Ferill 188. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 771  —  188. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um Vísinda- og nýsköpunarráð.

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Rósu Guðrúnu Erlingsdóttur og Hermann Sæmundsson frá forsætisráðuneyti, Valdimar Össurarson frá Samtökum frumkvöðla og hugvitsmanna, Elinóru Ingu Sigurðardóttur frá KVENN – félagi kvenna í nýsköpun, Einar Mäntylä frá Auðnu tæknitorgi, Bergþóru Halldórsdóttur og Nönnu Elísu Jakobsdóttur frá Samtökum iðnaðarins, Guðbjörgu Lindu Rafnsdóttur og Jón Atla Benediktsson frá Háskóla Íslands, Sigurð H. Markússon og Freyju H. Dagbjartsdóttur frá Landsvirkjun, Ágúst Hjört Ingþórsson og Sigurð Óla Sigurðsson frá Rannís – Rannsóknamiðstöð Íslands og Svönu H. Björnsdóttur og Árna H. Björnsson frá Verkfræðingafélagi Íslands.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Auðnu tæknitorgi, Háskóla Íslands, Landsvirkjun, Rannís – Rannsóknamiðstöð Íslands, Samtökum frumkvöðla og hugvitsmanna, Samtökum iðnaðarins og Verkfræðingafélagi Íslands. Þá barst nefndinni minnisblað frá forsætisráðuneyti auk erindis og skýrslu frá Samtökum frumkvöðla og hugvitsmanna.

Efni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er lagt til að sett verði ný lög um Vísinda- og nýsköpunarráð en felld úr gildi lög um Vísinda- og tækniráð, nr. 2/2003. Lagt er til nýtt fyrirkomulag til að styrkja stefnumótun vísinda- og nýsköpunarmála til framtíðar og kveðið skýrar á um hlutverk helstu aðila, þ.e. Vísinda- og nýsköpunarráðs og nýrrar ráðherranefndar um vísindi- og nýsköpun. Samkvæmt frumvarpinu verði það hlutverk ráðherranefndarinnar að samræma stefnu stjórnvalda þvert á ráðuneyti og auka yfirsýn í stefnumálum vísinda og nýsköpunar. Vísinda- og nýsköpunarráð verði sjálfstætt ráðgjafarráð sem eigi í reglubundnu samstarfi við ráðherranefnd um vísindi og nýsköpun. Lagt er til að ráðið verði skipað fólki með umtalsverða reynslu á vettvangi vísinda, nýsköpunar og tækni og að sérstök tilnefningarnefnd leggi fram tillögu fyrir forsætisráðherra um skipan þess. Fagleg umsýsla ráðherranefndarinnar verði hjá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, m.a. að því er varðar undirbúning, útfærslu stefnumótunar og greiningar- og upplýsingavinnu auk þess sem ráðuneytið mun undirbúa fundi Vísinda- og nýsköpunarráðs. Þá verður lögð áhersla á öfluga greiningarvinnu.

Umfjöllun nefndarinnar.
Stefnumótun á sviði vísinda, tækniþróunar og nýsköpunar.
    Með frumvarpinu er lagt til að skilið verði milli ráðgefandi og stefnumótandi hlutverks ráðsins. Þannig verði sérstakri ráðherranefnd um vísindi og nýsköpun falið að fara með stefnumótandi hlutverk og Vísinda- og nýsköpunarráði ráðgefandi hlutverk sem byggist á traustri greiningu. Um þetta er fjallað í 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins en þar kemur fram að ráðherranefndin samræmi stefnu stjórnvalda á sviði vísinda, tækniþróunar og nýsköpunar. Samræmda stefnu stjórnvalda skuli birta í tvennu lagi, annars vegar framtíðarsýn til tíu ára sem endurskoðuð skuli á fjögurra ára fresti og hins vegar aðgerðaáætlun til tveggja ára í senn. Í greinargerð með frumvarpinu er fjallað um stefnumótun og aðkomu ráðherranefndar að henni með ýmsum hætti og gætir ekki fulls samræmis að því leyti, þ.e. hvort stefnumótun sé í höndum ráðherranefndarinnar eða að hlutverk nefndarinnar takmarkist við samræmingu á stefnu stjórnvalda þar sem stefnumótunarhlutverkið sé á hendi hvers ráðherra sem sæti á í nefndinni.
    Við skýringu ákvæðisins er rétt að líta til þeirrar grunnreglu stjórnskipunarinnar að ráðherrar eru sjálfstæðir í störfum sínum, óháðir hver öðrum og taka ekki við fyrirmælum um ákvarðanir eða annað á málefnasviði sínu. Þá ber ráðherra ábyrgð á ákvörðunum og stjórnarframkvæmdum sem undir hann heyra, sbr. 14. gr. stjórnarskrárinnar. Með hliðsjón af því er ljóst að ráðherranefndin getur ekki farið sameiginlega með stefnumótun á sviði vísinda, tækniþróunar og nýsköpunar heldur fer hver ráðherra um sig með stefnumörkun á því málefnasviði sem undir hann heyrir í samræmi við forsetaúrskurð hverju sinni. Líkt og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu snúa málefni vísinda og nýsköpunar að öllum ráðuneytum og í raun að flestum sviðum samfélagsins. Það er því mikilvægt að fyrir hendi sé öflugur upplýsingavettvangur til að tryggja samræmingu stefnu stjórnvalda þvert á ráðuneyti. Ráðherranefndin gegnir hlutverki slíks vettvangs og má með því samstarfi ráðherra og ráðuneyta tryggja að stefnumörkun hvers ráðherra á málefnasviðinu sé ekki í mótsögn við stefnu annars. Það verður á hendi ráðherranefndarinnar að samræma framtíðarsýn í málefnum vísinda og nýsköpunar sem verði leiðarljós fyrir stefnumótun ráðuneyta og aðgerðaáætlunar á málefnasviðinu. Sú framtíðarsýn verði birt með stefnu og aðgerðaáætlun en einnig með öðrum hætti, t.d. miðlað á Stjórnarráðsvefnum.

Skipan í tilnefningarnefnd.
    Í 5. gr. frumvarpsins er kveðið á um tilnefningarnefnd sem skal tilnefna fulltrúa til skipanar í Vísinda- og nýsköpunarráð. Ráðherra skipar að höfðu samráði við ráðherra sem fer með málefni vísinda og nýsköpunar fimm einstaklinga í nefndina, tvo samkvæmt tilnefningu samstarfsnefndar háskólastigsins, einn samkvæmt tilnefningu samtaka fyrirtækja í atvinnurekstri, einn samkvæmt tilnefningu samtaka launafólks og einn án tilnefningar sem skal vera formaður. Fram komu athugasemdir við þá aðila sem tilnefna einstaklinga í nefndina. Var m.a. gagnrýnt að samtök frumkvöðla eða félög einstaklinga með mikla þekkingu á nýsköpun ættu ekki aðkomu að því að tilnefna. Meiri hluti nefndarinnar minnir á umfjöllun í greinargerð um skipan tilnefningarnefndar. Þar kemur fram að tilnefningarnefnd skuli vinna í samráði við ráðuneyti og hagaðila og óska eftir tillögum að fulltrúum í ráðið. Á grundvelli þessa samráðs geri tilnefningarnefnd tillögu að ráði. Í minnisblaði sem nefndinni barst frá forsætisráðuneyti er einnig vísað til greinargerðar með frumvarpinu að þessu leyti og tekið fram að samsetning ráðsins eigi þar af leiðandi ekki að ráðast af bakgrunni þeirra fulltrúa sem veljast til starfa í tilnefningarnefnd. Meiri hluti nefndarinnar tekur undir það en leggur hins vegar áherslu á að stjórnvöld eigi virkara samráð við félög og einstaklinga sem vinna að nýsköpunarmálum.
    Einnig voru gerðar athugasemdir við að samtök launþega tilnefndu einn einstakling og bent á að launþegasamtök hefðu verið áhugalítil í nýsköpunarumræðu undanfarin ár. Varðandi aðkomu samtaka launþega tekur nefndin undir þau rök sem fram koma í áðurnefndu minnisblaði ráðuneytisins. Þar er vísað til þess að eitt af hlutverkum ráðsins sé að tryggja að stefnumótun á sviði menntunar og fræðslu sé í samræmi við þarfir vinnumarkaðar og atvinnulífs. Meðal aðgerða í Vísinda- og tæknistefnu sem nái til áranna 2020–2022 sé kveðið á um að stjórnvöld móti í samstarfi við hagsmunaaðila færni- og hæfnistefnu fyrir íslenskt atvinnulíf.
    Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. skal tilnefningarnefnd við tilnefningu fulltrúa í ráðið hafa hlutverk ráðsins að leiðarljósi og leggja áherslu á að það sé skipað fólki með yfirgripsmikla þekkingu og reynslu á sviði vísinda, tækniþróunar og nýsköpunar. Fram komu sjónarmið þess efnis að ástæða væri til að skerpa á því hvaða þekking skuli vera til innan ráðsins en þekking á helstu samfélagsáskorunum, svo sem orkuskiptum og loftslagsáhrifum, ásamt lykilatvinnuvegum og útflutningsgreinum Íslands sé mikilvæg fyrir samhengi íslenskrar nýsköpunar. Meiri hluti nefndarinnar tekur undir mikilvægi þess að þekking á þessum sviðum sé fyrir hendi innan ráðsins en telur ekki þörf á því að leggja til breytingartillögu vegna þessa.

Umsýsla Vísinda- og nýsköpunarráðs.
    Í umsögn Rannís – Rannsóknamiðstöðvar Íslands var bent á mikilvægi þess að nýtt Vísinda- og nýsköpunarráð hefði gott samráð við hagaðila í vísindum og nýsköpun. Þar kom einnig fram sú skoðun að sjálfstæði ráðsins yrði best tryggt með því að fagleg umsýsla þess, þ.m.t. upplýsingasöfnun og greining um rannsóknir og nýsköpun, væri á hendi stofnunar utan Stjórnarráðsins.
    Samkvæmt 4. gr. frumvarpsins er það háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti sem fer með faglega umsýslu fyrir ráðherranefndina, undirbýr fundi Vísinda- og nýsköpunarráðs og ráðherranefndar og sinnir öðrum verkefnum við undirbúning stefnumótunar og greiningar- og upplýsingavinnu.
    Meiri hluti nefndarinnar tekur undir mikilvægi þess að samráð sé virkt og gott og áréttar jafnframt að frumvarpið breytir ekki hlutverki eða lagalegri stöðu Rannsóknamiðstöðvar Íslands samkvæmt lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003. Skv. 12. gr. þeirra laga, sbr. þær breytingar sem lagðar eru til með 1. tölul. 8. gr. frumvarpsins, er miðstöðinni enn ætlað að annast faglega umsýslu ýmissa sjóða, sjá um þjónustu við fagráð og stjórnir, gangast fyrir mati á árangri rannsókna, þróunar og nýsköpunar, og annast gagnasöfnun og miðlun upplýsinga fyrir ráðherranefnd um vísindi og nýsköpun og Vísinda- og nýsköpunarráð. Meiri hluti nefndarinnar telur jákvætt að leitað sé til sérfræðinga Rannsóknamiðstöðvar Íslands til að nýta sérþekkingu sem þau búa yfir en telur jafnframt mikilvægt að faglegri umsýslu sé stýrt af þessu nýja ráðuneyti sem stuðla á að aukinni sérþekkingu og áherslu á málefnasvið vísinda, tækniþróunar og nýsköpunar. Það getur einnig orðið til að styrkja enn frekar uppbyggingu faglegrar þekkingar í ráðuneytinu.

Breytingartillögur meiri hluta nefndarinnar.
Samráð ráðherranefndar og Vísinda- og nýsköpunarráðs (3. gr.).
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið þess efnis að varasamt væri að aðskilja stefnumótun og ráðgjöf á málefnasviðinu líkt og lagt er til í frumvarpinu með lögfestingu ráðherranefndar og lögbundnu ráðgefandi hlutverki Vísinda- og nýsköpunarráðs. Bent var á að markmið laga um Vísinda- og tækniráð hafi verið að færa stefnumótun á sviði háskóla, vísinda og nýsköpunar á efsta stig stjórnsýslunnar og styrkja með formlegum hætti samtal stjórnvalda við háskóla- og vísindasamfélagið og atvinnulífið. Mikilvægt sé að ráðherrar, vísindasamfélagið og atvinnulífið starfi á sameiginlegum vettvangi. Þá var bent á að virkt samstarf ráðherranefndar og ráðgefandi nefndar Vísinda- og nýsköpunarráðs væri forsenda þess að tækist að styrkja íslenskt þekkingarsamfélag og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Meiri hluti nefndarinnar tekur heils hugar undir það og áréttar mikilvægi reglubundins samráðs ráðherra, vísindasamfélagsins og atvinnulífsins á málefnasviðinu. Með vísan til þess leggur nefndin til breytingu á 3. gr. þess efnis að kveðið verði á um samráð ráðherranefndarinnar og Vísinda- og nýsköpunarráðs.

Tilnefningarnefnd (5. gr.).
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að mikilvægt væri að Vísinda- og nýsköpunarráð yrði skipað fulltrúum atvinnulífs og iðnaðar, en tengsl nýsköpunar og iðnaðar væru mikil og legðu iðnaðarfyrirtæki almennt áherslu á að fjárfesta í rannsóknum og þróun til nýsköpunar. Gerðar voru athugasemdir við orðalag 5. gr. um að samtök fyrirtækja í atvinnurekstri tilnefndu aðila en í fyrri drögum að frumvarpinu hefði það verið á hendi samtaka fyrirtækja í iðnaði. Með vísan til þessara sjónarmiða leggur meiri hluti nefndarinnar til þá breytingu á orðalagi 5. gr. að það verði í höndum Samtaka atvinnulífsins að tilnefna einstakling í tilnefningarnefndina en gera má ráð fyrir að slíkt verði gert í samráði við Samtök iðnaðarins enda eiga þau aðild að Samtökum atvinnulífsins.
    Að lokum er lögð til breyting tæknilegs eðlis sem ekki er ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hluti nefndarinnar til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 1. mgr. 3. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherranefndin skal að jafnaði halda tvo fundi árlega með Vísinda- og nýsköpunarráði.
     2.      Í stað orðanna „auk annarra verkefna við undirbúning stefnumótunar, greiningar- og upplýsingavinnu“ í 4. gr. komi: og sinnir öðrum verkefnum sem tengjast stefnumótun, svo sem öflun upplýsinga og greiningu.
     3.      Í stað orðanna „samtaka fyrirtækja í atvinnurekstri“ í 2. mgr. 5. gr. komi: Samtaka atvinnulífsins.

    Bergþór Ólason og Jóhann Friðrik Friðriksson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Jóhann Friðrik Friðriksson ritar undir álitið samkvæmt heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

Alþingi, 9. desember 2022.

Bryndís Haraldsdóttir,
form., frsm.
Jódís Skúladóttir. Jóhann Friðrik Friðriksson.
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir. Óli Björn Kárason.