Ferill 532. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 762  —  532. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018 (framlenging á bráðabirgðaákvæði I).

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jónu Guðnýju Eyjólfsdóttur og Þór G. Þórarinsson frá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, Sunnu Elviru Þorkelsdóttur og Þuríði Hörpu Sigurðardóttur frá Öryrkjabandalagi Íslands, Unni Helgu Óttarsdóttur frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Hjört Örn Eysteinsson, Katrínu Oddsdóttur og Rúnar Björn Herrera Þorkelsson frá NPA-miðstöðinni og Guðjón Bragason og Maríu Kristjánsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Nefndinni barst umsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og minnisblað frá NPA-miðstöðinni.
    Markmið frumvarpsins er að lengja innleiðingartíma ákvæðis til bráðabirgða I í lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018, til loka árs 2024. Þá er lagt til að á árunum 2023 og 2024 verði veitt framlag til að uppfylla efni bráðabirgðaákvæðisins og að samningar um notendastýrða persónulega aðstoð verði allt að 145 á árinu 2023 og allt að 172 á árinu 2024.
    Gestir sem komu fyrir nefndina fögnuðu framkomnu frumvarpi og lögðu áherslu á að það yrði afgreitt fyrir áramót. Gestirnir lögðu þó áherslu á að næstu tvö ár yrðu nýtt vel til úrlausnar þeirra álitamála sem upp hafa komið er varða þjónustu um notendastýrða persónulega aðstoð. Meiri hlutinn tekur undir það og bendir á að gerð sé grein fyrir álitaefnum í greinargerð með frumvarpinu og í umsögnum um frumvarpið til nefndarinnar.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Ásmundur Friðriksson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álitið samkvæmt heimild í 2. mgr. 29. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991.

Alþingi, 9. desember 2022.


Líneik Anna Sævarsdóttir,
form.
Jódís Skúladóttir,
frsm.
Ásmundur Friðriksson.
Guðrún Hafsteinsdóttir. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir. Óli Björn Kárason.