Ferill 569. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Prentað upp.

Þingskjal 761  —  569. mál.
Flutningsmenn.




Beiðni um skýrslu


frá innviðaráðherra um jöfnun kostnaðar vegna flugvélaeldsneytis.

Frá Ingibjörgu Isaksen, Þórarni Inga Péturssyni, Líneik Önnu Sævarsdóttur, Hafdísi Hrönn Hafsteinsdóttur, Jóhanni Friðriki Friðrikssyni, Lilju Rannveigu Sigurgeirsdóttur, Höllu Signýju Kristjánsdóttur, Jakobi Frímanni Magnússyni, Berglindi Ósk Guðmundsdóttur, Loga Einarssyni, Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, Jódísi Skúladóttur og Njáli Trausta Friðbertssyni.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að ráðherra flytji Alþingi skýrslu um hugsanlegar aðgerðir til að lækka kostnað vegna flugvélaeldsneytis og afgreiðslu þess á Akureyrarflugvelli og Egilsstaðaflugvelli svo að hann verði jafn kostnaðinum á þeim flugvelli þar sem hann er lægstur. Umfjöllunarefni skýrslunnar verði eftirfarandi:
     a.      Aðstöðumunur flugvalla með tilliti til kostnaðar vegna flugvélaeldsneytis og afgreiðslu þess.
     b.      Úttekt á hugsanlegum aðgerðum til jöfnunar á framangreindum kostnaði og greining á kostnaði við þær aðgerðir.
     c.      Mat á því hver hagkvæmasta aðgerðin eða hagkvæmustu aðgerðirnar eru til að ná fyrrgreindu markmiði.
     d.      Fýsileiki þess tryggja örugga birgðastöð flugvélaeldsneytis á Akureyri og Egilsstöðum.

Greinargerð.

    Nær allar flugvélar í atvinnuflugi nota flugsteinolíu sem eldsneyti, svonefnt Jet A-1. Öll flugsteinolía, sem notuð er á flugvélar hér á landi, er flutt inn til landsins og geymd í Helguvík, og miklar kröfur eru gerðar varðandi meðhöndlun hennar. Vegna þessa er afgreiðsla flugsteinolíu dýrari en afgreiðsla annarra tegunda eldsneytis. Á Keflavíkurflugvelli, langstærsta flugvelli landsins, er samkeppni til staðar milli félaga um afgreiðslu flugsteinolíu. Þar er kostnaður af flugsteinolíu og afgreiðslu þess lægstur á landinu. Hins vegar er aðeins einn aðili sem veitir slíka þjónustu á Akureyrarflugvelli og Egilsstaðaflugvelli. Því er einingarverð á flugsteinolíu, þ.e. kostnaður fyrir hvern lítra, töluvert hærra á Akureyrarflugvelli og Egilsstaðaflugvelli, sbr. greiningu sérfræðinga.
    Það er því skýr aðstöðumunur milli flugvalla, sem ber að lagfæra á grundvelli byggðasjónarmiða, umhverfissjónarmiða og öryggissjónarmiða. Í h-lið, B. hluta II. kafla þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018–2024 kemur fram að jafna eigi aðstöðumun millilandaflugvalla.
    Í sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs frá 2021 koma m.a. eftirfarandi markmið fram:
    „Áætlanir í samgöngumálum, húsnæðismálum og skipulagsmálum verða samþættar og lagðar fram samhliða og þannig tryggt að samgöngur séu í þágu byggðar og loftslags til að uppfylla ferðaþörf og skapa sjálfbær hverfi og sjálfbærar byggðir.“ (bls. 36)
    „Unnið verður að því í samstarfi ríkis og sveitarfélaga að efla almenningssamgöngur á landsbyggðinni.“ (bls. 40)
    Einnig er vert að benda á að mikill verðmunur leiðir til þess að flugrekendur eru líklegri til að kaupa meiri flugsteinolíu en þörf er á og þyngja vélar í kjölfarið. Þyngri vélar losa meira, sem fer gegn markmiðum Íslands í umhverfismálum. Einnig er það öryggismál að eldsneytisbirgðir séu nægar og aðgengilegar á öllum flugvöllum.
    Sérfræðingar hafa bent á nauðsyn þess að jafna kostnað vegna flugvélaeldsneytis og mögulegar leiðir til þess. Meðal þeirra leiða er niðurgreiðsla kostnaðar við flutning og afgreiðslu flugsteinolíu af hálfu ríkisins. Hins vegar er það álitamál hvernig framkvæma eigi slíka niðurgreiðslu, hlutfall hennar og fyrir hvaða flugferðir yrði niðurgreitt.
    Einnig hefur verið bent á mögulega fjárfestingu í tanki á Krossanesi og/eða dreifikerfi ásamt fleiri innviðum og afgreiðslubúnaði. Ásamt þessu gæti það verið fýsilegt að stofna óhagnaðardrifið afgreiðslufyrirtæki, sem myndi afgreiða lendingar og brottfarir á umræddum flugvöllum.
    Skýrslubeiðendum er ljóst að ýmsar leiðir eru til staðar til að ná því markmiði að jafna kostnað af flugsteinolíu og afgreiðslu hennar milli millilandaflugvalla hér á landi. Um er að ræða mikilvæga aðgerð til jöfnunar atvinnutækifæra á Akureyri og Egilsstöðum, en vilji stjórnvalda til þess hefur verið staðfestur í þingsályktun um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018–2024 og víðar.