Ferill 573. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 766  —  573. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, nr. 46/2016 (tilgreining ríkisaðila).

Flm.: Birgir Ármannsson.


1. gr.

    Í stað orðsins „A-hluta“ í a-lið 1. mgr. 4. gr. laganna kemur: A1-hluta.

2. gr.

    Í stað orðsins „A-hluta“ í 1. mgr. 8. gr. laganna kemur: A1-hluta.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta er lagt fram af forseta Alþingis og samið í nánu samráði við embætti ríkisendurskoðanda. Tilefni þess er að með lögum nr. 131/2021, um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2022, var flokkun ríkisaðila breytt samkvæmt lögum nr. 123/2015, um opinber fjármál.
    Hinn 1. janúar 2022 tók gildi breytt flokkun ríkisaðila til samræmis við endurskoðun Hagstofu Íslands á flokkun tiltekinna stofnanaeininga í þjóðhagsreikningum. Það fól í sér breytta framsetningu á ríkisfjármálum á þann veg að A-hluti skiptist í þrennt, þ.e. A1-, A2- og A3-hluta, þar sem ríkissjóður (A1-hluti) svarar nú til fyrri A-hluta. Til A2-hluta telst starfsemi lána og fjárfestingarsjóða og önnur starfsemi sem er rekin undir stjórn ríkisins og stendur undir sér með sölu á vöru eða þjónustu, leigu og lánastarfsemi. Til A3-hluta telst starfsemi hlutafélaga sem eru að meiri hluta í eigu ríkissjóðs en sinna hlutverkum á sviði opinberrar þjónustu samkvæmt alþjóðlegum hagskýrslustöðlum. Þeir ríkisaðilar sem nú teljast til A2- og A3-hluta svara til fyrri B- og C-hluta. Í lögum nr. 46/2016, um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, er á tveimur stöðum vísað til stofnana í A-hluta ríkisreiknings samkvæmt eldri flokkun laga um opinber fjármál. Annars vegar er það í a-lið 1. mgr. 4. gr. laganna, þar sem segir að starfssvið ríkisendurskoðanda taki til „endurskoðunar ríkisreiknings og ársreikninga ríkisaðila í A-hluta ríkisreiknings, sbr. lög um opinber fjármál, þar sem kostnaður er greiddur af ríkissjóði samkvæmt fjárlögum“. Hins vegar er vísað til stofnana í A-hluta ríkisreiknings í 1. mgr. 8. gr. laganna, sem hefur að geyma gjaldtökuheimild embættisins vegna fjárhagsendurskoðunar, en þar segir: „Ríkisendurskoðanda er heimilt að taka gjald fyrir fjárhagsendurskoðun á ársreikningum aðila sem falla undir eftirlit hans að undanskildum stofnunum í A-hluta ríkisreiknings, sbr. lög um opinber fjármál, er nemi þeim kostnaði sem af endurskoðuninni hlýst.“ Nauðsynlegt er að breyta framangreindum ákvæðum til samræmis við breytta flokkun ríkisaðila samkvæmt lögum um opinber fjármál, einkum í því ljósi að tryggja að enginn vafi sé um þær heimildir sem embættið hefur til gjaldtöku vegna fjárhagsendurskoðunar á ársreikningum aðila sem flokkast nú sem A2- og A3-hluta ríkisaðilar.