvarðhalds, eingöngu til að handtaka hann strax aftur þegar búið er að kveða upp úrskurð um framlengingu. Ein leið til að ráða bót á þessu væri að mæla fyrir um að krafa um framlengingu gæsluvarðhalds yrði fortakslaust að vera fram komin 24 klukkustundum áður en gæsluvarðhald rynni út. Slíkt fæli á hinn bóginn í sér að sá tími sem lögregla og ákæruvald hefði til að rannsaka sakamál yrði styttur sem því næmi og þjónaði þannig ekki þeim hagsmunum sem væru í húfi, auk þess sem í mörgum tilvikum væri ekki endilega orðið ljóst á þessum tímapunkti hvort gera þyrfti kröfu um framlengingu gæsluvarðhalds. Fyrir nefndinni kom fram að eftir sem áður er dómara ávallt skylt að kveða upp úrskurð um kröfu um gæsluvarðhald og framlengingu þess svo fljótt sem verða má og jafnframt er skylt að kveða upp úrskurð innan 24 klukkustunda frá þeim tíma að sakborningur, sem handtekinn hefur verið, kom fyrir dóm, sbr. 94. gr. laga um meðferð sakamála. Þá var bent á að fari dómari fram úr þeim tímamörkum sem honum séu sett kunni gæsluvarðhaldsfangi að eiga rétt bótum á grundvelli XXXIX. kafla laga um meðferð sakamála síðar meir, sem stuðlaði jafnframt að því að leyst yrði úr kröfu innan tilhlýðilegs tíma.
    Nefndin bendir á að 12. gr. frumvarpsins er ætlað að mæla fyrir um skýra lagaheimild um að lögreglu sé heimilt að halda sakborningi á meðan dómari tekur ákvörðun um framlengingu gæsluvarðhalds. Nefndin undirstrikar að framlenging gæsluvarðhalds við þessar aðstæður er íþyngjandi fyrir sakborning þrátt fyrir að mikilvægir hagsmunir, t.d. vegna rannsóknar lögreglu, kunni að vera í húfi. Nefndin fjallaði sérstaklega um þann ramma sem 67. gr. stjórnarskrárinnar setur um frelsissviptingu og þá meðalhófsreglu sem mælt er fyrir um í 3. mgr. 67. gr. hennar um að gæsluvarðhald skuli aldrei standa lengur en nauðsyn krefur. Nefndin telur nauðsynlegt að þessi heimild verði skoðuð frekar og leggur því til breytingu á frumvarpinu þess efnis að 12. gr. falli brott.

Tilvísun til Landsréttar í lögum nr. 61/2022.
    Eftir að frumvarpinu var vísað til nefndarinnar komu fram ábendingar af hálfu dómsmálaráðuneytisins um að orðalag í 5. mgr. 212. gr. og 1. málsl. 4. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála kynni að vera óheppilegt. Bæði ákvæðin komu ný inn í lög um meðferð sakamála með lögum nr. 61/2022 (bætt réttarstaða brotaþola, fatlaðs fólks og aðstandenda), sem tóku gildi hvað þessi ákvæði varðar hinn 13. júlí sl. Ákvæðin lúta að frávísun einkaréttarkröfu frá Landsrétti á grundvelli XXVI. kafla laganna, sem fjallar um einkaréttarkröfur, sbr. og 2. mgr. 176. gr. laganna.
    Tilvísun til orðsins „Landsréttur“ í ákvæðunum er óheppileg í þeim tilvikum þegar ákærði í sakamáli er sýknaður með dómi Landsréttar, þar sem Landsréttur vísar einkaréttarkröfu brotaþola nær undantekningarlaust frá héraðsdómi en ekki Landsrétti eins og ákvæðin geri ráð fyrir. Sökum þessa bendir ráðuneytið á að rétt þyki að breyta orðalagi ákvæðanna svo að þau þjóni betur tilgangi sínum, þ.e. að bæta réttarstöðu brotaþola. Í báðum tilvikum lúti breytingartillagan nánar tiltekið að því að skilyrða meðferð einkaréttarkröfu fyrir Hæstarétti, í þeim tilvikum þegar Hæstiréttur snýr við sýknudómi Landsréttar og sakfellir ákærða í refsiþætti málsins, við það að slíkri kröfu hafi verið vísað frá dómi, í stað þess að binda slíka dómsmeðferð við að einkaréttarkröfu hafi verið vísað frá Landsrétti. Að öðrum kosti kynnu einhverjir brotaþolar að fara á mis við það réttarhagræði við meðferð sakamála fyrir Hæstarétti að geta krafist þess að einkaréttarkröfu þeirra verði vísað til sérstakrar meðferðar í einkamáli í Landsrétti, snúi Hæstiréttur sýknudómi Landsréttar við og sakfelli ákærða. Í ljósi þessara sjónarmiða leggur nefndin til að orðinu „Landsrétti“ verði skipt út á báðum stöðum fyrir orðið „dómi“.
    Þá leggur nefndin til breytingu á 3. gr. frumvarpsins sem er tæknilegs eðlis.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 3. gr. bætist nýr liður, svohljóðandi: Í stað orðanna „Telji hann“ í 2. málsl. 148. gr. laganna kemur: Telji gagnaðili.
     2.      12. gr. falli brott.
     3.      Á eftir 15. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
             Í stað orðsins „Landsrétti“ í 5. mgr. 212. gr. og 4. mgr. 218. gr. laganna kemur: dómi.

    Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson og Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Sigmar Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 8. desember 2022.

Bryndís Haraldsdóttir,
form., frsm.
Eyjólfur Ármannsson. Helga Vala Helgadóttir.
Jódís Skúladóttir. Jóhann Friðrik Friðriksson. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir.