Ferill 2. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Prentað upp.

Þingskjal 786  —  2. mál.
Viðbót.

2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2023..

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingibjörgu Helgu Helgadóttur, Írisi Hönnuh Atladóttur og Hlyn Ingason frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Trausta Ágúst Hermannsson og Guðmund B. Ingvarsson frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti, Sverri Fal Björnsson og Hilmar Vilberg Gylfason frá Bændasamtökum Íslands, Benedikt S. Benediktsson frá Samtökum verslunar og þjónustu, Maríu Jónu Magnúsdóttur frá Bílgreinasambandinu, Gunnar Val Sveinsson og Baldur Sigmundsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Róbert Farestveit frá Alþýðusambandi Íslands, Ólaf Stephensen frá Félagi atvinnurekenda, Sigurð Hannesson og Bergþóru Halldórsdóttur frá Samtökum iðnaðarins, Pál Ásgeir Guðmundsson og Stefaníu Kolbrúnu Ásbjörnsdóttur frá Samtökum atvinnulífsins, Birgi Gunnarsson og Guðmund Þór Guðmundsson frá kirkjuþingi þjóðkirkjunnar, Unni Helgu Óttarsdóttur frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Sigríði Hönnu Ingólfsdóttur og Þuríði Hörpu Sigurðardóttur frá Öryrkjabandalagi Íslands, Breka Karlsson frá Neytendasamtökunum, Hjalta Rúnar Ómarsson frá Vantrú, Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur og Sigurgeir Bárðarson frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Hilmar Harðarson og Þóreyju S. Þórðardóttur frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Jóhönnu Ösp Einarsdóttur, Sigríði Kristjánsdóttur og Aðalstein Óskarsson frá Vestfjarðastofu – Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Aðalgeir Ásvaldsson frá SVEIT – Samtökum fyrirtækja á veitingamarkaði, Snorra Jónsson frá 64°Reykjavík Distillery, Laufeyju Sif Lárusdóttur frá Samtökum íslenskra handverksbrugghúsa, Þorbjörgu Þráinsdóttur og Sveinbjörn Indriðason frá Isavia, Heiði Margréti Björnsdóttur frá BSRB, Steindór Haraldsson, Óskar Magnússon og Drífu Hjartardóttur frá Sóknasambandi Íslands og Sigurð Inga Friðleifsson frá Orkustofnun
    Umsagnir bárust frá 64°Reykjavík Distillery ehf., Alþýðusambandi Íslands, Bílgreinasambandi Íslands og SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu, BSRB, Bændasamtökum Íslands, Endurvinnslunni hf., Félagi atvinnurekenda, Grænu orkunni – samstarfsvettvangi um orkuskipti, Grænum skátum, Hagsmunasamtökum heimilanna, Ísafjarðarbæ, Isavia ohf., kirkjuþingi þjóðkirkjunnar, Landssamtökum lífeyrissjóða, Landssamtökunum Þroskahjálp, Lífeyrissjóði Tannlæknafélags Íslands, Neytendasamtökunum, Öryrkjabandalagi Íslands, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum fyrirtækja á veitingamarkaði, Samtökum iðnaðarins, Skattinum, SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu, UMFÍ, Vantrú og Vestfjarðastofu og Fjórðungssambandi Vestfirðinga.
    Nefndinni bárust minnisblöð frá fjármála- og efnahagsráðuneyti og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.

Umfjöllun nefndarinnar.
Vörugjald af ökutækjum og lágmarksökutækjagjald (III. kafli).
    Í III. kafla frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993. Breytingarnar miða að því að mæta tekjutapi ríkissjóðs sem til er komið vegna orkuskipta í samgöngum og þess kostnaðar ríkissjóðs sem hlýst af vegakerfinu. Meðal annars er lagt til að sérstakt 5% lágmarksvörugjald verði lagt á fólksbifreiðar sem knúnar eru með rafhreyfli að öllu leyti, þ.e. rafmagnsbifreiðar. Meiri hlutinn bendir á að á þingmálaskrá fjármála- og efnahagsráðherra er frumvarp til laga um breytta gjaldtöku vegna notkunar bifreiða o.fl. (gjaldtaka ökutækja, eldsneytis o.fl.) sem er gert ráð fyrir að verði lagt fram á vorþingi. Meðal þess sem er gert ráð fyrir að kveðið verði á um í frumvarpinu er breytt fyrirkomulag gjaldtöku af bifreiðum þar sem greitt er fyrir notkun vegakerfisins byggt á aflestri á kílómetrastöðu bifreiða. Að auki er í ákvæði til bráðabirgða XXIV kveðið á um heimild til að fella niður virðisaukaskatt eða telja til undanþeginnar veltu fjárhæð að ákveðnu hámarki við innflutning og skattskylda sölu nýrrar rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiðar. Framangreind ívilnun hefur verið háð tilteknum fjöldatakmörkunum sem kveðið er á um í 7. mgr. ákvæðisins. Með frumvarpi til laga um breytingu á lögum um skatta og gjöld (kaupréttur, mútubrot o.fl.), sem nefndin hefur til umfjöllunar og afgreiðslu, er lagt til að fjöldatakmörk rafmagns- og vetnisbifreiða sem notið hafa þess háttar ívilnana verði felld brott. Mun ívilnunin því gilda út árið 2023, eða þar til ráðgert er að nýtt fyrirkomulag taki gildi, óháð fjölda bifreiða.

Úrvinnslugjald á heyrúlluplast (29. gr.).
    Hækkun á úrvinnslugjaldi fyrir heyrúlluplast er umtalsverð. Sú hækkun getur orðið bændum íþyngjandi, en óvíst er hvernig verð á þessari mikilvægu rekstrarvöru bænda þróast næstu mánuði. Meiri hlutinn bendir á að rekstrarumhverfi búvöruframleiðslu er kvikt, í kjölfar heimsfaraldurs og stríðsátaka. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar á liðnu ári hafa verið umtalsverðar vegna þessa. Enn eru blikur á lofti og mikilvægt er að fylgjast áfram með þróun mála og beita markvissum aðgerðum vegna hagsmuna neytenda, bænda og íslensks matvælaiðnaðar.
    Þá beinir meiri hlutinn því til umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að komið verði til móts við bændur vegna þessara hækkana og metið með hagsmunaaðilum hvernig söfnun og endurvinnsla á heyrúlluplasti geti verið sem hagkvæmust til framtíðar. Með því er tryggð betri endurheimta og endurvinnsla á heyrúlluplasti í anda hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins og kostnaður bænda af söfnun þess til endurvinnslu lágmarkaður.

Breytingartillögur meiri hlutans.
Frítekjumark örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna (18. gr.).
    Í a-lið 18. gr. frumvarpsins er lagt til að ákvæði í 14. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, gildi út árið 2023. Í ákvæðinu er kveðið á um að þrátt fyrir ákvæði laganna skuli örorkulífeyrisþegi hafa árlegt 1.315.200 kr. frítekjumark vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar. Eftir framlagningu frumvarpsins lagði félags- og vinnumarkaðsráðherra fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar (frítekjumark og skerðingarhlutfall) (534. mál). Í frumvarpinu er framangreind breyting lögð til auk hækkunar á frítekjumarkinu í 2.400.000 kr. Vegna þessa leggur meiri hlutinn til að a-liður 18. gr. falli brott.

Sóknargjöld (22. gr.).
    Í 22. gr. frumvarpsins er lagt til að við lög um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987, bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða þess efnis að föst krónutala sóknargjalda verði 1.055 kr. á mánuði árið 2023 fyrir hvern einstakling 16 ára og eldri. Um er að ræða undanþágu frá meginreglu laganna um að fjárhæð sóknargjalda breytist í samræmi við áætlaða breytingu á meðaltekjuskattsstofni einstaklinga 16 ára og eldri, sem og fjölgun einstaklinga. Undanfarin ár hafa sóknargjöld verið ákvörðuð með þessum hætti, þ.e. með bráðabirgðaákvæði sem kveður á um fasta krónutölu sóknargjalda. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XV í lögunum nam föst krónutala sóknargjalda árið 2022 1.107 kr. Nemur breyting samkvæmt frumvarpinu því lækkun gjaldanna um 4,7%.
    Meiri hlutinn leggur til að sóknargjöld hækki til samræmis við aðrar verðlagsuppfærslur sem lagðar eru til í frumvarpinu, eða um 7,7%, og verði 1.192 kr. á árinu 2023. Í því sambandi telur meiri hlutinn það ekki hafa verið ætlun meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar að þær hækkanir sem lagðar voru til á sóknargjöldum ársins 2021 og 2022 yrðu tímabundnar. Þótt fastsetning krónutölu sóknargjalda með ákvæði til bráðabirgða sé í eðli sínu ekki varanleg ráðstöfun yrði t.d. miðað við sóknargjöld ársins 2022 við ákvörðun gjaldanna fyrir árið 2023 ef meginreglu 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. um fjárhæð sóknargjalda yrði beitt.

Breyting á lögum um úrvinnslugjald (ný grein).
    Hinn 1. janúar 2023 taka gildi lög um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um meðhöndlun úrgangs og lögum um úrvinnslugjald, nr. 103/2021. Með lögunum eru innleidd ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/904 frá 5. júní 2019 um að draga úr áhrifum tiltekinna plastvara á umhverfið. Með breytingunni felst að framleiðendur beri ábyrgð á tilteknum plastvörum sem taldar eru upp í tilskipuninni, þar á meðal eru tiltekin matarílát og umbúðir utan um matvæli. Framleiðendaábyrgðin felur í sér að framleiðendur skuli standa straum m.a. af kostnaði við söfnun og aðra meðhöndlun vara sem þeir framleiða þegar þeim hefur verið hent, kostnaði við að hreinsa upp rusl sem og kostnaði við gagnasöfnun og skýrslugjöf.
    Í samráði við umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti leggur meiri hlutinn til breytingu á lögum um Úrvinnslusjóð þannig að nýr viðauki bætist við lögin sem hafi að geyma þau tollskrárnúmer sem úrvinnslugjald er lagt á og upphæð þess í samræmi við áskilnað c-liðar 35. gr. laga nr. 103/2021.

Gjald vegna fiskeldis í sjó (b-liður 56. gr.).
    Meiri hlutinn bendir á að þegar fjármála- og efnahagsráðherra mælti fyrir hækkun af gjaldtöku af fiskeldi í september síðastliðnum var gert ráð fyrir því að stefnumótun um fiskeldi yrði lengra á veg komin. Gert var ráð fyrir að skýrsla Boston Consulting Group um framtíðarmöguleika í lagareldi og skýrsla Ríkisendurskoðunar um framkvæmd lagasetningar og framkvæmd laga um fiskeldi myndu liggja fyrir áður en frumvarpið yrði afgreitt. Í skýrslugerð Boston Consulting Group var viðhaft víðtækt samráð við greinina og aðra haghafa. Þar sem þessar skýrslur hafa ekki borist telur meiri hlutinn réttara að fresta þeirri breytingu á gjaldtökunni sem er lögð til. Þannig fæst gleggri mynd af gjaldtöku hérlendis og í samanburðarlöndum. Þannig gefist einnig frekara ráðrúm til að ákvarða réttlátt gjald fyrir afnot af sameiginlegri auðlind.

Skila- og umsýsluþóknun einnota umbúða fyrir drykkjarvörur (58. gr.).
    Í umsögn Endurvinnslunnar hf. og fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um hækkun skila- og umsýsluþóknunar vegna einnota umbúða fyrir drykkjarvörur. Gjaldið var síðast hækkað með lögum nr. 30/2021, um breytingu á lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, nr. 52/1989 (endurvinnsla og skilagjald). Endurvinnslan hf. áætlar að verðlag muni hækka nálega 15% til áramóta 2022, leiði það af sér uppreiknaða hækkun á 18 kr. skilagjaldi um 2,7 kr. Meiri hlutinn leggur til að skilagjaldið hækki úr 18 kr. á einingu í 20 kr. á einingu, samhliða þeirri lækkun umsýslugjalds sem lögð er til í frumvarpinu, svo að skilagjald haldi verðgildi sínu og hvetji þannig enn fremur neytendur til skila á einnota umbúðum fyrir drykkjarvörur.

Tollur á acai-berjagrunn (nýr kafli).
    Við umfjöllun málsins barst nefndinni erindi frá Samtökum verslunar og þjónustu þar sem óskað var eftir breytingu á tolli sem lagður er á svokallaðan acai-berjagrunn. Acai-grunnurinn fellur utan vörusviðs tollasamninga Íslands og ESB og Íslands og Bretlands. Samkvæmt úrskurði yfirskattanefndar, nr. 172/2019, fellur grunnurinn undir tollskrárnúmer 2105.2099, þ.e. ís sem framleiddur er úr öðru en sérstaklega er tilgreint í undirflokkum í tollflokki 2105 sem nær yfir mjólkurís og annan ís til manneldis, einnig með kakóinnihaldi. Varan ber því 30% toll og 110 kr./kg magntoll við innflutning til Íslands. Meiri hlutinn telur að um sé að ræða vöru sem oft er notuð sem staðgönguvara fyrir mjólkurvörur sem innihalda 3% eða meira af mjólkurfitu miðað við þyngd fyrir þá sem ekki neyta mjólkurvara. Því telur meiri hlutinn um margt að sömu sjónarmið eigi að gilda um tollflokkun acai-berjagrunnsins og íss sem framleiddur er úr sojabaunum, hrísgrjónum, höfrum, hnetum og/eða möndlum sem inniheldur minna en 3% af mjólkurfitu miðað við þyngd og falla í tollflokka 2105.2021-29, en á þær vörur er ekki lagður neinn tollur. Meiri hlutinn leggur til breytingu þess efnis að til verði nýr tollflokkur, samhljóða 2105.2021-29, sem tilgreini acai-ber.

    Þá leggur meiri hlutinn til breytingu á d-lið 47. gr. þess efnis að upphæðin 6.500 kr. verði 6.000 kr. Um er að ræða almennt gjald fyrir útgáfu vegabréfa fyrir aðra en þá sem tilgreindir eru í 1. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991. Um er að ræða innsláttarvillu í frumvarpstexta sem er lagt til að verði leiðrétt.
    Auk þess leggur meiri hlutinn til nokkrar breytingar sem eru tæknilegs eðlis og þarfnast ekki skýringa.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir og lagðar eru fram í sérstöku þingskjali.
    Ágúst Bjarni Garðarsson skrifar undir álitið með vísan til 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

Alþingi, 9. desember 2022.

Guðrún Hafsteinsdóttir,
form., frsm.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir. Ágúst Bjarni Garðarsson.
Berglind Ósk Guðmundsdóttir. Orri Páll Jóhannsson.