Ferill 532. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 777  —  532. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018 (framlenging á bráðabirgðaákvæði I).

Frá 3. minni hluta velferðarnefndar.


    Í lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018, fólst mikilvæg innleiðing á rétti fatlaðs fólks til sjálfstæðs lífs. Notendastýrð persónuleg aðstoð er grunnforsenda þess að fjöldi fólks geti lifað sjálfstæðu lífi í samræmi við 9. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Bráðabirgðaákvæði það sem til stendur að breyta hefur allt frá árinu 2018 sett kvóta á þessi sjálfsögðu mannréttindi. Fyrir utan þá skekkju sem felst í að kvótasetja mannréttindi, þá hefur framkvæmdin verið sú að kvótinn hefur aldrei einu sinni farið nálægt því að fyllast. Fjárveiting á fjárlögum hefur til þessa verið notuð sem takmarkandi þáttur, með þeim afleiðingum að núna við lok ársins 2022, þegar samkvæmt gildandi bráðabirgðaákvæði laga nr. 38/2018 ættu að vera allt að 172 NPA-samningar í gildi, hefur aðeins verið gengið frá ríflega 90 samningum.
    Sú breyting sem hér er lögð til undirstrikar að líta eigi á fjölda samninga í bráðabirgðaákvæðinu sem lágmark, frekar en að vanáætluð fjárveiting á fjárlögum hvers árs sé notuð til að setja mun lægra þak á fjölda samninga en kveðið er á um í bráðabirgðaákvæðinu. Það er álit 3. minni hluta að sé það vilji meiri hluta Alþingis að kvótasetja mannréttindi, þá sé ótækt að þrengja þann kvóta enn frekar með metnaðarlausum lagaákvæðum eða vanáætluðu kostnaðarmati. Því er hér lagt til að breyta bráðabirgðaákvæðinu á þann veg að það kveði með skýrum hætti á um lágmarksfjölda samninga í staðinn fyrir hámark.
    Því leggur 3. minni hluti til að málið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Í stað orðanna „allt að“ í báðum efnismálsliðum b-liðar 1. gr. komi: að minnsta kosti; og við báða málsliði bætist: að því gefnu að nægjanlega margar umsóknir berist.

Alþingi, 12. desember 2022.

Lenya Rún Taha Karim.